Minningarorð
Sigurlaug Erla Jóhannesdóttir
hjúkrunarfræðingur
1933-2014
Útför (bálför) frá Neskirkju fimmtudaginn 5. júní 2014 kl. 13.00.
Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar eru neðanmáls og sálmaskrá.
Þegar kærastinn kom fyrst að Gauksstöðum að vitja heimasætunnar var hún við mjaltir og mjólkaði með gamla laginu. Hún unni kúnum og var alla tíð mikill dýravinur. Lauga fæddist á mörkum hins gamla og nýja tíma. Um aldir hafði fólk lifað af sjósókn á Garðskaga og haft skepnur. Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála, þar á meðal Gauksstaðir. Gegnum aldirnar hefur verið mikil sjósókn frá Garðinum enda stutt á fengsæl fiskimið. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 heimilisfastir í Útskálasókn. Menn réru á opnum bátskeljum út á Garðsjó og lengra í glímunni við ægi og leyndardómsfullt djúpið þar sem helftin að förðurlandinu er hulið sjó. Fjölin ein skyldi að mann og hafdjúp. Þá fóru menn með sjóferðabænir og skynjuðu smæð sína andspænis öflum tilverunnar. Þannig var lífið þá – og er reyndar enn þótt aðrar fjalir skilji okkur að frá lífsins djúpum.
Lauga ólst upp á mörkun tímanna, þekkti verklag fólksins eins og það hafði verið um aldir en gekk til móts við nýja tíma, hugrökk og sterk. Hún lifði miklar breytingar á ævi sinni, sá Ísland rísa upp úr móðu aldanna og inn í birtu hins nýja, tæknivædda heims þar sem allir hafa eða eiga í það minnsta að hafa jöfn tækifæri. Hún kom úr 14 systkina hópi og þegar þrjár systur hennar höfu farið á húsmæðraskólann á Blönduósi og ekki snúið aftur vegna þess að húnvetnskir strákar kyrrsettu þær þá sagði Jóhannes faðir hennar þegar tími Laugu rann upp að Húnvetningar hefðu nú þegar fengið nægan skerf af hans fjölskyldu. Hún ætlaði reyndar aldrei norðun en fór í nám í hjúkrun í Reykjavík og seinna til starfs og náms bæði vestan- og austanhafs. Það átti vel við hana að hjúkra enda rík af umhyggjusemi og samkennd með öðru fólki. Oft hitti Jón fólk á förnum vegi sem hún hafi hjúkrað og sagði: „Konan þín er engill.“ Hún var vel af Guði gerði, heiðarleg alþýðustúlka, laus við hofmóð en rík af stolti yfir því að vera manneskja sem kunni að vinna með höndum sínum og standa með sínu fólki – öllu fólki. Að vera heil og sönn manneskja er talsvert fyrirtæki og okkur heppnast það misjafnlega eins og dæmin sanna. Mikilvægt er í þeim efnum að hafa traustan grunn að byggja á og öruggan áttavita. Hún var trúuð og sótti sér styrk í trúararfinn í gegnum tíðina og þar var séra Hallgrímur í miklu uppáhaldi enda ekki svo langt síðan hann þjónaði í Hvalsnesi sem var og er næsta sókn við Útskála. Nú eru liðin 400 ár frá fæðingu hans sem er ekki svo langur tími þegar við skoðum hann í ljósi æviskeiða. Það er fimmföld ævi hennar sem við kveðjum og því ekki svo langt í forferður hennar og formæður sem þekktu skáldið í Hvalsnesi sem orti bæði veraldleg ljóð og andleg, var einn af fólkinu í landinu, lifði af því sem sjórinn og landið gáfu eins og allir aðrir. „Hold er mold, hverju sem það klæðist“, sagði hann.
Og hér erum við yfir moldum mætrar konu og kveðjum hana með þökk og af djúpri virðingu.
Sigurlaug Erla hét hún og fæddist að Gauksstöðum í Garði 4. mars 1933. Foreldrar hennar voru Jóhannes Jónsson, útvegsmaður og bóndi, f. 4.4.1888 og d. 26.7.1975, og Helga Þorsteinsdóttir frá Meiðastöðum, f. 22.7.1892 og d. 14.10.1968. Hún var því af Meiðastaðaætt sem svo er nefnd.
Sigurlaug var tólfta barn þeirra af fjórtán. Eru þau öll látin, nema Gísli Steinar f. 1924. 12 komust á legg.
Nafnið Sigurlaug er gott nafn og gegnsætt. Það vísar til laugar endurfæðingarinnar sem um er rætt í hinni helgu bók (Tít 3:5). Skírnin er þessi laug sem frelsar. Í skírninni erum við vígð eilífðinni, frátekin handa Kristi og ríki hans, mörkuð eins og löm með sigurtákni upprisunnar á enni og brjósti. Hugsum um þetta þegar við signum okkur á lífsleiðinni. Signingin er bæn og árétting þess að okkur hefur verið gefinn ríkisborgararéttur í himni Guðs og eilífðinni sjálfri.
Sigurlaug ólst upp í Garðinum, lauk þaðan skyldunámi auk þess að vinna við margvísleg heimilisstörf og verk tengd starfsemi foreldra hennar. Hugur hennar stefndi snemma á nám í hjúkrun. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og úskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands á afmælisdegi sínum 4. mars 1955.
[Eftir að hafa starfað við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann fram á vor 1956 fór hún, ásamt vinkonu sinni, til starfa við Massachusetts Memorial sjúkrahúsið í Boston. Eftir heimkomu ári síðar vann Sigurlaug m.a. við Sjúkrahúsið í Keflavík, handlækningadeild Landspítalans og Blóðbankann og síðan við Shalgrenska sjukhuset í Gautaborg um hálfs árs skeið 1959, en hóf þá aftur störf við Blóðbankann. Eftir nokkurt hlé á hjúkrunarstörfum hóf hún aftur haustið 1966 hlutastörf á ýmsum deildum Landspítalans, síðustu árin á móttökudeild fyrir aldraða í Hátúni, þar til hún hætti árið 1997]
Ástin vitjaði hennar eins og vera ber.
Sigurlaug giftist Jóni Gunnari Tómassyni, f. 7.12.1931, fyrrv. borgarritara og ríkislögmanni, 4. júní 1960.
Börn þeirra eru
- Helga Matthildur, f. 14.12.1960, hjúkrunarfræðingur. Maður hennar er Rafn B. Rafnsson, f. 9.4.1959, rekstrarhagfræðingur. Dóttir Helgu og stjúpdóttir Rafns er Sigurlaug Helga, f. 28.11.1988. Dóttir Helgu og Rafns er Matthildur María, f. 04.10.1997. Sambýlismaður Sigurlaugar er Heimir Fannar Hallgrímsson, f. 25.03.1981. Börn Rafns og stjúpbörn Helgu eru Pétur Benedikt, f. 14.05.1982 og Hjördís Perla, f. 15.02.1986.
- Tómas, f. 9.4.1962, lögmaður. Eiginkona hans er Áslaug Briem, 3.7.1965, viðskiptafræðingur. Dætur þeirra eru Hjördís Maríanna, f. 31.05.1992, Sara Hildur f. 8.5.1996 og Anna Rakel f. 7.5.2001.
- Sigríður María, f. 10.12.1970, lögfræðingur. Eiginmaður hennar er Björn Bjartmarz, f. 23.04.1962, rannsóknarlögreglumaður. Börn Sigríðar og stjúpbörn Björns eru Jóhann Gunnar f. 08.10.1995, Tómas Ingi f. 16.12.1999 og Eva María, f. 17.08.2004. Barn Björns og stjúpdóttir Sigríðar er Elsa Hrund, f. 29.06.1993.
Áhugamál Sigurlaugar voru fjölmörg. Hún stundaði og lagði mikla áherslu á heilsurækt, sund, jóga og leikfimi og féll fyrir golfíþróttinni á seinni árum.
Jón sagði svið mig nýlega: „Hún dró mig í kirkju, sund og golf.“
[Innskot á hljóðupptöku]
Hún sinnti gróðurrækt á yndisfögrum stað við Álftavatn í Grímsnesi, þar sem hjónin reistu sér sumarhús fyrir aldarfjórðungi.
Sigurlaug var alltaf málsvari þeirra sem minna máttu sín og starfaði m.a. fyrir Mæðrastyrksnefnd hin síðari ár. Hún vildi nú ekki tala um góðverk sín en ég geri það hér. Hún var hvarvetna metin fyrir dugnað, jákvæðni og hreinskiptni.
Ég hitti þau oft á golfvellinum, Sigurlaugu og Jón, og stundum lékum við samana í holli. Golf er góð íþrótt og hentaði Sigurlaugu vel því leikurinn krefst einbeitingar, réttsýni, heiðarleika og úthalds. Golfið getur leikið mann grátt og brotið leikmenn niður. En golfíþróttin getur líka verið miskunnsöm og hún jafnar aðstöðu fólks með sérstökum hætti, fyrirgefur mistök og er þannig upp byggð að allir geta notið leiksins. Allir almennir kylfingar hafa skilgreinda fyrirgefningu sem reyndar er kölluð forgjöf en er ekkert annað en fyrirgefning og því er golf kristilegasta íþrótt sem til er! Golfið greip hana föstum tökum og hún hlakkaði til þess að spila allt árið. Hún bað Jón að panta golfferði í vor og hann gerði það en nú varð að aflýsa leik. Svona er lífið. Til eru margar skemmtisögur úr golfi og sumar tengdar trú og himni Guðs og í sumum þeirra eru þar haldin golfmót. Hver veit?!
Lauga var réttsýn manneskja, jákvæð að eðlilfari, glaðsinna og góð í gegn. Hún mátti ekkert aumt sjá, var jafnan málsvari lítilmagnans og hafði í sér ríka samkennd með öllu sem lifir. Það hetir empatía á útlensku og er lýst með þessum orðum á íslensku: innlifun, hluttekning, samúð, samkennd. Sumt fólk skortir þessa kennd og veldur því samferðafólki sínu oft tjóni og samfélaginu öllu.
Lauga var hreinskiptin og stóð á sínum meiningum. Samkenndin sem í henni bjó minnti stöðugt á jafnstöðu allra manna. Við erum eitt mannkyn og í raun er enginn öðrum æðri. Eitt sinn voru þau Jón í móttöku í Höfða og þar kom þjóðþekktur maður, mikill á velli, með djúpa rödd. Hann gekk um og heilsaði fólki og spurði hvern og einn: Og hvað heitir þú? Þegar hann kom að Laugu svarði hún til nafns en spurði á móti: En hvað heitir þú? Þetta lýsir kannski best sjálfsmynd hennar og afstöðu til lífsins og samferðafólksins.
Hún var dugleg kona sem gerði kröfur á sjálfa sig, var ástrík móðir og einstök eiginkona. Þau Jón áttu saman góð ár, elskurík og gleðileg þar sem gagnkvæm virðing réð ríkjum, samheldni og ástríki. Í gær voru liðin 54 ár frá því þau unnu sín góðu heit og gengu í hjónaband. Þau voru samstiga í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur og miklir félagar og mjög ástfangin alla tíð.
Hún var vinsæl kona og ræktaði alla tíð sambandið við æskuvinkonur sínar úr Garðinum, Garðstelpurnar svonefndu, hélt tryggð við hollsystur úr hjúkrunarnáminu og starfsfélaga síðustu árin í Hátúni. Hún heimsótti vinkonur sínar, vitjaði þeirra í veikindum og sinnti þeim af sinni alkunnu samhygð.
Barnabörnin áttu í henni vin og leikfélaga og segja hana hafa verið dásamlega ömmu og skemmtilega. Hún skoraði á þau í sundi, kom með hugmyndir að leikjum og tók jafnvel þátt í fótbolta með þeim. Þegar þau koma heim til ömmu og afa fara þau jafnan beint í herbergi til að spila á spil og vera saman.
Hún var hnittin og skemmtileg í daglegu tali og ef hún heyrði eitthvað áhugavert og broslegt sagði hún gjarnan með sínu heimasmíðaða ortaki: „Þetta var skarplega á lofti verið“.
Hún las alla tíð mikið og var fróð um menn og málefni. Fjölskyldan rifjaði það upp að páskum komu málshættir henni sjaldan á óvart, hún þekkti þá alla og sagði gjarnan þegar hún skoðaði þann nýjasta úr egginu: Jaaááa!
Hún var náttúruunnandi og kunni fuglamál, safnaði steinum og sá í þeim kynjamyndir og listræn form. Hún þekkti auðvitað bæði sjó- og mófugl og fjaran var hennar leikvöllur í bensku. Hún hreyfði sig alla tíð mikið, fór í gönguferðir, gekk á fjöll og fór í sund, renndi sér á skíðum og hélt við hreyfigetu með jógaæfingum. Hjúkrunarstarfið gerði hana án efa hispurslausari en almennt gerist því hún var ófeimin við að mæta ólétt í laugina og brjóstnámið í kjölfar krabbameinsins lét hún ekki trufla sundferðir sínar.
Hún ól börn sín meir upp með fordæmi en margorðum fortölum og ef fólk spurði um hennar hagi var hún fljót að snúa samtalinu upp á viðmælendur og spurði þá: „En þið, hvað er að frétta af ykkur?“ Hún hafði gott eyra og kunni þá list að hlusta.
Hún hafði yndi af menningu og listum og þau hjón fóru á margar myndlistarsýningar og í leikhús. Árlega fóru þau með börnum sínum og barnabörnum í leikhús og allir fengu afmælissönginn sinn á hverju ári og voru vaktir með kertaljósi, köku og gjöfum.
Sumarbústaðurinn þeirra við Álftavatn var þeim sælureitur og þar talaði hún við hvert tré með nafni en seinni árin var golfið farið að taka yfir tómstundirnar. Í kínversku spakmæli segir: Ef þú vilt verða hamingjusamur í einn dag skaltu drekka þig fullan. Ef þú vilt verða hamingjusamur í viku skaltu gifta þig en ef þú vilt verða hamingjusamur alla ævi skaltu rækta garð. Ég legg ekki mat á þessa speki – finnst þó afstaðana til hjónabandsins heldur pessimistísk – en eitt er víst að sá sem þetta sagði þekkti ekki golfíþróttina!
Hún las sumar bækur oft og árlega las hún Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Hún hélt upp á Sólon Íslandus, Eldklerkinn, Sölku Völku og séra Hallgrím. Hún hlustaði árlega á lestur Passíusálmanna sem höfðu mótað hennar innra sjálf frá blautu barnsbeini. Hún vissi það sem barn að lífið var og er óvissuferð. Jóhannes faðir hennar var oft fjarri vegna sjósóknar og sinnar vinnu. Helga móðir hennar stýrði búinu, heimilinu og fiskvinnslunni, af myndarskap og pabbi sá um fjármálin og ætíð greiddi hann skuldir sínar á réttum tíma jafnvel þótt hann þyrfti að ganga til Reykjavíkur til uppgjörs. Á unglingsárum fór hún heim að Gauksstöðum um helgar og hjálpaði til við heimilishaldið og vann þau störf sem vinna varð. Hún var alla tíð ósérhlífin og létt á fæti, ung í anda, uppörvandi og jákvæð. Hún var stolt af fjölskyldu sinni og þegar þau höfðu farið með afkomendum að sjá Mary Poppins sagði hún er hún leit yfir hópinn: „Mikið erum við rík, Nóni minn.“
Kæri Jón, þú og fjölskyldan hafið misst mikið.
Lífið er þegið að láni eins og séra Hallgrímur sagði:
Allt hvað minn góði Guð
gaf mér í heimi
einn taki aftur við
annist og geymi.
Ég á mig ekki hér
í veröldinni,
Drottinn, ég eign þín er
af miskunn þinni.
Við lifum og hrærumst í þessu samhengi. Lífið er óvissuverð. Fjölin ein skildi að mann og hafdjúp forðum daga. Hvað skilur nú á milli okkar og dýpstu djúpa? Örþunnur æðarveggur í blóðrás heilans? Stökkbreytt fruma í safni milljarða heilbrigðra – eins og höggormur í Paradís? Hvað skilur á milli?
Lífið er óvissuferð en það er nú samt dásamlegt í flestum efnum. En það er og verður ótryggt nema á þeim nótum sem hjartað eitt skilur, hjartað, þessi innsta vitund mannsálarinnar sem veit og skilur leynda dóma lífsins og allt það sem skynsemin og heilabúið ráða ekki við. Trúin er á því plani. Hún er á sviði hjartans og trúin segir að þeir sem misstu fjölina undan sér og hurfu í djúpið, þau sem falla í slysum eða af skæðum sjúkdómum í blóma lífsins, eiga skjól í Guði sem allt elskar og geymir í voldugri hendi sinni.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.
Þetta sagði listaskáldið góða um ástina og hún er brot af því bergi eilífrar ástar sem Guð er. Enginn getur slitið okkur úr hendi hans hver sem örlög okkar annars verða í þessu lífi.
Hún var hugrökk og æðurlaus í veikindum sínum og gerði allt sem í hennar valdi stóð til þess að lifa. Hún naut aðstoðar Heimahlynningar krabbameinssjúkra sem hér er þakkað fyrir og svo einstakrar alúðar og elsku eiginmanns og fjölskyldu. Hún dó heima umvafin elsku þeirra allra.
Stúlkan, sem forðum vann sín verk af alúð við sjávarsíðuna, þar sem aldan ólmast við bergið, axlaði byrðar þær sem lífið lagði henni á herðar. Hún hefur nú lokið dagsverki sínu og er kvödd með virðingu og djúpri þökk. Fley hennar er ferðbúið. Fjölin skilur að mann og djúp en elska Guðs verður aldrei frá okkur tekin.
Guð blessi minningu Sigurlaugar Erlu Jóhannesdóttur og Guð blessi þig.
Amen.
Rómverjabréfið 8:31-39
Kærleikur Guðs í Kristi Jesú
31Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Matteusarguðspjall 8:23-27
Í stormi
23Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. 24Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. 25Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
26Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
27Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“