Um heimsins vald og himins

jatanÖrn Bárður Jónsson

 

Prédikun við hátíðarmessu

í Neskirkju á jóladag 2013 kl. 14

 

Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.

Jólanóttin er að baki með sínum rómantíska blæ, helgisögum og söng á bládimmri nótt við kertaljós, gafir og góðgæti, meðan norðanbálið ískalt lemur ljórann. Upp er runninn jóladagur og nú hljómar jólaguðspjall Jóhannesar sem er með allt öðrum blæ en frásögn Lúkasar. Jóhannes postuli ritar sitt guðspjall síðar á fyrstu öld en læknirinn gerði. Postulinn sér samhengi sögu og eilífðar. Guð sem allt hefur skapað er kominn til manna. Guð gerðist maður. Orðið, sköpurarkrafturinn, viska eilífðar, varð hold í Jesú Kristi.

Aðeins ein persóna sögunnar er nefnd, Jóhannes skírari, sem var undanfari Jesú. Keisarar og valdamenn er víðsfjarri, en hinn róttæki kallari setur atburðinn í sögulegt samhengi.

Hann sagði:

„Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“

Jóhannes skírari var hugrakkur maður og hann vissi að boðskapur Messíasar var fagnaðarerindi handa fátækum og hrjáðum, boðskapur handa krepptu fólki og aðþrengdu. Jóhannes lét lífið fyrir boðun sína og gagnrýni á spillingu valdhafanna. Hann staðfesti það sem María móðir Guðs á jörðu sagði er hún fékk þau tíðindi að hún bæri guðdóminn sjálfan undir belti. Þá flutti hún hið fræga ljóð, Magnificat, sem tekur nafn sitt af fyrsta orði ljóðsins á latínu sem byrjar svo á íslensku: „Önd mín miklar Drottinn . . . “ og gæti heitað Mikla-ljóð á íslensku. Í ljóðinu kemur fram tilgangurinn með komu Guðs í þennan heim:

„Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum

og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli

og upp hafið smælingja,

hungraða hefur hann fyllt gæðum

en látið ríka tómhenta frá sér fara.“

 

Hér er boðið bylting á þremur sviðum mannlífsins:

Siðferðisleg bylting – drembilátum er tvístrað.

Pólitísk bylting – valhöfum steypt af stóli.

Efnahagsleg bylting – ríkir fara tómhentir frá Drottni.
Kristin trú er róttæk trú og hún lætur sig varða mannlífið. Hún er ekki bænahjal á kodda og prívatstundir í einrúmi með óskalista eins og þegar börn bera fram bón sína fyrir jólasveininn.

Hún er ný hugsun handa allri veröld, ný viðmið og afstaða elsku og umhyggju í garð allra manna.

Jóhannes skírari vitnaði í Jesaja spámann sem uppi var á 6. öld f. Kr. er hann gaf starfi sínu tilvísun og grundvöll. Jesaja var ótrúlegur maður. Hann virðist hafa séð í gegnum móðu og mistur menningar, stjórnmála og atburðarásar samtíðar sinnar og langt inn í framtíðina. Hann setti fram róttækar hugmyndir um hið komandi ríki m.a. með þessum absúrd hætti:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu

og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.

Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman

og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna verða saman á beit,

ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,

og ljónið mun bíta gras eins og nautið.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér

við holu nöðrunnar

og barn, nývanið af brjósti,

stinga hendi inn í bæli höggormsins.

Enginn mun gera illt,

enginn valda skaða

á mínu heilaga fjalli

því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni

eins og vatn hylur sjávardjúpið.

(Jes 11.6-9)

 

Er hægt að hugsa sér meiri og öflugri byltingu en þessa sem er svo róttæk að hún breytir innsta eðli rándýra og líka gjörspilltra manna, karla og kvenna? Fjarstæðukennd von. En er það ekki einmitt þannig sem menn verða að vona? Setti Mandela ekki von sína á fáránlega draumsýn? Í útvarpsviðtali við hvítan mann um aðskilnaðarstefnuna í S-Afríku segist hann í raun hafa trúað því að ef svartir fengju almenn mannréttindi væri sú mikla ógn yfirvofandi að jafnvel menn eins og Mandela sem þá var í fangelsi gætu komist til valda! En svo gerðist undrið! Bylting hugarfarsins varð að veruleika og nú sér þessi hvíti maður lífið í nýju og marglitu ljósi.

Og enn eiga byltingar sér stað.

Sögur Biblíunnar er sprottnar upp úr mannlífinu í Mið-Austurlöndum þar sem ættbálkar og síðar þjóðir og þjóðarbrot hafa löngum átt í erjum. Nú hefur vorað í Arabaheiminum svonefnda og mörgum valdhöfum verið steypt af stóli. Sagt er að upplýsingabyltingin hafi gert þetta mögulegt, farsímar og essemmess, möguleikar almennings til að tengjast og tjá sig án ritskoðunar. Vorinu í heimi Araba hefur verið rækileg gerð skil í fjölmiðlum. Minna fer hins vegar fyrir því að vetur hefur gengið í garð hjá kristnum mönnum í sömu löndum. Skelfilegar ofsóknir á hendur þeim eiga sér stað og t.a.m. hafa um tvær milljónir af tveimu og hálfri milljón kristinna manna í Írak flúið land vegna ofsókna. Flest af því fólki fór til Sýrlands og þá eins og úr öskunni í eldinn og er nú á flótta, landlaust og ofsótt. Þar bjó álíka stór hópur kristinn manna fyrir. Fjórtán milljónir kristinna manna í arabaheiminum búa við óöryggi og ógn. Þetta eru bræður okkar og systur í trúnni á Krist, fólk sem er ógnað vegna trúar sinnar. Það er beinlínis hættulegt að vera kristinn í mörgum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta og öfgahópar komast upp með hryðjuverk. Það kostar sumstaðar mikið að trúa. En hér á landi er trúin allt of mörgum eins og verðlaus króna sem kasta má á glæ. Við og Evrópubúar förum vonandi að vakna af svefni  og horfast í augu við að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman og hann getur ekki heldur lifað af með grunnar lífsskoðanir og kæruleysisleg viðhorf til stærstu spurninga lífsins. Viska aldanna verður ekki afgreidd með einföldum dægurflugum eða upphrópunum, hvað þá grunnu bloggi á þrasvöllum netsins.

Kristnir menn og múslimar hafa í aldanna rás sýnt að þeir geta lifað saman í sátt og samlyndi. Mörg dæmi eru um það m.a. á Spáni og víðar.

Í hinni gömlu Mughal höfuðborg Fatehpur Sikri, suður af Delhi í Indlandi, er mikið steinhlið að mosku staðarins, bogadregið og skreytt. Í þessu fagra hliði er áritun höggvin í steinbogann þar sem segir:

„Jesús, sonur Maríu, sagði: „Veröldin er brú, farður yfir hana, en byggðu engin hús á henni. Sá sem gerir sér von um daginn má vona á eilífðina; en heimurinn varir aðeins eina stund. Verðu henni í bæn, því allt annað er hulið.““ (þýðing ÖBJ)

 

Víst er að ekki hugsa allir múslimar eins og umburðarlyndi þeirra er meira á einum stað en öðrum og fordómarnir með ýmsu móti. Sama má segja um hinn kristna heim. Við erum haldin fordómum á marga lund en þrátt fyrir það eru mannréttindi þó óvíða betur tryggð en á Vesturlöndum.

Heimurinn skreppur meir og meir saman og við verðum í vaxandi mæli að fræðast um ólíkar stefnur og strauma í heiminum til að komast af í heimsþorpinu. Þess vegna þarf að fræða rækilega um kristna trú og menningararf okkar í íslenskum skólum en um leið að upplýsa nemendur um inntak helstu trúarbragða heims.

Verkefni lífsins eru margvísleg og mestu skiptir að leitast við að vinna úr þeim á uppbyggilegan hátt. Sársaukinn og mótlætið getur leitt af sér perlur eins og gerist í náttúrunni þar sem perlumóðurskelin umvefur sandkornið sem særir hana efnasambandi sem hún hleður utan um kornið þar til það verður að skínandi perlu. Stórmennið Mandela sem lést nýlega er e.t.v. gleggsta dæmið um þessa speki. Hann var stórmenni og það gat hann verið vegna lítillætis síns, alþýðlegheita og hæfileikans til að skapa tengsl við ólíka einstaklinga og skoðanahópa.

„Sá sem gerir sér von um daginn má vona á eilífðina; en heimurinn varir aðeins eina stund.“ Svo er ritað í steinbogann fyrrnefnda.

Hvað mun framtíðin bera í skauti sér. Hvernig verður þessi eina stund heimsins? Hver verða verkefnin okkar? Hvað munum við þurfa að takast á við, glíma við og jafnvel berjast við? Nú þurfum við sem þjóð að horfa fram á veginn af einurð og festu og forðaðst það að fljóta sofandi að feigðarósi af því að við nennum ekki að halda við menningu okkar og hinum kristna sið. Einhver óskilgreind andlegheit koma ekki í stað heilsteyptrar trúar með mörg þúsund ára sögu og iðkun fræðimanna og almennings. Látum ekki menningu okkar gufa upp og hverfa inn í eitthvert tómarúm sem sumir virðast þrá og vona á. Tómarúm í trúarlegum efnum eða lífsskoðunum verður aldrei til. Tómarúm fyllist jafnharðan af skoðunum sem taka yfir rýmið. Rýnum í skoðanirnar á tilboðspöllum samtímans og tökumst á við hugmyndafræði sem er framandi okkar kristnu sýn. Rökræða og skoðanaskipti mun aðeins efla okkur ef við göngum til samtalsins á heiðarlegan og einarðan hátt. Óttumst ekki framtíðina. Munum að trúin lofar okkur samfylgd hans sem fæddist á jólum og sagði:

„Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Hann boðaði ekki einfalt líf án baráttu og fórna heldur hólmgöngu við lygina og óréttinn. Hér á landi eru næg verkefni á ökrum lygi og óréttar. Á liðnum árum hafa augu landsmanna lokist upp fyrir því sem betur má fara. Nú sér margt fólk betur í gegnum spillinguna en áður. Þar þarf að uppræta illgresi og spillingu hér á landi, í stjórnkerfinu, innan stjórnmálaflokka og víðar. Í stjórnarskrármálinu svo sæmi sé tekið, hafa valdhafar leyft sér að hunsa vilja almennings og misbeitt valdi sínu í dekri við prívatskoðanir. Virðing fyrir lýðræði krefst samstöðu um úrslit. Í þjóðaratkvæðagreiðslu hafa allir eitt atkvæði, líka valdhafarnir og þegar þjóðin hefur tjáð sig þá liggur niðurstaðan fyrir og henni má ekki hagga vegna prívatskoðana einhverra einstaklinga sem tróna á toppi valdapíramídans. Vitnisburður úr innsta hring stjórnmálanna staðfestir þessi vinnubrögð. Því miður.

Kristin trú er róttæk afstaða til lífsins, sem sýnir samstöðu með kúguðu fólki og hrjáðu, þeim sem verða fyrir einelti og öllum sem fá ekki að lifa mannsæmandi lífi.

Valdhafar sem hygla yfirstéttinni og forréttindahópum á kostnað almennings eiga það ekki skilið að sitja að völdum. Þeir hafa fyrirgert rétti sínum. Og því spyr ég: Mun bæn Maríu guðsmóður rætast á þeim sem nú stjórna eins og hún gerði á tveimur fyrri ríkisstjórnum þessa lands? „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli“, sagði hún.

Kristur bjó lærisveina sína undir mótlæti og sagði:

„Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh 16.33)

Á jólum fögnum við komu frelsarans. Hann hefur sigrað heiminn og hann fylgir okkur fram um veg og inn í nýtt ár. Hann gefur okkur afl til baráttu fyrir réttlæti og friði eins og hann gaf frelsishetjunni Mandela kraftinn og gildagrunninn til hólmgöngu við spillinguna og lygina, mannfyrirlitninguna og miskunnarleysið sem einkenndi aðskilnaðarstefnuna.

Jólabarnið saklausa varð að hugrökkum manni sem breytti veröldinni og hafði meiri áhrif en nokkur önnur persóna sögunnar. Hann hefur sigrað heiminn.

Fylgjum honu í einarðri baráttu fyrir réttlæti og friði, sanngirni og sáttargjörð.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

 

Tilkynning:

Blað með upplýsingum um helgihald um jól og áramót liggur frammi.

 

Takið postullegri blessun:

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum og frelsara.

 

Hér fyrir neðan eru tenglar á fréttir sem nýttar voru í ræðunni:

 

A long winter for the Middle East’s Christians

 

The last decade has been catastrophic for the 14 million Christians in the Middle East, says William Dalrymple.

 

Read more:

http://www.bbc.co.uk/news/magazine-25463722

 

 

Biskopper: Kristendommen er blevet mere relevant for danskerne | Kristeligt Dagblad

Navigated from Biskopper: Kristendommen er blevet mere relevant for danskerne | Kristeligt Dagblad | shared via feedly mobile

 

 

„Jesus, Son of Mary (on whom be peace) said: The World is a Bridge, pass over it, but build no houses upon it. He who hopes for a day, may hope for eternity; but the World endures but an hour. Spend it in prayer, for the rest is unseen.”

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.