+Richard Hannesson 1932-2021

Minningaroð eftir Örn Bárð Jónsson

+ Richard Hannesson

1932-2021

Útför frá Bústaðakirkju

fimmtudaginn 11. janúar 2021 kl. 13

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Ef við íhugum lífið og tilveruna þá verður okkur fljótt ljóst að í heiminum er regla og skipulag enda þótt lífið virðist stundum ruglingslegt. Ég var að horfa á þátt í Sjónvarpinu um líkamann og hvernig hann bregst við sársauka, ótta, kvíða og árásum baktería og vírusa. Ótrúlegt gangverk sem líkaminn er.

Veröldin öll er gangverk. Himintunglin ferðast sinn veg, snúast um sig sjálf og þeysa um í geimnum og allt eftir settum reglum og lögmálum. Og við sem hér erum saman komin, höfum t.d. ferðast margsinnis í kringum sólina á þessari litlu jörð og án þess að kaupa miða eða að hafa einu sinni hugsað um það að við höfum farið þá ferð jafn oft og árinn teljast sem við höfum lifað!

Höfundur Davíðssálmanna í Gamla testamentinu undraðist allt þetta ótrúlega gangverk og sagði m.a.:

„4Þegar ég horfi á himininn, verk handa [ þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,

5hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?

6Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri,

7lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,“ (Sálmarnir 8.4-7).

Lífið og veröldin er undursamlegt fyrirbrigði og gangverk. Við fæðumst og deyjum, gegnum okkar hlutverkum á lífsleiðinni og verðum svo kvödd í fyllingu tímans. Öll göngum við sömu leið.

Í dag kveðjum við Richard Hannesson og þökkum fyrir líf hans og störf.

Richard Hannesson fæddist á Hellissandi 9. apríl 1932.  

Foreldrar hans voru Guðrún Guðbjörnsdóttir og Hannes Elísson.  

Richard var yngstur sex systkina en elst var Helga þá Elís, Berta, Reynar, og Halla sem öll eru fallin frá.   

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um 1940 og bjó þar allar götur síðan.

Richard giftist Ingibjörgu Ásmundsdóttir árið 1959 og áttu þau tvo syni, sex barnabörn og eitt barnabarnabarn. Ingibjörg lifir mann sinn.

Ásmundur Ragnar f. 1955, kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttir f. 1956 og eru börn þeirra, Ingibjörg f. 1982, dóttir hennar Ásrún Embla f. 2013, faðir Agnar Hörður Hinriksson, f. 1981 d. 2014 og Ingvar Þór f. 1984.

Hannes Rúnar f. 1963, kvæntur Ragnhildi Kristjánsdóttir f. 1967 og eru börn þeirra, Gunnur Ýr f. 1991, Fannar Freyr f. 1993, Richard Rafn f. 2000 og Margrét Mist f. 2002.

Richard varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1954 og lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1958. Þá hóf hann störf í sínu fagi og átti farsælan feril sem hann endaði í eigin fjölskyldufyrirtæki sem sinnti útflutning á fiskimjöli fram yfir aldamótin síðustu.

Richard var félagslyndur og tók þátt í störfum Félags íslenskra stórkaupmanna, nú Félags atvinnurekenda.  Hann var félagi í Lionsklúbbnum Fjölni og gegndi þar trúnaðarstörfum um árabil. Hann gekki í Frímúrararegluna þar sem hann var virkur í yfir þrjá áratugi. Gegndi þar margskonar trúnaðarstörfum og hafði mikla unun af því samstarfi öllu saman.

Ástvinir hans tala um hann sem einkar hlýjan mann, blíðan og ljúfan. Hann hafði auga fyrir hinu spaugilega í lífinu, hafði gaman af gríni og var kátur að eðlisfari.

Hann var stoltur af því að hafa fæðst og alist upp á Snæfellsnesi, „undir jökli“, eins og sagt er og hafði sterkar taugar til Hellissands.

Þau hjónin bjuggu á nokkrum stöðum í Reykjavík en á sama svæðinu ef svo má segja, austan miðborgar og næstum inn að Elliðaám: á Snorrabraut, í Álftamýri, Háaleitisbraut, Búlandi, Neðstaleiti, Suðurlandsbraut 60 eða í Mörkinni. Hann flutti inn á Hjúkrunarheimilið þar um áramót en Ingibjörg hefur verið þar í 3 ár. Þar áttu þau saman 20 daga í herbergi hlið við hlið. Hann varð fyrir því að detta og brotna eftir góðan dag þar sem þau Ingibjörg höfðu haldist í hendur. Þau voru alla tíð náin og áttu gott hjónaband, farsælt líf og barnalán.

Árin í sumarbústaðnum í Svarfhólsskógi, sem þau byggðu 1982, urðu mörg og góð. Þar gróðursettu þau þúsundir trjáa og nutu þess að sjá gróðurinn dafna. Þau nutu þess að vera tvö, vera eyland, vera saman og gleðjast yfir hvort öðru. Oft voru þau komin í bústaðinn um páska og voru þar fram á haust. Barnabörnin nutu þess að fá að vera hjá ömmu og afa.

Ættingjar Richards héldu vel saman um árabil. Hannes, faðir hans, sem vann um árabil í Breiðagerðisskóla, fékk að halda þar jólaball fyrir systkinahóp Richards og fjölskyldur þeirra. Það voru vinsælar samkomur og jólasveinninn hápunkturinn fyrir börnin. Eftir að Hannes hætti störfum í skólanum frá lögðust þessar samkomur af, en frændsystkinin hittast áfram af og til.

Fjölskylda Richards á fagrar minningar um góðan mann. Léttleiki, kátína og hressileiki einkenndu hann og svo var hann mjög félagslindur maður, vel liðinn og skemmtilegur. Víddirnar voru fleiri því hann var líka viðkvæmur og oft var stutt í tárin hjá honum. Það er góður eiginleiki að geta sýnt veikleika en verið samt sterkur. Harpan í brjósti okkar þarf að fá að hljóma með bæði skærum hljómum og döprum. Við erum sköpuð með hæfileikann til að upplifa tilfinningar og líka til að njóta fegurðar lífsins og fjölbreytileika þess.

Richard var einkar listfengur. Hann var handlaginn, hafði fagra rithönd og fékkst mikið við útskurð hin síðari árin. Hann var vandvirkur. Á ísskápnum héngu oft miðar með hans fallegu rithönd með orðum sem hann vildi muna og íhuga. Ungan langaði hann að verða arkitekt en fór í viðskiptafræðinám eftir Verzló. En áhuginn var til staðar og dráttleiknin því hann rissaði og teiknaði allt sem gera átti og þurfti í og við sumarbústaðinn.

Svo rifjuðu strákarnir hans og tengdadætur upp bækurnar sem hann gerði fyrir barnabörnin, með jólasveinamyndum og úrklippum úr myndasögum Moggans og eigin skrifum.

Þau minnstust líka á hvað hann var gjarn á að hafa allt í röð og reglu. Allar snúrur sem tengjast raftækjum og tölvum voru fléttaðar saman til styttingar svo þær lægju ekki um öll gólf. Viðskiptafræðingur sem rekið hefur fyrirtæki í mörg ár, veit að bókhald og rekstur verður að vera í lagi. Bókhald er list reglu sem leiðir til niðurstöðu rekstrar með hagnaði eða tapi og þar á milli er ein tala sem fyllir upp í bilið og hefur áhrif á höfuðstól um áramót, eikur eigið fé eða skerðir.

Það er regla í tilverunni. Það vissi Richard og þess vegna leið honum svo vel í Frímúrarareglunni. Við bræður tölum oft um Regluna með stórum starfa. Hún er mannræktarfélag sem skapar mönnum vettvant til sjálfsskoðunar og ræktunar út frá reglum tilverunnar og lögmálum. Og svo er að nafnið hans, Richard eða Ríkharður sem merkir þann er ríkir með festu, stjórnar eftir lögmálum og regluverki.

Það er regla í tilverunni og mannkynið hefur um aldir og árþúsund haft þá vitund að í tilverunni sé líka einhverskonar bókhald um rétt og rangt og uppgjör að lífi loknu.

Í þeim efnum er hollt og gott að eiga trú á miskunnsaman Guð og kærleiksríkan. Jesús Kristur birti okkur eðli Guðs, er hann starfaði og kenndi hér á jörð. Enn lærir mannkynið að lifa eftir forskrift hans þar sem trú, von og kærleikur eru kjarninn. Ég kvíði ekki að mæta Guði á efsta degi því þá mæti ég miskunn, fyrirgefningu og skilyrðislausum kærleika.

Það er fagnaðarerindi kristinnar trúar og í anda þess kveðjum við látinn ástvin og þökkum fyrir lífi hans.

Guð blessi minningu Richards Hannessonar og Guð blessi þig á lífsins vegi.

Amen.

Streymi:

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.