Af úlföldum og öðrum skepnum

Ulfaldi2Örn Bárður Jónsson

Prédikun í Neskirkju 29. september 2013 – 18 sd. e. trinitatis

Af úlföldum og öðrum skepnum

Við náum því ekki

Þú getur lesið ræðuna og hlustað á hana hér fyrir neðan.

Mk 10.17-27

Við komum líklega ekki hingað til að láta móðga okkur. En hvað finnst þér um að vera líkt við úlfalda og vera jafnvel talinn stærri en úlfaldi?

Úlfaldi er engin smáskepna sem á samvkæmt líkingu Jesú auðveldara með að komast í gegnum nálarauga en auðmaður inn í Guðs ríki.

Maður kom til Jesú. Hann var auðugur. Hann vildi fá svar við stærstu tilvistarspurningu sinni: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

Hann virðist spyrja í angist og ótta yfir óvissu sinni. Þessi spurning brann á honum.

Hvaða spurningar brenna á okkur Íslendingum í dag, Svíum eða öðrum velmegandi þjóðum? Erum við upptekin af því hvort við öðlumst eilíft líf eða ekki? Erum við ekki uppteknari af spurningum um kaup og kjör, utanlandsferðir, kaupmátt, tískusveiflur og þess háttar hluti? Hvað brennur á okkur þegar við leiðum hugann að hinstu rökum þessarar tilveru? Berum við einhver ugg í brjósti varðandi örlög okkar eða erum við bara ligeglad eins og dani við sumargrillið og fljótum sofandi að feigðarósi?

Maðurinn sem kom til Jesú hafði áhyggjur af örlögum sínum. Hann óttaðist Guð, bar m.ö.o. virðingu fyrir Guði og vissi að örlög hans voru í höndum hins hæsta. Erum við eins og maðurinn í sögunni sem átti allt og taldi sig lifa réttu lífi en hafði ekki frið í sálu sinni? Er íslenskt þjóðfélag eins og þessi auðugi maður? Í hliðstæðri sögu hjá Lúkasi er honu lýst sem auðugum höðingja en Matteus talar um ungan mann sem stundum er nefndur í túlkunarsögunni: ríki unglingurinn.

Við erum auðmenn í samanburði við margar aðrar þjóðir. Við höfum það ótrúlega gott. Samt er allt í steik. Spítalarnir eru í andnauð vegna fjárskorts og mörg heimili berjast í bökkum. En við erum samt bjargálna þjóð. Eða hvað? Hvað segir það okkur að spítalarnir eru fjársveltir meðan létt er birðum að auðmönnum? Hvað hugsar þjóð sem þannig hagar sér? Hver eru siðferðisleg gildi hennar? Erum við sem þjóð ofurseld ákvörðunum ríkra unglinga sem ekki óttast um örlög sín og halda að þeir geti snúið röngunni upp og látið eins og hún sé réttan?

Um landið fer hjörð af dýrum sem eru stærri en úlfaldar. Þau komast ekki í gengum nálaraugað fyrir eigin rammleik.

Jesús tók ekki við neinu flaðri frá unga mannninum sem ávarpaði hann með virðulegum titli en hann tók spurningu hans alvarlega og brást í raun við með því að segja: Staldraðu við og hugsaðu. Hann róaði hann niður og spurði hann um breytni hans og áherslur í lífinu. Í ljós kom að maðurinn var heiðvirður góðborgari. Heiðvirðir menn forðast að gera vissa hluti en kristindómurinn snýst ekki um það hann snýst um að gera hið rétta og nauðsynlega. Að vera kristinn snýst ekki um að forðast hið ranga heldu gera hið rétta. Og kristindómurinn snýst ekki heldur um að ríghalda í einhverjar túlkanir á Biblíunni sem ganga gegn mannréttindum og niðurlægja náungann sbr. afstöðu margra til réttinda samkynhneigðra. Og ekki gengur að vísa bara í Guð og segja við þá sem andmæla eins og sagt var í Kastljósi í vikunni sem leið: Spurðu Guð, hann setur reglurnar.

Þessi orð hneyksla marga. Sumir telja sig gera allt rétt en geta ekki viðurkennt náungann eða hans eðlislægu breytni.

Ég held reyndar að aðferð þeirra sem nú vilja berja á íhaldssömum kristnum sem halda Hátíð vonar í Laugardalshöll sé röng. Við berjum ekki fordóma úr fólki eða notum aðferðina auga fyrir auga og tönn fyrir tönn þ.e. setjum upp aðra hátíð hinni til mótvægis.  Með því að stilla upp annarri hátið við hlið hinnar taka þau sér stöðu inn á velli hinna og samþykkja leikreglurnar sem þeir settu, úreltu regluna. Við getum aðeins gert tvennt varðandi fordóma. Við getum upplýst um þá í kærleika og elskað þá í burtu. Það er eina leiðin, upplýsing og elska. Kærleikurinn sigrar allt.

Jesús sagði í raun við unga manninn og gæti þess vegna sagt við margt vel meinandi kristið fólk í dag: Hættu þessum góðborgarastælum og gefðu eigur þínar fátækum. En það gat ungi maðurinn ekki hugsað sér. Hann var með allt á hreinu nema elskuna til náungans.

Jesús mætti honum í kærleika. Hann var hvorki reiður né bitur í hans garð. Jesús horfði á hann með ástúð og ögraði honum til að fara út úr þægindarammanum svo ég noti nú tískuorð og hvatti hann til að lifa í sannri trú og þar með frelsast úr eigin fjötrum.

Hverjir eru fjötrar okkar? Hverjir eru baggarnir sem gera okku stærri en úlfalda. Hvaða hindranir eru milli okkar og Guðs?

Hér verðum við hvert og eitt að líta í eigin barm. Við megnum ekki að ná sáttum við Guð í eigin mætti, fyrir góðverk eða góðborgarahátt. Það dugar okkur ekki hér í Vesturbænum að hafa íslandsmeistarabikarinn í höndum í 26. sinn. Það dugar okkur ekki að hafa háar prófgráður frá HÍ eða öðrum menntastofnunum, doktorsgráður og allt það. Stóru húsin og íbúðirnar duga ekki heldur eða flottu bílarnir, ekki einu sinni rafbíll kemur okkur inn í himininn, merkjavörurnar, eða félagstengslin og það að tilheyra elítunni og fá af sér mynd í glanstímaritum. Og ekki einu sinni þekking á öllum versum Biblíunnar. Ekkert af þessu dugar. Þetta er allt glatað ef elskuna skortir.

Það sem mestu skiptir er að elska Guð og náungann. Það er mælistikan sem allt þarf að metast út frá. Leggjum þá mælistiku á aðgerðir stjórnvalda í sveit og á landsvísu. Skoðum hvort ákvarðanir standast mælikvarða hins hæsta þegar kemur að skiptingu kökunnar, verndun lands, auðlinda þess og undra. Reglulega eru birtar tölur um lánshæfi Íslands og stöðu á hinum og þessum mælikvörðum heimsins. Mikilvægast er að spyrja: Hvar stendur Ísland á mælikvarða elskunnar? Kemst Ísland í gegnum nálaraugað? Komumst við í gegn?

Nei, Ísland kemst ekki í gegn. Við komumst ekki í heldur í gegn.

Og lærisveinar Jesú „spurðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

Amen.

Myndin var fengin að láni á vefnum og þakka ég hér með listamanninum sem skapaði verkið.

I hereby thank the artist for the watercolor work I found on the web and used here as an illustration.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.