Bjarni Benediktsson er vænn maður, sagði kona nokkur, sem þekkir til fjölskyldu hans, og bætti því við að hann væri svo vel upp alinn.
Ég efa ekki orð hennar enda játar hann að hafa lagt stein í götu Þorvaldar Gylfasonar en segist ekki hafa gert það vegna pólitískra skoðana fræðimannsins en samt gert það vegna þeirra – eða þannig! Hann bara vildi ekki Þorvald í stöðuna og beitti því neitunarvaldi sínu, eins og hann orðaði það. En voru það ekki afskipti? Er hægt að skilja það með öðrum hætti?

Í viðtali í Sjónavarpinu kom greinilega fram að rökin voru engin nema þau að Þorvaldur hefur oft gagnrýnt stjórnvöld á liðnum árum. Er þá ekki brýn ástæða fyrir valdakarla og kerlingar að skoða ögn þá gagnrýni?
Í augum okkar margra sem sáum Bjarna á skjánum hjá Rúv og heyrðum hann tala blasti það við að afstaða hans er byggð á óvild í garð fræðimannsins. Svo kom hann að skoðunum Þorvaldar og þá blasti sannleikurinn um Bjarna Benediktsdon við alþjóð. Þorvaldur hefur nefnilega óheppilegar skoðanir. Þannig hugsa einmitt hættulegir og spilltir stjórnmálamenn.

En vel upp alinn maður segir auðvitað sannleikann og neitar því ekki að hafa misbeitt valdi sínu. Hann viðurkennir ofbeldið í eigin hegðun, að hafa lagt stein í götu virts fræðimanns, sem er skeleggur baráttumaður fyrir réttlátu þjóðfélagi og kemur því oft við kaun valdamanna í landinu.
Fréttamaðurinn, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, var föst fyrir og lét Bjarna ekki komast upp með mótsagnir eða moðreyk. Þá setti hann ofan í við hana til að minna á hver væri handhafi valdsins. Bjarni sagðist ráða og mega ráða.
Hann hefur því í raun viðurkennt misbeitingu valds en með örlitlum roða í vöngum sem gaf kannski til kynna vott af óróa í samviskunni. Hann kannaðist við eigin ákvarðanir sem eru að margra áliti valdbeiting sem að minnsta kosti í augum sumra manna er í ætti við fasisma.
Já, verður það ekki að teljast sjaldgæf kurteisi og virðing við íslenskan almenning?
Við erum bara ekki vön slíkri eðal framkomu.
– – –
Myndirnar fann ég á vefnum og birti hér með þakklæti til þeirra er smelltu af.