Um böl og þjáningu

hversvegnaJón Sigurðsson, fv. skólastjóri á Bifröst flutti prédikun í Neskirkju föstudaginn langa 18. april 2014 sem fjallaði um böl og þjáningu í heiminum, afskipti og/eða afskiptaleysi Guðs og glímu mannsins við það að komast af í hættulegum heimi. Hann gaf mér leyfi til að birta ræðuna hér.

 

Ágætu tilheyrendur

 

Leikritið Kirsuberjagarðurinn eftir rússneska skáldið Anton Tsékoff er vel þekkt hér á landi. Í verkinu segir meðal annars af því að barn drukknar í ánni nálægt sveitarsetri fjölskyldunnar. Móðirin bregst þannig við að hún telur þetta refsingu Guðs vegna sinna eigin synda.

 

Mann setur hljóðan, fyrst við fregnina um slysið og síðan við viðbrögð móðurinnar. Við getum ekki fullyrt neitt, en við leitum skýringa. Það er eitt einkenni sorgarinnar að hún heimtar ævinlega skýringu. Sorgin krefst svara.

 

Öll trúarvitund mín andmælir þessari skoðun móðurinnar. Ég skil ekki að það sé refsing Guðs yfir móðurinni að barninu er neitað um lífdaga. Þarna mætast ólíkar atburðarásir og mis-sterkir áhrifavaldar, saklaust barnið án varúðar og áin sem streymir fram með sínum þunga nið og ofurafli. Smáheimur barnsins mætir alheimi orku og þunga árinnar og barnið drukknar.

 

Nú vitum við auðvitað ekki hvenær eða hve oft Drottinn grípur inn í atburðarás. En ef Drottinn kollvarpar í skyndi lögmálum sköpunarverksins og umbreytir eðli vatns og vatnsorku eina örskotsstund til þess að hindra slys, þá er hætt við að jafnvel geti um leið orðið ægilegustu náttúruhamfarir með skelfilegum afleiðingum. Allt jafnvægi jarðar og heims kynni að fara úr skorðum.

 

Ég finn innilega til með móðurinni, en öll trúarvitund mín mótmælir því að þetta sé henni að kenna. Og ekkert í leikritinu bendir sérstaklega til vanrækslu hennar.

 

Viðbrögð okkar við slysum, áföllum, ranglæti og öðru mótlæti eru með ýmsum hætti. Viðbragð móðurinnar í verki Tsékoffs er algengt meðal okkar. Og öll óttumst við dauðann, jafnvel þótt við vitum harla lítið um hann.

 

Annað alþekkt viðbragð er þetta: Hvers vegna hérna? Hvers vegna núna? Hvers vegna fjölskylda mín? Hvers vegna barnið mitt? Hvers vegna ég? – Og þá undrast ég afstöðu Drottins til mín. Ég furða mig á ákvörðunum Hans. Ég efast um gæsku Hans. Ég reiðist Honum. Ég efast um Hann sjálfan. Mér sárnar og ég hætti jafnvel að trúa á Hann.

 

Í Mósebók er sagan af Abraham. Langa ævi trúði hann því að þau hjónin ættu að eignast erfingja og að miklar þjóðir kæmu út af þeim. En ekkert barn fæddist þeim og árin liðu. Alltaf beið Abraham og trúði. Meira að segja segir Mósebók frá því er Sara, eiginkona hans, gat ekki annað en hlegið að trúnaðartrausti Abrahams.

 

Loksins fæðist þeim einkasonur. Og þá vill Drottinn að Abraham fórni syninum. Á þessum tíma voru margs konar frumburðarfórnir algengar. Enn trúir Abraham og ætlar að hlýða. Hann leggur af stað með soninn Ísak til þess að fórna honum á stað þar sem nú er helgasta vé á Musterishæðinni í Jórsölum.

 

Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard hefur tekið þessa sögu saman á áhrifaríkan hátt. Abraham trúði og treysti gegn eigin vilja sínum. Hann hlýddi og vonaði og hikaði ekki. Hann trúði ekki aðeins gegn vilja sínum og andstætt æðstu og innilegustu lífsósk sinni, heldur trúði hann og treysti enda þótt honum þætti þetta jafnvel algerlega öfugsnúið.

 

Áreiðanlega vonaði Abraham að Drottinn bægði þessari skelfingu frá með einhverjum hætti. Frásögn Mósebókar er fáorð og samtal þeirra feðganna ógleymanlegt. – En Abraham varð að trú sinni, ósk og von. Drottinn afþakkaði þessa frumburðarfórn og gaf Ísak líf.

 

Í Biblíunni er Jobsbók. Job varð fyrir hvers konar hörmungum og vissi ekki til þess að hann sjálfur hefði brotið af sér gegn Drottni. Hann hrópaði í kvöl sinni til Drottins. Hann hrópaði eftir réttlæti Guðs og eftir fyrirheiti Guðs um réttlæti. – Job tók Guð á orðinu.

 

Og hvernig bregst Drottinn við? Hann viðurkenndi eigið réttlæti og svaraði Job. Að sumu leyti er Jobsbók ein róttækasta túlkun sem til er á stöðu mannsins í sköpunarverki Drottins. Maðurinn leyfir sér að taka Guð sjálfan á orðinu, og Drottinn daufheyrist ekki. Hann svarar. Drottinn svarar ákalli mannsins.

 

Drottinn svaraði Job samkvæmt réttlæti sínu og högum Jobs var snúið til betra vegar. Jobsbók lýsir því líka hvernig mennska Jobs sýnir takmarkanir hans og þröngt viðhorf. Þarna mættust smáheimur mannsins og alheimur Drottins. Og úrlausn Jobsbókar verður ekki fyrr en maðurinn veitir Drottni hlustunarskilyrði. Mennskan verður líka að hlusta.

 

Í 9. kafla Jóhannesarguðspjalls er sagt frá manni sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinarnir byrja að tala um syndir þessa manns eða foreldra hans. Jesús svarar: ,,Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess sem sendi mig meðan dagur er.“

 

Hér er ekki refsing heldur tækifæri. Drottinn daufheyrist ekki. Allir eiga von og tækifæri. Ef til vill er það takmarkað skynbragð okkar sjálfra að gera mikið úr fötlun og frávikum hjá öðrum. Ef til vill þarf verk Guðs líka að koma fram í hugsunum okkar sjálfra sem þó eigum að heita heil. Vera má að það vanti eitthvað í okkur, eitthvað sem líka skiptir máli.

 

Ummæli Krists og afskipti hans sem guðspjallið lýsir eru huggun, úrbót og leiðsögn til farsældar. Það eru afskiptin sem Hann hefur af blinda manninum. Þannig urðu verk Guðs opinber á honum.

 

Við mætum sjúkdómum. Við mætum slysum. Við lendum í fjárhagskröggum. Sumt virðist tengt einhverjum áhrifum, athöfnum, mistökum, aðgæsluleysi eða jafnvel brotum. Tveir menn stefna hvor sína leið í bílaumferðinni og þeim lýstur saman. Ólíkar stefnur; hvor þeirra sér með sínum augum í hraða og misjöfnu skyggni. Í bílunum eru harðir málmar, orkuferli, hraði og höggþungi.

 

Í slysum, hvort sem er af náttúruhamförum, árstraumi eða öðru, mætast ólíkar atburðarásir og misstórir áhrifavaldar. Í sjúkdómum ráðast lífeðlisferli og efnaferli á smáheim mannsins. Ferli og lögmál alheimsins mæta smáheimi mannsins, og þessum lögmálum verður ekki kollvarpað stund og stund eftir einkapöntun okkar en allt annað látið óbreytt áfram.

 

En það verður ekki sagt heldur að hér sé einhver útmæld refsing á hendur þeim sem eftir lifa, – hvað þá kaldlyndi, fálæti eða vanræksla Drottins allsherjar. Og við getum ekki lýst því fyrirfram hvað gerist á dauðastund. Við sjáum aðeins rétt fram fyrir eigið nef og tær.

 

Afstaða Krists og svar hans er þetta: Ég er hér með þér og hjá þér og ég tek þátt í sorg þinni með þér nú og áfram framvegis. – Hann hefur aldrei heitið okkur því að ekkert mótlæti beri að höndum eða að líf okkar verði áhyggjulaus dans á rósum. Hann hefur aldrei lofað því að alheimur skuli lúta smáheimi og ósk hverrar einstakrar mannveru. En hann hefur heitið okkur því að ganga með okkur í gegnum alla erfiðleika, sorgir, mistök og harma. Hann huggar, hughreystir og réttir okkur höndina.

 

Hvar er Jesús Kristur í öllu mótlæti, erfiðleikum, mistökum og slysum mannlífsins? Hvar er Hann í harmi og sorg manneskjunnar? – Jesús var krossfestur og leið dýpstu kvalir. Ranglæti, mótlæti, niðurlæging, húðstrýking, misþyrmingar, kvíði, sorg, kvöl og þjáning… Allt þetta kom einmitt fram við Frelsarann Krist. Allt þetta fékk Hann yfir sig.

 

Og þetta er kjarni kristninnar. Kristur og trúin á Hann eru ekki hafin yfir þjáningar mennskunnar, heldur eru þvert á móti inni í þjáningunni miðri og kvölinni og sorginni. Einmitt hérna er Jesús Kristur. Hér er Hann að finna, til huggunar og hjálpar. Þetta vitum við og getum kynnt okkur – þótt við vitum lítið sem ekkert annað um líf eða dauða.

 

Síra Hallgrímur Pétursson varð fyrir skelfilegum áföllum. Heimilið brann; þau misstu unga dóttur, og að lyktum missti hann heilsuna og varð alsettur ógeðslegum kaunum holdsveikinnar.

 

Síra Hallgrímur kvað eftir að heimili hans varð eldi að bráð:

 

 

Guð er minn Guð þó geysi nauð

og gangi þannig yfir,

syrgja skal spart þó missta eg margt,

máttugur Herrann lifir.

 

Eftir að hann missti dóttur sína kvað síra Hallgrímur:

 

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga og rauna frí.

Við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól,

unun og eilíf sæla

er þín hjá Lambsins stól.

 

Útfararsálmur síra Hallgríms er sunginn yfir moldum flestra Íslendinga. Hér ávarpar Hallgrímur dauðann fullum fetum sterkur og kvíðalaus:

 

Í Kristí krafti ég segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

 

Og þegar síra Hallgrímur lá banaleguna sjálfur orti hann:

 

Á náð legg ég mig Lausnarans,

lífið mitt er í valdi hans,

gæskan þín hefur grát minn stillt,

Guð, far þú með mig sem þú vilt.

 

Trú síra Hallgríms sigraði dauðann. Líf hans var til þess að verk Guðs verði opinber á honum, til þess að við hin gætum séð þetta og lært af því.

 

Drottinn Guð hefur ekki brugðist. Hann er orðheldinn og kemur til okkar í öllum óförum og þjáningum og snýr lífi okkar til betra vegar. Hann hefur gefið okkur eilíft fyrirheit um að ganga með okkur, leiða okkur og aðstoða, hughreysta og rétta okkur við.

 

Sögunni er aldrei lokið í sorginni; vonin og hjálpin eru alltaf framundan. – En við verðum þá líka að hlusta.

 

Við biðjum og köllum. Og oft finnst okkur við ekki fá neitt svar. Okkur finnst Drottinn þögull og snúa sér frá. En munum þá söguna af kanversku konunni í Mattheusarguðspjalli. Hún gafst ekki upp. Hún hélt áfram að knýja á. Og á henni sannaðist að ,,biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“

 

Í guðspjalli Jóhannesar segir Kristur: ,,Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. … Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“

 

Og í guðspjalli Matthíasar segir Hann: ,,Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða“. Þar segir líka: ,,Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. … Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

 

Amen

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.