Minningarorð
Már Ársælsson
stærðfræðikennari
1929-2013
Útför frá Neskirkju 22. ágúst 2013 kl. 13.
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.
Erfi í Neskirkju.
Minningarorðin er hægt að lesa hér fyrir neðan og einnig hlusta á hljóðupptöku.
Við búum í heimi mikilla stærða. Alheimurinn er ógnarstór og sagður þenjast út á ógnarhraða. Fyrir tveimur árum eða svo fundum vísindamenn nýtt sólkerfi hvers sól er margfalt stærri en sólin okkar. Það tæki farþegaþotu 1100 ár að fara einn hring um þessa nýfundnu sól. Og enn er margt á huldu og ófundið í alheiminum. Og menn ráða í rúnir lífisins og reikna af krafti í leitinni að meiri þekkingu.
Stærðfræðin er heillandi fræðigrein og hún átti hug Más alla tíð. Ungur sýndi hann mikinn áhuga á vísindum og tilraunastarfsemi og fjölskylda hans rifjaði það upp í mín eyru að sem drengur fékk hann hitt og þetta í Reykjavíkurapóteki sem fáir máttu kaupa en apótekarinn treysti þessum fróðleiksfúsa dreng fyrir efnum sem voru svo sannarlega engin barnaleikföng. Snemma beygist krókur, segir máltækið. Már varð stærðfræðingur og áhugamaður um vísindi og fræði og helgaði krafta sína reiknislistinni alla sína starfsævi. Hann var virtur og vinsæll kennari sem opnaði nemendum heillandi heim fræðigrienar sinnar.
Hann hafði alla tíð brennandi áhuga á öðrum greinum svo sem eðlis- og efnafræði, lyfjafræði og stjörnufræði.
Síðustu árin vann hann að umfangsmikilli úttekt á talnakerfum heimsins, eins og þau hafa birst okkur allt frá elstu samfélögum mannsins til vorra daga.
Hann var kennari við Tækniskóla Íslands í rúma 3 áratugi og átti drjúgan þátt í að móta stærðfræðikennslu skólans. Hann vildi alla tíð kenna mikla stærðfræði og þurfti oft að verja þá afstöðu sína og gerði það með einörðum hætti en eins og vitað er berjast kennarar gjarnan fyrir sinni grein í skólum hvað varðar tíma og vægi. Hann var vígfimur vel í þeim efnum.
Um árabil var hann trúnaðarmaður Félags tækniskólakennara og sat í samninganefnd félagsins og var heiðursfélagi þess. Hann var einnig virkur í BHMR. Már gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina og vann m.a. við talningu atkvæða í kosningum um árabil.
Hann var höfundur margra kennslubóka í stærðfræði og skyldum greinum. Meinatækni var nýtt fag sem hann ásamt öðrum fóstraði m.a. með því að skrifa kennslubækur. Hann var einn af stofnendum Kvöldskólans í Reykjavík sem settur var á laggirnar í því augnamiði að fólk hvar sem það væri statt í menntun sinni gæti bætt þar við sig.
Hann hafði mikið yndi af klassískri tónlist, sótti tónleika ötullega á námsárum sínum og átti gott hljómplötusafn, bækur um tónskáld og verk þeirra og uppsláttarrit og síðast en ekki síst nótur og raddskrár ýmissa helstu tónverka klassískrar tónlistar.
Már fæddist í Reykjavík 6. apríl 1929. Hann lést á Landspítalanum 11. ágúst 2013. Sama dag fyrir 40 árum lést faðir hans.
Foreldrar Más voru Ársæll Sigurðsson, f. 30.10. 1895, d. 11.8. 1973, trésmiður og bæjarfulltrúi í Reykjavík og kona hans, Anna Margrét Ottósdóttir Siemsen, f. 9.2. 1902, d. 04.05. 1984.
Bræður Más eru: Hrafnkell, f. 11.1. 1938 og Snorri, f. 10.4. 1947.
Þann 19.5. 1953 kvæntist Már Lilju Kristjánsdóttur, f. 12.2.1929, frá Hermundarfelli í Þistilfirði.
Þau kynntust ung á Gullfossi á leið til Danmerkur, hann til náms en hún til starfa hjá Sigurði Nordal, sendiherra í Kaupmannahöfn.
Börn Más og Lilju eru:
1) Áskell, f. 21.11. 1953, tónskáld í Reykjavík. Maki: Sigríður Búadóttir, hjúkrunarfræðingur.
Dóttir Áskels er Margrét, f. 4.11. 1984. Maki: Leifur Björnsson. Dóttir þeirra er: Sesselía Úa, f. 25.04. 2010.
2) Ársæll, f. 20.1. 1955, framhaldsskólakennari í Reykjavík. Sambýliskona: Margrét Pálsdóttir málfræðingur.
Börn Ársæls eru:
a) Lilja, f. 24. júní 1979. Maki: Jón Freyr Benediktsson. Börn: Benedikta Valgerður, f. 9.1. 2006, Mikael Karl, f. 1.4. 2013.
b) Teitur, f. 28.2. 1983.
c) Benedikta, f. 13.3. 1990. Sambýlismaður: Jonathan Baker.
3) Karólína Margrét f. 17.3. 1956, grunnskólakennari á Akureyri. Maki: Stefán Jóhannsson, starfsmaður við HA.
Synir þeirra eru:
a) Baldur Már, f. 30.9. 1982.
b) Andri Snær, f.18.4. 1986. Sambýliskona: Kristín Hanna Bjarnadóttir. Sonur: Sölvi Snær f. 3.9. 2012.
- Ágúst, f. 29.4. 1989.
4) Þórdís f. 30.7. 1958, sjúkraliði í Reykjavík. Maki: Aðalsteinn Stefánsson, flokksstjóri hjá Reykjavíkurborg.
Börn þeirra eru:
a) Hildur, f. 15.11. 1983. Maki: Eiður Gunnar Bjarnason.
Synir þeirra eru: Bjarni Gunnar, f. 27.4. 2002 og Emil Fannar, f. 25.9. 2005.
b) Valný, f. 2.6. 1985.
c) Ottó Freyr, f. 14.9. 1989.
d) Aðalheiður, f. 7. 3. 1998
5) Ottó f. 13.1. 1965, heimspekingur og bóksali í Reykjavík.
Synir hans eru Már, f. 28. 1. 1992, og Bjarni, f. 23.1. 1996.
Már var vænn maður, bjartur og góðlegur svipur hans gaf til kynn að að baki væri heilsteypt sál. Hann var hlýr maður og hafði góða nærveru. Börnin nutu leiðsagnar hans og hann kveikti í þeim áhuga á ýmsum málefnun enda fróður og víðlesinn um margt. Hann var elskur að þeim og barnabörnum sínum sem hann sinnti af áhuga. Hann setti sig inn í hugarheim barnabarnanna og áhugamál til að skilja þau betur og njóta samvista við þau. Hann kynnti sér t.a.m. íþróttir sem þau stunduðu og margt fleira. Ótal ferðir fór hann með þeim um bæinn til að sækja tíma í þessu eða hinu. Alltaf var afi tilbúinn að skutla þeim. Svo gátu þau gúglað í afa sem vissi allt milli himins og jarðar og var fús að fræða þau hvenær sem þau óskuðu.
Más verður saknað af ástvinum og samferðafólki. Kveðjur hafa borist frá Stefáni Snorrasyni bróðursyni hans og fjölskyldu sem er búsett í Svíþjóð og
frá Margéti eða Möggu frænku hans og Alf sem búa í Grimsby.
Hann hafði góðan húmor og græskulausan og hafði einkar gaman af að leika sér með orð og heiti af ýmsu tagi og sneri gjarnan út úr þeim. Dvölin í Danmörku mótaði hann og dönsk tunga var honum töm og dönsk menning hugleikin alla tíð. Íslenskan hans var stundum dönskuskotin eins og þegar hann kallaði myndir bílæti sbr. billede. Þessi leikur náði líka til ensku og íslensku eins og þegar hann kallaði enska liði Arsenal Fallbyssurnar og forlagið Mál og menning varð Málning og menja. Og þegar hann þurfti að halda einhverju á lofti sem bestu þá var það „miklu best“!
Þegar Páll postuli hafði rætt um náðargáfur við gríska menn sem hann taldi mikilvægar í þjónustu kirkunnar talaði hann um „enn þá miklu ágætari leið“ og það er leið kærleikans sem hann gerði svo eftirminnilega skil í 13. kafla fyrra bréfs síns til Korintumanna.
Már var ekki alinn upp í trú. Foreldrar hans skipuðu sér í hóp kommúnista á sínum tíma en með aldrinum hallaðist hann að hugmyndum um hið stóra samhengi. Hann var ekki maður trúarkenninga en leið kærleikans var í hans augun eins og Páls án efa „miklu best“. Ef til vill hafði hann áþekka afstöðu og „Blaise Pascal (1623-1662) sem var franskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur, uppfinningamaður, trúspekingur og ritsnillingur.“ Hann reiknaði út áhættuna við það að trúa ekki annars vegar og hins vegar að trúa – og valdi síðari leiðina.
Til eru ótal skilgreiningar á Guði enda þótt hann verði aldrei skilgeindur að fullu. Hér er ein sem ég held mikið uppá og vitna oft til. Hún vísar til flatarmálsfræði og sameinar í senn handanveru og hérveru almættisins:
Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.
Már hlustaði oft á tónlist og naut lista og menningar. Eitt það síðasta sem að eyrum hans barst var sálmvers eftir hinn góða lærdómsmann, Sveinbjörn Egilsson, sem Lilja fór með fyrir hann á banalegunni. Versið kunna margir og fólk af kynslóð þeirra hjóna lærði það gjarnan utanbókar og svo gera mörg börn enn þanna dag í dag:
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
Versið er bæn um vernd Guðs. Og nú hefur þessi öðlingur lokið lífsgöngu sinni og störfum sem hann sinnti af trúmennsku og heilum hug og megi náðarkraftur hins hæsta vera með honum hér eftir sem hingað til.
Við kveðjum Má Ársælsson með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi þig. Amen.