Björg Davíðsdóttir 1941-2013

bjorg davidsdottirÖrn Bárður Jónsson

Minningarorð

Björg Davíðsdóttir

fv. leikkona og starfsmaður NRK

1941-2013

Útför frá kapellunni í Fossvogskirkju mánudaginn 6. janúar 2014 kl. 15.

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði að lokinni bálför.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan. Ritningartextar eru birtir neðanmáls.

Friður Guðs sem með okkur öllum.

Að kynnast sjálfum sér er lífsverkefni. Hver er ég? Ég hef stundum svarað þeirri spurningu með því að segjast vera margir menn. Manneskjan er ekki stöðluð eining, óbreytanleg og fullmótuð í byrjun. Hún er verðandi. Það er flókið verkefni að vera manneskja og ná því að lifa í jafnvægi. Okkur eru gefnar mismunandi gjafir við fæðingu og á þroskaferlinu. Við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og hvað erfðavísarnir leiða fram í lífi okkar. Svo eru það hinar félagslegu breytur sem hafa áhrif á lífið, fólkið sem við mætum á veginum og svo þau sem ekki verða á vegi okkar. Mál þjóðfélagsins og heimsins sem birtast okkur stöðugt í fjölmiðlum hafa einnig áhrif á okkur og sama má segja um tækni og vísindi, listir og menningu.

Björg lærði og lagði fyrir sig leiklist á unga aldri. Leiklistin er göfugt hlutverk í lífsleiknum sjálfum, leit að sannleikanum um manninn, um líf fólks og örlög, leit að skilningi á tilvist og örlögum manneskjunnar. Leikhúsið er spegill samfélagsins og um leið spámannleg rödd þegar svo ber undir. Leikhúsið prédikar eins og presturinn. Þau leitast við að hafa áhrif á samferðafólkið með því að bregða upp spegli handa samtíð sinni.

Hún lék ýmis hlutverk. Hennar eftirminnilegasta verkefni á sviði var líklega hlutvek Láru í Ævintýri á gönguför sem sló rækilega í gegn á sínum tíma var sýnt ótal sinnu hér í Reykjavík en fór auk þess sigurför um landið enda margt góðra og frægra leikara í uppsetningunni. Hún fetaði þar í fótspor móður sinnar sem lék sama hlutverk á sínum yngri árum er það var sett upp á Eskifirði.

Björg var listelsk og talaði um leiklist til hinsta dags.

Í öllum góðum ævintýrum eiga sér stað ótal atvik, bæði björt og dimm. Þannig er lífið ævintýri á gönguför sem mætir okkur í ótal litbrigðum, ljósi og skuggum.

Björg Davíðsdóttir fæddist í Reykjavík þann 18. ágúst 1941. Hún lést á dvalarheimilinu Grund þann 19. desember síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Davíðs Gíslasonar stýrimanns frá Hamri í Múlasveit við Breiðafjörð, f. 28.7.1891, d. 21.2.1945, og Svövu Ásdísar Jónsdóttur saumakonu frá Eskifirði, f. 30.3.1905, d. 14.10.1992.

Systur Bjargar eru:

Lísabet S. f. 12.6.1932, d. 12.12.2008,

Margrét S., f. 15.6.1934,

Elín, f. 29.10.1936 og

Svava Ásdís, f. 20.2.1939.

Hún var yngst 5 systra en faðir þeirra fórst með Dettifossi milli Englands og Írlands en þar var skipið í skipalest í seinni heimsstyrjöldinni 24. febrúar 1945. Það var afgerandi atburður í lífi fjölskyldunnar sem breytti öllu. Sorgin vitjaði eiginkonu, dætra og ástvina allra. Og nú þegar yngstas systirin hefur kvatt þetta líf eins og sú elsta þá ýfist sorgin upp vegna fyrri missis.

Frásaga Boga Þorsteinssonar af slysinu, þá loftskeytamanns á Dettifossi og síðar yfirflugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli, birtist í Lesbók Morgunblaðsins í nóvember 1962:

– Það var rólegt á vaktinni hjá mér um nóttina en skömmu eftir klukkan átta um morguninn kallaði 1. stýrimaður á mig út á brúarvæng til þess að skiptast á ljósmorsi við fylgdarskipið, vopnaðan togara.

– Þegar ég hafði lokið ljósmorsinu var skammt þar til vaktaskipti áttu að fara fram svo að ég dokaði við og spjallaði við Davíð Gíslason, 1. stýrimann. Rétt áður en klukkan varð hálf níu leit ég niður á dekkið. Sá ég að Valdimar, sem átti að leysa mig af, var að koma út úr dyrumum á matsal yfirmanna. Rétt í sömu andrá heyrði ég að Davíð sagði: „Þarna kemur það!“ „Er það tundurskeyti?“, spurði ég.

– Um leið kvað við mikil sprenging. Mér fannst dekkið koma næstum upp í andlitið á mér, [. . . ] Ég sá að toppurinn á frammastrinu hafði brotnað svo að loftnetið lá niðri [. . .]

Sprengingin varð móts við vantinn bakborðsmegin, enda munu hásetar og kyndarar, sem voru í lúkarnum, allir hafa farizt nema einn, Kristján Símonarson, síðar stýrimaður hjá Eimskip, nú látinn. Komst hann á einhvern hátt út úr brakinu.

[. . . ]

– Skipið fór þegar að síga niður að framan og lyfti skutnum upp úr sjónum. Davíð stýrimaður sagði mér að reyna að koma mér í bát. Ég sá að á aftari bátaþiljum voru nokkrir af áhöfninni að bisa við að losa fleka, sem þar var og koma honum í sjóinn . . . 

– Davíð stýrimaður var nú kominn aftur á bátsþiljur og skipaði mönnum að stökkva niður á flekann, en þar sem hátt var orðið niður stukku aðeins þeir fyrstu á flekann sjálfan en aðrir fóru í sjóinn.

Hér lýkur textabrotum úr frásögn Boga og augljóst að 1. stýrmaður hugsaði um áhöfn og farþega framar öllu.

Um borð voru 45 manns, 14 farþegar og 31 skipsmaður. Þrír farþegar, allt konur og 12 skipsmenn fórust. Þar á meðal Davíð Gíslason 1. stýrimaður.

Móðir systranna varð að halda áfram. Hún hafði ekkert val. Elsta dóttirin, Lísabet var tæplega 13 ára, Margrét að verða 11 ára, Elín rúmlega 8 ára, Svava Ásdís nýorðin 6 ára og Björg þriggja og hálfs árs.

Fjölskyldan bjó fyrst að Vegamótum en flutti á Njarðargötu 35 þegar Björg var á öðru ári. Þar bjó hún öll sín uppvaxtarár. Björg gekk í Kvennaskóla Reykjavíkur og lauk þaðan prófi árið 1961. Hún stundaði nám í leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur en að því loknu fór hún til Noregs og nam leikhúsfræði við Oslóarháskóla. Leiklistin, leikhúsið og flest tengt listum var líf og yndi Bjargar og var hún svo lánsöm að verja góðum hluta ævi sinnar í námi og starfi tengt leiklistinni. Á sjöunda áratugnum lék hún í ýmsum leikverkum með Leikfélagi Reykjavíkur bæði á sviði og í útvarpi. Hún tók þátt í starfi Grímu sem var virkur áhugamannahópur á sviði leiklistar. Björg ílengdist í Noregi að námi loknu og varði mestum hluta starfsævi sinnar sem dagskrárgerðarmaður og við skrifstofustörf hjá norska ríkisútvarpinu „NRK“.

Hún hafði farið til Noregs sem unglingur með Gyðu frænku en faðir hennar var norskur og áttu þær saman góða og skemmitlega daga.

Ár árunum 1986-1990, að því er talið er, dvaldi hún í Bretlandi.

Hún bjó alla tíð ein og eignaðist ekki börn en þráði hvort tveggja, hjónaband og börn en aldrei fann hún hinn rétta.

Björg flutti heim til Íslands árið 2002 og bjó að Efstalandi 2 í Reykjavík og síðar að dvalarheimilinu Grund fram að dánardegi.

Meðan hún bjó í Efstalandinu hafði hún aðstoð hjúkrunarfólks heima vegna veikinda sinna. Stundum átti hún góða daga en svo voru aðrir verri.

Hún hafði alla tíð áhuga á ferðalögum og eitt sinn er hún lá inni á Landakoti keypti hún sér farmiða til Kanaríeyja með einhverjum ráðum, sótti sér gjaldeyri og komst suður á völl en þar var henni snúið aftur heim, blessaðri. En á betri stundum lífsins fór hún t.d. til grísku eyjanna og oft til Bretlands og svo var hugur hennar oft í Noregi því þar átti hún góða daga.

Hún hélt góðu sambandi við vinkonur sínar hér heima og systur hennar sinntu henni vel í gegnum tíðina eftir því sem hægt var á hverri tíð.

Hún naut sín vel uppáklædd í selskap, var einkar glæsileg, dökk á brún og brá, en alls ekki nein galopin skvetta heldur fremur feimin þrátt fyrir að hafa kjark til að leika á sviði. Svona getur lífið nú verið mótsagnarkennt. Hún hafði alla tíð gaman af að dansa og sótti tónleika og hlustaði mikið á músík um dagana.

Hún var stundum dálítið svífandi, segja systur hennar og svo var hún það sem kallað er B-manneskja en slíkt fólk virðist lifa á öðru tímabelti en samferðafólkið og á einkar erfitt með að mæta nokkurs staðar á réttum tíma.

Frændfólk og vinir minnast hennar með gleði og þökk en um leið kannast þau við skuggana í lífi hennar, sjúkdóminn sem setti sitt mark á hana lengur en fyrst var haldið. Hún glímdi við geðraskanir og átti það til að verða dálítið paranoid.

Hún var alla tíð ákveðin og stóð fast á sínu enda yngst 5 ákveðinna systra og þurfti að standa fyrir sínu. Svo vill það nú verða svo að yngsta barnið fái aðra meðferð en eldri systkini. Í því sambandi má segja að engin tvö systkini eigi sömu foreldra því þau breytast á lífsleiðinni, þroskast og svo breytist efnahagur og fleira. Pabba naut ekki við í uppeldinu og enginn veit hvernig lífið hefði orðið ef hann hefði haldið áfram að koma borðalagður heim með varnig frá fjarlægum löndum. Það veit Guð einn. En móðurafinn, Jón Kr. Jónsson, klæðskeri bjó í sama húsi í Njarðargötunni og var þeim góður afi og eiga systurnar fallegar minningar um hann. Hann var yndislegur maður, segja þær. Einnig bjó systir mömmu Svövu, hún Anna Kristín í sama húsi ásamt sinni fjölskyldu svo þarna var stjórfjölskyldan í vissum skilningi.

Björg var góð manneskja sem glímdi við skaphöfn sína eins og allir gera og svo hafði hún það böl að draga að verða veik af sjúkdómi sem enn líður fyrir fordóma og vanþekkingu fólks þrátt fyrir mikla umræðu og baráttu fyrir réttindum og mannsæmandi lífi geðfatlaðra.

Og nú er hennar för um lífsveginn lokið, henna ævintýri á gönguför á enda. Hún verður lögð til hinstu hvílu hjá foreldrum sínum og afa í Fossvoginum.

Í dag er þrettándi dagur jóla. Hin mikla hátíð ljóssins er komin á síðasta dag en hátíðin hverfur ekki eins og útrunnin vara úr kjörbúð. Árhif hennar halda áfram, boðskapurinn um hann sem er ljós heimsins fylgir okkkur. Hann kom, sá og sigraði, en sigur hans varð ekki unnin fyrr en að loknu ströngu þrjáningarferli og dauða á krossi. Hann kom til að vera mönnum ljós og líf og til að leggja síaðsta óvin mannsins að vell, dauðann sjálfan. Guð reisti hann upp frá dauðum sem frumgróða allra sem sofnuð eru. Jesús vissi í lifanda lífi að hann gegndi mikilvægu hlutveki og sagði m.a. þetta: „Ég lifi og þér munuð lifa.“

Kristin kirkja er okkar skip sem aldrei verður sökkt. Allir sem eru um borð eru öruggir í höndum hans sem er við stjórnvölinn. Hann geymir alla sem okkur eru kær og horfin eru á undan okkur. Himinn hans er höfnin sem við stefnum til.

Lífið er leikur, það er ævintýri á gönguför, tækifæri og verkefni í senn, vettvangur gleði og sorgar. Þannig er lífið og þannig þroskumst við í gímunni við okkur sjálf, samferðafólk okkar og aðstæður lífsins á hverri tíð.

Á þrettándanum er þess minnst að vitringarnir sem höfðu ferðast langan veg undir leiðsögn stjörnunnar fundu barnið sem var í senn Guð og maður. Mótsagnarkennt var það og er enn. En barnið átti eftir að sýna að það var sent í þennan heim til að bjarga honum. Guð elskaði þennan heim og sendi son sinn til að snúa honum til hins rétta vegar. Við erum systkin orðin hans, segir í jólasálminum, við erum ættleidd og tilheyrum himni Guðs sama hverjar aðstæður okkar eru, sigrar eða ósigrar. Við erum börn Guðs á leið til himinsins heim. Góða ferð.

Blessuð sé minning Bjargar Davíðsdóttur og Guð blessi þig.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Tilkynningar:

Erfi . . .

Ræðan birt . . .

Postulleg blessun: Friður Guðs . . .

Pistillinn

Róm 8.31b-39

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú

31 . . . Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum?33Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur.35Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?36Það er eins og ritað er:

Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
37Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur.38Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjallið Matt 2.1-12

Koma vitringa

1Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
3Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. 4Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
5Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
6Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
7Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. 8Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
9Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. 10Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, 11þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
12En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Ein athugasemd við “Björg Davíðsdóttir 1941-2013

  1. I see you don’t monetize your website, don’t waste your traffic, you can earn additional bucks every month because you’ve got high quality content.
    If you want to know how to make extra bucks, search for: Mertiso’s tips best adsense alternative

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.