+Ragnhildur Árnadóttir 1923-2014

Ragnhildur ÁrnadóttirÖrn Bárður Jónsson

 

Minningarorð

Ragnhildur Árnadóttir

1923-2014

Grandavegi 47

 

Útför (bálför) frá Neskirkju föstudaginn 23. maí 2014 kl. 15

Ræðuna er bæði hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningarlestrar og sálmaskrá eru neðanmáls.

 

 

Náð . . .

Nú fækkar þeim óðum, konunum, sem lifðu og störfuðu í þjóðfélagi skýrrar verkaskiptinga. Þær litu á það sem ævistarf að eignast börn, annast þau af kostgæfni og vinna heima fulla vinnu alla daga við matseld, saumaskap, þvotta og síðast en ekki síst uppeldi barna sinna. En þegar kúfurinn af þeim verkefnum var horfinn nutu þær þess að fara út á vinnumarkaðinn og sinna umönnunarstörfum. Þær eru margar hetjurnar sem unnu við þau kjör og aðbúnað sem í boði var. Með því að segja þetta er ég alls ekki að kasta rýrð á útivinnandi mæður samtímans, karríerkonurnar, né að mæra hið liðna þjóðfélag. Það er liðið undir lok og nýir tímar teknir við en þau – sem gerðu sem allra best úr þeim aðstæðum sem voru – eiga heiður skilinn fyrir þá alúð og þrautseigju sem lögð voru í sérhvert verk.

Ragnhildur Árnadóttir fæddist á Atlastöðum í Svarfaðardal 5. nóvember 1923. Hún lést á Landspítalanum 3. maí 2014.

Foreldrar Ragnhildar voru: Árni Árnason f. 19. júní 1892, d. 4. des 1962 og Rannveig Rögnvaldsdóttir, f. 8. okt. 1894, d. 14. júlí 1989, ábúendur á Atlastöðum í Svarfaðardal. Systkini Ragnhildar:

Sigríður, f. 22. maí 1917, d. 4. maí 2003,

Anna, f. 26. jan. 1919, d. 12. okt. 1980,

Rögnvaldur, f. 16. mars 1920, d. 11. jan. 2010,

Sigurlína f. 26. apríl 1922, d. 30. október 2011,

Ísak Árni, f. 23. maí 1925, d. 15. apríl 2004 og

Trausti Helgi, f. 21. maí 1929 sem einn lifir.

Ragnhildur giftist 2. maí 1948 Páli Halldórssyni, frá Haga í Holtum, f. 8. ágúst 1923, d. 1. júlí 2013. Börn þeirra: a) Katrín blaðamaður f. 14. júlí 1949, maki Ágúst Ragnarsson f. 11. desember 1948, sonur þeirra Ragnar Árni f. 14. mars 1989. b) Árni hæstaréttarlögmaður f. 7. mars 1952, maki Emelía Gunnþórsdóttir f. 29. febrúar 1959. Börn þeirra: Páll f. 2. ágúst 1986 og Ragnhildur f. 22. febrúar 1989. c) Rannveig læknir f. 12. júní 1961, maki Guðbrandur Sigurðsson f. 2. maí 1961. Börn þeirra: Anna Katrín f. 30. mars 1986, Ragna Kristín f. 13.nóvember 2000 og Ingi Hrafn f. 29. apríl 2003.

Ragnhildur fluttist frá Atlastöðum með foreldrum sínum og öðru heimilisfólki að Syðri-Hofdölum í Viðvíkurhreppi í Skagafirði árið 1936 og ólst þar upp til fullorðinsára.

Ragnhildur var heimavinnandi húsmóðir í Reykjavík á meðan börnin voru ung, en lengst af starfaði hún á Kleppsspítala.

Á heimili Ragnhildar á Atlastöðum í Svarfaðardal og síðar Syðri-Hofdölum í Skagafirði var allur fatnaður unnin heima. Ragnhildur var snillingur í að sauma, gerði jafnt skólaföt sem flottasta samkvæmisfatnað. Móðir hennar og móðursystir voru lærðar saumakonur og kunnu vel til verka. Þessa þekkingu fluttu þær áfram til dætra sinna. Ragnhildur var tvo vetur á Kvennaskólanum á Blönduósi og bætti þar enn við þekkingu sína. En það var ekki aðeins fatnaður sem þær unnu, þær voru listfengar og þess má sjá stað á fallegu heimili þeirra hjóna, Ragnhildar og Páls, þar sem fagrir púðar, myndir og dúkar skreyta. Ragnhildur hafði gott verksvit og áður en hún hófst handa var verkið hverju sinni skipulagt vel og vandlega. Hún var listræn og gerði allt vel sem hún tók sér fyrir hendur. Hún vissi hvernig hún vildi hafa hlutina og dæmi um það var þegar hún keypti sér einhverja flík – var iðulega farið í töluverðar breytingar þegar heim var komið. Allt varð að passa eins vel og hægt var.

Heimilið hennar á Atlastöðum var sérstakt við rætur Heljardalsheiðar. Umferð um hana var mjög mikil á þessum árum – og hafði verið frá aldaöðli og var fram til 1930 – úr Skagafirði yfir í Eyjafjörð og öfugt. Fólk sem var á leið yfir í Skagafjörð kom iðulega við á Atlastöðum áður en lagt var á heiðina. Einnig kom fólk úr Skagafirði yfir heiðina og í Svarfaðardal og þá var fyrsti viðkomustaður Atlastaðir. Bærinn var því í þjóðbraut og var mjög gestkvæmt þar vetur, sumar, vor og haust. Fólk braust yfir heiðina í hvaða veðri sem var yfir háveturinn. Heimilisfólkið á Atlastöðum tók á móti gestum, spurt var tíðinda og sagðar fregnir.

Árni Árnason bóndi á Atlastöðum var þekktur sagnamaður og kunni óteljandi sögur af svaðilförum yfir þessa heiði. Hann sagði þær nokkrar í viðtali við dagblaðið Tímann árið 1962. Ragnhildur var því alin upp við mikinn gestagang og að gestir segðu tíðindi af sér og sínum og úr sveitinni. Hún sagði skemmtilega frá og hún fylgdist mjög vel með fréttum alla tíð. Hún hafði ákveðnar skoðanir á því hvernig átti að segja fréttir og skrifa þær og ber það vott um þroskaða frásagnargáfu.

Hún lagði mikið upp úr að börnin hennar stæðu sig vel í skóla og var hún vakin og sofin yfir því. Hún lærði með þeim, útskýrði og hjálpaði. Þau urðu að vanda sig og draga fallega til stafs og hafa vinnubækur vel gerðar. Hún var ströng en jafnframt mild, horfði á þau og spurði: gjarnan Gerðir þú eins vel og þú gast?

Á sumrin fór hún með börnin í Skagafjörðin og þar voru þau mörg sumur á Syðri-Hofdölum. Þessi sumur voru dýrðartímar, enda fólkið á Hofdölum dásamlega gott við börnin.

Þegar börnin voru komin á legg fór hún að huga að því að fara út á vinnumarkaðinn. Hún starfaði nærri þrjá áratugi á Kleppi að sinna geðsjúkum og var glöð yfir því að geta orið að liði. Á Kleppi vann hún með góðu fólki sem hún mat mikils. Hún átti góðar vinkonur sem hún starfaði með lengi á Kleppi og sú vinátta hélst meðan aldur entist. Hún kynntist mörgu fólki á Kleppi og í allskonar ástandi en aldrei varð hún fyrir neinu misjöfnu af hálfu sjúklinga sem gátu sumir verið viðskotaillir í sinni vanlíðan. Hún hafði svo einstakt lag á að sýna samhug og skilning, vera sönn manneskja í hópi annarra manneskja.

Nú hverfa þær ein af annarri konurnar sem voru heimavinnandi húsmæður. Spurt er: fyrir hvað stóð hún? Hún stóð fyrir vonina um betri heim og að börnin hennar og barnabörn væru heilbrigð og fengju að vaxa og dafna og fást við það sem hugurinn stefndi til. Kynslóð hennar lifði tímana tvenna, frá skorti til alsnægta. Ragnhildur sagði að fólk kynni ekki lengur að þakka fyrir sig, þakka fyrir það sem það hefði – allir væru á harðahlaupum eftir einhverju sem væri einskis virði þegar uppp væri staðið. Hún var þakklát fyrir það sem lífið gaf henni og sátt við sinn hlut og rímar það vel við speki aldanna: Hinn þakkláta skortir aldrei neitt.

Og hér koma kveðjur með þakklæti.

Kærar kveðjur til ömmu senda:

Anna Katrín Guðbrandsdóttir elsta barnabarnið sem starfar í Danmörku.

Ragnhildur Árnadóttir – nafna hennar – sem er við fornleifauppgröft á Kýpur.

Og svo er hér kveðja frá frænda, Róbert Jóni Raschhofer, barnabarni Sigríðar heitinnar, systur Ragnhildar, en hann býr í Austurríki.

Hér kveður þakklátt fólk mæta konu. Hún hefur lokið langri og farsælli ævi. Alla tíð fann hún til róta sinna norður í Svarfaðardal og Skagafirði. Hún hlustaði eftir því í veðurfréttum alla tíð hvernig viðraði á bernskuslóðum hennar og spurði frétta af búskap og mannlífi. Landið var henni dýrmætt, moldin og það sem hún gefur. Við erum afurð moldar eins og jurtir og dýr. Við lifum ekki án moldar og jarðtengingar og tæknin mun aldrei gera okkur óháð rótunum. Þetta vissu vitringar fyrri aldar og þess vegna sögðu þeir: Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Hringrásin er skýr og óumflýjanleg. Við erum í tiltekinni hringrás, lifum í samhengi við allt. Þess vegna er náttúran ekki þarna úti eða einhversstaðar langt í burtu fyrir norðan eða þá í útlöndum. Við erum náttúran og verðum að lifa í sátt og samlyndi við lífríkið – við okkur sjálf og hið jarðneska samhengi. Það er síðan hluti af hinu stóra samhengi sem rífur vítahring mannsins og bætir við hin fornu orð þessari staðhæfingu: Af jörðu skaltu aftur upp rísa.

Hið stóra samhengi heldur utan um allt líf. Sú hugsun hefur verið útskýrð af heimspekingi fyrri alda með þessum orðum: Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.

Ragnhildur þekkti þetta samhengi og þess vegna bað hún til Guðs og kenndi börnum sínum bænir m.a. þessar:

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

 

Guð geymi mig og varðveiti mig

á sálu og lífi þessa nótt

og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

 

Við lifum og hrærumst í þessu samhengi og þess vegna er auðveldara að kveðja og sætta sig við að þau sem við elskum hverfi af hinu jarðneska sviði og eigi sér lífsvon í nýrri vídd og annarri tilvist.

Guð blessi minningu Ranghildar Árnadóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Sálmaskrá Ragnhildur Árnadóttir – breytt copy

Sálmarnir 121:1-8

1Helgigönguljóð.
Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
2Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
3Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
7Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu. 

Matteusarguðspjall 5:1-48
Fjallræðan

1Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. 2Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
3„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
4Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
5Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
7Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
8Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
9Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki. 

11Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 12Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Salt og ljós

13Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.