+Inga Kristjana Halldórsdóttir

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Inga Kristjana Halldórsdóttir

1939-2021

Bálför frá Fossvogskirkju mánudaginn 19. apríl 2021 kl.

„Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jesaja 40:8)

Þessi orð Jesaja spámanns voru rituð fyrir 2500 árum eða svo og tjá sígildan sannleika. Séra Hallgrímur Pétursson, kallast á við þessa speki í 1. versi sálms síns Um dauðans óvissan tíma, sem hefst á orðunum: „Allt eins og blómstrið eina“.

Jörðin er eitt stórt lífríki og við erum hluti þess, fæðumst, lifum og deyjum, erum af jörðu og verðum aftur að jörðu.

Jörðin er magnað fyrirbrigði og nú gýs í bakgarði höfuðborgarinnar. Eldfjöll ógna en eru um leið uppspretta lífs því lífið er sagt hafa kviknað við eldgos á hafsbotni. Lífið kviknaði af eldi, af ljósi og ljósið er allt komið frá sólinni sem er brot af sólnanna sól, af þeim huga sem skóp allt. Vitundin um að til sé eitthvað ofar öllu hefur fylgt mannkyni um árþúsund og fær okkur enn til að brjóta heilann um tilgang lífs og heims.

Nóbelsskáldið ritaði: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ (Fegurð himinsins. 1. kafli).

Hugstök eins og fegurðin, réttlætið, sannleikurinn, kærleikurinn voru til á undan öllu. Þessi hugtök með ákveðnum grein eru eilíf og búa í handanverunni, í himninum. Þau búa líka í brjósti okkar því lögmál Guðs er ritað á hjörtu okkar. Æðsta hlutverk okkar í lífinu er að draga til okkar inntak þessara eilífu hugtaka og raungera gildi þeirra á jörðu.

Þegar ég lít til baka finnst mér lífið vera stutt og að tíminn hafi liðið skjótt og farið hraðar og hraðar með hverju árinu sem ég hef lifað. Þannig virðist tíminn vera afstæður. Við þekkjum öll að sumir dagar líða fljótt en aðrir seint og börnum og unglingum finnst tíminn bara silast því biðin erftir framtíðinni er svo krefjandi í hjörtum örrar æsku. En svo breytist þetta.

Við erum hér saman komin til að kveðja Ingu Kristjönu Halldórsdóttur sem fæddist á Ísafirði 13. mars 1939 og lést 1. apríl s.l. sem bar uppá skírdag. Börnin hennar sögðu að hún hefði svo sannarlega haft húmor fyrir því að deyja þann sérstaka dag, 1. apríl!

Foreldrar hennar voru: Liv Ingibjörg Ellingsen fædd 5.janúar 1910 í Reykjavík, látin 17.mars 1967 og Halldór Halldórsson fæddur 27.nóvember 1900 í Reykjavík, látinn 5.desember 1949. Þau bjuggu í Mjallargötu á Ísafirði en í Sólgötu 8, ögn ofar á Eyrinni, fæddist drengur, 12 dögum fyrir dánardag Halldórs, sá sem hér flytur nú minningaroð yfir Ingu.

„Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Liv móðir hennar varð stúdent frá MR og lagði stund á tannlækningar í Berlín, en kom heim áður en námi lauk vegna óróleika í Þýskalandi á þessum árum. Halldór var hagfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann var settur bankastjóri við Útvegsbanka Íslands á Ísafirði frá 1933 til dauðadags. Liv og Halldór giftu sig 1934 í Reykjavík, og fluttu til Ísafjarðar á Mjallagötu 5. Við andlát Halldórs flutti fjölskyldan til Reykjavíkur.

Systkini Ingu eru:

Bergljót María fædd 22.apríl 1936,

Óttar Pétur fæddur 19.júlí 1937, látinn 14.september 1992,

Unnur Rannveig f. 17.apríl 1945, látin 17.september 2018,

Hildur Björg fædd 30.janúar 1947,

Friðrik Steinn fæddur 8.apríl 1956.

Blessuð sé minning ástvina Ingu sem horfnir eru.

Inga giftist 6.júní 1959 Gunnari Gísla Kvaran, heildsala f. 4.mars 1937. Foreldrar hans voru: Gunnar Gísli Einarsson Kvaran, stórkaupmaður í Reykjavík fæddur 11.nóvember 1895, látinn 17.júní 1975 og Guðmunda Guðmundsdóttir, húsfreyja fædd 28.desember 1896, látin 11.desember 1953.

Inga og Gunnar hófu búskap sinn að Smáragötu 6 en bjuggu síðan lengst af í vesturbæ Reykjavíkur fyrst að Kvisthaga 2, en síðan að Grímshaga 5.

Börn þeirra eru:

1. Þórunn Liv Kvaran fædd 10.október 1959. Barnsfaðir: Stefán Valgarð Kalmansson fæddur 9.febrúar 1961. Börn þeirra:

a) Inga Valgerður fædd 6.1.1988, sambýlismaður Alexander Þór Crosby fæddur 12.3.1988.

Börn: Sara Kristín fædd 1.ágúst 2016 og Stefán Baltasar fæddur 21.apríl 2020 og

b) Kalman fæddur 2.12.1992, sambýliskona Karítas Sigurðardóttir fædd 14.maí 1993. Barn: Katla Andrea fædd 30.október 2019.

2. Halldór Kvaran fæddur 4.maí 1961. Maki: Kristín Gísladóttir fædd 2.maí 1963.

Börn:

a) Páll Ingi Kvaran fæddur 13.nóv 1985,

b) Erla Hlíf Kvaran fædd 2.mars 1987 börn: Unnur Ágústa fædd 1.ágúst 2012; Sigrún Lára fædd 23.júlí 2014,

c) Arna Liv Kvaran fædd 24.feb 1998,

d) Einar H. Kvaran fæddur 19.okt. 1999,

e) Brynja B. Halldórsdóttir fædd 3.feb. 1986, maki: Tómas Helgason fæddur 21.nóv. 1990

f) Pétur B. Halldórsson fæddur 5.sept. 1990 maki: Sigrún María Hákonardóttir fædd 2.feb 1990. Börn: Björk B. Pétursdóttir fædd 21.júlí 2017, Vera B. Halldórsdóttir fædd 18.apríl 2019.

3. Hildur Hrefna Kvaran fædd 23.október 1964. Sambýlismaður Sigurjón Gunnsteinsson fæddur 20.september 1966.

Börn þeirra eru:

a) Gunnsteinn fæddur 7.febrúar 1994,

b) Hrafnhildur fædd 28.desember 1996 og

c) Frosti fæddur 1.júlí 2001.

Barn Sigurjóns: Guðbjörg fædd 29.júlí 1992.

4. Hörður Kvaran, fæddur 25.nóv. 1970. Maki: Edda Herdís Guðmundsdóttir, fædd 19.okt. 1972.

Börn:

a) Ari Kvaran, fæddur 15.maí 1997

b) Kári Kvaran, fæddur 11.apríl 2002

c) Sif Kvaran, fædd 13.feb. 2007

d) Eva Kvaran, fædd 8.feb. 2014.

5. Gunnar Kvaran fæddur 11.janúar 1976

Inga gekk í Melaskóla, fór síðan í Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Hún útskrifaðist verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands.  Inga lærði síðar til meinatæknis í Tækniskólanum sem í dag er kallað lífeindafræðingur og starfaði svo til alla sína starfsævi á rannsóknarstofu í blóðmeinafræði á Landspítalanum við Hringbraut. Hún sýndi áræðni og dugnað með því að mennta sig í nýju fagi orðin 3ja barna móðir og gerði það með frábærum árangri enda ætíð nákvæm og vinnusöm í þeim verkum sem hún tók sér fyrir hendur.

Bernskuminningar Ingu voru margar og góðar en stóra áfallið var föðurmissirinn sem breytti öllu. Fjölskyldan taldist til góðborgara á Ísafirði, enda Halldór og Liv bæði vel menntuð og nutu sín í blómstrandi menningu á Ísafirði.

Bergljót systir Ingu skrifaði um Ísafjörð í texta sem mér barst:

„Lífið á Ísafirði á þessum árum stóð í blóma, og naut ég þess að alast þar upp. Fjöldi íbúa var 2600 manns. Þar var barnaskóli, gagnfræðaskóli, sundöll, pósthús, bókasafn, sjúkrahús, húsmæðraskóli, skátaheimili, kvikmyndahús, sem einnig var notað fyrir leiksýningar, hljómleika og söngleiki. Kvikmyndasýningar fyrir börn voru þarna á sunnudögum. Þangað tróðust inn flest börn í bænum. Miðinn kostaði  eina krónu.

Á sunnudögum fór ég í barnamessu og safnaði Jesúmyndum, einnig á samkomur hjá Hjálpræðishernum.“

Þesssar minningar eru mér allar kunnugar enda þótt ég hafi fæðst rúmum áratugi síðar en Bergljót og sléttum10 árum á eftir Ingu. Bærinn breyttist ekki svo ört og þar blómstrar enn fjölbreytt menning. Bærinn er fallegur, með myndarlegri verzlunargötu og minnir um margt á evrópska kaupstaði. Þegar ég var barn og unglingur voru þar 4 bakarí, tveir úrsmiðir, þrír skósmiðir, tvö klæðskeraverkstæði og saumastofur, tvær skipasmíðastöðvar, allskonar iðnverkstæði, verzlanir af ýmsu tagi, öflug skipaútgerð, tvö stór frystihús og fleira og fleira, ljósmyndastofa þar sem danskur hirðljósmyndari tók myndir í stúdíói m.a. af afa mínum og kindinni Gullu sem afi hélt mikið uppá og taldi vitrari felstum skepnum ef ekki mönnum líka! Veit ekki um annað sauðfé sem fékk inni á Ljósmyndastofu Simsons!

Bergljót heldur áfram:

„Við fengum trúarlegt uppeldi. Faðir minn bað með okkur bænir á hverju kvöldi fyrir svefn og trúmál voru rædd. Mikið var til af bókum á heimilinu um trú, kærleika og dauðann. Daginn eftir dauðann las ég af ákefð 11 ára gömul. Áhugi minn á trúmálum hefur ávallt verið mikill. Síðan bækur eins og Einfalt líf eftir Wagner sem var meðal annars eftirlætisbók föður míns gefin út 1913 í þýðingu, Jóns Jakobssonar. Þessa bók erfði ég meðal annarra bóka, og marglesið. Sú bók ætti að vera til á hverju heimili.“

En hver var þessi Ísafjarðarmær, Inga Kristjana? Börnin hennar segja hana hafa verið myndarlega húsmóður sem saumaði mikið á sjálfa sig og börnin og þau vísa til mynda af sér í sparifötum við Tjörnina og víðar. Hún var æðrulaus og kvartaði ekki þrátt fyrir mótlæti í lífinu og gaf börnunum frelsi og skammaðist ekki í þeim að óþörfu. Hún var dugleg og samviskusöm og góður vinnufélagi. Svo var hún einkar hjálpsöm og heimsótti margt fólk um ævina sem hún fann til með og vildi hjálpa en hún stærði sig ekki af slíku en börnin hittu stundum fólk sem hún hafði gefið af sínum kærleika og umhyggju, fólk sem dásamaði gæsku hennar og gjafmildi. Orð eins og „Mamma þín reyndist okkur svo vel“ heyrðu þau oft.

Syskinin voru samheldin og skiptust m.a. á að halda jólaboð í stórfjölskyldunni og til viðbótar sá Inga gjarnan um gamlárskvöldið.

Inga og Gunnar áttu sumarbústað á Þingvöllum og fóru þangað nær allar helgar og nutu þess að fara út á vatnið að veiða og þeysa á sjóskíðum. Þau fóru mikið á skíði í Kerlingafjöllum og víðar. Börnin skorti aldrei neitt. Inga og Gunnar skildu fyrir rúmum áratug en þá hafði Inga glímt við vanheilsu um árabil. Líf hennar var ekki bara dans á rósum enda þótt hún hafi lengst af búið við efnalegt öryggi. Hún missti föður sinn 10 ára og móður sína þegar hún var 28 ára og bjó ekki við móðurstuðning sem er ungum mæðrum svo mikilvægur. Yngstu börnin hennar tvö sáu aldrei móðurafa né móðurömmu en hin eldri mundu ömmu. Þá sá hún á eftir tveimur syskinum sínum í dauðann en þrjú þeirra lifa hana.

Hvert er haldreipi okkar í viðsjárverðum heimi? Nú geysar Covid-19 og jarðeldar loga við bæjardyrnar. Lífið er aldrei hundrað prósent tryggt. Lífið er áhætta. Hver dagur er áhættusamur og enginn veit morgundaginn. Allt fer sömu leið. Við fæðumst, lifum og deyjum í fyllingu tímans. Hvern dag sem ég vakna af svefni þakka ég fyrir lífið. Ég veit ekki hve dagar mínir verða margir. Það veit engin lifandi manneskja. Lífið er dásamleg gjöf sem við vinnum úr, hvert á okkar hátt. Erfðavísar ráða miklu en daglegt val hefur líka sitt að segja. Lífið er blanda af erfðum og ákvörðunum og lífshamingjan að minnsta kosti að einhverju leyti í höndum okkar sjálfra: „Hver er sinnar gæfu smiður“, segir í máltækinu. Samt er það ekki svo auðvelt sem í þeim orðum felst. Við ráðum sumu en ekki öðru. „Enginn ræður sínum næturstað.“

„Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jesaja 40:8) Þessi orð vitna um trú sem horfir ofar, hærra, sér inn í handanveruna og á þá vissu að lífið eigi sér einn uppruna, að að baki því sé hugur, hönnuður, hugur sem elskar og annast allt sem lifir og sprettur af jörðu og tekur það í faðm sinn sem deyr og hverfur aftur til moldar. Lífið er hringrás og lífið er eilíft.

Hún lærði bænir og vers í bernsku af vörum kærleiksríks föður sem hún saknaði alla tíð. Börn sem alast upp við opinn himinn njóta þess alla ævi, njóta þess æðruleysis sem býr í vitundinni um kærleiksríkan Guð.

Megi sá Guð blessa minningu Ingu Kristjönu Halldórsdóttur og blessa þig sem enn ert á lífsveginum. Megi þér farnast vel.

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.