Uppskera sem aldrei bregst

hvitir akrarÖrn Bárður Jónsson

Prédikun í Grensáskirkju

sunnudaginn 20. október 2013 kl. 11

Uppskera sem aldrei bregst

Friður Guðs sé með okkur.

Nýlega sá ég merkilegan þátt frá BBC í Sjónvarpinu um lífið og ljósið, um sköpunaramátt sólarljóssins sem knýr áfram í okkur hverja frumu og gefur öllu líf á þessari plánetu sem er sú eina sem við þekkju í alheiminum sem hefuri líf, vitundarlíf. Ljósið skín og gefur vöxt og ljósið er alltaf að verki. Lífið allt grær og vex fyrir áhrif sólarljóssins. Trúin segir að að baki þessu öllu sé annað og meira ljós. Hann sem skáldið kallar „sólnanna sól“ er að baki tilverunni. Það var hann sem sagði forðum: „Verði ljós og það varð ljós.“ Höfundur sköpunarsögunnar sá í huga sér að ljósið varð til á undan öllu og nú hafa menn sæst á þessa visku sköpunarsögunnar og séð með augum Hubble-sjónaukans og fyrir þekkingu geimvísinda að miklihvellur setti allt af stað. „Verði ljós og það varð ljós!“

Og enn skín ljósið og gefur öllu lífríkinu ávöxt, líka okkur.

Hann fékk 2 kirsuber í uppskeru nú í haust en 2-300 í fyrra. Bændur víða um land segja uppskeru haustsins lakari en á liðnu ári vegna vætutíðar sem ríkti og sólarleysis. Í fyrra var þessu öfugt farið ef veðurminni mitt bregst mér ekki en þá var víða ofþurrkur vegna skorts á regni og of mikils sólarljóss. En alltaf kom þó einhver uppskera. Akrarnir eru fullþroskaðir til uppskeru, sagði Jesús. Þeir eru ætíð þroskaðir andlega talað.

Ekki skorti uppskeruna forðum daga hjá okkur sem tóku þátt í boðun trúar í Safnaðarheimili Grensáskirkju fyrir aldarfjórðungi eða svo. Hingað streymdi fólk til hlusta á vitnisburð fólks um fagnaðarerindið, fólk sem endurnýjaðist í trú sinni, fékk nýja von og nýja sýn á lífið. Allt varð breytt og sólin skein úr hverju andliti. Það var mikil uppskera. Séra Halldór Gröndal, blessuð sé minning hans, boðaði trúna með skýrum hætti og tærum og svo var í samtarfi við hann hópurinn Ungt fólk með hlutverk. Sjálfur naut ég þeirra forréttinda að vera samstarfsmaður hans, sem djákni í sjálboðnu starfi fyrsta árið og loks launaður af söfnuðinum í ein 3 ár. Ég var þjónn þessa safnaðar og vann með öllum sem hér komu að verki, sóknarnefnd, safnaðarfólki, Ungu fólki með hlutverk og fleirum. Þetta voru tímar uppskeru og gleði. Messur voru fjölsóttar enda Halldór vinsæll prédikari og enn leikur Árni Arinbjarnar á orgelið og nú prédikar séra Ólafur á sinn skarpa og trúfasta hátt. Samkonurnar sem voru lengi vel haldnar vikulega á fimmtudögum voru fjölmennar og margir sóttu sér styrk og kraft í fyrirbæn og lofgjörð. Margir komu að þessu starfi. Friðrik Schram, prédikaði oft og Þorvald Halldórsson og Margréti Scheving leiddu lofgörð ásamt fjölda söngvara og tónlistarmanna. Ég man þegar lag Margrétar var frumflutt við texta 23. Davíssálms, Drottinn er minn hirðir, hér í safnaðarheimilinu. Nú þekkja þúsundir bæði lag og texta. Gróskan var gífurleg og uppskeran fyllti hlöður. Þá var gaman að lifa. Og það er enn gaman að lifa því Guð gefur vöxtinn.

Akrarnir eru hvítir nú sem forðum. Uppskeran er mismunandi eftir árferði eins og í akur- og jarðyrkju en alltaf gefur Guð vöxt.

Í fréttum var sagt frá því að heimtur fermingarbarna væru minni í sumum kirkjum en verið hefur undanfarin ár. Þetta sveiflast og auðvitað gerist það með vaxandi fjölhyggju að það kvarnast úr stóru sneiðinni sem Þjóðkirkjan hefur haft af þjóðarkökunni. Við skulum ekki örvænta. Áður hafa gengið bylgjur yfir þessa þjóð, bylgjur gagnrýni að kirkjuna og guðfræði hennar. Slíkt gerðist á fyrrihluta liðinnar aldar þegar fólk sagði sig úr kirkjunni af pólitískum ástæðum og sama átti sér þegar 68-kynslóðin taldi sig hafa himinn höndum tekið í blómum og bítlasöng. Sú frelsisbylgja hafði mikil áhrif á heiminn og upp úr henni spratt einnig Náðargjafavakningin eða hún varð til sem trúarbylgja samhliða hinni og laðaði margt ungt fólk að kristinni trú.

Nú sækja að íslensku samfélagi hugmyndastraumar sem aldrei fyrr vegna gríðarlegra áhrifa upplýsingabyltingarinnar sem birtist á veraldarvefnum. Við höfum upplifað mestu byltingu mannkynssögunnar og slíku umróti hlýtur að fylgja ögrun í garð allra ríkjandi kerfa. En við skulum aldrei örvænta því Guð gefur áfram vöxt eins og hann hefur gefið kristinni kirkju vöxt og viðgang í tvöþúsund ár og hér á landi í þúsund ár.

Ég var að hlusta á útvarp nýlega og þar heyrðist stöðugt suð og vélaglamur. Upptakan fór fram í prentsmiðju sem framleiðir biblíur og prentar 1 milljón eintaka í hverjum mánuði eða 12 milljónir á ári og hefur ekki undan. Á svæði sem er á stærð við knattspyrnuvöll er fólk að ganga frá bókbandi og pökkun. Þetta er í Kína þar sem kirkjan vex og vex hvern einasta dag og þúsundir og tugþúsundir taka kristna trú í hverri einustu viku. Á vesturlöndum er sumt fólk orðið andvaralaust gagnvart trúnni og því þarf kirkjan að finna boðun sinni nýjan farveg á hverri tíð og halda við menningararfinum. Ásókn annarra trúarbragða hér á landi verður vonandi til þess að hinir kristnu vakni af svefni og geri sér gleggri grein fyrir innihaldi trúar sinnar, marki hennar og miði og styrki tengsl sín við kirkjuna, efli þekkingu sína og ræki trúna af meiri þrótti.

Ég kom og hitti fólk hér í Grensáskirkju s.l. fimmtudag sem myndar hóp messuþjóna sem þjóna við þess messu. Í kjölfar fundarins með þeim fór ég í Hversdagsmessu og tók þátt í lofgjörð, bæn og söng með hópi fólks og hlýddi á séra Ólaf prédika og þjóna fyrir altari. Það var góð stund og uppbyggjandi.

Bænir kirkjunnar um land allt hafa áhrif og starf hennar bæði í kyrrþey og opnum vettvangi þar sem boðun fer fram gefur vöxt og uppskeru. Við sem nú lifum eru hluti af keðju kynslóðanna. Við höfum gengið inn í erfiði annarra og fengið að uppskera það sem aðrir sáðu til. Nú sáum við og aðrir munu uppskera. Þannig heldur lífið áfram, kynslóð eftir kynslóð. Virkni okkar í daglegu lífi, boðun okkar hvers og eins í orði og verki, á heimili, vinnustað og hvar sem er, hefur áhrif. Elskan til náungans sem sýnd er í verki boðar trú eins og Jesús sagði:

„Þér eruð ljós heimsins . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Starfið hér í Grensáskirkju heldur áfram. Frá því ég starfaði hér fyrir rúmum 30 árum hefur þetta fagra hús verið byggt. Burðarvirki þess eru þaksperrur sem minna á biðjandi hendur eins og séra Halldór Gröndal talaði um. Þær eru 7 + 7 og bekkirnir eru 10 + 10. Hér eru engar tilviljanir í tölum. Ég sé hér margskonar tákn. Á kórvegg eru 40 skildir í gráum lit sem minna á árin sem Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni og dagana sem Jesú var freistað í óbyggðum. Að baki krossinum á altarinu og á milli ljósanna tveggja – í gegnum eyðimörkina – liggur vegurinn upp til himins, vegurinn sem ljósið skín á og í gegnum og lýsir upp liti og tákn trúarinnar á vegferðinni. Við erum á leiðinni heim og Drottinn er með í för. Hann sem „er og var og kemur“. (Op 1.4)

Ljósin tvö á altarinu minna á fagnaðarerindi og lögmál, frelsið og ábyrgðina, fögnuðinn og skyldurnar. Allt líf verður að vera í jafnvægi milli fagnaðarerindis og lögmáls, frelsis og ábyrgðar. Það jafnvægi gleymdist á árunum fyrir hrun og því fór sem fór. Frelsið án ábyrgðar hlóp með okkur í gönur, taumlaus fjrálshyggjan, án öflugs eftirlits, setti allt á annan endann. Við erum enn að súpa seyðið að þeirri óráðsíu.

Lífið heldur áfram og sú þrenging sem við nú göngu í gengum efnahagslega er lítil miðað við margar kreppur og plágur sem gengið hafa yfir þetta land í rúmlega þúsund ára sögu þessarar þjóðar. Við komumst einhvern tímann á beinu brautina ef okkur auðnast að viðhalda hér þeim gildum sem mestu skipta. En gildin góðu eru í hættu. Heilbrigðiskerfið t.a.m. er fjársvelt vegna þess að forgangsröðun er röng í þessu þjóðfélagi. Það væri ekki svo ef kristin gildi væru í heiðri höfð, gildi miskunnar, réttlætis og sannleika.

Við höfum verk að vinna.

„Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“

Tækifærið er nú! Ekki á morgun eða eftir 4 mánuði, heldur núna!

Kirkjan mun lifa, kristin kirkja mun dafna í heiminu en kirkjustofnanir geta riðað til falls og hrunið. Íslenska þjóðkirkjan gengur nú í gegnum hreinsun og eldskírn. Vonandi nær hún vopnum sínum. Það gerir hún helst, að ég tel, með því að iðrast og sýna auðmýkt, vera trú í þjónustu við almenning í landinu, en ekki auð og vald, með því að standa með þeim sem verða fyrir aðkasti og fordómum og vera róttæk eins og frelsarinn var á sínum tíma, sem ætíð og ávallt tók sér stöðu með lítilmagnanum en gegn valdinu, bæði trúarlegu og veraldlegu. Fyrir það leið hann reyndar dauða á krossi en reis upp frá dauðum fyrir mátt Guðs.

Lífið rís ætíð upp fyrir mátt hans sem er „sólnanna sól“, aflið að baki allri tilverunni. Hann starfa í elsku og elskan hans gefur okkur frelsi til að lifa og starfa.

Guð blessi starf kristinnar kirkju í heiminum, á Íslandi, hér í Háaleitishverfinu og hvar sem fólk tekur höndum saman um að lofa Guð og boða orð hans. Guð hefur heitið því að gefa vöxt og viðgang. Hann heyrir bænir og hann gefur vöxt.

Til hamingju meðafmælið og  með lífið og til hamingju með uppskeruna sem í vændum er.

Amen.

– – –

Myndir úr messunni og messukaffinu:

oliogorn2 oliogorn

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.