Prédikun við guðsþjónustu
á jólanótt í Neskirkju
24. desember 2013 kl. 23.30
Ræðuna geturðu hlustað á og lesið hér fyrir neðan.
Saga og hlutverk
Hver er besta sagan þessi jól?
Alla aðventuna fjölluðu bókmenntafræðingar og menningarvitar í fjölmiðlum um bækurnar sem komu út fyrir jólin. Við elskum sögur, eins og nú er í tísku að taka til orða. Sögur móta líf okkar. Segja má að allar sögur séu skáldsögur því engin saga er nákvæm lýsing á veruleikanum. Allt er túlkun háð, framsetningu höfundar, orðavali, sjónarhorni.
Jólanótt – stundin þegar englarnir sungu á Betlehemsvöllum og fögnuðu undrinu mikla. Um allan heim kemur fólk saman á jólum í kirkjum eða heima til að rifja upp mestu sögu allra tíma. Biblían er mikil sögubók. Hún geymir margar sögur af fólki eins og okkur en á öðrum tíma við aðrar aðstæður og á fjarlægum slóðum. Sagt er að þessi mikla bók hafi sama sniðmát og allar góðar sögur. Sniðmátið er þríþætt. Hver góð saga hefst á góðum og björtum nótum, svo tekur við flækjustig, atburður sem ógnar hinu góða og loks lokastigið þegar lausnin er fundin. Þessi þrískipting birtist t.a.m. í fornum riddarasögum þar sem hetjan leggur upp í för í leitinni að gralinu góða, svo hefst bardaginn, svikin, prettirnir, mótlætið, blekkingarnar, gáturnar og þrautirnar og loks kemur svo uppskeran mikla þegar gralið finnst og sögunni lýkur með heimkomu sigurvegarans. Segja má með nokkurri einföldun að allar kvikmyndir heimsins hvort sem þær eru framleiddar í Hollywood eða Bollywood, falli að þessu formi. Taktu eftir næstu mynd sem þú horfir á. Hún byrjar án efa á kyrrlátum nótum svo gerist eitthvað óvænt sem kallar aðalsöguhetjuna til starfa og loks lýkur myndinni með því að verkefnið vinnst og sigur næst. Segja má að rannsóknarlögregluþættir séu allir í þessu sama móti. Biblían hefur einnig í sér þessa þrjá þætti. Þeir heita á máli guðfræðinnar: sköpun, fall og endurlausn. Í bók bókanna er gengið út frá því að lífið og heimurinn eigi sér höfund sem skapað hefur allt og manninn í sinni mynd. En maðurinn víkur af réttri leið og flækjustigið hefst. Jólin boða síðan að lausnarinn er sendur og hann leysir gátuna og leiðir alla fram til sigurs.
Persónusaga Jesú er með sama móti. Jólasagan er fögur og hversdagsleg, kona fæðir barn. Svo tekur við áhyggjulaus bernska og mótunarár og loks árin þrjú þegar hann tekst á við samtíð sína og setur fram boðskap sinn og kenningar. Það er tími flækjustigsins sem nær hámarki í píslargöngu hans og krossdauða. Hann andmælti órétti og lygi samtíðar sinnar og galt fyrir það með lífi sínu. En sagan endar ekki þar, eins og þau héldu sem sáu hann hanga á krossinum, blóðugan og særðan, hún endar á upprisunni, sigrinum stærsta! Þriggja þátta saga.
María nýtur virðingar sem konan er fæddi jólabarnið, móðir Guðs á jörðu – „signuð mær son Guðs ól“.
Fólk var spurt á götu í Bretlandi nú á aðventunni: Hvar mundir þú láta Jesúbarnið fæðast ef þau væru í sporum Lúkas og værir að skrifa guðspjallið á 21. öld? Svörin voru með ýmsum hætti: Hann hefði fæðst í garðskúrnum, sagði maður nokkur. Kona stakk upp á strætisvagnaskýli því þar gerast jafnan merkilegir hlutir, sagði hún. Hvar eru þær aðstæður í samtímanum sem best lýsa þessum tímamótaviðburði? Svörin eru lílega ótalmörg.Hvað sem líður skoðunum okkar á því þá er eitt víst að hann fæddist ekki í marmarahöll eða skrauthýsi af neinu tagi. María var fátæk stúlka á unglingsaldri sem axlaði mikla ábyrgð. Var María e.t.v. fyrsta staðgöngumóðir sögunnar? spyr blaðamaður hinuy danska Kristeligt dagblad. Svarið er já hvað varðar það að taka á móti barni himinsins en nei þegar horft er til þess að hún hélt barninu. Í Palestínu fyrir tvö þúsund árum þekktust ekki staðgöngumæður. María mey fékk ekki peningar fyrir að fæða Jesúbarnið og barnið var ekki tekið af henni að lokinni fæðingu. En það gerðist aftur á móti síðar þegar hún horfði á hann negldan á kross. Þá var hann tekinn frá henni og sársaukinn nísti hjarta hennar. Hold og blóð komu þar við sögu eins og við alvöru fæðingu. Dauða hans hefur reyndar verið líkt við fæðingu. Hún hafði fóstrað hann og alið upp til þess að verða fyrirmynd annarra. Og það verkefni tókst betur en hjá nokkurri annarri móður í allri sögu heimsins.
Saga Jesú byrjaði vel en endaði illa – að því er virtist um tíma – en svo gerðist undur páskanna. Hann lifir! Sniðmát sögunnar gengur upp: Góð byrjun, flækjustig og lokasigur – á máli guðfræðinnar – sköpun, fall og endurlausn.
Hvernig mætum við undri jólanna? Hvernig skýrum við áhrif þessarar mestu sögu allra tíma.
Richard Holloway fv. biskup í Skotlandi birtir ljóð í bók sinni, Looking In The Distance, eftir Edward Hirsch sem ber yfirskriftina: Simone Weil í Assísí. Hún var franskur heimspekingur, kristinn mystíker og pólitískur aktívisti á fyrrihluta síðustu aldar. Hún hafnaði því ætíð að stíga um borð í nokkurt þeirra skipa sem trúarbrögð kallast og sigla áætlunarferðir í gegnum öldur mannlegrar sorgar og óvissu, segir biskupinn í bók sinni. Ljóðið Simone Weil í Assísí hljóðar svo í þýðingu minni:
Henni geðjaðist ekki að guðspjöllunum.
Hún trúði aldrei á dulúðug tengsl
hér neðra milli mannlegrar veru og Guðs.
Hún fyrirleit algengar birtingarfrásagnir.
En þennan eftirmiðdag í Assísí ráfaði hún
í gegnum hina skelfilegu Santa Maria degli Angeli
og rakst á lítið undur í hringbogastíl
hreinum þar sem heilögum Frans
hafði þótt gott að biðja.
Hún dvaldi þar stutta stund
þegar eitthvað afdráttarlaust og altækt,
eitthvað sem hún hvorki trúði á
né trúði ekki, eitthvað sem hún skyldi – en hvað
var það? – knúði hana til að falla á kné.
Sumt sem orkar á okkar innra líf og innsta hólf sálarinnar verður ekki útskýrt með neinum hætti. Það er einungis þarna og hefur þessi djúptæku áhrif, tengir okkur æðri veruleika og verður aldrei sannað né afsannað. Það er einungis þarna, „afdráttarlaust og altækt“ eins og segir í ljóðinu og viðbrögðin eru orðlaus lotning.
Og nú er jól. Jólasagan, svo einföld sem hún er og hversdagsleg að inntaki, hefur haft meiri áhrif á veröldina en nokkur önnur frásögn. Hún er raunsönn lýsing þar sem blóð, sviti og tár eru til staðar án þess að það sé sérstaklega útskýrt, saga þjáningar og mikillar áreynslu eins og sérhver fæðing barns í þennan heim. Alvöru saga af alvöru fæðingu. Sama saga og sú sem markar upphaf þitt og mitt í þessum heimi þegar við litum ljósið og fyrsta sinn.
Sagan af barninu snertir okkar innstu veru. Við skiljum ekki hvers vegna og þurfum ekki að skilja það. Jólin eru undur og þau lifa sem leyndardómur. Við tökum á móti boðskap þeirra eins og María forðum. Við erum ekki staðgöngumæður gleðitíðindanna miklu um komu Guðs í þennan heim. Við eigum barnið sjálf og það verður ekki af okkur tekið. Við tökum á móti boðskapnum, ekki til þess að missa hann síðar til annarra sem borga fyrir hann, heldur er þessi boðskapur okkar meðan við nærum hann og fóstrum, meðan við viljum sjálf ganga með hann innsti í lífi okkar. Það veitir hamingju og arð sem tekur öllum jarðneskum fjársjóðum og gulli fram.
Jólabarnið hefur vitjað þín og mín. Það mætir okkur í þeim dýra arfi sem íslensk jólahefð er. Glötum ekki þeirri hefð. Geymum boðskap sögunnar miklu í hug og hjarta, nærum leyndardóm og undur jólanna í innsta fylgsni lífs okkar.
Og að lokum: Hvernig endar saga þín? Hvernig er framvinda hennar? Er sagan þín þríþætt eins og allar góðar sögur? Nei, hún er tvíþætt. Hún byrjaði með því að þú fæddist sem saklaust barn, svo tók flækjustigið við og stendur enn. Við erum föst á flækjustiginu, þessu stigi ófullkomleikans. Það eru skelfileg örlög að festast þar og komast ekki á þriðja stigið. Er það boðakapurinn sem við förum með heim þessa jólanótt? Nei, varla þar sem fagnaðarerindið er í fyrirrúmi. Við náum ekki á þriðja stigið fyrir eigin tilverknað, góðverk eða sigra í hinu jarðneska lífi. En við náum því með honum sem sigraði dauðann og býður öllu lífi með sér inn í þriðja þáttinn, þátt sigurs og upprisu.
Hver er besta sagan þessi jól? Getur verið að það sé saga þín og Jesúbarnsins í einni fléttu eins og þarf að vera í öllum góðum sögum? Hann og þú saman á lífsveginum í samtali í gegnum hina helgu bók, í helgihaldi kirkjunnar og persónulegum bænum þínum og glímu við tilvistarspurningar lífsin í erli daganna? Þú með honum á leið í gegnum markið í lífshlaupinu mikla? Getur verið að þetta sé besta sagan þessi jól, sagan sem hvergi verður keypt en sagan sem skiptir þig öllu máli og varðar þín hinstu örlög?
Gleðileg jól! Gleðileg jól í Jesú nafni!
Takið postullegri blessun:
Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.
Amen.
Richard Holloway, Looking in the Distance, The Human Search for Meaning, Canongate, Edinburgh 2005 (first published 2004) s. 52n
She disliked the miracles in the gospels.
She never believed in the mystery of contact
here below, between a human being and God
She despised popular tales of apparitions.
But that afternoon in Assissi she wandered
through the abominable Santa Maria degli Angeli
and happened upon a little marvel of Romanesque
purity where St. Francis liked to pray.
She was there a short time when something absolute
and omnivorous, something she neither believed
nor disbelieved, something she understood – but what
was it – forced her to her knees.