Getur það verið?

upprisanmedaugumafrikuPrédikun í Neskirkju

sunnudaginn 15. september 2013 – 16. sd. e. trin

Textar dagsins eru hér.

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan.

„Ég er upprisan og lífið.“

Hvaða hugrenningar skapar orðið upprisa í þínu huga nú á þessari stundu?

Upprisa.

Hefur einhver áhuga á henni á þessum síðustu tímum?

Skiptir upprisan t.a.m. ungt fólk einhverju máli?

Skiptir hún femringarbörn einhverju?

Háskólanema?

Kórfólk?

Karla?

Konur?

Börn?

Fólk með ólíka kynverund?

Hvaða máli skiptir upprisa yfirhöfuð? Og hvaða máli skiptir meint upprisa Jesú fyrir 2000 árum?

Erum við kannski vaxin upp úr þessum pælingum sem þjóð og búin að afgreiða þær með sálarrannsóknum á liðinni öld og miðilsfundum, deilum innan guðfræði þar sem frjálslynd guðfærði tókst á við hina íhaldssömu?

Hverju skiptir upprisan núna?

Í fyrsta skipti í sögunni hefur manngerður hlutur ferðast út úr sólkerfi okkar. Voyager I hefur náð þeim áfanga á 36 árum. Vegalengdin að endamörkum alheimsins er óþekkt stærð og næstu árþúsund mun Voyager bara fara fetið eins og maðkur sem skríður í mold, svo stór er alheimurinn og hraði geimfarsins lítill í samanburði við þá stærð. Við vitum svo lítið en samt hleðst upp þekking og tækni í heiminum og aðgengi að þekkingu hefur aldrei verið betra. Þrátt fyrir alla þessa þekkingu hefur hún ekki leyst trúna af hólmi. Enn á fólk í huga sér og hjarta vitund um hið stóra samhengi. Börn tjá hugmyndir sínar um lífið og tilveruna, um lífið og dauðann og í hugmyndum þeirra birtast klassískar túlkanir á tilverunni. Þetta sé ég sem prestur í þjónustunni við syrgjendur. Og upplýst fólk hefur enn trú á tölum eins og 7-9-13 og trúir líka á álfa og goðmögn. Sjálfur hef ég aldrei bankað í borð og sagt 7-9-13 af því að það telst til hjátrúar í mínum huga. Kristnir menn voru ofsóttir í Rómaveldi forðum daga m.a. fyri guðleysi, fyrir ateisma, fyrir það að trúa ekki á goðmögn eða hjáguði, hindurvitni eða hégiljur, heldur einungis á einn höfund lífs og heims, á skaparann sem leiddi fram hinn efnislega heim án allra goðmagna. Jörðin og geimurinn er því bara efni. En heimurinn er um leið andlegur v.þ.a. andi Guðs verkar á heiminn, á mannfólkið. Skapari og sköpun eru sitt hvað. Kristin trú sem á annað borð er í jafnvægi er trú sem faðmar skynsemina og vísindin og sér hvorugt ógna tilveru sinni. Þrátt fyrir vísindaiðkun mannsins um aldir og harða sókn margra andstæðinga á liðnum öldum gegn trúnni og einnig í samtímanum, lifir kristin trú sem hluti af mannlífinu.

Martin Luther King jr. flutti sína ræðu um drauminn sinn fyri 50 árum. Ræðan var trúarleg í grunninn. Hún var ein samfelld bæn og ákall um betri heim. Öll viðleitni mannsins til að bæta heiminn er byggð á von, byggð á trú. Hún er í grunnin bæn til hins hæsta eða í það minnsta til hinna æðstu gilda. Mér koma í hug skyldleikatengsl orðanna upprisa og uppreisn þegar talað er um þjóðfélagsumbætur. Í orðabók segir að uppreisn sé t.d. vopnaður samblástur gegn yfirvöldum, tilraun til byltingar. Talað er um uppreisn á skipi, uppreisn kúgaðra stétta. Svo er líka talað um að fá uppreisn æru, verða sýkn af ásökunum sem varða æru manns. Uppreisn hefur fleiri en eina merkingu en er hún ekki oft í grunnin samblástur fólks með væntingar um betri heim?

Svo má spyrja: Hvaðan koma okkur, sem gistum hinn ófullkomna og oft á tíðum vonda heim, hugmyndir um betri heim? Hvaðan kemur minnið eða vitundin um hið fullkomna? Um sannleika? Um réttlæti? Hvaðan er þessi vitund um hið góða, fagra og fullkomna?

Ef Guð hefur skapað þennan heim, ef Guð er að baki öllu lífi þá hlýtur það að vera tilgangslaust að hafna honum. Við getum auðvitað sagt að hann sé ekki til, að hann skipti engu máli, en þá erum við líklega í sömu sporum og fóstur sem hugsaði með sér: Hér er ég og ég er miðja alheimsins, móðurlífið er bara til fyrir mig en móðirin sjálf er ekki til. Hún er bara blekking. Eða fiskurinn í sjónum. Hann gæti hugsanlega afneitað sjónum, byggi hann yfir mannlegri hugsun, en samt héldi sjórinn áfram að renna um tálkn hans með súrefni sem heldur í honum lífinu. Fiskurinn í sjónum og sjórinn í fiskinum. Ég í Guði og Guð í mér.

Trúðu á tvennt í heimi,

tign sem æðsta ber.

Guð í alheimsgeimi,

Guð í sjálfum þér.

Svo orti Steingrímur Thorsteinsson.

Draumaræða King var bæn um upprisu, upprisu þjóðar, einkum hinna svörtu meðal hinna hvítu, en líka um upprisa hinna hvítu, um að hugarfar þeirra öðlaðist nýtt líf, nýja sýn. Upprisan er allstaðar að verki í lífinu. Í hvert sinn sem þjóð er brýnd til að kasta af sér fordómum er á ferð fólk sem þráir upprisu hinna góðu gilda, fólk sem biður um viðurkenningu á sjálfu sér sbr. barátta samkynhneigðra hér á landi og víða um heim. Líf Jesú, eins og það birtist í Nýta testamentinu sem ritað var fáum árum og áratugum eftir krossfestingu hans meðan minningarnar um hann voru enn ferskar, ber vott um mann sem barðist gegn fordómum. Samtöl hans við farísea og samferðafólkið yfirleitt snerust oftar en ekki um að viðurkenna þau sem voru fyrirlitin og smáð.

Íslenska þjóðin bíður og væntir upprisu. Þjóðin tók trúarlegan boðskap þeirra afla sem nú ráða, einkum boðskap um upprisu efnahagslífsins. Munu þær vonir rætast? Við skulum bíða og sjá. Ef ekki þá verðum við að kalla enn hærra eftir upprisu og kannski gera uppreisn, taka aftur fram potta og pönnur.

Á krossi hékk maður, einstakur maður, sem breytt hafði hugsunarhætti samferðamanna sinna með afgerandi hætti. Hann hékk lífvana á tré undir brennandi geislum þeirra sólar sem almættið skóp. Og vonir fylgjenda hans dóu með honum. En svo breyttist allt. Hann birtist þeim á ný og þeir sögðu hann upprisinn. Fyrir þessa trú dóu þeir allir píslarvættisdauða utan einn. Getur verið að þeir hafi dáið fyrir draumsýn? Blekkingu? Ég get ekki útskýrt upprisuna. Ég skil ekki hvernig dauður maður getur birst lifandi fólki. Hvernig gátu þessir vonsviknu menn öðluðust trúna á lífið á ný. Hvernig stendur á því að enn gerist þetta sama og forðum daga að fólk færi nýja von og rís upp til að lifa áfram? Ég skil það ekki nema í ljósi trúarinnar. Fólk nær heilsu á ný, vaknar af dvala og drunga, slítur af sér dróma, leysist úr læðingi, rís upp og heldur áfram fyrir mátt vonar og trúar.

Upprisan er alltaf að gerast.

Nýlega jarðsöng ég mann á besta aldri og sagði þá m.a.:

„Hér eru vinir saman komnir, ástvinir og samferðafólk [. . . ]. Hann er horfinn en við eigum minningarnar. Saga hans er ekki á enda því við höldum henni áfram með því að minnast hans og tala um hann. Þannig höldum við því áfram sem Guð hefur skapað. Við sköpum veruleikann með orðum okkar og athöfnum, sköpum þeim eilífð sem horfin eru með minningum okkar, orðum og sögum. Við og hann erum enn samferðafólk, hann í sinni vídd og tilveru og við hér í þessum heimi tímans og tregans, uns við söfnumst öll þar sem hann er nú, ég og þú, samferðafólk á sömu leið.“

Þetta er ein túlkun upprisunnar. Hún er eins og demantur með mörgum flötum sem hver og einn endurvarpar ljósbroti af hinu eina sanna ljósi.

Hverju skiptir upprisan? Skiptir hún einhverju máli? Skiptir vonin einhverju máli? Trúin? Draumarnir? Upprisulífið í öllum sínum margbreytileika?

Getur verið að við séum bar hér þessa stuttu stund sem ævin er og svo búið? Getur verið að við hverfum bara allt í einu? Getur verið að hugurinn sem kann að láta sig dreyma og hugsa út fyrir rammann, um hið stóra samhengi; hugurinn sem getur ferðast um heima og geima sé bara rafmagn og straumrásir sem slokknar á í dauðanum, eins og þegar rafhlaðan í gömlum farsíma gefst upp og deyr endanlega?

Getur verið að lífið sé bara þannig. Eða getur það verið að hafið verði áfram til, lífshafið, hafið sem við erum hluti af, við í hafinu og hafið í okkur? Getur verið að þetta stóra haf, hinn alltumlykjandi hugur almættisins, geymi minninguna um okkur þegar allir verða dánir sem nú muna okkur og munu muna okkur næstu árin og áratugina? Getur verið að við rísum upp og lifum að eilífu í huga hins hæsta? Getur verið að hann hafi til þess í senn elsku og mátt?

Er það hugsanlegt? Getur það verið?

Amen.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.