Ofurmenni eða aumingjar?

NietscheÖrn Bárður Jónsson

Prédikun við messu í Neskirkju

sunnudaginn 31. ágúst 2014 – 11. sd. e. trinitatis

Ofurmenni eða aumingjar?

Afstaðan til valdhafa og hins æðsta valds.

Rætt var m.a. um guðleysi, húmanisma og kristni.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Einhver frávik frá texta eru á hljóðupptökunni.

Náð . . .

Hverjir eru bestir?

Hverjir eru gáfaðastir?

Hverjir eiga fallegasta landið?

Hreinasta vatnið?

Bestu landbúnaðarafurðirnar?

Besta fiskinn?

Besta fólkið?

Klárustu stjórnmálamennina?

Þessar upphrópanir eru eimaðar út út umræðu daganna og það er eins og svarhrópin ómi yfir landið í orðinu sem er samnefnari okkar:

Íslendingar!

Við erum stundum svo sjálfhælin sem þjóð að það gengur brjálæði næst. Sjálfhælnin birtir kannski fyrst og síðast andhverfu sína þ.e. minnimáttarkenndina í okkur, útkjálkabrag og afdalamennsku? Engu er líkara en að við höfum á sumum tímum eða andartökum sögunnar samsamað okkur með ofurmenninu í anda Nietzsche. Ofurmennið þurfti engin viðmið nema sjálfan sig. Hann var háleit hugmynd heimspekings um manninn sem tegund, karl og konu, sem rísa ætti upp úr meðalmennsku kristninnar sem sögð var vanrækja jarðsambandið og horfa stöðugt til handanverunnar og væri þar með lífsflóttastefna. Og undir þetta tóku hugmyndafræðingar kommúnismans og sögðu trúna vera ópíum fyrir fólkið. Kristnin kann vissulega að hafa á einum tíma eða öðrum, á einum stað eða öðrum, tjáð sig með þeim hætti að himinninn hafi orðið svo eftirsóttur að heimurinn hafi orðið halloka, skilinn eftir á yfirborði jarðar eins og ónýtur hamur, aum kjör fólks í þessum heimi verið leyst með ávísun á himnasælu. Gúmmítékkaguðfræði gengur aldrei upp. Gúmmítékkar eru ónýtir í hvaða mynd sem er. Kristindómurinn hefur líklega í aldanna rás misskilið flest af því sem Jesús kenndi en um leið skilið sumt mæta vel og tekist jafnvel að halda því sem best er. Norðurlöndin eru e.t.v. eitt besta dæmið um vel heppnaða úrvinnslu á kristnum hugmyndum þar sem jarðsambandið og himnatengingin eru í þokkalegu jafnvægi.

Nietzsche var í senn á móti antisemitisma eða gyðingahatri og þjóðernisstefnu nazista [Nietzsche var uppi 1844-1900 og því á undan nazistum en verður ekki kennt um öfgar og afbökun þeirrar stefnu] en þeir nýttu sér samt kenningar hans og héldu á lofti sínum hugmyndum um ofurmennið, aríann góða og fagra – fagra í merkingunni ljós. Nietzsche var fórnarlamb rangtúlkana manna á hans eigin hugmyndum og sama má segja um Krist á öllum öldum.

Ef við erum ekki ofurmenni og þaðan af síður aumingjar, hvað erum við þá?

Hvar staðsetjum við okkur í lífinu sem einstaklingar og þjóð? Hvaða viðmið höfum við? Eigum við okkur einhver æðri viðmið eða erum við sjálf miðja alheimsins?

Nú vex þeim hugmyndum fiskur um hrygg í samtíð okkar að maðurinn sé miðja alls, að hann þurfi engin viðmið önnur en sjálfan sig, þurfi engum að lúta, ekkert að virða, nema eigin skoðanir, eigin vilja, eigin nafla.

Hvað karlinn Marteinn Lúther hefði sagt nú, ef hann gengi með hamar sinn, nagla og skjal um Vesturbæinn til að negla á dyr þessa húss, veit ég ekki, en hann sagði á sínum tíma að mesti vandi mannsins væri sá að hann væri kengboginn inn í sjálfan sig, að synd hans, brotalömin í lífi hans, gerði hann – incurvatus in se – upphaf og endi sjálfs síns. Þannig er hinn guðlausi maður, hann á ekkert nema sjálfan sig og önnur skoðanasystkin. Afstaða guðleysingja eða húmanista er á margan hátt heillandi og hugrökk, skal ég viðurkenna og í augum sumra jafnvel fögur og frelsandi, en í augum þess sem vill eiga sér æðra viðmið er hún ekki eins göfug og alls ekki frelsandi. Frelsið er margslungið hugtak. Orðið frjáls er myndað af frí-háls og vísar til þess að vera laus við hlekki sína. Frelsi er oft misskilið sem lausn frá öllu í stað þess að sjá það sem lausn til einhvers. Fermingarbörnin ræddu við mig á dögunum um hvíldardaginn í Boðorðunum tíu og fannst sumum það boðorð vera óþarft og algjörlega úrelt. Ég spurði þá hvort þau vildu hafa kennslu á laugardögum eins og var þegar ég var strákur. Nei, það vildu þau ekki og alls ekki að kennt væri á sunnudögum. Þau skildu nefnilega boðorðið sem skyldukvöð um eitthvað neikvætt í stað þess að sjá það sem frelsi frá vinnu eða námi, frelsi til að gera eitthvað annað en alla hina dagana. Og hvaðan skyldi nú sú hugmynd vera komin að gefa fólki einn frídag í viku, og ekki bara frjálsum mönnum heldur líka þrælum og ambáttum Nota Bene, burðar- og dráttardýrum líka!? Hugmyndin er komin frá Gyðingum og þaðan inn í kristnina. Við eigum frídag sem frelsar okkur undan skyldukvöð vinnu og þrældóms og frídagurinn er þar með gjöf himinsins handa síþreyttum jarðarbörnum. Svo er hitt hvernig við verjum hvíldardeginum – og þar búum við við frelsi!

Já, það er vandi að vera frjáls því frjáls maður á val.

Hvar staðsetjum við okkur í heiminum? Erum við best og klárust? Stundum örlar á óheilbrigðri þjóðernishyggju í umræðu daganna hér á landi. Sumir tala opinberlega í anda slagorðanna sem sett voru fram hér í upphafi. Sumt í stjórnmálum Íslendinga kemur mér stundum fyrir sjónir sem gamaldags og úrelt. Sumir tala eins og þeir hafi dagað uppi á 19. öld þegar afstaðan til almennings birtist í máli þeirra, að maður tali nú ekki um afstöðuna til valdsins sem þeir telja sig hafa og vilja beita að eigin geðþótta.

Ef sumir eru gamaldags og fastir á 19. öldinni, mætti spyrja hvort presturinn sé ekki sjálfur fastur í hjólförum 1. aldar? Jú, hann er auðvitað á þeim vegi, vegna þess að það sem þá var kennt af þeim manni sem flesta fylgjendur á í heiminum, jafnvel á 21. öld!hefur enn ekki verið hrakið með rökum svo að orð hans verði send í úreldingu eins og gamall og ryðgaður togari. Enn siglir fley hans um snæfextar drafnir þessa heims og býður fólki far og til æfingar í þeim línudansi sem lífið er og verður, línudansi milli öfga tilverunnar, jafnvægis himins og heims.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús sögu af tveim mönnum, annar er hnakkakerrtur og viss í sinni sök en hinn er beygður og auðmjúkur. Hann teflir þeim fram sem andstæðum og dregur sjálfur ályktun af sögunni, velur annan umfram hinn. Oft lét hann áheyrendum eftir að velja en ekki hér. Hann hafnar hinum hrokafulla sem telur sig bestan en upphefur hinn sem veit sig vera þurfamann Guðs. Lífið er línudans. Að vera háleitur og hugumstór getur verið dyggð en líka löstur og auðmýkt getur einnig verið dyggð en líka löstur þegar hún verður að undirlægjuhætti. Dyggðir kristninnar hafa yfirvöld og þar með kirkjan notað í aldanna rás til að halda fólki niðri, þagga niður í því og þústa það en allir slíkir tilburðir eru auðvitað mistúlkun og misbeiting þess erindis sem kennt er frið fögnuð og frið, réttlæti og sannleika. Það er vont þegar slíkt gerist en þar með eru dyggðirnar ekki úreltar. Mestu skiptir að hafa rétta afstöðu til hlutanna. Sumir líta á Guð sem reiðan himnaföður og eru hræddir við hann meðan aðrir líta á hann sem vin sem unnt er að ræða við um allt milli himins og jarðar.

Og þá mætti nefna hér að kristin trú er ekki boð og bönn, lögmál og skyldukvöð við ósveigjanlegan Guð heldur vináttusamband. Trúin er í innsta eðli samfylgd á vegi vináttu og elsku. Kristin trú er ástarasamband Guðs og manns: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn, segir í kjarna NT. Kristin trú er þar með ekki trúarbrögð, kenningarkerfi og lögmálsbækur, heldur frjáls leið til að finna hið rétta í samtali persóna, samtali Guðs og manns í gegnum bæn og lestur og pælingar. Hún er samfylgt með honum sem sagðist vera vegurinn. Þessi hugsun um samtal Guðs og manns kemur skýrt fram í upphafsbæn messunnar, meðhjálparabæninni íslensku:

„Drottinn, ég er kominn í þitt heilaga hús til að lofa þig og ákalla og til að heyra, hvað þú, Guð faðir, skapari minn, þú, Drottinn Jesús, frelsari minn, þú, heilagi andi, huggari minn, vilt við mig tala í þínu orði . . . “

Þetta er samtal, samvera, samskipti . . .

Messan er samtal Guðs og manns, bænin er það líka og altarisgangan er boð um þátttöku allra í veislu himinsins og í þeirri mission Krists að gera þennan heim betri, réttlátari og sanngjarnari. Hún er opinn faðmur þar sem allir mega njóta þess sem í boði er.

Líf trúaðs manns er samræða við Guð. Móse fékk Guð meira að segja til að skipta um skoðun og skotinn sem valdi eigin grafskrift lét höggva þetta á legstein sinn:

Hér hvílir Martin Elginbrod

Miskunna sálu minni, Drottinn Guð,

eins og ég mundi gera

ef ég væri Drottinn

og þú værir Martin Eglinbrod.

Hvorum megin ætli þessi Martin stæði í dæmisögu dagsins? Kannski mitt á milli þeirra tveggja sem sagt er frá. Í það minnsta hugnast mér vel þessi kumpánlega afstaða því hún er í vissum skilningi í anda þeirrar vestfirsku afstöðu til valdsins sem ég ólst upp við. Berðu höfuðið hátt og hugsaðu stórt en gleymdu aldrei hlýrri afstöðu hjartans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður u aldir aldar. Amen.

Textar dagsins:

http://kirkjan.is/tru/kirkjuarid/a/11-sunnudagur-eftir-threnningarhatid/

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.