+Guðrún Pálína Dagsdóttir 1924-2014

Skólavörðustígur 2Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Guðrún Pálína Dagsdóttir

1924-2014

fv. ráðskona að

Skólavörðustíg 25

Útför (bálför) frá Bænhúsinu í Fossvogi föstudaginn 11. júlí 2014 kl. 13.

Að lokinni bálför verður duftkerið jarðsett í Keflavíkurkirkjugarði.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan en einungis æviatriðin eru til í texta, annað var flutt blaðalaust. Einhver vik frá textanum eru í flutningi ræðunnar og svo fengust nánari upplýsingar um fólk, ártöl og fleira, nokkru eftir að útförin fór fram. 

Myndin af Skólavörðustígnum var fengin að láni af vefnum.

Guðspjallið sem lesið var er neðanmáls.

Guðrún fæddist 16. ágúst 1924 og ólst upp á Eskifirði en foreldrar hennar sem voru Dalamenn fluttu þangað til að freista gæfunnar. Þau voru Dagur Jóhannsson f. 31.10.1892 á Víghólsstöðum, Fellsstrandarhreppi, Dalasýslu d. 30.6.1974 á Reykjalundi, verkamaður á Eskifirði og kona hans María Matthíasdóttir, f. 5.6.1891 í Litlu-Tungu, Fellsstrandarhreppi, Dalasýslu, d. 12.10.1953 í Hafnarfirði.

Guðrún átti einn bróður, Jóhann Björn Dagsson, f. 14.7.1931 á Eskifirði d. 21.6.2010 og bjó lengst af í Keflavík en þangað fluttu foreldrar hans og Guðrúnar á efri árum. Kona Björns, Margrét Jóna Jónsdóttir f. 1929 d. 2007.

Börn þeirra eru:

Dagbjartur f.1957,

Valur f. 1958,

María f. 1960,

Ingiþór f. 1964

og Bjarnveig f. 1965.

Þau bjuggu að Heiðarvegi 24 í Keflavík.

Guðrún fékk berkla á sínum yngri árum og dvaldi á „Hælinu“ eins og hún nefndi gjarnan Vífilsstaði. Hún var aldrei heilsuhraust en náði samt háum aldri og var að nálgast níræðisafmælið þegar hún lést á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 5. júlí s.l. Sem barn varð hún fyrir slysi er hún renndi sér á sleða og lenti á gaddavírsgirðingu og skaddaðist í andliti. Hún bar ör þess alla tíð. Í lok seinna stríðs 1945, þá 21 árs, hafði Maggý vinkona hennar samband en hún var alin upp á Eskifirði og var komin suður og útvegaði henni vinnu hjá fjölskyldunni að Skólavörðustíg 25 í Húsinu sem ég kalla svo með stórum staf hér eftir í þessum minningarorðum. Hún hefur búið hér syðra frá þeim tíma og var ráðskona í Húsinu í aldarfjórðung en bjó þar áfram eftir það í ein fjöritíu ár og naut lifeyris fjölskyldunnar sem réð hana. Hún sá um heimilishaldið og þjónaði fjölskyldunni. Fjölskydlufaðirinn hét Björn Gunnlaugsson og er sagður í Íslendingabók hafa verið: „Bóndi og gullsmiður á Gilsstöðum [1847-1925]. Húsbóndi í Reykjavík 1910“.  Nafn konu hans hef ég ekki [Hér koma seinna fengnar upplýsingar um eiginkonu hans en hún hét Margrét Magnúsdóttir og var frá Dæli í Víðidal f. 1850, d. 1945] ]en þau áttu mörg börn sem urðu fjölskyldufólk en 4 þeirra sem ekki stofnuðu fjölskyldu bjuggu í Húsinu móður sinni þegar Guðrún kom þangað en hún dó fljótlega eftir það.  Þau hétu Margrét d. 1956, Einar, kaupmaður, d. 1961, Friðrik Valdimar, lænir d. 1968 og Guðmundur, kaupmaður d. 1970. Guðrún var fyrst ráðin í vist í einn vetur en þá brotnaði Margrét og heimilið þurfti meiri aðstoð og því ílentist Guðrún þar. Hún bjó í húsinu meðan systikinin lifðu og í erfðaskrá þeirra var skráð að hún mætti búa þar til æviloka og meira en það, hún fékk frá þeim lífeyri til 67 ára aldurs. Guðrún bjó í húsinu til 2001. 

Systkinin féllu frá eitt af öður, Margrét 1970 og Friðrik Valdimar, sem var læknir, dó 1956. Bræðurnir Einar og Guðmundur ráku Sportvöruhús Reykjavíkur, þar sem m.a. voru seldar ýmiss konar sportvörur, ljósmyndavörur og þess háttar. Þeir foru einnig með umboð fyrir FACIT-vörumerkið.  Fyrirtæki þeirra var fyrst  í Bankastræti en svo fluttu þeir reksturinn í hús sem byggt var við hlið Skólavörðurstígs 25 og ráku það í mörg ár. Facit vörumerkið er þekkt af ritvélum og reiknivélum. Ég fann skemmtilega auglýsingu um Facit í Morgunblaðinu í júní 1926 þar sem [Takið sérstaklega eftir orðinu „geðgóðan“ í auglýsingunni!]

Facit auglýsing 1926Hún þjónaði fólkinu af trúmennsku og natni  alla tíð, sá um innkaup, matseld, þrif og þvotta, veislur og móttökur og hvað eina sem þurfti að gera á fínu heimili í Reykjavík. Hún fór oft með systkininum í bústaðinn Munkastein á Þingvöllum en þar dvöldu þau sumarlangt um árabil. Bræðurnir voru veiðimenn, einkum einn þeirra, og upphaflega var þarna lítill veiðikofi sem síðar óx í myndarlegan bústað. Vaxandi trjágróður prýddi staðinn eftir því sem árin liðu og gerði staðinn að sönnum sælureit.

Hún var alla tíð einhleyp og barnlaus en bróðurbörnin voru henni kær. Bróðurdóttir hennar, María Björnsdóttir, kom oft til hennar á Skólavörðustíginn og dvaldi hjá henni um tíma meðan hún sótti nám hárgreiðslu í Iðnskólanum í Reykjavík sem er steinsnar frá á Skólavörðuholtinu. Hjá bræðrunum var oft frænka þeirra og jafnaldra Maríu og léku þær sér saman í æsku.

Eftir að síðasti bróðirinn féll frá var húsið ánafnað Skógræktarfélagi Húnavatnssýslu en Skógræktarfélag Reykjavíkur annaðist rekstur þess. Um tíma hafði Landvernd þar bækistöð á 2. hæðinni en á fyrstu hæð bjuggu um árabil, Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari og maður hennar Rúnar Guðmundsson. Börn þeirra Svanhvít Helga, Rabekka Hlín og Jónasi Þór urðu Guðrúnu hjartfólgin og ekki síst Rebekka sem naut þeirrar gæfu að hafa fæðst sama dag og faðir Guðrúnar. Hún var þeim sem besta amma og fjölskyldan hafði samband við Guðrúnu til hinsta dags.

Guðrún Pálína var traust kona sem vann sín störf af alúð. Hún bjó í risinu eftir að systkinin vour fallin frá en þegar árin færðust yfir hana varð það erfiðara og erfiðara að klifra ráðskonustigann upp á 3. hæð.  Þá kom að því að maður nokkur vildi kaupa húsið en Guðrún hafði þar búseturétt til æviloka. Hann keypti því íbúð handa henni á Snorrabraut 56 í þjónustuhúsi með lyftu og þar naut hún góðra daga í 10 ár þar til hún flutti á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund þar sem hún dó eftir að hafa dvalið þar í eitt og hálft ár og notið þar góðrar umhyggju og þjónustu. Hún hafi dottið illa og laskast og því gat hún ekki lengur verið ein. Sigrún Lilja og hennar fólk hélt ávallt sambandi við hana og þau færðu henni mat og veittu henni margvíslegan stuðning sem vert er að þakka fyrir. Hún var hjá þeim á jólum og öðrum tímum eftir að Björn bróðir hennar dó og einnig oft hjá Maríu bróðurdóttur sinni. Guðrún hafði reynst þeim vel og hún fékk það svo sannarlega til baka. Þannig virkar nú hagfræði himinsins sem ég kalla svo og er fólgin í því að því meir sem þú gefur þeim mun meira færðu til baka.

Hún var góð manneskja sem sagði jafnan sína meiningu. Hún færði bróðurbörnum sínum gjafir á jólum og þau komu í heimsókn en sum voru henni nærri en önnur eins og gengur og gerist.

Sigrún Lilja lýsti henni í mín eyru sem sönnum Íslendingi af gamla skólanum, manneskju með skoðanir sem var hreinskiptin, sagði sína meiningu umbúðalaust og lét fólk heyra það, eins og sagt er. Hún var sérlunduð og alls ekki allra en hafði gott hjarta. Hún var berdreymin og sá fyrir hluti en alls ekki upptekin af trúmálum. Hún var þó skírð og fermd eins og flestir Íslendingar og mótuð af íslenskir menningu og sið.

Hún átti góðar minningar um fjölskylduna í Húsinu sem hún þjónaði og sem gerði henni svo undur vel til af örlæti sínu og höfðingskap.

– – –

Upplýsingar um gjöf bræðranna á Skólavörðustíg 25 til Skógræktarfélags Húnavatnssýslu eru hér.

Guðspjallið

Matteus 25:14-30

Talentur
14Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. 15Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. 16Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. 17Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. 18En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. 20Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. 21Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
22Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. 23Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
24Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. 25Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.
26Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. 27Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. 28Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. 29Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. 30Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.