+Sæmundur Auðunsson 1954-2014

Sæmundur

Minningarorð 

 

Sæmundur Auðunsson

1954-2014

sjómaður

Útför frá Neskirkju miðvikudaginn 13. ágúst kl. 13.

Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum.

Friður Guðs sé með okkur.

Endastöð? Er þetta endastöð?

Hér lokast vegferð og hringur lífsins. Við kveðjum samferðamann í Neskirkju en hér var hann fermdur eins og öll systkin hans en prestar Neskirkju þjónuðu Seltjarnarnesi þangað til Seljarnarnesprestakall var stofnað. Fyrstur þeirra var séra Jón Thorarensen sem kominn var af sjósóknurum á Suðurnesjum eins og Auðun faðir Sæmundar og hafði sjálfur stundað sjóinn sem ungur maður. Þeir þekktu allt sem að sjómennsku laut og ræddu án efa margt á sínum tíma.

Nú hefur Sæmundur varpað ankeri sínu og staldrar við hér meðan við förum yfir ævi hans í örstuttu máli og íhugum lífið og tilveruna, neitum skrínukosts orðanna áður en við höldum sjálf aftur út á lífshafið. Lífið er einskonar sjóferð. Sagan af Jesú og lærisveinunum á vatninu forðum er saga okkar og túlka má hana líka sem sögu kirkju og þjóðar. Hún er um tilvist mannsins í ótryggum heimi. Það gaf á bátinn og mennirnir um borð urðu allir hræddir utan einn sem svaf í skutnum. Meistari þeirra var æðrulaus og óttaðist ekkert. Hann reis upp og hastaði á vindinn og vatnið og allt varð kyrrt. Verið óhræddir! Þessi orð sagði Jesús við fólk á förnum vegi. Óttist ekki. Trúið á Guð.

Fyrsta prestakallið sem ég þjónaði sem sóknarprestur er í Grindavík. Í kirkjunni þar er risastór mósaikmynd gerð eftir málverki Ásgríms Jónssonar sem sýnir Jesú og lærisveinana í bátnum. Kunnugir segja að sérstakur liturinn í öldufaldinum gefi til kynna að Ásgrímur hafi þekkt sjóinn og litbrigði hans til hlýtar. Í bakgrunni sést til lands og það er íslenskt landslag. Kristur lifir og hann var þar og hann er hér.

Sæmundur var eftirminnilegu maður og sérstakur á margan hátt eins og fram kemur í minningargreinum dagsins. Hann hafði dökkt yfirbragð og eilítið dulúðugt, fór sínar eigin leiðir í lífinu og leitaði víða fanga eftir visku og lífsfyllingu.

Sæmundur fæddist í Reykjavík 7. febrúar 1954. Hann var sonur hjónanna Auðuns Auðunssonar skipstjóra f. 1925, d. 2005 og Sigríðar Stellu Eyjólfsdóttur f. 1926 og elstur fimm systkina. Reyndar fæddi móðir hans 7 börn en 2 fæddust andvana. Þau sem komust á legg eru Björn Eyjólfur f. 1955, d. 2009, Steinunn f. 1957, Ásdís f. 1960 og Stella Auður f. 1966, d. 2008. Fjölskyldan hefur fengið á sig þung brot á liðnum árum og misst mikið en nú lifa tvær systur þennan 7 barna hóp.

Sæmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974 og stundaði ýmis störf á sjó og landi. Hann fór ungur á sjó og fékk að finna til tevatnsins. Karlarnir voru honum góðir en gáfu skipstjórasyninum þó engar undanþágur í hörkuvinnu hópsins. Auðun var einn af fengsælustu skipstjórum landsins á sínum tíma ásamt bræðrum sínum. Þeir stýrðu stórum skipum á þeim tíma sem þóttu mikil fley. Sjómennskan hefur breyst mikið á hundrað árum eða svo, bátar stækkað og skip nú sum orðin gríðastór og aðbúnaður skipverja á þeim nýjustu svo flottur að líkja má við lúxushótel í landi. Það er ólíku saman að jafna við það þegar menn réru á opnum bátum í lýsisbornum skinnklæðum með sýrukút og skrínukost.

Eftir menntaskólann hugði hann á frekara nám og fór til Svíþjóðar að læra hagfræði. Þar veiktist hann af krabbameini og það ásamt fleiru laskaði námsferil hans. Hann kom heim og innritaðist í HÍ og lagði stund á raungreinar og heimspeki um tíma. Hann var alla tíð leitandi maður, næmur og á vissan hátt viðkvæmur, en um leið harður. Hann gat verið þungur og skapmikill en undir niðri sló viðkvæmt hjarta og umhyggja fyrir samferðafólkinu.

Sæmundur var kvæntur Kristínu Róbertsdóttur um þrettán ára skeið en þau skildu árið 1999 en þau höfðu þekkst lengur. Þau áttu saman fallegt heimili, höfðu yndi af að elda góðan mat og fá gesti í heimsókn.

Þegar ég ræddi við ástvini hans um hann þá kom fram hjá þeim mikill söknuður og móðir hans sagðist alla tíð hafa elskað hann eins og hann var, með kostum og göllum. Hann reyndist henni mjög vel síðustu árin en hann bjó hjá henni eftir að hann skildi. Hann var henni umhyggjusamur sonur, eldaði gjarna mat heima, ók henni hvert sem var til að sinna erindum og var ræktarsamur við ættingja sína, einkum af eldri kynslóðinni. Hann var hugulsamur gagnvart systkinabörnum sínum sem hann færði gjarnan frumlegar og góðar gjafir.

Hann var traustur vinur vina sinna og ráðagóður enda víðlesinn og fróður um margt.

Hann lærði á píanó sem drengur og hafði alla tíð mikinn áhuga á tónlist og lagði sig á seinni árum eftir jazz og klassík og þá þungri klassík. Hann átti tvö píanó og lék oft sér til ánægju.

Hann hafði mikinn áhuga á skák og var sjálfur slyngur skákmaður, gat t.a.m. teflt blindskák og það margar í senn. Hann lék knattspyrnu á sínum yngri árum og var fjörugur strákur og félagi.

Sæmundur var alla tíð leitandi maður og las mikið. Hann kynnti sér búddisma og indverska heimspeki, kenningar Konfúsíusar og fleira. Hann var fróður um mannkynssögu, víðsýnn og ríkur af mannúð og réttlætiskennd. Hann var ekki auðtrúa á menn eða málefni og sá gjarnan í gegnum hræsni og sýndarmennsku í pólitík og mannlífi yfirleitt. Það er góður eiginleiki að geta skynjað innviði mannlífsins, séð í gegnum þokur daglegrar umræðu, séð siglingarleiðina, en svo er hitt hvort mönnum tekst sjálfum að rata hina réttu leið. Það er verkurinn. Sæmundur hefði getað siglt um lífshafið með öðrum hætti og verið sjálfum sér betri en ekki tjóir að fást um það. Hver er sinnar gæfu smiður, segir í máltækinu en það er ekki okkar að dæma um það hvernig menn binda sína bagga. Það er ekki hár aldur að verða sextugur en þótti nú gott hér á öldum áður þegar menn létust margir um miðjan aldur, farnir af kröftum. Sæmundur lést eftir blóðtappa í þörmum og var á sjúkrahúsi í 5 mánuði. Sjúkdómslegan var erfið en hann naut góðrar umhyggju lækna og hjúkrunarfólks og móðir hans, systur og ástvinir studdu hann til hinstu stundar. Sæmundur lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 31. júlí s.l.

Ég flyt ykkur kveðjur fjarstaddra ástvina:

Börn Steinunnar, Haraldur í Svíþjóð og Lísbet í Marokkó, senda kveðju sína.

Auðun, sonur Stellu, og Ingibjörg kærasta hans eru í Tælandi og senda kveðju.

Fjölskylda Péturs og Lísu í Danmörku sendir kveðju sína en Pétur er hér og fylgir frænda sínum hinsta spölinn.

Er þetta endastöð? var spurt í upphafi þessara minningarorða.

Trúarbrögðin, sem Sæmundur stúderaði og las svo margt um og tengja okkur hinu stóra semhengi, segja nei við spurningunni sem sem varpað er fram. Þau eru í grunninn vitnsiburður um leit mannsins að skilningi á tilverunni, túlkun hans á lífinu og tilvist hans í heim sem er stærri en hugurinn skynjar og skilur. Hvers vegna trúir fólk á 21. öld? Ætli það sé ekki eins og á öllum öldum að hugurinn leitar en ræður ekki við að skilja allt. En innra með sérhverri manneskju er vit sem nær lengra en hugurinn, getur skilið hið stóra og smáa þannig að mótsagnirnar ganga upp og allt verður að einu, stóru samhengi, innri vissu, sem ekki verður skýrð til hlýtar með rökum. Þetta innra vit köllum við hjartað en það er annað hjarta en það sem dælir blóðinu daga og nætur. Þetta hjarta er stundum nefnt brjóstvit. Mannsheilinn er sagður flóknasta fyrirbrigði lífsins á jörðinni en hann er samt takmarkaður og ræður ekki við allt. En hjartað, brjóstvitið, það nær lengra og sér dýpra og hærra, víðar og lengra. Og nú horfum við með augum hjartans og skynjum að á margan átt og í margvíslegum skilningi heldur lífið áfram eftir dauðann. Í það minnsta heldur það áfram í minningum okkar. Og svo er það hugur hins hæsta, minni Guðs, sem er stærra en öll gígabæt heimsins samantalin. Hann man þig og hann man mig, hann man Sæmund og horfna ástvini okkar. Og hann man um eilífð. Og ef við getum lifað í minningum fólks um hríð þá getum við lifað lengur, miklu lengur, í huga hans sem aldrei sofnar og aldrei slokknar.

Brátt verða landfestar leystar og hinsta siglingin hefst. Endastöðin er ekki hér.

Í sálmabókinni er sálmur sem hefst á þessum orðum:

Ég er á langferð um lífsins haf
og löngum breytinga kenni.

[. . .]

Og skáldið heldur áfram og segir:

Og stundum sigli ég blíðan byr
og bræðra samfylgd þá hlýt ég
og kjölfar hinna er fóru fyrr
án fyrirhafnar þá nýt ég.
Í sólarljósi er særinn fríður
og sérhver dagurinn óðar líður,
er siglt er fyrir fullum byr.

En stundum aftur ég aleinn má
í ofsarokinu berjast.
Þá skellur niðadimm nóttin á
svo naumast hægt er að verjast.
Ég greini’ ei vita né landið lengur,
en ljúfur Jesús á öldum gengur
um borð til mín í tæka tíð.

Mitt skip er lítið, en lögur stór
og leynir þúsundum skerja.
En granda skal hvorki sker né sjór
því skipi’ er Jesús má verja.
Hans vald er sama sem var það áður,
því valdi’ er særinn og stormur háður.
Hann býður: „Verði blíðalogn!“

Þá hinsti garðurinn úti er,
ég eigi land fyrir stöfnum
og eftir sólfáðum sæ mig ber
að sælum, blælygnum höfnum.
Og ótal klukkur ég heyri hringja
og hersing ljósengla Drottins syngja:
„Velkominn hingað heim til vor!“

Lát akker falla! Ég er í höfn.
Ég er með frelsara mínum.
Far vel, þú æðandi dimma dröfn,
vor Drottinn bregst eigi sínum.
Á meðan akker í ægi falla
ég alla vinina heyri kalla,
sem fyrri urðu hingað heim.

(Sb 720 – Tandberg – Valdimar V. Snævarr)

Svona túlkar kristið trúarskáld lífið og líkir því við siglingu sem á sitt mark og mið. Við erum öll á ferð um lífsins haf og vonandi eigum við örugga höfn framundan.

Við þökkum fyrir líf Sæmundar og allt það góða sem í honum bjó. Fjölskyldan þakkar og móðir hans ekki síst fyrir allt sem hann var henni á liðnum árum.

Blessuð sé minning Sæmundar Auðunssonar og Guð blessi okkur á siglingunni sem eftir er.

Amen.

Tilkynningar:

Bálför – duftkerið jarðsett í gröf föður og ungu systkinanna sem ekki komust á legg.

Erfi í safnaðarheimilinu.

Postulleg kveðja:

Guð vonarinnar . . . .

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.