Ríkir og fátækir, molar og miskunn

Rich man poor manÖrn Bárður Jónsson

 

Prédikun  í Neskirkju

sunnudaginn 22. júní 2014 – 1. sd. e. trinitatis

Ríki maðurinn og Lazarus

Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og lesa. Sumu í textanum var sleppt og öðru bætt við. Hljóðupptakan geymir það sem sagt var. Textar dagsins sem lagt var út af í ræðunni eru neðanmáls.

 

 

Boð Jesú um að elska náungann er róttæk krafa um félagslega ábyrgð og pólitíska afstöðu til lífsins. Að elska náungann vísar til þess að við tökum ábyrgð á samferðafólki okkar. Þessi hugsun er ævarforn og kemur mjög skýrt fram í GT. Stundum er því haldið fram að GT og NT séu svo ólkir þættir Biblíunnar að nánast sé annan Guð að finna í því gamla en í því nýja. Svo er ekki, heldur má greina þróun hugmynda um lífið og tilverunar, um mann og heim í báðum þáttum þessa mikla rits sem Biblían er. Lexía dagsins er um að það að mæta þörfum fátækra, að vera miskunnsamur og ljúka ekki aftur lófa sínum fyrir þeim sem þurfandi eru.

Fátækt er ekki ný af nálinni en samfélagið hefur þó breyst mikið á þrjúþúsund árum. Fátæktin er e.t.v. meira dulin nú en forðum og svo er hið félagslega kerfi til staðar sem tekur utan um fátæktina og „felur“ hana fyrir okkur að nokkru leyti. Hún er eins og dauðinn sem er falinn inni á stofnunum að mestu leyti nú á tímum.

Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur, sagði Jesús.  Við verðum víst að bíta í það súra epli en hvernig eigum við að taka á málefnum fátækra? Um það deilir fólk í flokkum á hinu pólitíska sviði. Sumir telja að mestu skipti að atvinnulífið sé svo öflugt og fólk hafi næg tækifæri til þess að efnast svo að molarnir hrynji af borðum þeirra og til hinna fátæku. Vissulega er mikilvægt að fólk hafi frelsi til athafna og megi efnast.

Aðrir vilja ekki að neinn græði nema ríkið sem sjái svo um að deila út gæðum heimsins. Vissulega er ríkið ómissandi þáttur mannlegs samfélags nú á tímum.

Svo eru til ótal tilbrigði við hvort tveggja og miðjan kýs væntanlega að frjáls markaður sé mikilvægur og að félagsleg ábyrgð sé ríkur þáttur í samfélaginu. Miðjan sameinar sterku litina til hægri og vinstri. Allir viðurkenna að til sé þurfandi fólk í landinu og heiminum. Þegar Jesús talaði um að fátækt verði ávallt til, studdist hann örugglega ekki við félagsfræðilegar kannannir eða rannsóknir. Hann vissi og þekkti eðli manna. En nú hefur það komið í ljós að samfélagsleg aðstoð getur snúist upp í andhverfu sína og gert fólk svo háð henni að það fari aldrei aftur út að vinna og að fólk festist hreinlega í fátæktargildru og sú gildra haldi börnunum líka, barnabörnunum og jafnvel næstu kynslóðum. Þá er hjálpin orðin að eldistöð atvinnulausra og fátækra sem aldrei var ætlunin. Elska mannsins gerir hjálpina mögulega en breyskleiki mannsins gerir hana að andhverfu sinni. Svona er lífið. Ætíð er höggormur í Paradís sem skrumskælir hið góða og snýr því upp í andhverfu sína. Þess vegna höfum við verk að vinna. Hið illa kemur af sjálfu sér en vinna þarf að hinu góða.

Í grein sem ég las í NYT fyrir nokkrum misserum er komið inn á þessi mál með sérstökum hætti. Ég þýddi greinina og fékk leyfi NYT og höfundarins sem er fræðimaður við Harvard háskólann til að birta hana hér á landi en greiða þurfti fyrir birtinguna og það vildi blaðið ekki gera sem ég hefði samband við og því er hún bara í tölvu minni og hef ég leyfi til að nota hana sjálfur og á mínum netsíðum. Mig langar til að leyfa ykkur að heyra þessa grein því hún opinberar með sérstökum hætti gildagrunn Evrópu og afstöðu til fátæktar og aðstoðar.

Greinin hljóðar svo:

 

Lúterskur mergur þýsku aðhaldsstefnunnar

Eftir Steven Ozment

Birtist í vefútgáfu The New York Times 11. ágúst 11, 2012 og á prenti daginn eftir.

Ef til er eitt þjóðerni sem umheimurinn telur sig skilja auðveldlega og algerlega til fulls, þá eru það Þjóðverjar. Settu í einn pott nasismann og gyðingahatrið og sjá! – 2000 ára spennandi og flókin saga hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Frá upphafi evru-kreppunnar, hefur þessi smættarhyggja, sem gætir í senn innan Þýskalands og utan, síast inn gegnum örlagaríka arfleifð Weimar-tímans, árin sem gáfu fyrirheit um lýðræði í kjölfar niðurlægingar Fyrri heimstyrjaldarinnar og endaði svo með valdatöku nasista 1933.

Annars vegar er því haldið fram að óðaverðbólga þriðja áratugar síðustu aldar útskýri andúð Þýskalands á þenslu-hvetjandi peninga- og fjármálastefnu í dag. Hins vegar að fingraför nasista á millistríðsárunum sanni fyrir sumum að jafnvel nú árið 2012 sé lýðræðislega þenkjandi Þjóðverjum ekki treystandi þegar kemur að velferð Evrópu.

Við skulum líta lengra aftur en til hins flekkaða Weimar-lýðveldis og kafa dýpra í óviðjafnanlega og ríka sögu Þýskalands og þá sérstaklega þau óafmáanlegu spor sem Marteinn Lúter markaði í söguna og þá „borg á bjargi“ er hann byggði með áhrifum sínum á Mótmælendatrúna. [Aths. þýðanda: Hér er vísað í sálminn Vor Guð er borg á bjargi traust sem er einskonar „þjóðsöngur“ Mótmælenda, einkum lúterskra, á ensku A Mighty Fortress Is Our God og á þýsku, Ein feste Burg ist unser Gott]
Jafnvel enn í dag – og enda þótt trúarleg fjölbreytni og veraldarhyggja sé við lýði í Þýskalandi – skilgreinir þjóðin sig og hlutverk sitt út frá skrifum og gerðum siðbótarmannsins á 16. öld sem skildi eftir sig skýra og skorinorða skilgreiningu á lúthersku samfélagi í ritgerð sinni Frelsi kristins manns hverrar efni hann dregur saman í tveimur setningum:  „Kristinn maður er  frjáls drottnari allra hluta og  engum undirgefinn. Kristinn maður er ánauðugur þræll allra hluta og hverjum manni undirgefinn.“ [Um frelsi Kristinn manns, ísl., þýð Magnús Runólfsson,  Reykjavík 1967, s.11]

Skoðum afstöðu Lúters til líknarmála og fátækrahjálpar. Hann gerði fátækrahjálp að skipulagðri og félagslegri skyldu með því koma upp fátækrakistu [sjóði] í hverjum þýskum bæ. Í stað þess að skriplast áfram eftir vegi hefðbundinna ölmusugjafa til þurfandi fátæklinga lagði Lúter til að þeir fengju styrk eða lán úr sjóðnum. Hver sem þannig fékk framlag lofaði að borga lánið til baka eftir að hafa náð tökum á vanda sínum og orðið sjálfbær. Þar með tók hann ábyrgð á náunga sínum og sjálfum sér. Þannig birtist elskan til náungans með því að axla sameiginlegar byrðar samfélagsins sem lútherskir kalla „trú sem starfar í kærleika“.

Lítið hefur breyst á 500 árum. Þýski kanslarinn, Angela Merkel, sem er fædd og skírð af austur-þýskum, lúterskum presti, [föður sínum] trúir augljóslega að hinar aldagömlu siðferðilegu dyggðir og úrræði séu bestu læknislyfin í evru-kreppunni. Hún hefur enga löngun til að þröngva veraldlegri hugmyndafræði, hvað þá skipulagðri trú, uppá landa sína, en stjórnmálastefna hennar er greinilega mótuð af nægjusemi og fórnfýsi, en um leið af örlæti og sanngirni í anda Mótmælendatrúar.

Ef frú Merkel neitar að styðja svokölluð evru-skuldabréf, er það ekki vegna þess að það væri eins og að gefa fé til óverðugra fátæklinga heldur vegna þess að það myndi ekki hjálpa fátækum að taka ábyrgð á eigin lífi og verða sterkir í þágu sjálfra sín og þurfandi náunga. Sá sem þiggur og nær sér og hefur hag af samfélaginu þegar hann er þurfandi ber siðferðilega ábyrgð á að endurgreiða samfélaginu til baka og sýna þar með að hann er sterkur þjóðfélagsþegn sem getur fyllt á hinn sameiginlega sjóð og lagt fram sinn skerf handa þeim sem nú eru þurfandi nágrannar og hjálpuðu honum forðum. Þannig virkar fórnfúst lúterskt samfélag.

Fyrir þessi sjónarmið hefur frú Merkel verið uppnefnd „meinlætadrottning“ og annað verra. En hún er hvergi bangin. Hún viðurkennir að aðhald sé erfiðasta leiðin heim en bætir við að hún sé öruggasta og fljótlegasta leiðin til að ná efnahagsbata og fullu valdi á kreppunni. Lúter væri henni algjörlega sammála. Samkvæmt skoðanakönnunum eru Þjóðverjar einnig sammála frú Merkel. Þeir halda fast í trú sína sem borin er uppi af sterkum lúterskum kenningum um að mannlegt líf fái ekki þrifist í letingjaborgum og gjálífislöndum. Þeir vita að fé verður ætíð af skornum skammti og að markvisst þarf að vinna að öflun þess, skráningu og gæslu áður en því verður veitt til nýrra lántakenda og beiðenda.

Þeir hugga sig við þá staðreynd að þau lönd sem fylgt hafa hinni þýsku fyrirmynd og hlýtt lögum um aðhald og öðrum björgunaráætlunum kanslarans hafa náð bata ólíkt eyðsluklóm eins og Grikkjum og Ítölum.

Ef hin lúterska arfleifð um að fórna sér fyrir náungann veldur því að Þjóðverjar velja aðhaldsleiðina þá mun hún einnig leiða þá til félagslegrar skuldbindingar. Hin lúterska kenningu um að hinn trúaði frelsist einungis „fyrir trú“ dregur ekki úr hinni sístæðu þörf fyrir kærleiksrík góðverk eins og illa upplýstir gagnrýnendur staðhæfa gjarnan. Trúin eflir frekar hinn trúaða til góðra verka í heiminum með því að eyða áhyggjum hans á yfirstandandi tíð og um framtíð alla.

Vissulega hefur dregið úr lúterstrú á síðustu áratugum í Þýskalandi meðan bylgjur fjölhyggju og veraldarhyggju hafa hvelfst yfir landið. En á sama tíma sýna Þjóðverjar af ólíkum uppruna mikla hlýju í garð nýkjörins forseta, Joachims Gauck, sem er fv. prestur í lútersku kirkjunni.

Vissulegar er lúterstrú ekki eina lifandi þjóðfélagsaflið í Þýskalandi nútímans. En hún er merkur hluti af tvöþúsund ára sögu landsins, sem einkennist af fórnfýsi og þrautseigju. Á 4. öld voru það þýskir stríðsmenn sem mönnuðu næstum hverja yfirmannsstöðu í rómverska hernum. Seinna breyttu Þjóðverjar norður- og mið-evrópskum auðnum í nægtahorn – og á síðustu áratugum í öflugt iðnveldi.

Og það sem meira er um vert, lúterstrú lifði bæði af hægristefnu nasismans og vinstristefnu kommúnismans sem báðar reyndu að uppræta trúna og setja sína eigin í staðinn. Seiglan kemur hvað skýrast í ljós þegar trúnni er ögrað af umskiptum.

Með stöðugri framsókn islam í Evrópu á síðustu tveimur áratugum og í ljósi látlauss efnahagslegs þrýstings frá nágrönnum, kemur það ekki á óvart að Þjóðverjar af ólíkum uppruna hafa enn á ný uppgötvað í sínum gyðing-kristna arfi „borg á bjargi traust“.

Steven Ozment er prófessor í sagnfræði við Harvard og höfundur bókarinnar: The Serpent and the Lamb: Cranach, Luther, and the Making of the Reformation.

Sagt hefur verið að hvergi sé maðurinn jafn einsamall og í margmenni. Auðveldara er að hverfa og fela sig í borgarsamfélagi en litlu þorpi. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort leiðin til þess að ná utan um fólk í flóknum heimi sé að skipta þjóðfélaginu upp í litlar einingar í stað stórra heilda. Í afrísku ortaki segir að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Við lifum í þjóðfélagi sem lengst af hefur beitt þessari aðferð. Börn hafa notið umhyggu stórfjölskyldunnar og nú þessa dagana þegar ég jarðsyng hvern öldunginn á fætur öðrum, fólk sem fæddist á fyrri hluta liðinnar aldar, þá kemur oft í ljós í ættarsögum þessa fólks að stórfjölskyldan sá um sína. Börn einstæðra mæðra voru fóstruð af ömmu og afa og svo framvegis og ekkjur nutu sama stuðnings stórfjölskyldu sinnar. Nú er þetta að hverfa smátt og smátt, a.m.k. í nágrannalöndunum þar sem fjölmenni er meira og lengra á milli fólks. Af því leiðir að einsemdin verður meiri og fólk meir upp á hið opinbera komið. Ef við hugsum þjóðlífið í þorpseiningum þá verður mannlífið eins og stór þorpaklasi þar sem allir tilheyra hæfilega stórri einingu sem passar upp á sína. Ég veit ekki hvort hægt er að framkvæma slíka hugmynd á tímum takmarkalítils frelsis þar sem allir vilja ver frjálsir og óháðir öðrum. Individualisminn endar í einsemd og ef hið opinbera kerfi hjálpar ekki til ferst fólk í einsemd sinni og nekt.

Ég þykist vita að menn geti skotið þessar hugmyndir mínar í kaf með einföldum hætti en samt finnst mér þær svo manneskjulegar og rætur þeirra svo djúpar í sögu heims og mannlífs að vert sé að gefa þeim gaum. Sumir munu væntanlega kalla þetta kommúnisma og það væri skondið að fá á sig slíkan stimpil verandi kominn af bláu íhaldi sem reyndar í mínu tilfelli var félagslega þenkjandi íhald.

Nóg um það. Fátækir verða áfram hjá okkur og krafa Jesús um að elska náungann er pólitíks yfirlýsing um ábyrgð á samfélagi okkar. Kristin trú er ekki, var ekki og verður aldrei, samfélag skýjaglópa, sem sjá ekki verkefnin í heimi tímans.

Grunnhugsunin er elskan og samkenndin, empatían, sem er svo mikilvæg í öllum samskiptum fólk.

Elska Guðs er grunnstef tilverunnar. Innst í kjarna alls þess sem skapað er – er elska. Heimurinn er grundvallaður á elsku og því er spurningin þessi:

Er hægt að lifa í andstöðu við þann grunn og komast af?

Dýrð sé Guði . . . .

 

Ritningartextar dagsins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.