Aðventu- og jólakveðja 2017 til ættingja og vina nær og fjær
BRÚIN
“Himnarnir segja frá dýrð Guðs
og festingin kunngjörir verkin hans handa.” (Sl 19)
Á fyrsta degi eftir vetrarsólhvörf, föstudaginn 22. desember, ók ég sem leið liggur um Heiðmörk, niður á Nes og út í Helgøya, þar sem útför var á dagskrá kl. 13.30. Hitinn var -10 gráður og frostrósir á öllum lauftrjám sem höfðu reyndar fellt lauf sit fyrir löngu. Er ég kom að sundinum milli Ness og Eyjar var frostþoka yfir sundinu.
Þá kom ég að brúnni sem tengir land og eyju. Hún var opnuð 23. nóvember 1957. Svona leit hún út og ég husaði: Er svartaþoka við Helgøya kirkju?
En þegar þangað kom blasti þessi dýrð við mér og þeim er sóttu kirkju til að kveðja tæplega 92ja ára heiðurskonu.
Í líkræðunni ræddi ég um brúna sem tengir land og eyju og brýrnar sem við byggjum á milli okkar með orðum, handtaki, bréfum, tölvupósti, kveðjum á samfélagsmiðlum, heimsóknum og faðmlögum. Helbrigt mannlíf og samfélag byggist á brúm. Brýr skipta máli í samgönum á landi og hafið tengir Ísland öðum löndum. Hafið er brú. Svo eru það loftbrýrnar sem flestir nota í dag.
Þá liggur beinast við að spyrja í framhaldi af þessari hugvekju um brýr á jörðu og í mannlífi:
Finnst hér í heimi brú
milli himins og jarðar, tíma og eilífðar?
Skáldskapurinn er ein mikilvægasta gáfa mannsandans, hæfileikinn til að ímynda sér það sem ekki blasir við jarðneskum augum. Skáldin hjálpa okkur að skilja hið óskiljanlega. Í aðventusálmi eftir Eyving Skeie segir m.a.:
Nå møtes jord og himmel
i barnet, lagt på strå!
Barnið sem lagt var á strá er brúin sem tengir himinn og jörð, tíma og eilífð. Í útgáfu hins vitra og djúphygla postula, Jóhannesar, sem einn hinna 12 lifði fram á elliár – hinir liðu allir píslarvætti – segir:
Orðið varð hold.
Engin setning í öllu ritverkasafni heimsins, segir meir en þessi 3 orð, engin hefur tjáð hið stærsta í veraldarsögunni, hið dýpsta í heimspeki og guðfræði, með eins knöppum hætti. Setningin merkir að allir kraftar guðdómsins, viska og elska, urðu manneskja, urðu Guð á jörðu, í barninu sem fæddist í Betlehem og var lagt á strá.
Við þekkjum hvað varð um jólabarnið. Kærleikslíf Jesú Krists, vinátta við venjulegt fólk, krítík á vald og hofmóð, þekkjum við af síðum Hinnar helgu bókar. Dauði hans og upprisa lögðu grunn að kristinni kirkju sem byggir boðun sína á vitnisburði sjónarvotta. Þess vegna höldum við kristin jól.
Brúin er opin og þess vegna getum við sungið á jólum með englum og mönnum:
“Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.” Lúkas 2.13b
Guð gefi þér gleðileg jól og blessunarríkt nýtt ár!
Örn Bárður Jónsson