Áttu flísatöng?

flisatongÖrn Bárður Jónsson

 

Prédikun við messu í Neskirkju sunnudaginn 13. júlí 2014 – 4. sd. e. trinitatis

 

Áttu flísatöng?

 

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Texta dagsins er hægt að nálgast á vefslóð neðanmáls.

Þetta gengur ekki lengur! Þetta getur ekki gengið svona lengur!

Þessi orð komu mér fyrst í hug þegar ég las texta dagsins. Þeir fjalla allir með einum eða öðrum hætti um háttaskipti, um að breyta hegðun sinni og háttum. Þetta er krítískir textar. Heyrum aftur þessar línur úr lexíu dagins og höfum í huga ástandið í Ísrael og Palestínu:

 

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

 

Hver er ástæðan fyrir ófriði og erjum á meðal manna? Hvað skortir til að friður geti orðið? Kem betur að því síðar.

Höfundur pistilsins er líka skorðinorðum en er þó ekki bara með áminningar í orðum sínum heldur talar hann fyrst um hið stóra samhengi. Við erum í Guði og verðum þar. Við erum eins og fiskarnir í hafinu. Þeir synda um og sjórinn rennur um tálknin þeirra. Þeir í sjónum og sjórinn í þeim. Við erum í Guði og Guð í okkur. Í ljósi þeirrar líkingar er það beinlínis broslegt þegar menn kannast ekki við Guð og verða þar með eins og fiskurinn sem veit ekki af hafinu sem hann lifir í.

Og vegna þess að við erum í þessu samhengi erum við hvött til þess að vera hvert öðru mennileg og góð, miskunnsöm og sanngjörn, réttlát og friðsöm. Við eigum að fyrirgefa hvert öðru.

Í samkeppni orðanna í íslenskri tungu sem haldin var fyrir skömmu skoraði orðið „fyrirgefðu“ nokkuð hátt og þótti með fegurstu orðum tungunnar. Það er gott að heyra en ég hefði heldur viljað heyra fólk kjósa orðið „fyrirgefning“. Hvers vegna er ég með þessa sérvisku? Jú, það er vegna þess að mér finnst allt of algengt að fólk misskilji orðið fyrirgefning og sá misskilningur kemur einmitt fram í boðhætti orðsins fyrirgefðu. Allt of algengt er að fólk slengi orðinu „fyrirgefðu“ framan í aðra og þar með fær það á sig skipunarblæ enda í boðhætti. „Fyrirgefðu“ segir fólk og búið. Og hvað á þá sá að gera sem orðið beinist að? Taka á móti orðinu orðalaust og þegja svo? Nei, fyrirgefning virkar ekki þannig. Hún er bæn, bón og á því að hljóða svona: Viltu fyrirgefa mér að ég særði þig? Viltu fyrirgefa mér? Það er beiðni. Og þá hefur sá val sem brotið var á, val um að segja: Já, ég fyrirgef þér. Svo getur þolandinn líka sett skilyrði fyrir fyrirgefningu sinni og báðir aðilar geta rætt brotið og sæst. Hann getur einnig valið að segja: Nei, ég er ekki tilbúinn til að fyrirgefa þér. Sögnin að fyrirgefa beygist persónulega í germynd: e-r fyrirgefur e-m e-ð. Þannig virkar sáttargjörð. Eitt fegursta orð íslenskrar tungu er því ekki að mínu mati „fyrirfgefðu“ heldur „fyrirgefning“ eða sögnin „að fyrirgefa“. Kenna þarf börnum í frumbernsku að sættast með þessu hætti að hinn brotlegi aðili beiðist fyrirgefninar og hinn veiti hana. Fyrirgefning er og verður ætíð gjöf, gefin af miskunn og náð, elsku og sáttarhug. Náðaður maður er og verður þar með í þakkarskuld. Í réttarkerfi okkar hafa verið gerðir tilraunir hin síðari árin með að láta fólk sættast og gera upp í stað þess að útkljá málin fyrir dómstólum. Það þykir mér góð þróun. Við þurfum að halda í hinar fornu hefðir sáttargjörðar og uppgjörs milli deiluaðila og gera þetta þjóðfélag sáttgjarnara. Um daginn skírði ég í húsi þar sem helftin af fólkinu tilheyrði stétt lögmanna. Ég ræddi þar um hugmynd Lúthers um hinn almenna prestsdóm sem fólgin er í því að allir skírðir menn, konur og karlar, séu almennir prestar og hafi þá köllun að inna sína guðsþjónustu af hendi í daglegu lífi með því að þjóna lífinu á heiðarlegan hátt. Ég sagði við lögmennina að þeirra hlutverk væri að leita sátta og það væri þeirra mikilvætasta guðsþjónusta. Einn í hópnum, stjörnulögfræðingur, kom til mín á eftir og sagðist aldrei hafa heyrt prest tala á þessum nótum og var hugsi en ánægður um leið, að ég held að sjá líf sitt í þessu samhengi.

Sáttargjörð er mikilvægt markmið í lífi einstaklinga og þjóða. Af hverju er ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs? Ég ætla að breyta þessari spurningu: Hvers vegna er ekki friður fyrir botni Miðjarðarhafs? Hvers vegna er sprengjum varpað á Gaza svæðið yfir saklausa borgara? Því er til að svara að friður er og verður ætíð ávöxtur réttlætis. Þar sem réttlæti skortir þar ríkir ófriður. En þar sem réttlætið ríkir þar býr fólk í friðsemd og frelsi.

Margir af fegurstu textum hinnar helgu bókar eru í Jesajabók, eins og t.a.m. þetta sem hann setur fram í orðastað Drottins (45:8):

Drjúpið þér, himnar, að ofan,

skýin láti réttlæti niður streyma,

jörðin opnist og láti heill spretta fram

og réttlætið blómgast.

Ég er Drottinn sem skapar þetta.

 

Jeramía spámaður minnir einnig á réttláta breytni í lexíu dagsins. Og aftur vitna ég í orð hans:

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

 

En hvernig er réttlætinu fyrir að fara hér heima? Hvers vegna eru deilur og óánægja meðal fólks hjá okkar fámennu þjóð sem stundum er sem ein fjölskylda en hefur hin síðari árin oft orðið sem sundruð hjörð?

Er það vegna þess að réttlætið drjúpi af hverju strái eða sanngirni fylgi hverjum sporði sem veiddur er? Er það vegna þess að hér sé réttlætið skráð í grundvallarlögum okkar, í gildandi stjórnarskrá? Nei, það er vegna þess að réttlætið skortir í samskiptum hagsmunahópa og í grundvallarlögum landsins, stjórnarskránni, sem er orðin sem slitið fat. Og nú á að bæta hana og laga í stað þess að skrifa nýja.

„Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa. Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi því þá springa belgirnir og vínið fer niður en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi og varðveitist þá hvort tveggja.“ (Matt 9.16-17)

 

Þetta sagði Jesús um hið gamla og hið nýja.

Hvers vegna líður mörgu fólki oft þannig að best sé að yfirgefa þetta guðsvolaða land og flytja til annars? Það er vegna óréttarins sem hér ríkir, spillingarinnar og ósáttfýsi þeirra sem vilja fátt annað en að skara eld að eigin köku. Og svo skrifa þeir og skrifa í blöð sín og miðla og benda á bjálkana.

Og nú bankar guðspjallið í öxl mína og spyr:

„Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Ég er ekki frá því að Jesús hafi sagt þessi orð glottandi og hún hafi ískrað í honum glettnin þegar hann lýsti manninum með bjálka í auga. Hann beitt oft slíkum yfirdrifnum samlíkingum.

Já, það er vandlifað í henni veröld. Hvernig á maður að lifa? Má ekki gagnrýna neitt? Á maður bara að beygja bak sitt undir svipur óréttlætisins og láta höggin ríða yfir? Var ekki Jeremía spámaður að tala um ábyrgð okkar á náunganum? Talaði hann ekki um félagslegt réttlæti og þar með um pólitískt hlutverk allra manna í þessum heimi?

Jú, en Jesús bendir okkur á breyskleikann sem er í öllum. Flísar og bjálkar eru í augum manna og mjög oft er stutt í dómhörku og vænisýki. Hvað er þá til ráða? Hvað getur kirkjan gert, hinn kristni heimur, til þess að verða ekki undir í átökum heimsins um hugmyndakerfi, völd og peninga? Hvað getum við gert?

Á síðustu öld sneri glíman að guðlausum stefnum, kommúnisma og nazisma. Mörgum þykir nú að islam ógni menningu Vesturlanda og sagt er að í Miðausturlöndum og Arabaheiminum séu islam og varaldarhyggjufólk eða guðleysingjar bandamenn í því að gjöreyða kristinni kirkju í löndum sínum. Um þetta er fjallað nú í Kristeligt dagblad. Þetta er að gerast í Írak og víðar. Ein elska kirkja veraldar í Írak er að verða að engu. Fólkið flýr. Margir fóru til Sýrlands og ekki tók betar við. Hér á landi búum við ekki við neinar slíkar ógnir en við búum við vaxandi skilningsleysi á hinum kristna menningararfi, hugsunarhátt veraldarhyggju, guðleysi og svo sofandahátt sem er e.t.v. skæðastur af þessu öllu. Hvað er til ráða? Prédika víðar? Skrifa fleiri greinar í blöð? Gefa út fleiri bækur um kristna trú og menningu? Já, allt þetta þarf að gera en það sem mestu skiptir eru ekki bækur og ræður. Eina leiðin er að sýna fram á ágæti kristinnar trúar, að af söfnuðum okkar spretti fram gott fólk sem tekur öðrum fram af sanngirni, kærleika og gleði en um leið að það sé tilbúið að berjast fyrir réttlæti og sanngirni með vopnum elsku og virðingar.

[Innskot um nýjan meirihluta í Reykjavíkurborg og sáttmála þeirra sem byggður er á aðfaraorðum frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá]

Nú er tími flísatanganna runnin upp og við kölluð til að draga úr augum okkar hið smáa og horfa ekki á aðra eins og þeir hafi allir bryggjustaura í sínum augum.

Þetta gengur ekki lengur! Þetta getur ekki gengið svona lengur!

Hver er þá leiðin til betra lífs og heims?

Hún er einföld fyrir fólk sem vill tilheyra krisitnn kirkju: Að ganga með Jesú, hlýða á orð hans, íhuga þau eins og við gerum hér í dag og halda svo út á lífsveginn nestuð af orði Guðs og visku – út á veginn – með Jesú!

Hann er eina leiðin til að lækna þennan heim og þar með okkur sjálf: „Jesús Kristur, sonur Davíðs, miskunna þú mér“, hrópaði Bartimeus blindi við veginn. Miskunnarbænin er sungin í hverri messu. Við eru fólk við veginn sem þarfnast þeirra miskunnar og lækningar sem aðeins einn getur gefið: Jesús!

Verkefni okkar hvers og eins er að finna út úr því með hvaða hætti við getum verið nær honum og fylgt honum fastar eftir. Það er spennandi verkefni!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Tilkynna sumarleyfi etc.

 

Textar dagsins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.