Veislur í Vonarstræti

VonarstrætiÖrn Bárður Jónsson

 

Prédikun við messu í Neskirkju sunnudaginn 29. júní 2014 – 2. sd. e. trinitatis

Veislur í Vonarstræti

Textar dagsins: http://kirkjan.is/tru/kirkjuarid/a/2-sunnudagur-eftir-threnningarhatid/

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

 

Úti um alla borg, í bæjum og sveitum þessa lands er boðið til veisluhalda dag hvern. Fólk eldar og grillar og matreiðsluþættir njóta vinsælda í fjölmiðlum. Viðburðir í menningarlífi eru margir og virkni fólks á því sviði líklega vel yfir meðallagi í samanburði við umheiminn. Við erum alltaf að bjóða til viðburða. Veislur eru haldnar á lífsveginum.

Kristindómurinn er viðburður. Hann er menningardagskrá. Hann er stór veisla handa heiminum.

Þetta kann að hljóma gáleysislega en í grunninn er kristin trú boð um að stíga inn í nýjan veruleika fagnaðar og lausnar.

Texti lexíunnar úr GT vísar til mikillar veislu á fjallinu helga. Þetta fjall er hæðin fagra í Jerúsalem þar sem musterið var. Fjallið er fyrirmynd hinnar himnesku borgar þar sem réttlætið býr og miskunnseminn ríkir. Þetta er hið mikla vonarfjall. Við eigum til örnefni á Íslandi sem er Vonarskarð. Ég fletti örnefninu upp upp og fann þetta:

 

Vonarskarð er á milli Bárðarbungu (2000m) í Vatnajökli og Tungnafellsjökuls (900-940 m.y.s.). Nafn þess er talið vera frá landnámsöld, þegar Bárður Heyjangurs-Bjarnason, landnámsmaður í Bárðardal fór suður Bárðargötu með allt sitt hafurtask að vetri til. Hann fann að sunnanvindar voru hlýir í Bárðardalnum og ákvað að flytja suður í þeirri von að þar væru búsetuskilyrði hagstæðari. [. . . ]

Ekki er hægt að minnast á Vonarskarð án þess að rifja upp frægasta erindið úr kvæðinu Áfangar eftir Jón Helgason:

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði
mér er þó löngum meira í hug
melgrasskúfurinn harði
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.
http://www.nat.is/travelguide/vonarskard_ferdavisir.htm

 

Blómin smá berjast til lífs í vonlitlum aðstæðum á hálendi Íslands til þess eins að lofa Guð og skreyta veisluborð lífsins.

Þessi umfjöllun af vefnum vísar til vonarinnar um betri tíð, betri búsetuskilyrða. Þau eru mörg sem vona á slíkt og sum þeirra sem þannig hafa hugsað hafa fundið sér nýjan stað hér á landi eða öðrum löndum sem þeim finnst vænlegri til búsetu.

Við erum ætíð að leita hamingjunnar og betri tíðar með einum eða öðrum hætti. Kosningar í lýðræðisríki eru tilboð á fjögurra ára fresti um að veðja á betri tíð. Vandinn er að greina hismið frá kjarnanum í hverju tilfelli og falsspámenn frá þeim sem boða hið sanna. Það er vandlifað í henni veröld. Tilboðin eru ótalmörg og valið oft á tíðum erfitt.

Jesús flytur okkur dæmisögu um veislu sem halda átti og valkosti boðsgesta. Menn voru sendir út af örkinni til að bjóða til veislunnar því engin nútímatækni var til. Sendiboðarnir fengu misjöfn svör. Allir voru uppteknir við þetta eða hitt og enginn gaf sér tíma til að mæta til hinnar miklu veislu. Húsbóndinn reiddist eins og vera ber og bauð því að kalla skyldi á almúgafólk sem mætti til fagnarðins og naut hans.

Sagan er í raun rammpólitísk sem slík. Hér er skotið á alla sem höfnuðu Jesú og vildu ekkert hafa með boðskap hans að gera. Það voru einkum Gyðingarnir, landsmenn Jesú, sem töldu sig hafa sannleikann í vasanum og vita allt um vilja Guðs í lögmálinu sem birtist í fyrstu fimm Mósebókunum í GT. Þeir þurftu ekki á neinum nýjum boðskap að halda. Þeir voru uppteknir við að finna út úr lögmálinu hvað mætti og hvað ekki. Fólk getur orðið svo upptekið við að telja barrnálarnar í skóginum að það sjái aldrei greinarnar hvað þá skóginn í heild sinni eða m.ö.o. fái aldrei yfirsýn yfir það sem mestu skiptir.

Við erum upptekið fólk upp til hópa. En við hvað erum við að fást alla daga? Erum við að fást við það sem mestu skiptir eða erum við upptekin af því sem gerir okkur fjáls, leysir okkur, gleður og eflir?

Okkur hefur verið boðið til veislu. Við vorum tekin inn í veislusalinn þegar við vorum skírð og þá vorum við vissulega í veisluklæðum. Ég skíri mörg börn á hverju ári og hef gjarnan fund með foreldrum fyrir skírnina einkum þegar ég skíri fyrsta barn. Þar ræði ég um trúna, um vígslu skírnarbarnsins inn í kristna trú, inn í himinn Guðs, inn í Guðsríkið, inn í eilífðina sjálfa. Eilífðin hefs nefnilega ekki við dauðans dyr heldur í skírninni. Skírður maður, karl eða kona – og NB konur fengu strax jafnan rétt á við karla í heilagri skírn – lifir í senn í heimi tímans og eilífðinni. Og þegar lífinu í heimi tímans lýkur þá heldur eilífðin áfram eða eins og segir í einum skírnarsálminum:

Og við takmörk tímans áfram lifa
fyrirheitin þín við skírnarfontinn,
:,: skírnarljósið skín, þá lífið slokknar. :,:

(Sb 585:5)

Og þetta líf sem Guð gefur í skírninni er heilagt, það er frelsandi, gleðifyllt, ástríkt. Í pistli dagsins er minnt á skylduna um að elska náungann

Í pistli dagsins segir:

„Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“

Hér er minnt á alvarleika lífsins og ábyrgð gagnvart náunganum. Stefið er hið sama og síðasta sunnudag um að ljúka ekki aftur lófa sínum fyrir þurfandi fólki.

Saga unga mannsins sem laminn var í strætóskýli í Vonarstræti á dögunum er hrollvekjandi því enginn sinnti honum þrátt fyrir að hann kallaði eftir hjálp. Vonarstræti. Hugsaðu um nafnið. Gatan sú hét eitt sinn Heilagsandastræti en vísar nú til hinnar himnesku vonar.

Menning sem gleymir sögunni um Miskunnsama Samverjann batnar ekki við þá gleymsku. Nú geri ég mér þess fulla grein að ekki má oftúlka þetta atvik. Ofbeldismaðurinn er án efa sjúkur og þarfnast hjálpar og afsakanir vegfarenda með ýmsu móti eins og í veislusögu dagsins.

En var þetta kall mannsins eftir hjálp e.t.v. boðskort í veislu himinsins? Eru tilboðin sem við fáum í daglegu lífi um ábyrgð og hjálp kannski raunveruleg boðskort til veislu himinsins og þegar við ljúkum aftur lófa okkar og bregðumst náunganum vegna þess að við erum upptekin við þetta eða hitt þá erum við að útiloka okkur frá sjálfri veislu Guðs almáttugs, hinu himneska partýi sem enginn má missa af?

Verður öðrum boðið þegar við bregðumst:

„Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“

Tilboðin á lífsveginum eru mörg. Hvernig ætlum við að bregaðst við þeim í ljósi veislunnar miklu?

Þetta er spurning um ábyrgð en svo er á hitt að líta að við höfum þegið boðið með því að koma til messu, með því að ganga til fundar við Guð eins og kemur svo vel fram í upphafsbæn messunnar. Messan er veisla himinsins og það kemur fram í ritúali þakkargjörðarinnar þegar máltíðin er blessuð á altarinu að þessi veisla er hluti af þeirri veislu himinsins sem nú stendur yfir og mun standa þar um eilífð.

Og þegar við höldum héðan og aftur út á lífsveginn skulum við hlusta eftir þeim boðum sem berast um þátttöku í veislu og verki Guðs á veginum. Missum ekki af þeim góðu tækifærum sem lífið færir okkur til þjónustu við Guð og menn. Það er í sjálfu sér veisla.

Velkomin til veisluhalda á Vonarstrætum lífsins og til veislu himinsins!

Dýrð sé Guði . . .

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.