Morðsaga, meiðingar og miskunn

Miskunnsami Samverjinn afríkumyndÖrn Bárður Jónsson

Morðsaga, meiðingar og miskunn

Prédikun í Neskirkju 13. sd. e. trinitatis 14. september 2014 kl. 11

Textar dagsins eru neðanmáls. Þú getur hlustað á ræðuna og líka lesið hana hér fyrir neðan.

Myndin var fengið að láni af vefnum. The photo was obtained from the Web with thanks to the artist.

Morðsaga. Kirkjan íhugar morðsögu og ofbeldi á þessum degi. Það eru ekki eintómar ljúfar englasögur í Biblíunni. Hún fjallar um mannlífið í öllum sínum margbreytileika og breyskleika. Biblían er sagan mannkyns, saga okkar. Hún er um reisn mannsins en líka lægingu.

Kain og Abel voru bræður og þeirra saga hefur lifað um aldir. Voru þeir fyrstu bræður sögunnar eða voru þeir kannski aldrei til en eru alltaf til vegna þess að boðskapur sögunnar um þá lifir í fólki á öllum tímum? Er sagan um þá bara bókmenntaverk? Ef svo er þá er hún ekki neitt bara því hún er ein merkilegasta saga sem mannkynið á. Hún er skýringarsaga, tilraun til að skilja tilveruna, illsku og öfund og jafnvel bróðurmorð.

Öfundin og hatrið lifir í mannheimum og hefur gert það um aldir en elskan hefur gert það líka, sem betur fer. Elskan er sterkari en hatrið.

Kain öfundaði Abel og sú kennd óx og dafnaði eins og mein í sálu hans og varð að hatri sem leiddi hann til þess að myrða bróður sinn. Sagan um Kain og Abel geymir eina þekktustu setningu allra heimsbókmenntanna: Á ég að gæta bróður míns? Þannig hljóðaði svar Kains þegar Guð spurði hvar hann væri: Á ég að gæra bróður míns? Á ég að bera ábyrgð á öðrum? Fólki hættir til að færast undan ábyrgð og kannast ekki við vanrækslur sínar og kæruleysi. Adam benti á Evu þegar hann hafði gert rangt: Hún sagði mér að gera það? Við erum sama eðlis. Börn byrja fljótt að beita sömu aðferðum og persónur hinnar fornu sögu sem er ein af mikilvægustu lykilsögum sem mannkynið á í sjóðum sínum.

Lykilsögur kenna okkur mikilvæga hluti um lífið og þeim er ætlað að þroska okkur á lífsveginum. Sagan um Kain og Abel er morðsaga og þá sögu þekkti Jesús því hún var í helgiritum Gyðinga, í GT, og er þar enn. En svo segir Jesús nýja sögu og hún er líka alvarleg, að vísu ekki morðsaga en saga svo ótrúlega lík sögunum sem við lesum eða heyrum nánast í hverri viku og gætu hljóðað eitthvað á þessa leið:

Maður barinn með flösku í höfuðið fyrir utan skemmtistað í gærkvöld.

Konu nauðgað á hóteli.

Maður stunginn með hnífi í brjóstið í gær.

Hópur réðst á ungling í Miðborginni, sparkaði í hann og limlesti.

Best væri að slíkar frásagnir ættu sér einungis stað í glæpasögum eftir Arnald,Yrsu eða Stefán Mána. En því miður eru þær hluti af raunveruleikanum og settar í letur á síðum dablaða.

Ofbeldissaga Jesú var þó ekki sögð til að skemmta lesendum eða áheyrendum heldur til að benda á mátt miskunnar og elsku.

Maðurinn sem ráðist var á átti sér einskis ills von en svo lá hann allt í einu særður og lemstraður við veginn. Þeir sem fóru framhjá voru að flýta sér, voru að fara á mikilvæga fundi eða stefnumót, eða vildu ekki ómaka sig við að hjálpa manni í neyð. Æ, það er svo krefjandi að þurfa að skipta sér af neyð heimsins svona á vegum úti, strætum og torgum. Það er öðruvísi og auðveldara þegar neyðin er í fjarlægum löndum og Sjónvarpið fær okkur með krassandi myndskeiðum af neyð heimsins og með hvatningu skemmtikrafta að vera miskunnsöm. Þá er svo gaman að vera með og sýna miskunnsemi. Og við kaupum rautt nef, álf, eða eitthvað annað til að styrkja gott málefni. Það er gott og blessað þegar okkur rennur blóðið til skyldunnar og alveg sama hvort það er gert með tilstyrk hinna máttugu fjölmiðla eða ekki. En það er allt annað mál þegar við eigum leið um götur og stræti og verðum vitni að neyð heimsins. Þá hættir okkur til að ganga framhjá.

Neyð heimsins er stór og hún hverfur aldrei. Þess vegna erum við kölluð til að láta gott af okkur leiða. Sagan um Miskunnsama Samverjann er ein af þessum mikilvægu lykilsögum sem veröldin á. Hún er einföld og upplýsandi í senn. Mikilvæga fólkið gekk framhjá, velgengnislið og vitringar heimsins. En einn lét málið til sín taka. Hann var Samverji. Jesús setur Samverja ekki inn í söguna af neinni tilviljun. Það er snilldarlegt stílbragð, þrauthugsað eins og í besta krimma. Samverjar voru nefnilega fyrirlitnir af Gyðingum í samtíð Jesú. Hann sagði Gyðingunum söguna og hún var ögrandi og dæmandi í senn. Þið bregðist en ekki Samverjinn, þessi fyrirlitni maður og útskúfaði. Hann var með hjartað á réttum stað. Í nútímanum hefði Jesús kannski sett múslima í stað Samverja í söguna eða altattúveraðan mann úr mótorhjólagengi, eða einhvern annan sem ekki passar inn í okkar mynd af góðborgurum. Við getum sjálf valið okkur staðgengil Samverjans í okkar sögu og reynt að setja hana þannig fram að hún ögri fordómum okkar sjálfra. Hverskonar hjálparmaður kæmi okkur mest á óvart og væri nær óhugsandi persóna í þessa mögnuðu sögu? Þannig var Jesús, hann ögraði og stakk á kýlum. Þess vegna var hann vinsæll meðal alþýðu fólks en hataður af forréttindastéttinni og þeim sem töldu sig eiga máttinn og dýrðina í mannheimum og jafnvel á himnum líka. Hann ögraði því öllu. Þess vegna tóku ofbeldis- og öfundarmenn þess tíma ráðin í sínar hendur og myrtu hann, myrtu hann sem var Guð á meðal manna. Hin aldagamla saga um Kain og Abel endurtók sig í samtíð Jesú og hún endurtekur sig enn í okkar samtíð í margvíslegum myndum.

Hver er þá lausnin í morð- og ofbeldissögum heimsins? Lausin er sú sama og Jesús boðaði: Elskaðu náungann.

Í gær skírði ég 2 börn og ræddi í bæði skiptin um þá köllun sem fólgin er í skírninni. Guð kallar okkur í skírninni til að þjóna náunganum í kærleika. Skírnin er vígsla til almenns prestsdóms. Við erum öll prestar og höfum hlotið köllun sem felst í því að fara um lífssveginn með ljós himinsins og lýsa í dimmunni.

Kirkja Krists á öllum öldum starfar á þríþættan hátt. Hún sinnir helgihaldi, kærleiksþjónustu og fræðslu. Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar, díakóníunnar eins og það heitir á máli guðfræðinnar. Orðið djákni er íslensk mynd orðins diakon. Djákni sinnir kærleiksþjónustu í skipulögðu starfi kirkjunnar. Presturinn kennir og báðir tengjast  þeir helgihaldinu. Kirkjan starfar í anda orða Jesú. Hún íhugar lykilsögurnar sem Jesús þekkti úr trúararfi þjóðar sinnar og þær sem hann skapaði og hafa gert þennan heim betri og fegurri.

Morðsaga og meiðingar. Ofbeldi á sér stað um allan heim og birtist í ótal myndum. Þau sem verða fyrir áföllum vegna illsku annarra þarfanast miskunnar og aðstoðar. Þjóðfélag okkar rekur stofnanir í þágu miskunnar og elsku. Þar má t.d. nefna heilbrigðisþjónustuna og lögregluna. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Kirkjan leggur grunn að siðferði og boðar mátt elskunnar í meiddum heimi. Okkur er boðið að taka þátt í verki Guðs á jörðu og vera farvegur fyrir elsku hans.

Þar sem miskunnsemi er iðkuð þar er Guð.

Þar sem fólk elskar hvert annað, þar er Guð.

Þar sem hatrinu er ógnað með elsku, þar er Guð.

Þar sem góðir menn fara þar eru Guðs vegir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Bæn á degi kærleiksþjónustunnar:

Guð, sem elskar. Þú sem sérð eymd og neyð okkar mannanna og sendir son þinn til þess að þjóna okkur í kærleika. Hjálpa þú okkur að líkjast honum. Láttu okkur minnast þess að hann sagði um sjálfan sig: Ég er mitt á meðal yðar eins og þjónninn. Gefðu okkur góðvild og miskunnsemi svo að við göngum ekki framhjá þeim sem þarfnast hjálpar. Heyr þá bæn fyrir Jesú Krist. Amen.

 Ritningarlestrar dagsins.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.