Af illa lærðum og lygnum

addaun hirdanna e rubensÖrn Bárður Jónsson

Af illa lærðum og lygnum

Viðbrögð prests við tvíbirtri grein Illuga Jökulssonar um ljúgandi presta landsins

(Mynd: Aðdáun hirðanna eftir Rubens) 

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá“ Illuga Jökulssyni um að sproksetja skyldi alla presta landsins eða „því sem næst“ fyrir að ljúga blákalt, standandi ábúðarmiklir í stólnum með burstaðar tennur og bullandi yfir blásaklausum lýðnum sem hlustar ógagnrýninn í „sparifötun[u]m með hárið greitt“. Í orðunum og á milli línanna liggur fnykur af fordómum. Höfundur virðist ekki þola þetta lið, prestinn fína og fólkið, sem hlustar á hann. Fyrirlitningin skín úr orðum hans. Hvernig á að skilgeina svona skoðanir á heilli stétt manna? Og hvað með afstöðu höfundar til almennings?

Þetta var önnur sproksetning Illuga og var gerð árið 2013 e. Krist þá er Framsókn og Íhald réðu ríkjum á Íslandi eftir að fyrrnefndi flokkurinn hafði keypt íslensku þjóðina til að kjósa sig með loforði um að borga seinna. Fyrri sproksetningin var gerð með nákvæmlega sömu orðum, geri ég ráð fyrir, í valdatíð Íhalds og Framsóknar árið 2007 e. Krist þegar menn græddu um daga og grilluðu á síðkvöldum. Fyrsta birting var á síðum Ísafoldar. Í þetta sinn eru orðin birt á vefsíðu trúarhóps nokkurs sem er haldinn svæsnu ofnæmi vegna áhrifa kristni í landinu og kallar sig Vantrú. Félagarnir í þeim flokki trúa sem sagt einhverju en ekki öllu, vantreysta trúarkenningum, en eru samt, nafninu samkvæmt, ekki á móti allri trú. Þeir vilja greinilega fara varlega í sakirnar og vera vantrúaðir en orðið van í íslenskri orðabók er skilgreint svo: of lítið, ýmist of eða van, ýmist of mikið eða of lítið.

Félagarnir í Vantrú og Illugi – sem kann einnig að tilheyra félaginu? – ég veit það ekki – eiga það sameiginlegt að vera hallir undir bókstafstrú. Þeir eru fúndamental sem kemur fram í því að þeir heimta að allir guðfræðingar og prestar hugsi á sömu nótum og þeir þ.e.a.s. taki Biblíuna bókstaflega í öllum greinum. Jólasagan er þar með talin og vei þeim prestum sem ekki túlka hana bókstaflega því þeir komast þar með út úr menginu „ljúgandi prestar“ og fylla þá þann flokk sem Illugi undanskilur í upphafi greinar sinnar, líklega til að fríja sig meiðyrðamáli, er hann segir að „því sem næst allir prestar“  ljúgi á jólum.

Það var og. Hér er hátt reitt til höggs hjá sproksetjaranum sem getur stundum verið skemmtilega orðheppinn í bloggfærslum sínu enda hinn ágætasti sjúrnalisti sem setur gjarnan fram fræðslu við alþýðuskap kokkaða upp úr hinum og þessum heimildum. Hann hefur margt um meintar vitleysur í jólaguðspjallinu að segja sem hann hefur hugsanlega sótt sér í Gúgelhafið mikla og/eða rit um biblíufræðin sem við prestar þekkjum vel.

Hvenær segir maður satt?

Nú veit Illugi væntanlega eins og ég að enginn texti sem ritaður er segir allan sannleikann. Engin frétt í dagblaði segir sannleikann að fullu, engin frétt í útvarpi segir allt og jafnvel sjónvarpið getur ekki tjáð allan veruleikann. Allt sem sagt er, er ritað, hljóðritað eða myndað af ákveðnum sjónarhóli. Þess vegna er útilokað að segja sannleikanna, að segja allt. Jólasagan er sama eðlis. Öll tjáning mannsins er brotakennd og takmörkuð. Jólasagan er skv. þessu „lygasaga“ eins og allar fréttir dagblaða, útvarps og sjónvarps. Engin var myndavélin eða hljóðneminn þegar Jesús fæddist og enginn var blaðamaðurinn með penna og skrifblokk, hvað þá bloggari með fartölvu.

Hvernig á prestur t.a.m. að tala út frá jólaguðspjallinu? Ætti hann að byrja hverja prédikum með því að segja: Þessi saga er nú ekki alveg samkvæm sannleikanum en ég ætla nú samt að nota hana sem grunn að prédikun minni? Ættu blaðagreinar og fréttir einnig að hefjast með þessum fyrirvara: Þessi frétt er uppspuni því hún segir ekki allan sannleikann og myndin með fréttinni er ósönn því hún sýnir bara eitt sjónarhorn? Ætti hver fréttatími í sjónvarpi að hefjast með þessum fyrirvara: Ekkert sem hér verðu sagt eða sýnt er algjörlega sannleikanum samkvæmt?

Jólasagan er einfaldlega flutt á jólum og svo leggur prestur út af henni og ræðir um boðskap Krists og erindi hans við fólk á öllum öldum.

Ef ég læsi söguna af Rauðhettu fyrir börn þá læsi ég bara söguna og talaði út frá henni. Ég þarf ekki að vera með neina yfirlýsingar um hvort sagan sé ekta eða ekki. Sagan lifir sem slík.

Lóðrétt og lárétt

Jólasagan er helgisögn og sem slík er hún tákn um eitthvað sem höfundi þykir skipta miklu máli, nefnilega að Jesús Kristur hafi verið einstök manneskja, svo einstök að telja megi guðlega veru. Fæðingarfrásögur af konungum og keisurum eru til frá því í fornöld sem líkjast jólasögunni. Þannig rituðu menn forðum og gera jafnvel enn. Þar með er ekki sannað að slíkar sögur séu lygasögur nema þá í þeim skilningi sem ég staðhæfi hér að framan að allar sögur séu lygasögur. Í flestum sögum leynist sannleikskjarni. En það sem greinir jólasöguna frá öðrum fæðingarsögum af kóngum er að hún hefur enn hlutverki að gegna, „hún líknar, boðar, kennir og auðgar anda þeirra sem hafa augu til að sjá boðskapinn.“ Þannig orðaði vinur minn skoðun sína á helgisögu jólanna.

Jólasagan er táknsaga sem hefur í sér lóðréttan og láréttan ás. Lárétti ásinn vísar til jarðlífsins, þar með til hirðanna, sem eru tákn fyrir alþýðu manna, fátækir menn sem vinna ómerkilegustu störfin í þjóðfélaginu. María og Jósef eru líka alþýðufólk og barnið er ósköp venjulegt barn en þó fætt undir heillastjörnu segir sagan. Þar með kemur hin lóðrétta vídd inn í söguna. Hérveran horfir til handanverunnar. Á öllum öldum hefur verið til sú vitund að lífð sé stærra en það sem við augum blasir í hvunndeginum. Víddir tilverunnar eru líklega fleiri en þær sem við skynjum sem takmarkaðar mennverur. Galdur sögunnar liggur m.a. í því að fagnaðarerindið er ekki kynnt í beinni útsendingu til allra í veröldinni heldur eru hirðar valdir til að heyra það í fyrsta sinn, menn sem voru svo lágt settir að þeir voru ekki taldir vitnisbærir. Í því liggur mótsögnin og þar með snilldin.

Englar út um allt

Og svo eru það englarnir. Illuga virðist vera sérstaklega í nöp við þá og spaugar með fávisku presta í þeim efnum. Í mínum huga eru englar ekki bústnar verur í líki berrassaðra barna með vængi heldur fúnksjónir í mannheimum. Aðrir kunna að hafa um þá aðrar skilgreiningar en ég hef þessa. M.ö.o. þá eru englar hlutverk sem menn detta inn í, oftast ómeðvitað. Englar eru til í fjölmörgum frásögnum fornaldar sem stílbragð og þá um eitthvað sem er upphafið og hátíðlegt. Flest höfum við væntanlega orðið fyrir því að hjálp hefur borist okkur á ögurstundu eins og hún hafi dottið niður af himnum. Manneskja varð á vegi okkar sem kom eins og himnasending og varð til hjálpar á tilteknum stað og stund. Illugi hefur líklega sjálfur dottið inn í slíkt hlutverk og orðið óafvitandi einhverjum til blessunar eða góðs. Illugi hefur án efa einhvern tímann verið engill eitt andartak og þá líklega án þess að vita af því.

Englarnir í jólaguðspjallinu eru þar og gegna undursamlegu hlutverki í helgisögunni. Þarf ég að tilkynna söfnuðinum í hvert sinn sem ég les jólaguðspjallið hver afstaða mín er til engla og hvort þeir séu til eða ekki? Má sagan ekki lifa sínu lífi? Þurfa menn að koma eins og öfgamenn á eiturbíl til að úða yfir aldingarðinn og skemma þar með lífríki sögunnar? Dauðhreinsuð veröld er ekki eftirsóknarverð. Safaríkar sögur og fullar af táknum, mótsögnum, ótrúlegheitum og furðum þykja mér skemmtilegar, mun eftirsóknarverðari en excel-skjöl með talnarunum og þurrum staðreyndum.

Jólasagan er helgisögn og hún er dásamleg sem slík og það er hrífandi að lifa sig inn í hana og draga af henni lærdóm ár eftir ár. Hún er mér og mörgum öðrum uppspretta fegurðar og gleði í einfaldleika sínum – líka þessu fólki í „sparifötun[u]m með hárið greitt“.

Jólasagan er sönn í þeim skilningi að hún birtir vitnisburð frumkristninnar um að Jesús hafi verið maður gæddur óvenjulegum hæfileikum og visku og því hljóti hann að hafa fæðst með konunglegum hætti og fæðingu hans því gerð skil eins og kóngi sæmir.

Tíminn og sagan

Hvað varðar valdsherra sem nefndir eru til sögunnar kann að vera að Lúkasi hafi skriplast á skötu en það skiptir ekki öllu með nokkur ár til eða frá fremur en gerist á íkonamyndum í Austurkirkjunni þar sem Páll postuli situr við kvöldmáltíðarborðið með Jesú og lærisveinum hans enda þótt Páll hafi komið til sögunnar löngu síðar sem boðberi hinna góðu tíðinda um Krist, í reynd mörgum árum eftir krossfestingu Jesú. Íkonamyndin er jafnsönn sem slík enda ekki fréttaljósmynd af kvöldmáltíðinni. Og jafnvel ljósmynd segir ekki heldur sannleikann allan.

Jesús á að hafa fæðst árið 0 eða 25. desember fyrir árið 1 skv. útreikningum munks á 6. öld, Dionysiusar Exiguus, sem var lærður mjög og margt til lista lagt. Hann fann upp það sem kallað er Anno Domini, Drottinsárið, sem er notað bæði í hinu júlíanska tímatali og  gregoríanska til að marka tölu ára frá fæðingu Krists. Dionysius var frá Skýþíu en löngum kenndur við Róm. Hann útbjó reiknitöflur til að sýna dagsetningar páskanna í fortíð og framtíð en páskarnir eru „hræranleg hátíð“ eða „moveable feast“ en það orðasamband þýddi Laxness í bókartitli bókar eftir Hemingway og kallaði: „Veisla í farángrinum“. Þýddi Laxness vitlaust eða ber titillinn skáldbragði og snilld höfundar vitni? Eða var hann kannski bara að ljúga?

Það var svo pólskur sagnfræðingur sem setti fram hvorki fleiri né færri en 1605 tesur um tímatalið. Hann hét Laurentius Suslyga (1570-1640) og var fyrstur með þá tilgátu að Kristur hefði í raun fæðst árið 4 fyrir Krist. Hann dró þessa ályktun af tíma Heródesar mikla, sonar hans Filippusar fjórðungsstjóra og dóttur Ágústusar, Júlíu.

Jóhannes Kepler á 17. öld las verk Suslyga og komst að því að Kristur hefði fæðst á tíma Heródesar mikla sem nefndur er í hinni meintu lygasögu Lúkasar (2.1-18). Kepler setti dauðadag Heródesar árið 4 f. Krist. Hann byggði þetta á því að Jósefus sagnaritari Gyðinga setti það fram í ritum sínum að tunglmyrkvi hefði átt sér stað skömmu fyrir andlát Heródesar.

John Pratt hjá International Planetarium Society lagði til 29. desember árið 1 f. Krist en þá varð annar sólmyrkvi en skv. Jósefusi dó Heródes árið 4 eða 3 f. Krist.

Jesús Kristur fæddist því líklega árið 4 f. Krist og jafnvel árið 3 og enn aðrir telja að hann hafi fæðst á bilinu 3-6 f. Krist. Þessar tímatalsleiðréttingar hagga hvorki trú minni né valda  svefnleysi.

Jesús var söguleg persóna

Heimildir eru til um þennan óvenjulega mann, Jesú frá Nasaret, í öðrum ritum en kristnum frá 1. og 2. öld. Jósefus sagnaritari Gyðinga nefnir hann og sama gerir Takítus sem skráði heimildir fyrir Rómverja. Jesús var söguleg persóna hvað sem líður meintum skekkjum í frásögu Lúkasar og Matteusar. Jóhannes á líka sína jólasögu í 1. kafla guðspjalls sína en hann segir hana ekki í goðsögulegum stíl heldur miklu fremur heimspekilegum. Hann talar um „Orðið“ sem á frummálinu, grísku, er „logos“ og merkir speki Guðs, visku og kraft. Jóhannes nefnir ekki Maríu eða Jósef en segir að viska himinsins og kraftur hafi orðið manneskja:

„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóh 1.14)

Þetta er enn ein útgáfan af „fæðingu“ Jesú sett fram með allt öðrum hætti en Matteus og Lúkas gerðu. Og hver þeirra segir nú satt? Ljúga þeir allir eins og Illugi vill meina að næstum allir prestar geri? Eða segja þeir sannleikann með því að birta brotakennda mynd af einhverju sem er svo stórt að það verður ekki sagt nema með myndlíkingum, goðsögum eða heimspekilegu orðfæri?


Sitjandi sólar

Þetta er ritað í skammdeginu milli jóla og nýárs. Sólin er sest en hún er algjörlega rasslaus og ósexý eins og Illugi hlýtur að vita  en ég kref hann ekki um bókstaflegan skilning á því að sólin setjist né heldur á ljóðinu:

Blessuð sólin elskar allt,

allt með kossi vekur.

Elskar sólin? Kyssir hún? Hvaða bjáni og lygari ritaði þetta bull? Var það einhver trúarbjáni? Var það e.t.v. síljúgandi prestur? Örugglega ekki vantrúardýrlingur sem frábiður sér alla bókstafstrú en er þó rækilega botnsteyptur í fúndamentið. Nei, það var efasemdarmaðurinn Hannes Hafstein. Og annað skáld sem líka glímdi við Guð eins og allir góðir trúmenn gera, Einar Benediktsson, leyfði sér að tala með þessum ólíkindum:

„Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum

sem himnaarf skulum taka.“

Að hugsa sér aðra eins ósvinnu og að tala um handanveruna eins og hún skipti einhverju máli og jafnvel meira máli en hérveran! En þannig tala menn sem eru ekki bókstafstrúar eins og ég er farinn að halda að Illugi sé. Það kemur mér á óvart að vellesinn maður eins og hann gefi á sér þann höggstað að hann skilji ekki hið skáldlega og ævintýralega í tilverunni. Ég veit að hann er ekki svo skyni skroppinn en tjáning hans í þessari grein er þó með ólíkindum og ekki nægði að birta hana bara árið 2007 e. Krist heldur enn og aftur árið 2013 e. Krist. Ef hún hefði bara birst í fyrra skiptið hefði mátt ætla að hún hafi verið skrifuð í augnablikspirringi en þegar hún er endurbirt þá fær hún allt annað vægi og vekur upp margar spurningar um höfundinn og tilgang hans með ritun hennar.

Má ég þá heldur vera auðtrúa lygari, en bókstafsvantrúarmaður, lygari skv. skilgreiningu Illuga, sem leyfir sér að hrífast af himneskum hirðsveitum, forvitnum fjárhirðum og parinu Maríu og Jósef, sem voru líklega á röngum stað og röngum tíma þegar Jesús frá Nasaret fæddist.

Svo komu aðrar heillandi persónur síðar til sögunnar, vitringarnir frá Austurlöndum. Þeir eru magnað fyrirbrigði í sögu kristninnar, mennirnir sem fylgdu stjörnunni og fundu Jesúbarnið og færðu því gjafir, „gull, reykelsi og myrru.“ Má ég heldur búa við þá fögru helgisögu en dauðhreinsaðan málflutning Illuga sem nú hefur stigið fram og reigt sig í tvígang við jötuna og borið fram úr pússi sínu  í bæði skiptin bull, ergelsi og firru.

Lokaorð

Ég gerir ráð fyrir að Illugi uni ekki við annað en að eiga síðasta orðið í samskiptum sem þessum og því skal það þegar tekið fram að ég ætla ekki í neina sprænukeppni við hann og læt hér staðar numið og mun ekki elta ólar við það sem hann kann að setja fram sér til málsbótar eða til að snúa út úr orðum mínum, enda algjör óþarfi fyrir hann, því ég er nú bara ljúgandi prestur skv. hans skilgreiningu.

Greinin hans tvíbirta verður kannski að jólaguðspjalli Vantrúar og þá verður hún eðli málsins samkvæmt endurtekin ár eftir ár og þá vitaskuld án allra skýringa um hvort hún sé sönn eða login. Hún verður þá væntanlega bara látin liggja í jötunni þar sem trúlausir og sjálfskipaðir vitringar, geta komið að og veitt henni lotningu og jafnvel ef þeir svo kjósa í „sparifötun[u]m með hárið greitt“.

Gleðileg jól!

Hér er tengill á grein Illuga:

http://www.dv.is/frettir/2013/12/25/illugi-prestar-ljuga-og-jolagudspjallid-er-skaldskapur/

9 athugasemdir við “Af illa lærðum og lygnum

  1. Ekki voru þetta „skýr skrif“ frá Erni Bárði, þvert á móti. Og í aths. hér kl. 21.38 í gær segir hann „að jólasagan sé mýta með sagnfræðilegum tilvísunum“. MÝTA!! Og hvað á hann við með „sagnfræðilegum tilvísunum“? Á hann ekki beinlínis við FALSANIR, að „mýtan“ sé látin líta út eins og hún sé sönn, af því að hún sé sett inn í samhengi sagnfræðinnar, allt til að blekkja? En fullyrðingar fáinna presta (sr. Þórhalls Heimissonar og sennilega ykkar beggja) standast ekki skoðun, það er ekkert afsannað um þessa söguatburði.

    Meyfæðing Jesú Krists er ennfremur grundvallaratriði í kristinni trú og trúarjátningum frá upphafi, einnig í Nýja testamentinu. Trúin á engla á þar líka heima. En það er dæmigert fyrir guðfræðinga, sem áður voru Pálsmenn í guðfræðinni, en hafa snúizt gegn kennivaldi hans, að þeir hafni þá líka þessu tvennu.

    Og hvers vegna – hvaða nauðir reka prest(a) til að hafna tilvist engla og meydómi Maríu Guðsmóður? Þolir þú ekki tilvist kraftaverka, Örn Bárður? Veiztu ekki, að Kristur var fyrst og fremst kunnur, bæði í Landinu helga og utan þess, fyrir kraftaverk sín? Jafnvel veraldlegir sagnaritarar á næstu 100 árum virðast vita af þeim og eins andstæðingar hans, sbr. þennan texta hjá snjallari Nýjatestamentisfræðingi en ykkur báðum samanlögðum, próf. Alan Richardson, í bók hans Science, History and Faith (Oxford University Press 1950), bls. 98f:

    „The fact is that all the historical evidence that there is goes to show that Jesus worked miracles, and there is no evidence whatever that he did not. It may be regarded as quite certain that all the people who had known Jesus in the flesh believed that he worked miracles. Even his enemies, who would have liked to discredit him if they could, confined their attack to the assertion that he worked miracles by the power of the Evil One, and that he was in league with Satan (Mark iii. 22; Matthew ix. 34); they never tried to argue that his miracles were fakes. Even the Tetrarch, Herod Antipas, who had heard of his fame, hoped to see him work some miracle (Luke xxiii. 8). The one incontestable piece of evidence is that all those contemporaries of Jesus of whom we have any record, friends and foes alike, believed that Jesus worked miracles.“

    Kristur er einnig holdtekja hins eilífa Guðssonar sjálfs. Hann reis upp frá dauðum, og meðal kraftaverka hans var, að hann reisti einstaklinga upp frá dauðum. Veröldin er einnig sköpunarverk Guðs samkvæmt allri kristinni trú, og verðum við svo að búa við þau ósköp, að sumir vígðir og hálaunaðir prestar fást ekki til að trúa því, að Jesús hafi fæðzt af óspjallaðri meyju? Vantrú slíkra væri þá farin að setja almætti Guðs stólinn fyrir dyrnar.

  2. Mig langar að þakka þér Örn Bárður fyrir þessi ítarlegu og skýru skrif sem Illuga er auðvitað viss vorkunn af því þetta er, eins og fram kemur, endurtekið efni frá honum skrifað í stemmningu sem eldist illa. En mikið skelfing er orðið tímabært að það fari að síast inn í almenna þekkingu þjóðarinnar þetta með eðli bókstafstrúar. Greindur maður sem er að ljúka meistaraprófi í kennslufræðum stakk upp á því í samræðum fyrir skömmu að bókstafstrú, hvort sem hún birtist undir merkjum guðleysis eða guðstrúar, sé í eðli sínu skortur á læsi – það að geta ekki lesið sér til gagns. Það þótti mér áhugaverð nálgun.

  3. „Táknsaga“, frændi? Það er leitt að sjá þig „verja“ jólaguðspjallið með svo máttlausum hætti. Þú virðist taka trú á hin röngu mótrök sem Illugu lapti þarna upp eldri fræðimönnum, um leið og hann þagði um rökum og heimildum studd andsvör við þeim fullyrðingum.

    Og ekki trúirðu á engla! Trúirðu þá á Jesúm Krist sem Guð og mann? Þú ritar: „Jólasagan er helgisögn og sem slík er hún tákn um eitthvað sem höfundi þykir skipta miklu máli, nefnilega að Jesús Kristur hafi verið einstök manneskja, svo einstök að telja megi guðlega veru.“ –– En þeim mun einstakari sem einhverjir menn eru, verða þeir þar fyrir „svo einstakir að telja megi guðlega veru“? –– „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham varð til, er ég,“ sagði Kristur sjálfur (Jóh.8.58, inngangsorð þess, „Sannlega, sannlega segi ég yður …“ notar hann um sín almikilvægustu ummæli). Og Páll vitnar (Fil.2.7f): „Hann áleit það ekki rán að vera jafn Guði, þótt hann væri í Guðs mynd, heldur afklæddist henni, er hann tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur; og er hann kom fram að ytra hætti sem maður, lítillækkaði hann sjáfan sig og varð hlýðinn fram í dauða, já, fram í dauða á krossi …“

    „Sögur þurfa að fá að lifa sínu lífi og njóta sín sem mýtur,“ segirðu enn, en frásagnir Lúkasar og Mattheusar eru ekki „mýtur“. Í Betlehem fæddist Jesús af meyjunni Maríu, og hinn vandaði Lúkas vissi betur um fæðingartímann en þið Illugi samanlagðir.

    Gangi þér sem bezt, frændi, að halda þig við hina heilnæmu kenningu og miðla söfnuði þínum sannleika Guðs orðs, ekki hjáfræðum þeirra sem treysta eigin ályktun betur en guðspjallamönnunum.

    • Það legg ég nú ekki að jöfnu. Hér er verið að tala um texta sem liggur fyrir í Biblíunni, einhverju öðru gömlu eða nýju riti, dagblaði etc. Auðvitað er hægt að ljúg blákalt en það að túlka táknsögu er ekki lygi. Maður þarf ekki setja fyrirvara í byrjun og segja að sagan sé mýta sem slík. Það má auðvitað gera það en „skáldverk“ manna verða að fá að lifa sínu lífi.

      • Þá væri kannski ráð að segja fólki að um sé að ræða „dæmisögu“ úr handbók heilaga sannleikans.

        Það er augljóst að ekki er predikað eins um jólaguðspjöllin eins og um fall Babel eða veggi Jeríkó eða grísku harmsögurnar um Pandóru og Tantalus eða goðsögurnar um Herkúles eða Ódysseif.

        Hvort sem það er óvart eða ekki vilja prestar oft láta sem þetta sé saklaus sannleikur en fara svo í hart þegar til gagnrýni kemur. Þess þyrfti ekki ef hætt væri að tala um þetta sem sagnfræðilega staðreynd.

  4. Heill og sæll ágæti félagi. Þú hefur móðgast yfir orðinu „lygi“ sem notað er þráfaldlega í greininni og það get ég út af fyrir sig vel skilið. Mér til málsbóta var ég kornungur þegar ég skrifaði greinina, rétt rúmlega fertugur, og ekki orðinn svo víðsýnn og umburðarlyndur og ég er núna. En ég móðgaðist líka soldið stundum þegar ég heyrði presta fullyrða eitthvað í prédikunum sem ég þóttist vita að þeir vissu vel að væri ekki sannleikanum samkvæmt. Að öðru leyti erum við áreiðanlega ekki ósammála um neitt sem máli skiptir – en gæta verður þú þess að mín grein snýst um sagnfræði jólaguðspjallsins og ekki hinn táknræna boðskap þess. Með bestu áramótaóskum!

    • Þakka þér, Illugi fyrir þessi drengilegu viðbrögð. Mér varð nokkuð brugðið við að lesa þessa grein og ekki síst eftir okkar góðu kynni á sínum tíma í Stórnlagaráði. Var reyndar með kafla í uppkasti greinarinnar um þau góðu kynni en tók það út því þar fannst mér ég vera kominn inn á tilfinngamál og jafnvel farinn að beita argumentum ad hominem. En auðvitað móðgaðist ég fyrir mína hönd og annarra eins og sagt er. Mér er það vel ljóst að þú ert að fjalla um sagnfræði öðru fremur en ég leyfði mér að svara í víðara samhengi. Umræða er af hinu góða og allt í lagi að taka snarpa spretti í þeim efnum. Yfirbragð greinar þinnar gaf mér tóninn fyrir svarið og því varð hún svo hvöss sem raun ber vitni. Tengsl þín við skáld og ritfært fólk eru öllum kunn og auðvitað þekkir þú vel túlkun og tjáningu í skáldskap og listum. Sögur þurfa að fá að lifa sínu lífi og njóta sín sem mýtur, hvernig sem þær annars eru skilgreindar í hinu og þessu samhengi. Höldum áfram að leita svara hvor á sínum vettvangi. Gangi þér allt í haginn.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.