Heyrðu!

Shema IsraelÖrn Bárður Jónsson

Heyrðu!

Prédikun við messu í Neskirkju sunnudaginn 19. okt. 2014 – 18. sd. e. trinitatis

Kveðjumessa fyrir 6 mánaða afleysingu í Noregi

Dagur heilbrigðisþjónustunnar

Textar: http://kirkjan.is/tru/kirkjuarid/a/18-sunnudagur-eftir-threnningarhatid/

Þú getur hlustað á ræðuna hér fyrir neðan og einnig lesið hana.

Myndir voru fengnar að láni af vefnum og er höfundum færðar þakkir fyrir.

Heyrðu! 

Þannig ávarpar sumt fólk hópa nú til dags og segor: Heyrðu!

Notkun þessa orðs og fleiri orðatiltækja var ræddur í útvarpinu á dögunum og spjallað var við málfarsráðunaut. Tungan breytist og þróast en orðið heyrðu skilst enn þótt notað sé í rangri tölu og í einkennilegu samhengi.

Í guðspjalli dagsins er einn þekktasti texti úr GT, orð sem Jesús fór með og í samtalinu við fræðimanninn og hefst á orðinu: HeyrSHEMA! Textinn er úr helgiritum Gyðinga og kallaður shema eftir upphafsorðinu: Sh’ma Yis’ra’eil Adonai Eloheinu Adonai echad – „Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn.“

Þetta er grundvallarjátning Gyðinga, kristinna manna og núslima – Guð er einn og hann „er yfir öllum, með öllum og í öllum.“ (Ef 4.6)

Textinn sem Jesús fór með er skráður í 5. Mósebók 6. kafla og hann er einn algengasti texti alls GT-isins. Hann er sömu ættar og inngangurinn að Boðorðunum sem við heyrðum áðan: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“

Umorðað gæti þetta hljóðað svona:

Ég er Drottinn, Guð þinn, sem bjargaði þér og þess vegna ættir þú ekki að elta aðra Guði.

Guð kallar til eftirfyldar vegna góðgerða sinna og miskunnarverka. Brottförin úr Egyptalandi markaði mikil skil í sögu Gyðinga. Þeir yfirgáfu erfiðar aðstæður, fóru í burt, tóku sig upp og gengu á vit drauma sinna og vonar um betra líf og betri heim. Förin heitir á fræðimáli Exódus – útganga eða  brottför og af sama stofni eru orðin á öryggisskiltum hér og víðar þar sem segir: Exit eða útgangur.

Margir eru í erfiðum aðstæðum og fullyrða má að þjóðin okkar sé það í heild sinni. Við erum föst í viðjum viðskiptahafta. Efnahagur okkar er bágur og ekki sér enn fyrir endann á þeim vanda. Við yfirgefum ekki landið sem heil þjóð en þeim fjölgar sem leita fyrir sér ytra meðan ástandið er eins og raun ber vitni. Við erum líka föst í fjötrum umræðuhefðar og stjórnunarhátta sem skapast hafa í fámennu samfélagi frændsemi og kunningsskapar, eyþjóð fjarri fyrirmyndum sem ættu að geta orðið okkur til góðs. Einangrunarhyggja er ekki góð. Við búum í samfélagi þjóðanna og heimurinn er að þróast í eina heild, eitt alheimsþorp. Hingað vilja margir flytja sem betur fer og við höfum leyfi til að færa okkur um set og leita hamingjunnar og efla hana hvar í heimi sem er. Við erum fólk á ferð.

Boðorðin er sett fram af hinum frelsandi Guði sem vill leiða sína þjóð. Boðorðin eru enn í fullu gildi sem slík enda þrífst ekkert þjóðfélag án boðorðanna. Í hverjum leik er þörf fyrir leikreglur eins og við þekkjum úr heimi íþróttanna. Allt verður að lúta formi og skipulagi, lögum og reglum. En þau sem vakta regluverkið, lögreglan og dómstólarnir, mega þó gæta sín á því að misbeita ekki valdi sínu og ganga gegn fólki sem leitar réttlætisins með því t.d. að mótmæla illa ígrunduðum framkvæmdum eða vafasömu framferði stjórnvalda á einum tíma eða öðrum. Lögmálið í ljósi fagnaðarerindisins hljóðar svo: „En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Gal 5.22)

Til forna í samfélagi Gyðinga gekk lögmálshyggjan allt of langt. Fræðimenn sátu við það daga og nætur að túlka lögmálið og finnar reglur framhjá boðum og bönnum eða herða svo á skrúfunum að fólk var orðið fjötrað í lögmáli og flóknu regluverki. Inn í þær aðstæður talaði Jesús og hann henti á lofti ævafornan texta úr Mósebókunum, sem viðmælandi hans þekkti, til að minna á gildi elskunnar í öllu lífi. Þessi texti setur fram tilgang mannsins í lífinu: Að elska Guð, náungann og sjálfan sig af öllum lífs og sálar kröftum.

Þetta er einfalt – svooo eiiiiinfaaalt!

En um leið svo óóótrúúlega flóóókið!

Sköpunarsagan í Biblíunna sem er merkileg táknsaga, upphaf boðorðanna einnig og svo þessi merki texti sem hefst á hebreska orðinu ShemaHeyr! Í þeim er staðhæft að Guð er einn og að grundvöllur heimsins er kærleikur, innsta eðli alls er ást Guðs og elska.

Á þeirri trú hvílir þjóðfélag okkar. Þessi trú er undirstaða alls hins góða sem hér hefur verið gert um aldir. Afstaðan til náungans hvílir á þessum grunni, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, allt. Vandamálin verða hins vegar þegar vikið er frá þessum grunni og menn taka að byggja verk sín á sandi.

Biskup Íslands hefur beðið söfnuði landsins að minnast dags heilbrigðisþjónustunnar í dag. Í bréfi sínu til presta minnir biskup á erfiðar aðstæður heilbrigðisþjónustunnar og mikilvægi hennar. Þar segir meðal annars:

„Markmið þessa sunnudags er að lyfta upp heilbrigðisþjónustunni til að styðja, styrkja og vekja athygli á því umfangsmikla starfi sem unnið er á vettvangi hennar. [. . . ] Heilbrigðisstarfsfólk ber mikla ábyrgð, er undir álagi í sínu starfi og stendur oft frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum sem krefjast sérhæfðrar þekkingar. Á degi heilbrigðisþjónustunnar kemur kristin kirkja fram í fyrribæn og vill með því hvetja og styðja við heilbrigðisþjónustuna í landinu. Nálgun Jesú er það sem við horfum til – þar sem hann í allri sinni framgöngu mætti manneskjunni og hennar þörfum í heild sinni. Sú umhyggja sem hann sýndi er hvatinn að þeirri umhyggju sem okkur ber að sýna og á að einkenna allt samfélag okkar og heilbrigðisþjónstu.“ Sjá bréfið allt neðanmáls.

 Heilbrigðisþjónustan vinnur nú við erfið skilyrði og skert rekstrarfé. Margar stofnanir þjóðfélagsins sem skipta okkur gríðarlega miklu máli berjast nú í bökkum og ef þær liðast í sundur verður þess langt að bíða að það sem brotnað hefur verði aftur heilt. Frogangsröðun stjórnvalda er umdeild. Vissulega er þeim vandi á höndum en bæn okkar er sú að hjartað og kærleikurinn fái að ráða.

Við erum kölluð til að vaka yfir velferð hvers annars í þessu heimi, sama hvar við búum eða störfum. Elskan til Guð og náungans er allstaðar í gildi og hún kemur í ljós í verkum okkar sem einstaklinga, hópa og í heild sem þjóðar. Löggjöf sem sett er á Alþingi á að hvíla á grunni elsku og virðingar fyrir öllum mönnum, öllu lífi. Löggjöf má ekki verða sérhyggju að bráð. Hún má aldrei einkennast af frændhygli eða hollustu við þrönga flokkshagsmuni. Lífið kallar okkur til að bera kærleikanum vitni og sönn elska tekur ætíð mið af þörfum heildar og velferð allra.

Kæri söfnuður. Ég kveð hér í dag að sinni þar sem ég held til Noregs innan tíðar til að þjóna þar sem prestur í afleysingu í 6 mánuði. Ég verð í launalausu leyfi á meðan.

Við erum öll í hendi Guðs og maður kemur í manns stað. Breytingar eru gjarnan til góðs og allir hafa gott af uppstokkun og tilbreytingu. Prestar þurfa að hlaða geyma sína og sækja sér þrótt og uppbyggingu með reglulegu millibili til þess að kulna ekki í starfi, stunda endurmenntun, færa sig til í starfi, læra nýja hætti í nýju umvherfi.

Hér hefur verið ævintýri líkast að starfa s.l. 15 ár. Kirkjusókn er með því besta sem gerist og söfnuðurinn áhugasamur um gang kirkjustarfsins. Hafið þökk fyrir allt og Guð geymi ykkur í vetur og gefi okkur aftur góða samfundi.

Kirkjan hefur mikilvægu hlutverki að gegna í landinu. Hún stendur vörð um grunngildin. Það gefur á bátinn um þessar mundir og það er ekki í fyrsta sinn. Kirkjan er voldugt skip. Á seinustu öld gengu yfir margir nýir straumar í mannlegri hugsun sem sumum fannst ógna kirkjunni. En ný hugsun getur örvað og eflt. Kirkjan verður að takast á við nýja hugsun á hverjum tíma og þroskast með framförum á sviði vísinda og mennta.

Sem dæmi má nefna að þessa dagana reynir Frans páfi fyrsti nú að þoka sinni kirkju til meiri skilnings og þroska í glímunni við viðfangsefni nútímans. En hann á við ramman reip að draga en þetta tosast nú allt, túi ég.

Og vegna þess að kristin trú er opið kerfi, lífsvegur, en ekki lögmál eða kerfisþrælkun, getur hún á hverri tíð lifað og eflst. Það liggur í eðli hennar, hún ferðast með fólki inn á nýjar lendur á vit nýrra ævintýra í mannlífinu. Lífið er spennandi vegferð! Það er gaman að vera á ferð með Guði sínum í leitinni að ljósi og sannleika.

Þjóðkirkjan gengur í gegnum storma sem stofnun og hún hefur gert það áður. En kirkja Krists er meira en ÞK. Kirkja Krists er stærri og meiri og Drottinn hefur heitið því að kirkjan hans muni aldrei á grunn ganga.

Þess vegna eru orðin fornu ætíð í gildi, síung og ný og að breyttu breytenda hljóðar inngangurinn svona:

Heyr! íslensk þjóð, heyr, íslensk kristni:

„Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Heyrðu!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Bréf biskups um dag heilbrigðisþjónustunanr

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.