Von í vagni
Prédikun við aftansöng í Neskirkju gamlársdag 2013 kl. 18
Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.
Alltaf er það jafn hrífandi sjón að sjá móður aka barnavagni.
Þar sem ég gekk mér til heilsubótar um hálan stíginn í gær og velti vöngum yfir textum þessa dags, mætti ég tveimur mæðrum hvorri með sinn barnavagninn. Sú sýn kveikti með mér hugrenningartengsl við textana og ekki var laust við að sporin heim hafi verið ögn léttari en í byrjun göngunnar.
Móðir með barn í vagni. Hún ekur á undan sér von sinni og framtíð. Barnið er henni allt. Hún hugsar um það dag og nótt og leggur allt í umhyggju þess, ást sína, vonir og þrár. Barnið skal fá allt það besta. Foreldrar gera sem betur fer flestir vel við börn sín og vilja þeim aðeins hið allra besta. Þau vilja að þau þroskist vel, læri eitthvað gagnlegt og finni hamingjuna í lífinu. Samt er öll framtíð barnsins í óvissu og reyndar foreldranna líka því enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Lífið er óvissa og manneskjan þarf mikinn stuðning allt lífið til að komast af, ekki bara í frumbernsku. Enginn er eyland. Við erum tengd hvert öður. Þjóðfélagið er tengslanet þar sem allir skipta máli. Í afrísku spakmæli segir að heilt þorp þurfi til að ala upp barn. Það eru orð að sönnu. Við útvistum í miklum mæli umhyggunni sem börnin þarfnast til þorpsins, til þjóðfélagsins. Börn eru í flestum tilfellum sett á leikskóla skömmu eftir fæðingu og allt of mörg þeirra eru allt of lengi dag hvern í umsjá annarra en foreldra sinna vegna þess að kröfurnar eru svo miklar að mamma og pabbi verða bæði að vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir öllu sem þau þurfa og ekki þurfa. Svo tekur grunnskólinn við í 10 ár og lokst framhaldsskóli hjá mörgum og svo háskóli hjá sumum.
Við sem eldri erum bjuggum mörg við það að hafa heimavinnandi móður sem sá um allt heimilishald, framleiddi með eigin höndum margt af því sem fjölskyldan þarfnaðist og var vakin og sofin yfir velferð allra frá því snemma að morgni og þar til seint um kvöld.
Nú eru tímarnir breyttir.
Í börnunum býr framtíðin. Þau munu erfa landið. En hvernig tekst núverandi mótunaraðilum að gera þau vel í stakk búin að takast á við óvissa framtíð? Með því að útvista verkefnum umhyggju og menntunar í stærra og meira mæli en áður erum við vissulega að dreifa ábyrgðinni sem hljómar eitthvað svo spekingslega, eins og bankamaður tali og kannski dálítið svona 2007. Um leið vakna þær spurningar hvort foreldrar almennt talað fylgist nógu vel með því sem gerist innan stofnana sem annast börnin. Er nóg að afhenda börnin bara einhverjum skólum og láta þar við sitja? Oft er minnt á að því fylgi a.m.k. 18 ára ábyrgð að eignast barn.
Hvað er kennt í leikskólum? Hvað er kennt í grunnskólum? Löggjafinn setur ramma þar um en það er ekki nóg. Á sama tíma og amast er við kristnum áhrifum í skólum eru þar kennd önnur trúarbrögð. Börn eru t.d. þjálfuð í yoga í sumum leikskólum og hugmyndafræði framandi trúarbragða án þess að fólk geri sér grein fyrir því hvað þar er á ferðinni. Nú vil ég ekki amast við yoga eða austrænum trúarbrögðum en þegar slíkt er kennt í skólum þar sem lang flest börn eru kristin, þ.e. skírð og tilheyra kristnum foreldrum, þá er spurning hvort foreldrar þurfi ekki að fylgjast betur með. Og ef ekki má syngja jólasálma í skólum eða annað trúarlegt má þá syngja um hvað sem er annað en kristið? Sú afstaða er allt of algeng að halda að trúin ein boði trú en allt annað sé hlutlaust.
Ekkert er hlutlaust.
Allt sem sagt er og tjáð hefur í sér fólgin einhver gildi og gildi eru oftar en ekki tengd trú og trúarbrögðum. Ef ekki má syngja trúarlega söngva í skólum má þá syngja um álfa og jólasveina sem eru partur af hinum heiðna menningararfi þjóðarinnar? Nú bið ég ykkur að misskilja mig ekki. Ég er ekki á móti söngvum um álfa og jólasveina en ég er á móti þeim sofandahætti allt of margar sem halda að allt annað en kristið sé hlutlaust og einhvern veginn í tómarúmi og án gilda. Ég sá á vefnum að bandarískir foreldrar, þ.e. kristnir foreldrar, einhversstaðar í því stóra landi, voru að gera athugasemdir við kennslu í yoga í barnaskólum og að þar væri verið að innræta börnum þeirra framandi trú og gildi.
Hverju trúum við? Hverju trúa Íslendingar? Enn játar meirihluti þjóðarinnar trú á Krist. En hvað felur sú trú í sér? Hún er t.a.m. trú á kærleika, miskunnsemi, réttlæti og frið. Kristin trú hefur móðað samfélag okkar meir en flest annað og við skulum ekki gleyma þvíað við tilheyrum þeim löndum sem þykja eftirsóknarverðust í heimi.
Textar dagsins fjalla um miskunnsemi og það er gott að íhuga á tímamótum þegar við kveðjum gamla árið með því að líta um öxl eitt andartak, njótum áramótanna og horfum svo fram á veginn í von.
Barn í vagni er vonarbarn móður og föður. Barninu er ekið í vagni um lífsveginn. Til er skilgreining á kristnum manni sem er það sem kalla má að vera fjórhjólakristinn.
Hann kemur sem barn í fjórhjóla vagni til skírnar í kirkjunni, síðar á fjórum hjólum í bíl mömmu og pabba til kirkju við ferminguna. Loks fara hann og hún á fjórum hjólum í skreyttum bíl úr kirkjunni eftir hjónavígsluna og enda svo bæði leið sína á lífsveginum í svörtum bíl á fjórum hjólum.
Vonandi hefur kristið fólk oftar viðkomu í kirkjunni en fjórum sinnum á ævinni á fjórum hjólum! En svo er hinu við að bæta að lífsgangan með Kristi á sér líka stað og ekki síður úti í þjóðfélaginu meðan gengið er um stigu lífsins í glímu við lífið og glímu við Guð.
Um áramót erum við minnt á miskunn Guðs og kærleika hans sem aldrei bregst.
„Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni“
Í pistli dagsins birtist ein sterkasta trú á elsku Guðs sem rituð hefur verið. Postulinn segir ekkert geta gert okkur viðskila við elsku Guðs. Ekkert! Engar veraldlegar hættur og ekki einu sinni dauðinn. Gott er að heyra slíkan vitnisburð um áramót sem endranær.
Guðspjallið geymir sterka líkingu um miskunn og það að gefa nýtt tækifæri enn um sinn. Textinn er fullur vonar. Hann er eins og hugur móðurinnar sem ekur barni sínu, von í vagni. Eitt sinn vorum við öll vonarbörn í vagni, umvafin umhyggu foreldra og/eða forsjármanna sem bára okkur á höndum sér og gerðu allt til þess að tryggja okkur bjarta framtíð. En þrátt fyrir það er framtíðin ekki alltaf björt. Foreldrar megna ekki að búa okkur framtíð án áhættu. Þau vilja ekki og geta ekki lagt líf okkar í bómull. Barnið þeirra á ekki að vera í hitakassa eða vöggu til fullorðinsára heldur á tveimur jáfnfljótum í þeirri göngu sem lífið krefst af hverjum og einum. Svo lengi lærir sem lifir. Mandela varð ekki sá sem hann varð í bómullarumbúðum. Hefði hann orðið sá sem hann varð hefði hann starfað sem lögfræðingur hjá skilanefnd bankanna?
Innskot: Er það fólk ekki annars í mikill hættu, nánast í lífsháska að lifa við þau kjör sem þar bjóðast?
Er mótlætið nauðsynlegt til að við þroskumst? Líklega er hæfileg áreynsla best en of mikil til óþurftar og of lítil sömuleiðis. Forfeður okkar margra voru sjómenn sem réru á opnum bátum út á opið haf, bátum sem gengu fyrir handafli þeirra sem spyrntu í þverbandið, tóku djúpt í árinni og drógu hana að sér, lyftu og tóku aftur djúpt í. Bændur slógu með orfi og ljá. Konur báru vatn í hús því enginn var kraninn, unnu úr ull, rökuðu saman heyi, dreifðu og sneru. Og fólkið gekk á milli bæja á skinnskóm og í ullarfötum í kulda og trekki uppi undir norðurheimskautsbaugi sem er 66 gráður norður sem nú minnir helst á góðar skjólflíkur. Við erum afkomendur þessa fólks sem hér komst af við erfiðar aðstæður með þrautseigju og trú. Ævilíkur Íslendinga eru með þeim hæstu í heimi. Þar skipta erfðavísar okkar miklu máli, formfeður og mæður, og svo hitt að hér hefur verið byggt upp velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd. Við erum lukkunnar fólk og okkar tré á að fá að lifa áfram til að bera ávöxt.
Saga Jesú af fíkjutrénu er saga miskunnar. Maðurinn sem ekki fann ávöxt á tré sínu varð auðvitað fyrir vonbrigðum. Hann sneri sér til garðyrkjumannsins og bað hann að uppræta tréð sem vildi ekki ganga svo hart fram heldur gefa því tækifæri enn eitt árið, láta vel að því, bera áburð að, vökva og sjá svo til.
Íslenskt þjóðfélag er fíkjutré og þar eru greinarnar með ýmsu móti. Sumar bera ríkulegan ávöxt meðan aðrar eru feysknar, hafa hætt að nærast af rótinn og halda að hægt sé að lifa í tómarúmi. Fær íslensk þjóð nýtt tækifæri á nýju ári?
Við erum fíkjutré. Fáum við eitt ár í viðbót? Er einhver sem ber umhyggju fyrir okkur, vill hlúa að okkur og gefa okkur tækifæri til að bæta okkur?
Garðyrkjumaðurinn vitri er táknmynd Guðs sem er náðugur og miskunnasamur.
Hvað gerum við við það sem gamla árið færði okkur af blessun og böli? Við getum geymt blessanirnar í sjóði minninganna en dregið lærdóm af bölinu. Skiljum bölið eftir við áramót eins og tösku sem við setjum á færiband sem fer með það út í buskann, í gleymskunnar haf þar sem allar veiðar eru bannaðar.
Horfum fram á veginn! Hvað mun nýja árið bera í skauti sér? Við vitum það ekki. Enginn veit það nema almáttugur Guð. Nýja árið er í hans höndum. Við mætum því í trú, von og kærleika.
Við erum örugg í höndum hans, erum eins og barn í umsjá móður og föður, von í vagni á lífsins vegi.
Verum ekki áhyggjufull um lífið, um morgundaginn, „hverjum degi nægir sín þjáning“ sagði Jesús.
Hann sagði líka: „Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh 16.33)
Hann fer með okkur um veginn eins og móðir með barn sitt í vagni.
Við erum vonarbörn Guðs. Von í vagni, börn um borð í kirkju hans sem hann stýrir.
Hann elskar okkur óendanlega mikið og sleppir aldrei hendi sinni af okkur.
Hann á þá von að við berum ávöxt og lifum öðrum til gleði, sjálfum okkur til blessunar og Guði til dýrðar.
Gefum börnunum og velferð þeirra forgang, streystum kristinn gildagrunn lífs þeirra og hjálpum þeim að verða heilar manneskjur. Setjum börnin í öndvegi og aldraða einnig. Höldum utan um allar kynslóðir frá vöggu til grafar og leggjum okkar að mörkum við að skapa hér réttlátt samfélag sem unir glatt við sitt í frið og öryggi, velferð og virðingu fyrir lífinu og æðstu gildum þess.
Það er undur að vera til! Lífið er spennandi verkefni! Til hamingju með lífið! Á grunni þess horfum við í von fram á veginn og óskum hvert öðru farsældar og vonandi hóflegrar velgengni.
Gleðilegt nýtt ár! Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Texta dagsins er hægt að lesa að baki þessari smellu.