Örn Bárður Jónsson
Tímamót
Prédikun við kveðjumessu í Neskirkju pálmasunnudag 20. mars 2016 kl. 11
Sermon at a farewell mass at Neskirkja Reykjavik Iceland palmsunday March 20, 2016.
Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.
Tímamót.
Hver eru merkustu tímamót lífs þíns?
Tímamót.
Það eru tímamót í dag. Neskirkja var vígð fyrir 59 árum á pálmasunnudag árið 1957. Fyrsta nútímakirkja landsins, friðuð að ytra birði, með nýju safnaðaheimili frá 2004, sem er fyrsta safnaðarheimili sinnar tegundar á Íslandi þar sem saman fer safnaðarstarf og rekstur kaffihúss með netaðgangi, listsýningum og fleiru. Vesturbæingar hafa gjarnan haft fingur á púlsi samtíðar sinnar, með góða sýn fram á við. Hingað hafa margir komið í tímans rás og sótt sér kraft til lífs og þjónustu. Hér hittast kynslóðirnar. Kirkjan þjónar fólki frá vöggu til grafar. Hér sveiflast starfið á milli gleði og sorgar. Trú og von vísa veginn til framtíðar.
Tímamót.
Ég hef lifað mörg tímamót á ævinni og nú stend ég á krossgötum. Ég kom til þjónustu í Neskirkju á haustdögum 1999 og var hér við prestsþjónustu til haustsins 2014 er ég fór til Noregs í afleysingu þar og til að máta mig við meginlandið sem mig hefur ætíð langað að búa á.
Bestu og ávaxtasömustu árin mín í prestsskap átti ég hér. Starfið hófst rólega en svo byrjuðu prestsverkin að hlaðast upp og undir það síðasta var orðið allt of mikið um annir. Sagt er að það henti flestum prestum að skipta um starfsvettvang á 7-10 ára fresti en skipulag kirkjunnar hér heima hindrar þessa nauðsynlegu tilbreytingu.
Þegar aldurinn færist yfir mann þá er rétt að rifa seglin og hafa ögn minna fyrir stafni. Kirkjan ytra hefur allt annað skipulag en hér á landi og þar er þess gætt að enginn vinni yfir sig. Fleiri bera birðarnar og samfélagið á heildina litið er í meira jafnvægi en hér.
[Innskot á hljóðupptöku um Noreg vs. Hveragerði]
Tímamót.
Ísland stendur á krossgötum. Umræðan í landinu, einkum á samfélagsmiðlum, gefur vísbendingar um líðan fólks og mér þykir blóðþrýstingur landans oftar en ekki vera í hærra lagi. Umræðan um kirkjuna hefur verið óvægin og fordómafull á köflum en kirkjan mun standa það af sér.
Vesturlönd ganga í gegnum breytingar og margir vilja skera á fornar rætur menningarinnar og telja að maðurinn geti fundið upp eitthvað betra sjálfur. Ég efa það stórlega. Á sama tíma og þeim fjölgar sem segja skilið við kirkju og kristni á Vesturlöndum, vex kirkjan hröðum skrefum í Kína. Og hinir kristnu þar vita margir hverjir hvernig þeir geta haft sem mest áhrif á samfélagið. Ég hlýddi nýlega á ufjöllum BBC4 um kristni í Kína. Þar kom fram að kristnir Kínverjar ganga í kommúnistaflokkinn til að geta haft áhrif á samfélgið. Um 40% meðlima flokksins eru kristnir. Og áhrifin má sjá víðar.
Hver ætli sinni aðallega líknarþjónstu í landinu, þjónustu við fársjúka og deyjandi? Hin kristnu!
Hver sinna HIV-smituðum? Hin kristnu!
Hver reka flest munaðarleysingjahæli í landinu? Hin kristnu!
Hvers vegna er það? Kemur kærleikurinn ekki fram af sjálfu sér í öllum mönnum? Nei, hann gerir það ekki. Manneskjan þarf grunngildi, siðaboðskap, hvatningu, köllun, sem beinir sjónum hennar að hinu góða, fagra og fullkomna. Hún þarf að sækja hið góða til uppsprettunnar, til skapara síns.
Svo halda menn því blákalt fram hér á landi og víðar að siðrænn húmanismi, guðleysi eða einhverjar nútímahugmyndir toppi þessa kærleiksþjónustu, sem á sér mörg þúsund ára hefð? Hvers vegna sprettur slík þjónusta síður upp meðal fólks með aðrar lífsskoðanir?
Heimildir: http://www.bbc.co.uk/programmes/b072hs5s
Tímamót.
Það voru tímamót í lífi Jesú þennan dag. Honum var innilega fagnað er hann kom ríðandi á asna inn í Jerúsalem. Fólk lagði yfirhafnir sínar á leið hans, veifaði pálmagreinum eins og konungur væri þar á ferð. Fólkið elskaði þennan einstaka mann sem talaði á annan hátt en áður hafði heyrst í veröldinni. Hann gaf fólki von í erfiðum aðstæðum og talaði jafnan máli þeirra er áttu undir högg að sækja. En skjótt skipast veður í lofti. Almenningsálitið er oft eins og vindurinn. Fjórum dögum síðar var hann handtekinn og á þeim fimmta var hann líflátinn af hinu pólitíska og trúarlega valdi þess tíma eftir að fólkið hafði hrópað til Pílatusar: Krossfestu hann!
Jesús hafði boðað breytingar í heiminum. Boðskapur hans snerist ekki aðeins um himinn og handanveru heldur um þjóðfélagið, um aðstæður fólks í viðsjárverðum heimi. Þess vegna boðaði hann þjóðfélagslegar breytingar með orðunum sem hann flutti í Nasaret er hann hóf starf sitt um þrítugt. Og strax eftir þann lestur ætluðu menn að kasta honum fyrir björg en hann gekk í gegnum mannþröngina og hóf að ferðast um og kenna um Guðs ríkið.
Þegar María móðir hans fékk boð engilsins um að hún væri með barni og boðaði henni mestu tímamót veraldarsögunna, flutti hún lofsöng sinn sem ber heitið Magnificat. Þar boðar hún félags- og efnahagslegar breytingar. Lesið um þetta heima í 1. og 4. kafla Lúkasarguðspjalls.
Trúin snýst ekki bara um lífið eftir dauðann. Hún snýst um lífið hér og nú, um réttlæti og sannleika. Þess vegna á kristni trú erindi við íslenska þjóð, við heiminn. Hún hefur þá köllun, þá skipun Herra síns, að boða heiminum fagnaðarerindið um nýja jörð og nýjan himin.
Í nýjasta hefti Skírnis er grein eftir íslenskan skólamann á sviði heimspeki og siðfræði. Þar fjallar hann um mannréttindi og segir m.a.:
«Eitthvað er það í menningu samtímans sem veldur því að hugmyndir um mannréttindi eiga sér hljómgrunn. Það er erfitt að henda reiður á hvað þetta er. Fyrsta gerðin gerir ráð fyrir að trúin á mannréttindi uppfylli þörf sem áður var svalað með kristindómi eða pólitískum útópíum.»
(Atli Harðarson í Skírni, haust 2015, s. 447).
Hér talar fræðimaður, menntaður vesturlandabúi, sem virðist ekki vita eða skilja að kristindómurinn hefur frá fyrstu tíð boðað þjóðfélagslegt réttltæti, ekki útópíur heldur réttlæti hér og nú. En sagan hefur því miður ekki bara verið bein lína framfara heldur hafa þröngsýn öfl ætíð skotið upp kollinum innan kirkjunnar og varpað skugga á boðskap Krists. Slíkt gerist innan allra skipulagsheilda. Þannig er lífið og þrátt fyrir hnökra hefur okkur miðað í rétta átt.
Vanþekking fólks almennt talað nú á tímum hvað varðar rætur menningarinnar og áhrif kristinnar trúar á heiminn er himinhrópandi. Uppfræða þarf almenning um mikilvægi kristinnar trúar í menningu vesturlanda. Kristin trú er ekki bara upptekin af lífinu handan lífs og dauða heldur hér og nú. Dæmin fá Kína sanna það. Hér á landi var það kirkjan sem hóf hjúkrunar- og líknarstarf, menntun barna og almennings. Heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir eiga rætur sínar í starfi kirkju og kristni. Og nú er heilbrigðisþjónustan á tímamótum þar sem tekist er á um framtíðarskipan hennar, hvort almenningur eigi að greiða meira fyrir þjónustuna. Sumt fólk vill stéttskipt þjóðfélag þar sem hinir betur megandi hafa forgang en þau eru mörg sem vilja jöfnuð byggðan á því að við séum öll sköpuð af Guði og eigum þess vegna meðfæddan rétt til gæða lífsins.
Ísland er nú á tímamótum.
Hvað verður um okkur sem þjóð? Kemst hér á stjórnskipan réttlætis eða verðum við áfram í viðjum misskiptingar og óráðsíu?
Við horfum upp á það ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, að fjármunir eru færðir í stórum stíl frá almenningi til forréttindahópa en almenningur situr eftir með kjör sem gætu verið mun betri. Nú bý ég í þjóðfélagi sem skiptir gæðum landsins með allt öðrum hætti en hér er gert og skattleggur arðinn af náttúruauðlindum með mun skilvirkari hætti en hér er gert. Þar eru hvorki olíu- né sægreifar. Regluverkið er mun þróaðra og öll stjórnsýsla í mun betri skorðum en hér.
Íslenskur fræðimaður á svið hagfræði hefur sagt að Íslendingar séu ríkari en Norðmenn með allan sinn olíugróða þ.e. hver og einn einstaklingur í landinu. Þá eru allar auðlindir taldar með. Munurinn á þessum löndum er sá að hér er arðurinn af stærstu auðlindinni í vösum örfárra fjölskyldna en ytra í sjóði sem tilheyrir almenningi.
Ísland er og hefur lengi verið á villigötum og almenningur er fóðraður á bjöguðum upplýsingum í mörgum fjölmiðlum, uppkokkuðu bulli til að þjóna málstað forréttindahópanna sem halda lygunum gangandi með styrkjum, með arðinum af auðlindum, fjármunum almennings sem ræður því miður ekki yfir eign sinni og ágóða til ráðstöfunar í þágu heildarinnar.
Ef menn skrifa gegn misskiptingunni, kvótakerfinu eða öðrum órétti hér þá er þeim gjarnan hótað. Íslenskum fræðimanni við erlendan háskóla var hótað með því að hann fengi aldrei vinnu hér á landi ef hann héldi áfram að gagnrýna kvótakerfið og misskiptinguna hér á landi. Frammámaður í landinu skrifaði háskólayfirvöldum ytra til að reyna að hindra hann í starfi. Órétturinn er varinn með siðlausu athæfi.
Við verðum að koma á réttlæti á Íslandi en það verður ekki fyrr en grundvallarlögin verða endurskoðuð, nýr sáttmáli gerður, ný stjórnarskrá samþykkt. Frumvarpið liggur fyrir og er af virtum fræðimönnum talið eitt besta frumvarp sinnar tegundar sem fram hefur komið í heiminum. Sorglegt er að horfa uppá stjórnvöld sitja að svikráðum við þjóðina með því að reyn að komast fram hjá vilja þjóðarinnar sem hún sýndi afdráttarlaust í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs 20. október 2012. Staðið er með ófyrirleitnum hætti gegn því að hér komist á réttlæti og friður. Á sama tíma renna milljarðatugir afram í vasa sægreifa og annarra forréttindahópa meðan eftirlaun skerðast og afrakstur almennings rýrnar.
Um þetta verður að ræða því málið varðar réttlæti og sanngirni í landinu, varðar örlög og hag heildarinnar, varðar tilvist okkar allra. Málið verður að ræða út frá kristinni trú og guðfræði.
Kirkjan skiptir máli í umræðunni og hún verður að láta um sig muna með boðun sinni í orði og verki. Best er jafnan að láta verkin tala. Norskur biskup sagði eitt sinn að trúin byggi ekki í höfðinu heldur fótunum – og ég bæti við: og í höndunum. Trúin í verki skiptir máli.
Tímamót.
Hver eru merkustu tímamót lífs þíns?
Þú ein/einn getur svarað því. Hins vegar má segja að hver nýr dagur sé tímamót. Nóttin er að baki og nýr dagur runninn upp með nýjum tækifærum. Við eigum þennan dag og við hvert fótmál eru krossgötur sem kalla á val og afstöðu.
Hvaða afstöðu tökum við í daglegum störfum okkar? Hvað veljum við? Á hvaða grunni byggjum við ákvarðanir okkar?
Hver eru merkustu tímamót lífs þíns?
Því má halda fram með rökum að merkustu tímamót ævinnar hafi verið á tímapunkti sem ekkert okkar skynjaði né man. Skírnin markar mestu skil tilvistar okkar. Kirkjan skilgreinir kristna manneskju sem þá sem skírð hefur verið í nafni föður, sonar og heilags anda. Þar með var líf okkar sett í hið stóra samhengi, við helguð hinum krossfesta og upprisna, skírð til dauða hans og upprisu, skírð til lífs í Guði á jörðu og í himni. Köllun okkar er að lifa jafnan í þessum tveim víddum, á jörðu og í himni Guðs. Skírnin er vígsla til almenns prestsdóms, köllun um að koma á réttlæti á jörðu í nafni Krists. « . . . til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni» segjum við í bæn Drottins. Liggur það ekki þar með ljóst fyrir að trúnni ber að láta sig varða lífið hér og nú, kaup og kjör, mannréttindi, réttlæti og sannleika?
Tímamót.
Í dag kveð ég Nessöfnuð. Hér hef ég átt marga góða samstarfsmenn, karla og konur og notið þess að þjóna góðum og krefjandi söfnuði. Hér hef ég eignast marga góða vini, fengið bæði hvatningu og auðvitað gagnrýni eins og vera ber. Messusókn var hér um árabil með því besta sem gerðist í landinu sagði einn af biskupum landsins við mig. Hingað sótti fólk úr Vesturbænum og einnig öðrum borgarhlutum. Oft kom hingað kirkjufólk utan af landi til að upplifa, sjá og heyra hvernig starfið blómstraði á Melunum. Hér var gott að starfa en annríkið gekk úr hófi fram og við það varð ekki unað lengur.
Og nú kveð ég ykkur með söknuði og trega og þá sæki ég mér orð til Páls postula sem kallaði til sín öldungana í Efesus – «sóknarnefndina» – og kvaddi þá og söfnuðinn og sagði:
«Og nú fel ég ykkur Guði og orði náðar hans sem getur styrkt trú ykkar og veitt ykkur hlutdeild í ríki hans ásamt öllum þeim sem helgaðir eru.»
Sóknarnefndarfólki, prestum, organistum, tónlistarfólki, kórfólki, starfsfólki öllu og safnaðarfólki þakka ég góðar og gefandi stundir á liðnum árum.
Tímamót.
Það eru tímamót í lífi okkar allra og svo koma tímamótin miklu þegar við kveðjum þetta jarðneska líf.
Með þessum degi hefst kyrravika, vikan þegar Kristur mætti sínum miklu tímamótum. Hann varð að ganga leiðina til enda og trúa og vona eins og við. Hann byggði allt sitt líf á trú og von.
Á páskum fögnum við sigri lífsins yfir dauðanum. Myrkraöflin sem töldu sig hafa sigrað urðu að athlægi. Þess vegna fögnum við á páskum, hlægjum og gerum að gamni okkar vegna þess að Guð sneri á hið illa í tilverunni. Hann mun ávallt og ætíð eiga síðasta orðið. Megi sannir páskar og upprisugleði ná tökum á hjörtum Íslendinga og leiða til breyttrar framtíðar réttlætis og sannleika.
Sigurinn er unninn og hann gefur okkur byr, þrótt og kjark í amstri daganna, í andstreymi og mótlæti, í ölduróti órólegrar samtíðar.
Tímamót – krossgötur – og við eigum val á hverju andartaki.
Við eigum val um að fljóta sofandi að feigðarósi eða standa með réttlætinu og sannleikanum.
Við eigum val á tímamótum, við hverjar krossgötur.
Guð blessi starfið í Neskirkju, íslenska þjóð og kristni í landinu. Guð blessi þig
- – – – – – – – – –
Textar dagsins, bænir og fleira:
Pálmasunnudagur
Litur: Fjólublár.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf. “ (Jóh 3.14b-15)
Kollekta:
Eilífi Guð, sem lést son þinn, frelsara vorn, Jesú Krist, auðmýkja sig og ganga í dauðann á krossi: Veit oss af miskunn þinni að líkjast honum í hógværð hjartans og eignast hlutdeild í upprisu hans, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Sak 9.9-10
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.
Pistill: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.
Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.
Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.
Sálmur: 128
Ó, kom í hátign, Herra minn.
Þér heilsar allur lýðurinn
og klæðum lagða braut þér býr,
með blessun þér á móti snýr.
Ó, kom í hátign, Herra minn,
því harla nærri’ er dauði þinn.
Þín sigurför mót Satan hér,
mót synd og dauða hafin er.
Ó, kom í hátign, Herra minn,
af hæðum fórnargjörning þinn
með undrun skoðar englaher,
sjá, augun himnesk fylgja þér.
Ó, kom í hátign, Herra minn,
til hörmunganna ríð nú inn.
Þinn faðir hæst á himnum er,
hans hjarta bíður eftir þér.
Ó, kom í hátign, Herra minn,
með hátign gakk í dauða þinn.
Á krossi mildu höfði hneig,
á himni’ og jörð svo ríkið eig.
Milman – Sb. 1871
Stefán Thorarensen
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur. Fólkið kom á móti þér með fagnaðarópum og hyllti þig. Samt skildi það þig eftir einan. svo að þú yrðir pyntaður og deyddur. Við erum hrædd við dökku hliðarnar á mannlífinu, hrædd við skuggana, hrædd við möguleika illskunnar í mannfólkinu, -í okkur sjálfum. Gefðu okkur náð til að þekkja okkur sjálf og að sjá hvað í okkur sjálfum býr. Hjálpa þú okkur að koma með það allt til þín að þú blessir það og bætir það með kærleika þínum. Amen.
Takk kæri vinur, megi allt gott varða þína leið!