„Heimur er dauður, en hvað er til ráða?“

hoggormurogepli

Örn Bárður Jónsson

„Heimur er dauður, en hvað er til ráða?“

Prédikun í Neskirkju

1. sd. í föstu, 9. mars 2014

1. Mós 3.1-19 Fall mannsins

2. Kor 6.1-10 Öreigar en eigum þó allt

Matt 4.1-11 Freisting Jesú

Ritningarlestrana er hægt að nálgast neðanmáls.

Í ræðunni eru einhver innskot sem ekki eru í texta en koma fram á hljóðupptökunni.

Þú getur í senn hlustað og lesið eftir næstu smellu.

Bænin má aldrei bresta þig.

Búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að drottins náð.

(HP Pss 4.22)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Lygar, morð, hórdómur, svik, sifjaspell, þjófnaður, landráð, nauðganir, dómsmorð. Þetta hljómar eins og slagorðalisti í auglýsingu um sakamálabók eða hasarmynd eða þá lýsing á umfjöllun gulu pressunnar en í raun er hér verið að vísa til hinnar helgu bókar, Biblíunnar.

Biblían er merkileg bók. Hún er saga samskipta mannkyns við skapara sinn, saga um brigsl manna og elsku Guðs. Hún er saga þín og mín. Sagan um sköpun mannsins og fall er líka saga okka

r. Við erum sömu ættar og Adam og Eva. Við bregðumst við á sama hátt og þau forðum. Við felum okkur og lokum augunum fyrir sannleikanum.

Fyrsta sunnudag í föstu íhugar kirkjan freistingarfrásöguna – söguna um glímu Jesú við hið illa, þar sem reynt er að tæla hann frá ætlunarverki sínu og eyðileggja líf hans og markmið.

Það er engin tilviljun að textinn um fall mannsins er valinn til lesturs með freistingarsögunni. Þar með er teflt saman hinum gamla Adam og hinum nýja, manninum sem brást og tapaði og manninum sem stóðst og sigraði. Sköpun, fall og endurlausn eru grunnstef í Kristinni trú. Sú vitund hefur búið með öllum mönnum á öllum tímum að veröldin sé ekki eins og henni ber að vera. Minningin um hið fullkomna, horfna, býr í sérhverri sál – og skuggi fallsins er þar líka. Þráin eftir því sem tapaðist er einn mikilvægasti drifkraftur lífsins, blóðstreymið í æðum kirkjunnar. Öll skepnan stynur, segir Páll, meðan hún bíður þess að verða endanlega leyst úr fjötrum þeim sem fallið lagði henni um háls.

Í sögunum tveim, um fall mannsins og freistingar frelsarans er þriðja persóna sem leikur sitt hlutverk af innlifun og ástríðu, leikur lausum hala, ef svo má að orði komast. Það er freistarinn sjálfur, sem ber nafnið satan á hebresku, en diabolos á grísku og hefur hlotið nafnið djöfull á íslenku. Hann er lygarinn, faðir lyginnar. Orðið satan merkir ákærandi, lygari, rógberi, sá sem ber uppá menn falskar sakir og grefur undan sannleikanum. Um þann kumpána segir séra Hallgrímur (2:4):

Satan hefur og sama lag,

situr hann um mig nótt og dag,

hyggjandi’ að glöggt, hvar hægast er

í hættu og synd að koma mér.

Í tímaritinu Time (Time, March 13, 2000) birtist forsíðugrein sem fjallar um lygar. Þar er m.a. vitnað í sálfræðing við bandarískan háskóla sem segir að logið sé að hverjum einstaklingi 200 sinnum dag hvern eða á fimmtu hverri mínútu.

Í fjölmiðlum er margt satt og annað logið. Þar eru oft hálfkveðnar vísur og dylgjur, sannleikanum er hagrætt í þágu auðs og valds eða annarra hagsmuna. En um leið gegna fjölmiðlar gífurlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Heilagt hlutverk þeirra er að veita stjórnvöldum aðhald, sömuleiðis stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum. Til að veita þeim aðhald starfa hér á landi aðilar sem fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um einstök mál og meta hlutlægni, jafnræði og fagleg vinnubrögð. Allt er þetta mikilvægt.

Við búum nú við einsleitan fjölmiðlaheim sé litið til prentmiðla og sama má segja um sjónvarp. Prentmiðlarnir eru reknir af einkaaðilum og ekki er ætíð ljós fyrir hvað þeir standa. Hér eru starfræktar tveir miðlar, hvor með sína fréttastofu, sem útvapa og sjónvarpa, annar einkarekinn en hinn á vegum ríkisisins. Í raun er þetta allt of einsleitt. En hvað getur fámenn þjóð? Við getum gert betur og þurfum að huga að eflingu fjölmiðlunar í þágu sannleikans og réttlætisins og afhjúpa þá fjölmiðla sem stunda gráðuga sérhagsmunagæslu.

Í greininni sem áður var vitnað til er sagt frá rannsókn vísindamanna á sannsögli fólks. Hvenær segja menn satt og hvenær ósatt? Með tölvuforritum er nú hægt að greina það með nokkurri nákvæmni hvort svipbrigði og orð fari saman og beri vott um sannsögli eða lygar. Slíkt verður þó seint sannað með óyggjandi hætti því að sumir eru svo miklir leikarar að þeim tekst að blekkja með fölskum svipbrigðum. Blekkingar eru því miður fylgifiskur fallins heims.

Og nú er ólga í þjóðfélaginu vegna þess að almenningi ofbýður frjálsleg umgengni allt of margra við sannleikann.

Og svo eru það auglýsingarnar, gylliboðin öll, neyslufreistingarnar sem sagðar eru færa okkur hamingjuna á silfurfati. Og við föllum hvert um annað þvert fyrir þessum freistingum í þeirri fölsku trú að meira sé betra þegar sannleikurinn segir okkur að oftar en ekki sé minna betra. Við erum líklega oftar en við tökum eftir því leiksoppar lævísra afla. Erum við e.t.v. eins og fiðurfé í búi alifuglabænda? Á meðan við höfum nóg að bíta og brenna virðist okkur standa á sama um örlög heimsins. Koma okkur t.a.m. við aðstæður fólks í Sýrlandi og Úkraínu eða kjör fátækra á Íslandi? Hvað varðar það okkur að samkynhneigt fólk sætir kúgun og ofbeldi víða í heiminum? Þetta kemur okkur öllum við en til þess að um okkur muni þurfum við að vakna af dvala og doða og taka til hendinni.

Þetta er dökk mynd og henni brugðið upp til þess að vekja okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna. Veröldin er því miður ekki eintóm paradís eins og nú er ástatt. Paradís er horfin. Sköpunin er fallin og á vettvangi hennar leikur faðir lyginnar lausum hala og blindar fólk, vekur úlfúð og ótta, sundrung og fjandskap.

„Heimur er dauður, en hvað er til ráða?“ Svo kvað Eysteinn Ásgrímsson, munkur á 14. öld í ljóði sínu Lilju sem allir vildu kveðið hafa. Hann var breyskur maður og baldinn á sínum yngri árum en fann lífsins leið í lykilsögum Biblínnar. Lilja fjallar um stefin þrjú sem mestu skipta: sköpun, fall og endurlausn.

„Heimur er dauður, en hvað er til ráða?“ Við þurfum að rísa upp og takast á við vanda okkar sjálfra og þar með vanda heimsins. Þeirri vinnu mun aldrei ljúka meðan þessi jörð stendur. Þess vegna starfar kirkjan og berst fyrir betri heimi. Hún verður fölsk og deig ef hún talar ekki um það sem miður fer í þjóðfélaginu. Þá bregst hún höfundi sínum og frelsara sem sjálfur gekk á hólm við illskuna og óréttlætið og galt fyrir það með lífi sínu. Kirkjan er í heiminum en hún má ekki verða af heiminum. Hún fer ekki varhluta af deilum og úlfúð. Og það sama á við um okkur. Við lifum hér í heimi en megum aldrei verða samdauna heiminum því við erum borgarar annars heims, annars ríkis, ríkis Guðs. Kristur sagði við lærisveina sína áður en hann kvaddi þá:

„Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraustir, ég hef sigrað heiminn.“

Sköpun, fall og endurlausn eru kaflarnir þrír í björgunarsögu Guðs. Sú björgun var ekki ódýr. Hún kostaði fórnir. Hún kostaði friðþægingardauða sonar Guðs.

Við höfum glatað paradís en í skírninni erum við vígð þeirri nýju veröld sem Guð mun leiða fram í fyllingu tímans. Þar gefur Guð okkur þegnrétt í ríki sínu sem aldrei mun á grunn ganga. Skírnin er lífgjöf, gjöf eilífs lífs. En um leið er hún vígsla til baráttu í anda Krists. Skírnin er paradísarheimt. Lifum í þeirri vitund og vissu að frelsarinn stóðst allar freistingar og gylliboð heimsins og sigraði að lokum dauðann og veldi hins illa. Sá sigur er enn að gerast, sigur hans er verðandi meðan þessi veröld vakir og biður. Það er fagnaðarerindi kristinnar trúar – að Guðs ríki kemur.

Kristur svaraði blíðmælum hins illa með því að vitna í orð Guðs. „Ritað er“, sagði hann aftur og aftur og sneri þannig við skeytum hins illa. Ef þú ert Sonur Guðs . . . breyttu þá steinunum í brauð . . . kastaða þér niður af þakbrún musterisins því Guð mun bjarga þér . . . Ég gef þér allan heiminn ef þú tilbiður mig. Öllu þessu svaraði Jesús með tilvísunum í hið ritaða orð Guðs. Hann þekkti fyrirheit Guðs, smáaletrið í tryggingarskilmálunum og lét ekki snúa á sig.

Freistarinn notar jafnan þá aðferð að rangtúlka sannleikann. Þegar fræi vantrúar hefur verið sáð er auðveldara að gera lygina trúanlega. Hálfsannleikur og vafamál eru kjöraðstæður til að telja manninum trú um að ekkert sé honum æðra, að ekkert sé algildara en hugsun mannsins og ekkert réttara en ákvörðun hans hverju sinni.

Á ótalmörgum sviðum er heimurinn á villigötum, á helvegum. Við þeirri villu er ekkert sem dugar nema orð  Guðs og hjálpræði hans í Jesú Kristi. Hann kom í þennan heim til að frelsa og leysa, endurleysa. Í fyllingu tímans verður ríki hans algjört.

Á meðan við bíðum þess er hollt að íhuga orði postulans sem segir í pistli dagsins:

„Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.“

Hér talar maður sem þekkir lífið og grundvöll þess. Hér er ekki lifað eftir fölskum kennisetningum heldur í þeirri von sem veit að hin eilífu sannindi verða ekki keypt með þessa heims gjaldmiðlum. Þau öðlumst við aðeins í samfélagi við Guð og son hans Jesú Krist.

Sögurnar um fall mannsins, um freistingar Jesú og fleiri og fleiri, eru lykilsögur, sem opna upp fyrir okkur skilning á lífinu og tilverunni, stöðu mannsins í sköpunarverkinu, verkefni okkar og vonir. Þess vegna er svo mikilvægt að lesa þessar sögur, leita skilnings á þeim og finna viskuna í þeim. Kirkjan er vettvangur þeirrar vinnu og hér er gott að vera því Drottinn þekkir eðli okkar, breiskleika og brigsl en elska okkur þrátt fyrir það allt. Við erum í fylgd með honum sem stóðst allt og veit að við þurfum stuðning.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Ritningarlestrar dagsins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.