Um kveðjustundir, menningu, trú og réttlæti

Örn Bárður Jónsson

Uppstigningardagur 21. maí 2020 prédikun við útvarpsmessu í Breiðholtskirkju kl. 11 sem átti að vera á Grund en var flutt vegna Covid-19.

Ræðan er hér ef þú vilt hlusta:

Hér er tengill á upptökuna af allri messunni. Ræðan hefst á mínútu 20:30:

https://www.ruv.is/utvarp/spila/gudsthjonusta/24228/7hi3dn

Þessi þjónuðu við guðsþjónustuna þar sem saman komu um 50 manns sem er hámark þar til í næstu viku en þá mega 200 koma saman!
Séra Magnús Björn Björnsson þjónar fyrir altari.
Séra Örn Bárður Jónsson, fyrrverandi sóknarprestur predikar.
Lesarar: Kristín Kristjánsdóttir, djákni í Fella- og Hólakirkju, Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni Biskupsstofu og Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni, framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.
Organisti og stjórnandi: Örn Magnússon.
Kór Breiðholtskirkju syngur.

Hljóðupptöku finnur þú á vef RUV, Rás 1, 21. maí 2020 kl. 11 en getur lesið ræðuna hér fyrir neðan. Hún er auðvitað áhrifameiri með hljóði!

Komið þið sæl og blessuð.

Ég var spurður um það á þorranum, að mig minnir, hvort ég væri tilbúinn að prédika við þessa guðsþjónustu. Ég var hikandi í fyrstu, enda kominn á úreldingarlista eins og gamall ryðgaður togari, kominn á eftirlaun, en lét þó til leiðast. Ég hef varla prédikað á íslensku í 5 ár enda starfaði ég og prédikaði yfir norskum söfnuðum, skírði, fermdi, gifti og jarðsöng Norðmenn og varð að tala bæði nýnorsku og svonefnd bókmál. Og nú er ég hér í dag sem fyrrverandi sóknarprestur, einskonar ellismellur, en það orð er notað um gamalt lag sem kannski var einu sinni vinsælt.

Sæl og blessuð öll, yngri sem eldri, ung og gömul, þið sem þekkið bæði æsku og elli.

Hún hljómar vel þessi rammíslenska kveðja, sæl og blessuð, sem á rætur sínar annarsvegar í Fjallræðu Jesú þar sem hann fjallar um þau sem eru sæl og svo vísar kveðjan til blessunarorða Arons, bróður Móse, en til þeirra eru orðin rakin sem höfð eru yfir gyðingum og kristnum við guðsþjónustur um allan heim og hafa hljómað um aldir:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Að heilsast og kveðjast, það er lífsins gangur.

Kveðjustund.

Ef þú einhverntíman efast um kærleikann skaltu fara út á rútustöð eða umferðamiðstöð, í brottfarar- eða komusal flugvallar og þá sérðu hvernig kveðjustundir kalla fram bros og tár, sorg og gleði. Þar birtist kærleikurinn ljóslifandi.

Kveðjustund.

Kærleikurinn birtist líka í útförum. Margir hafa kvatt sína nánustu á yfirstandandi tíð þegar kórónuveiran hefur sett sitt mark á mannlífið um allan heim. Fjöldatakmarkanir hafa án efa reynst mörgum fjölskyldum íþygjandi og þeim finnst án efa mörgum að kveðjustundin hafi í raun ekki farið fram sem skyldi því það vantaði fjölda ættingja og samferðamanna.

Kveðjustundir eru mikilvægar. Ég hef farið í gegnum mörghundruð útfarir hér á landi og í útlöndum. Allstaðar eru tilfinningarnar þær sömu, tárin glitra á sama hátt, ekkasogin hljóma eins og faðmlögin eru kunnugleg. Útför er gríðarlega mikilvæg stund fyrir aðstandendur og samfélagið og kristnin hefur þróað ferli sem virkað hefur vel og lengi. Flestar kirkjudeildir gera þá kröfu til þeirra sem leiða slíkar stundir, að þau séu með góða menntun í fræðum sem spanna vítt svið og veita innsýn í mannlegt eðli og hegðun og hafi þjálfað hugsunina um hið stóra samhengi alls sem er. Íslenska þjóðkirkan hleypir ekki neinum í það verk sem ekki hefur hlotið til þess menntun og reynslu. Það er vandaverk að leiða hinstu kveðju með ástvinum í sorg.

Kveðjustund.

Í dag er svonefndur uppstigningardagur þegar kristnin minnist þess að nánustu fylgjendur Jesú Krists, kvöddu hann, sáu hann hinsta sinn og veittu honum lotningu. Hann hafði verið með þeim í 40 daga og nætur eftir upprisuna frá dauðum. En nú var hann horfinn en samt ekki. Hann bjó áfram í huga þeirra og hjarta.

Hvern einasta dag minnist ég horfinna foreldra minna og þakka fyrir líf þeirra og umhyggju gagnvart mér meðan þeirra naut við. Þau lifa í hjarta mér, í minningunni, eru nærri mér í einhverjum skilningi, sem ég get ekki útskýrt. Þú þekkir þetta líka þú sem hefur kvatt náin ástvin, einn eða fleiri.

Hvað er hér og hvað er þar? Er lífið meira en það sem við augum blasir á hverjum degi? Eru víddirnar meiri, fleiri, stærri?

Kveðjustund.

Þeir kvöddi Jesú og þá óraði ekki fyrir því þá að hann ætti eftir að breyta veröldinni til allrar framtíðar. Enginn hefur haft viðlíka áhrif og hann. Kristnin er fjölmennust allra trúarbragða og fylgjendum Krists fjölgar stöðugt enda þótt fólk í okkar heimshluta virðist hirða minna um trúararfinn en fyrri kynslóðir. Og þó. Ég man þegar 68-kynslóðin bylti sér með sveiflu og hnykkjum og vildi ekki kannast við neinar hefðir. Ég man líka þegar hipparnir urðu eldri og fylgdu börnum sínum til fermingar sem þá voru mörg óskírð og þurftu að skírast fyrir ferminguna.

Sjálfur telst ég til þessarar sömu 68-kynslóðar og varð auðvitað fyrir áhrifum af tíðarandanum, frelsishugsun bítlaáranna, Woodstock og öllu því villta hljómsveita galleríi sem reið röftum og hugsaði lítið um trú og hefðir en svo kom að því að ég gaf trúnni gaum.

Ég óx úr grasi á mjög venjulegu heimili þar sem ég lærði vers og vísur sem mamma söng fyrir mig fyrir svefninn. Þá vorum við börnin klædd í spariföt á sunnudögum og auðvitað líka á uppstigningardag. Við fórum ekki oft í kirkju, en við börnin á Ísafirði, þar sem ég ólst upp, fórum gjarnar í kirkju þegar barnaguðsþjónstur voru haldnar. Við stóðum t.d. í biðröð til að komast á samkomur á Hernum í miðri viku þar sem mikið var spilað og sungið og sýndar kvikmyndir, heimsóttum hvítasunnumenn í Salem á laugardögum og fengum þar fræðslu, sungum sálma og vers og fórum svo heim með Jesúmyndir sem við söfnuðum. Þá fórum við í kirkju til séra Sigurðar, föður Agnesar biskups, þegar hann hélt barnaguðsþjónustur og hlýddum á Jónas Tómasson, bóksala og tónskáld, leika á orgelið og síðar Ragnar H. Ragnar, tónlistarjöfur Ísfirðinga, félaga úr Sunnukórnum syngja og svo fórum við í bíó eftir hádegi í Alþýðuhúsinu og sáum Roy Rogers og fleiri snillinga. Það gátu því orðið allt að þrjár heimsóknir í kirkju á viku og af og til bíóferð á sunnudegi.

Yfir rúmi bernsku minnar hékk mynd af Jesú og hana fékk yngri bróðir minn og svo fluttum við og ég hirti ekki lengur um þessa mynd. Hún hvarf úr lífi mínu. En þegar ég var orðinn fullorðinn, búinn að eignast börn og barnabörn, fór ég og keypti Jesú-myndir í Kirkjuhúsinu handa barnabörnunu og svo eina handa sjálfum mér og hana hengdi ég á vegg við rúmið mitt, tók hana með mér til Noregs og nú nýlega kom hún upp úr kassa og hangir uppi í svefnherbergi mínu hér á landi aftur.

Ég vil hafa Jesú hjá mér og ekki bara sem mynd úr bernskunni heldur sem lifandi veruleika, í bæn og tilbeiðslu, í skírn og altarisgöngu, í helgu orði og samfélagi trúaðra, við dánarbeð og gröf, í hjarta mínu.

Jesús Kristur er hér. Hann lifir. Kristindómurinn er ekki kenningakerfi, ekki trúarbrögð, í strangasta skilningi þess orðs, heldur lífandi samband við lifandi veruleika. Kristnin er ástar og vináttusamband við Jesú Krist, merkustu persónu mannkynssögunnar.

Áhrif Jesú Krists á heiminn eru gríðarleg og þau hófust með orðum hans og vitnisburði þeirra sem þekktu hann og breiddu út boðskap hans. Og enn er boðskapur hans fluttur í ræðu og riti.

Hann kvaddi fylgjendur sína og lagði fyrir þá verkefnið mikla:

„Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

Og enn stundar kirkjan sitt verkefni og er á ferð um heiminn með boðskap trúar, vonar og kærleika.

Í textum dagsins eru fyrirheit um að þetta mikla verkefni muni halda áfram og bera ávöxt.

„En þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Úr pistli dagsins).

Við búum í fögru landi en harðbýlu og hér hefur fólk lifað af fangbrögð við óblíða náttúru, storma og él, séð á eftir þúsundum sjómanna í greipar ægis, lifað af eldgos og plágur og nú er enn ein plágan komin sem stráfellir fólk víða um heim.

Vísindi og þekking hafa reynst okkur vel og við erum þeim þakklát sem miðla þekkingu sinni og reynslu til að hjálpa okkur í gegnum það tímabil sem við nú lifum. Um leið er það þyngra en tárum traki að horfa upp á valdamenn í heiminum sem skella skollaeyrum við vísindum og þekkingu.

Það leiðir hugann að grundvelli menningar okkar í hinum vestræna heimi. Páll heitinn Skúlason, heimspekingur og háskólarektor, talaði eitt sinn um grundvöll menningar okkar og notaði líkinguna um hugsanafljótið, þá miklu elfi sem mótað hefur hugsun vestrænna þjóða um aldir.

Hugsanafljótið er myndað af tveimur straumum.

Annarsvegar er um að ræða straum sem kenndur er við hina gyðing/kristnu hugsun og arf og hins vegar straum sem stendur fyrir hinn grísk/heimspekilega arf. Þessir tveir straumar mynda hugsanafljótið og þaðan höfum við sótt allar okkar hugmyndir um heiminn og mannlífið, um skilning okkar á hinu stóra samhengi, mannskilning og afstöðu okkar til samfélags og menningar, um samhjálp og jafnrétti, um mannréttindi og helgi lífsins.

Ef við lítum rétt sem snöggvast um öxl og horfum yfir sögu Íslandsbyggðar og skoðum hvað kristnin færði okkur þá kemur í hugann stafrófið, ritlistin og bókmenntirnar og svo mannskilningurinn sem breyttist þegar kristnin varð ráðandi. Með klaustrunum kom skipulögð umhyggja fyrir sjúkum og öldruðum. Það heitir enn í máli okkar meðal aldraðra „að setjast í helgan stein“. Það heiti „í helgan stein“ en ekki á helgan stein því orðatiltækið merkir að flytja í steinhúsið, klaustrið til að fá þar umhyggju, hjúkrun og hinstu hjálp við mæri lífs og dauða. Með siðbótinni kom svo skyldan að kenna börnum að lesa og skrifa og loks skólaslylda. Heilbrigðiskerfið og skólarnir eiga því rætur sínar í hinni kristnu Evrópu. Strax eftir kristnitöku tengdust íslenskir menntamenn evrópskum háskólum eins og sagnaarfurinn geymir. Sæmundur fróði mun hafa siglt og numið merk fræði á meginlandi Evrópu og styttan góða sem Ásmundur Sveinsson gerði um eina af sögunum um Sæmund stendur fyrir framan höfubyggingu Háskóla Íslands. Þar kemur Sæmundur á selnum og heldur bókinni yfir hausamótum skepnunnar sundfimu. Bókin er Saltarinn, en svo eru sálmar Gamla testamentisins kallaðir, sem kenndir eru við Davíð konung. Saltarinn geymir lífsvisku og er því í sögunni um Sæmund, tákn vísinda og þekkingar. Það er mikil einföldun að halda því fram að kirkjan hafi staðið gegn vísindum í gegnum aldirnar. Í klaustrum um alla Evrópu voru stunduð vísindi og þekkingarleit var þar með miklum blóma. En auðvitað finnast dæmi um afneitun og fáfræði kirkjunnar þjóna í málum líðandi stundar á hverri tíð. Við þekkjum það sama í samtímanum af munni þeirra t.d. sem viðurkenna ekki þátt mannkyns í bágu ástandi náttúrunnar. Enn er til fólk sem afneitar vísindum og þekkingu og til eru fjölmennar kirkjudeildir t.d. í Bandaríkjunum sem hafa afstöðu bókstarftrúar til Biblíunnar sem er óheppilegt því bókin sú er safnrit sem varð til á löngum tíma og geymir bæði sögulegar heimildir um bæði gott og illt, en svo er þar að finna mikla og djúpa visku um manneskjuna og hið stóra samhengi alls sem er. En hana má ekki túlka bókstaflega. Slíkt stenst enga alvöru skoðun mennta og vísinda. Bókstafstrú hefur í mörgum tilfellum varpað rýrð á boðskap Krists og hreinlega leitt fólk á villigötur.

Upplýsing og heilbrigð menntun er af hinu góða. Við lifum nú þá tíma sem aldrei fyrr að fólk hefur aðgang að upplýsingum um allt milli himins og jarðar. En upplýsingaflóðið er orðið svo mikið að vandi er að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Unga kynslóðin, sem býr yfir tækni og þekkingu til að nota snjalltæki af ýmsu tagi, getur því fengið að vita nánast allt, en býr um leið við það hættuástand að vita eiginlega ekkert vegna þess að það finnur ekki leiðina í gegnum dimman skóginn þar sem sumt er satt og mjög margt logið. Netið er dásamlegt en viðsjárvert um leið, það er eins og Adam og Eva í Paradís sem rugluðust í ríminu og týndu sér. Sagan um þau er lítil myndhverfing um þig og mig, um mannlífið og merkingin er eilíf og þess vegna lifir sú saga sem dæmisaga en ekki til að taka bókstaflega.

Það er vandlifa í þessum heimi og hefur ætíð verið. Manneskjan er ekki fullkomin og hún veit ekki allt og þess vegna er það okkur mikilvægt að þekkja eigin takmarkanir og getu.

Við erum enn sama eðlis og þau sem fyrst lærðu að nota verkfæri, lærðu að tala og skiptast á upplýsingum. Og öll erum við skyld hvert öðru sem þessa veröld byggjum.

Við erum eitt mannkyn og við þurfum að læra að komast af í þessum flókna heimi. Bekkurinn er þéttsetnari en fyrir 5000 árum, 2000 árum, 100 árum, meira að segja þéttsetnari en fyrir 50 árum. Hvernig mun okkur reiða af? Hvernig mun okkur takast að skipta gæðum heimsins, fæða börn þessa heims, annast sjúka og þau sem megna ekki að sjá sér farborða? Hvað með réttlætið í samfélaginu?

Kristur var hvorki karldula né karlvargur, hann var, eins og hann birtist í guðspjöllunum, mildur við þá sem minna máttu sín en ögrandi og gagnrýninn gagnvart þeim sem hreyktu sér og töldu sig öðrum mönnum betri.

Jesús, sem var Gyðingur, þekkti Ritningarnar, trúarbækur og hefðir Gyðinga. Hann kunni það allt betur en aðri. Hann þekkti til spámanna Gamla testamentisins sem flestir létu lífið fyrir gagnrýni sína á yfirvöld. Þeir voru aktivistar síns tíma, tilheyrðu hvorki hinni pólitísku valdastétt né stétt prestanna. Þeir voru ekki opinberir starfsmenn eða embættismenn og þáðu enga bitlinga. En þeir sáu gjarnan í gegnum vald og spillingu, sáu lífið í himnesku ljósi, bjuggu yfir djúpu innsæi, hugrekki, trúfesti, réttlæti og kærleika,

Kirkjan er sprottin úr þessum arfi, arfi Gamla testamentisins, arfi ættfeðranna, Abrahams, Ísaks og Jakobs, arfi spámannanna, arfi sálmahefðarinnar, arfi hinnar himiháu vonar um betri heim og sigur hins góða yfir hinu illa. Jóhannes skírari var síðastur spámannanna. Hann gagnrýndi Heródes og galt fyrir það með lífi sínu.

Kirkjan eða kirkjunnar þjónar hafa sumir eða jafnvel margir í gegnum aldirnar orðið handbendi valdsherra á hverjum tíma. Kirkjan getur spillst eins og önnur veraldleg félög enda þótt hún hafi háleit og himnesk markmið. Það er vegna þess að hún lifir í föllnum heimi.

Við lifum nú tíma kórónuveirunnar sem ógnar lífi fólks um allan heim. Ógnir tilverunnar eru margar og hvert og eitt okkar getur hrasað við hvert fótmál. Óréttur ógnar okkar samfélagi og okkur svíður mörgum óréttlát skipting gæða þessa lands. Nýjasta dæmið er svonefndur „fyrirframgreiddur arfur“ útgerðarmanna nokkurra sem líta á sig sem eigendur alls sem hjá þeim er bókfært og ætla að arfleiða börnin sín að eign þjóðarinnar sem hefur slæðs inn í bókhaldið, syndandi fiskinn í sjónum. Svo illa er komið fyrir þessari þjóð að hún hefur látið þessa vitleysu ganga í áratugi og þróast í þann óskapnað sem svonefnd gjafakvótakerfi er komið í. Við þurfum auðvitað kvótakerfi, kerfi til að stjórna fiskveiðum. En að Alþingi skuli ekki hafa stöðvað þessa ósvinnu og látið óréttinn viðgangast, framsalið og eignfærsluna í bókhaldinu um árabil geri það að verkum að þjóðþingið stendur vart undir nafni sem slíkt og ég hef áður sagt að maður freistast til þess að skipta út bókstafnum ð úr orðinu þjóðþing og setja f í staðinn fyrir ð.

Þingið sem starfar í umboði þjóðarinnar á ekki að láta menn valsa um með eignir þjóðarinna og slá eign sinni á þær eins og hvert annað þýfi. Það er Alþingis að breyta lögunum úr ólögum í réttlát lög. Alþingi starfar í umboði þjóðar sinnar en á ekki að vera greiðastofnun útgerðarmanna eða annarra aðila sem maka krókinn á kostnað almennings. Alþingismenn mega ekki vera veðsettir upp í hársrætur af sérhagsmunafólki.

Ég skrifaði eitt sinns stutta færslu á Facebook og það sendi maður nokkur mér skilaboð og bað mig að hringja í sigd. Ég gerði það og hann sagði: Ég er svo sammála þér en ég þori ekki að læka á þig, ég þori ekki í mínum heimabæ að vera á móti þessu því ég á vinnu mína og hagsmuni undir því að þegja.

Ég fagna orðum forsætisráðherra um að til standi að breyta þessum ólögum og minni í því sambandi á tillögu Stjórnlagaráðs að stjórnarskrárgrein um auðlindir Íslands. Orðalag Stjórnlagaráðs má ekki fyrir nokkra muni breyta í þessari mikilvægu grein en ég hef heyrt margar tillögur stjórnmálamanna sem gert hafa tilraunir til að fara á svig við orðalag greinarinnar sem 82,9% þjóðarinnar lýstu sig sammála í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs.

Nú er mál að hártogunum stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótagreirfanna linni og kominn tím til að alþingismenn þekki sinn vitjunartíma, að þjóðþingið standi undir nafni.

Megi réttlætissólin skína skærar á himni Íslands á komandi tíð og fólkið í landinu una við gott þjóðþing og ríkisstjórn.

Ég verð nú varla rekinn úr þessu, fyrir að boða réttlæti af prédikunarstóli, enda bara fyrrverandi prestur og kominn á ellilaun og ef ég verð víttur fyrir það verða hinir sömu að víta Krist og þau öll sem talað hafa gegn órétti í heiminum í nafni hans um aldir.

Kveðjustund.

Við erum sífellt að heilsast og kveðjast, og nú með olnbogaskotum eða höndum lögðum að brjósti. Við heilsum nýjum degi, við heilsum fólki og kveðjum fólk, kveðjum þau sem hverfa af þessu jarðlífi, kveðjum þau sem fara burtu langdvölum og koma kannski ekki til baka til landsins, kveðjum þau sem yfirgefa okkur af einni eða annarri orsök.

Kristur kvaddi sína fylgjendur. Þau voru mörg sem heilluðust af boðskap hans, konur og karlar, börn og fullorðnir. Og svo er enn.

Hann lifir og ríkir og á ríki hans mun enginn endir verða. Veröldin hefur áður vikið af vegi hans. Menn hafa borist á banaspjót, drepið hver annan í mannskæðum styrjöldum, óáran og sjúkdómar hafa leikið mannkynið grátt.

Sumt sem yfir okkur gengur er af völdum náttúrunnar sem nú hegðar sér torkennilega og þar eigum við, að minnsta kosti í sumum tilfellum, einhvern hlut að máli, annað er okkur algjörlega sjálfum að kenna.

Við erum gallagripir, en elskuð af Guði.

Kirkjan boðar kærleika Guðs í Kristi, fordómaleysi, skilning, kærleika, miskunn og náð, fyrirgefningu.

Ég er þakklátur fyrir að hafa alist upp í kristnu þjóðfélagi, þar sem kirkjan er til staðar, kirkan sem þjónar öllum, kirkja með starfsfólk sem leitast við að þjóna honum sem sagði: „Ég lifi og þér munuðu lifa.“ Þau orð muna allir sem séð hafa ljósmyndina af kirkjugarðshliðinu í Vestmannaeyjum frá 1973 þegar jarðeldar loguðu, þar sem grafirnar sáust ekki undir meters háu öskulagi.

„Ég lifi og þér munuð lifa.“

Ég les nú þýðingu Kirstjáns Eldjárns, fv. forseta Íslands, Norðurlandstrómet eftir þjóðskáld Norðmanna Petter Dass og samtímamann séra Hallgríms Péturssonar sem fyrstur var nefndur þjóðskáld hér á landi. Dass yrkir um landið sitt með þvílíkum tilþrifum að unun er að lesa í snilldarþýðingu Kristjáns. Þar segir t.d. um hið kalda norður:

Vér yfir oss höfum þann ískalda pól

svo óralangt frá hinni vermandi sól

í vályndu veðranna heimi,

og Satúrnus hyggja menn haldi þar vörð

um hulinn og óþekktan fjársjóð á jörð

og gullsins í norðrinu geymi.

 

Og kynlegt er árið, sem kemur og fer,

að kalla það sólarhring leyfi ég mér,

það er ekki skrum eða skreytni,

því nóttin á veturna ósliti er

en aldrei að sumrinu dagurinn þver,

svo misjöfn er missira breytni.

 

Þetta gæti verið ort um Ísland. (Norðurlandstrómet s. 45)

Frægasti sálmur skáldprestsins norska og númer 1 í sálmabók norsku krikjunnar, sem flestir Norðmenn kunna utanbókar, er til í snilldarþýðingu Sigurbjarnar Einarssonar, sem var velgjörðarmaður minn og áhrifavaldur í lífi þjóðarinna. Sálmurinn hljóðar svo (Sb nr. 11):

• Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra

• dýrka ber og veita lotning tæra.

• Hver tunga, vera

• skal vitni bera,

• að voldug eru

• þín ráð og þér þakkir færa.

• Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,

• verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.

• Þótt farist heimur

• sem hjóm og eimur,

• mun heilagt streyma

• nýtt líf um geim, Guðs á degi.

• Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,

• himinn, jörð og stjörnur munu víkja,

• en upp mun rísa,

• og ráð hans prísa,

• hans ríki vísa

• og ljósið lýsa og ríkja.

Dass – Sigurbjörn Einarsson

 

Guð geymi þig og gefi þér gleðilegt sumars, gefi að þú komist í gegnum þessa tíma, sem við nú lifum, komist í gegnum lífið með reisn, í trú, von og kærleika.

Kveðjustund.

Jesús kvaddi sína fylgjendur og orð hans berast okkur í gegnum ár og aldir:

„Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

 

En ég kveð ykkur nú öll sem til mín heyrið með þessu orðum:

Verið þið sæl og blessuð!

Og megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú. (Fil 4.7).

Sæl og blessuð.

Amen.

 

Textar dagsins:

https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuarid/kirkjuarid-nanar/?itemid=9c1aa1f2-da12-11e8-9431-005056bc2afe

4 athugasemdir við “Um kveðjustundir, menningu, trú og réttlæti

  1. Sæll
    Takk fyrir frábæra ræðu. Sannarlega orð í tíma töluð.
    Með allra bestu kveðju og þökk.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.