Draumurinn

I have a dreamDraumurinn 

Prédikun í Neskirkju

sunnudaginn 1. september 2013

– 14. sd. e. trin.

 

 

Textar dagsins eru hér.

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hana.

Einhver innskot eru á hljóðupptökunni sem ekki eru í textanum.

 

„Ég á mér draum“, eru orð sem heimsbyggðin þekkir, orð baráttumannsins og prestsins, Martins Luthers King jr., sem hann flutti svo eftirminnilega fyrir 50 árum við Lincoln-minnismerkið í Washington yfir tugum þúsundum áheyrenda. Þar var saman komið fólk sem vildi breytingar, vildi taka upp rekkju sína og ganga á vit nýs þjóðfélags.

Baráttunni fyrir betri heimi lýkur aldrei.

Maður nokkur sagði við mig á dögunum: Hvernig stendur á því að hver kynslóð ratar í sömu ógöngurnar öld eftir öld? Svarið er einfalt: Hver kynslóð verður að læra sína lexíu. Við, hvert og eitt, sem erum orðin fullorðin, höfum þurft að læra okkar lexíu. Við getum tekið eitthvert mið af reynslu formæðra okkar og feðra, en það er nú aðeins í litlum mæli hverju sinni, að ég held. Einhverja reynslu er hægt að setja í reynslubanka á hverri tíð en hún virðist brenna hraðar upp en krónan í kjöllurum Seðlabankans. Lífið er daglegt strit eins og segir á fyrstu síðum hinnar helgu bókar:

„Svo lengi sem jörðin stendur skal hvorki linna sáningu né uppskeru, frosti né hita, sumri né vetri, degi né nóttu.“

Við erum, í vissum skilningi, á byrjunarreit á hverjum degi.

Við laugarbakkann lá maður. Hann var á byrjunarreit hvern dag. Hann varð að láta bera sig að bakkanum. Þar lá hann og beið þess að nýtt líf hæfist. Hann var búinn að bíða lengi. Hann átti sér draum og hann lét sig svo sannarlega dreyma. Í 38 ár hafði hann beðið. Og þá rann upp dagurinn hans, tækifærið hans. Jesús gekk hjá og hann spurði manninn: „Vitlu verða heill?“ Merkilegt hvernig Jesús nálgast hann. Hann vill fá hann sjálfan til að orða draum sinn, segja hann upphátt. Og það gerði maðurinn og fékk þá hið einfalda ráð, að standa upp og taka rekkjuna og fara á braut. Draumurinn hafði ræst! Lífið hafði breyst! Allt varð nýtt!

Einn af þekktari vonartextum GT var fluttur sem lexía í þessari messu. Þar segir m.a.:

Hann [Guð] fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.
Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.

Strax þarna, mörgum öldum fyrir Krist, var fluttur boðskapur um þjóðfélagslegt réttlæti sem fólk vænti úr hendi Guðs.

Maðurinn við laugarbakkann vænti þess sama. Að taka ábyrgð á sjálfum sér er mikilvægt skerf á hverri tíð. Maðurinn sem beið ásamt mörgum sjúkum við vatnið og væntu kraftaverks þurfti sjálfur að taka ábyrgð. Hann var að standa upp en hann gat það ekki nema af því að hann heyrði lausnarorð hins máttuga. Hann færði honum lykilorðið og skipaði honum að rísa á fætur.

Obama forseti sagði í tilefni af orðum Martins Luthers King að breytingar hefðu orðið á mörgum sviðum vegna þess að fólk stóð upp og tók ábyrgð, sýndi samstöðu, lét í sér heyra og mótmælti status quo, hinu óbreytta ástandi. Martin Luther King jr. sem var skírður eftir siðbótarmanninum sem okkar kirkja kennir sig við, var mótmælandi eins og við, en orðið mótmælandi hefur verið notað um aldir um kirkjudeildir sem spruttu upp úr siðbótinni sem Marteinn Lúther, Kalvin, Zwingli og fleiri leiddu á 16. öld. Ég tók eftir því í texta með frétt í Sjónvarpinu í liðinni viku að mótmælendur eða protestants voru kallaðir lútherskir! Sennilega hefur þýðandinn viljað uppfræða nútímafólk sem veit ekki lengur hvað mótmælandi er nema þegar sagðar eru fréttir af fólki berjandi búsáhöld fyrir framan alþingishúsið. Orðið mótmælendur á í raun við um flestar kirkjur í heiminum aðrar en þá kaþólsku og orþódoxu og nafngiftin tekur mið af því að Marteinn Lúther mótmælti páfanum forðum daga. Við erum mótmælendur í þeim skilningi að tilheyra mótmælendakirkju og líka mótmælendur ef við þorum að leggja baráttunni fyrir betra þjóðfélagi lið og betrun heimsins.

Kirkjan má ekki verða samdauna sjúku þjóðfélagi. Hún, þ.e.a.s., við, því við erum kirkjan, erum salt jarðar, eins og Jesús orðaði það. Salt dregur úr spillingu og ver fyrir sýkingu. Við erum kölluð til þess að fegra og bæta mannlífið og það getum við gert í hvaða stöðu sem er. Gáfur okkar og kraftar, mannvit og menntun, á að beinast að því að bæta og laga það sem er að í mannlegu samfélagi. Og hér er mikið verk að vinna. Liggjum ekki aðgerðarlaus á laugarbakkanum og bíðum lausna hjá öðrum. Tökum ábyrgð á eigin lífi og beitum okkur.

„Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“, sagði Jesús forðum og þau orð eiga enn við. Stöndum upp og látum drauminn um betri heim rætast með okkar kynslóð.

Bíðum ekki eftir því að aðrir geri það sem gera þarf. Við erum svarið! Stöndum upp og styðjum þau sem eiga undir högg að sækja, verða fyrir fordómum og aðkasti. Stöndum með þeim sem þurfa hjálp og stuðning í baráttu sinni á hverri tíð. Stöndum með náunga okkar, stöndum með lífinu, stöndum með honum sem hefur haft mest áhrif allra einstaklinga til betrunar þessa heims, stöndum með Jesú, sem þorði. Vöknum af svefni og látum okkur dreyma vakandi um betri heim, dreyma með mesta umbótamanni sögunnar, sem var mannréttindafrömuðinum bandaríska aflvaki til góðra verka.

Fermingarbörnin skrifuðu drauma sína á blað á námskeiðinu í þar seinustu viku. Þeir draumar voru lagðir á altarið hér og fyrir þeim var beðið. Martin Luther King jr. átti sér draum um betri heim og fermingarbörnin láta sig líka dreyma. Stærsti draumamaðurinn um breyttan heim var og er Jesús, sem enn dreymir um heiminn, um okkur, þig og mig. Við erum draumafólkið hans, fólkið sem getur og þorir væntanlega líka.

Látum okkur dreyma og látum hendur standa fram úr ermum og hugsum um orð postulans sem fyrr voru lesin:

„Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“

Og þessi sonur Guðs sagði:

„Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“

Hann flutti lausnarorð, sleit fjötra, lét drauma rætast, sá í gegnum öll dimm ský, öll svik og pretti, alla mannlega spillingu og sjúkleika.

Hann lifir, hann lifir í boðskap kristninnar, hann lifir að eilífu.

Með honum rætast draumarnir.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.