TjáningarHelsi?

Tjaningarfrelsi.Örn Bárður Jónsson

 TjáningarHelsi?

Prédikun í Neskirkju

sunnudaginn 18. ágúst 2013 – trin 13 2013 B

Einhver innskot eru í ræðunni sem ekki eru í textanum.

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

TjáningarHelsi?

Líklega er best að segja ekki orð eftir að hafa heyrt texta dagsins!  (Sjá textana hér)

Tungan er hættulegt líffæri en hún fær þó ekki lausan tauminn nema heilinn gefi eftir.

Í hluta af textum kirkjuársins um þessar mundir er fjallað um hegðun fólks og engu líkara en að kirkjan vilji kenna okkur háttsemi og hegðun. Uppeldi okkar lýkur ekki þótt við séum flest farin að heiman fyrir löngu. Í fjölmiðlum eru pistlar alla daga um eitt og annað sem lýtur að hegðun og betra lífi. Flest er þetta af hinu góða.

Í heimsfréttum er fjallað um menn sem hafa tjáð sig um það sem voldugusta ríki heims telur að ekki megi segja frá. Tvö öflug ríki sem löngum hafa tortryggt hvort annað eru komin í hár saman út af ungum manni sem afhjúpaði njósnastarfsemi annars þeirra. Snowden er enn í Rússlandi og Bandaríkin vilja fá hann framseldan. Í Englandi er annar maður, Julian Assange, í sendiráði Ekvador og hann vilja Bandaríkjamenn einnig fá v.þ.a. hann hefur upplýst ríkisleyndarmál í gegnum Wikileaks.

Þessir menn hafa að áliti hinna voldugu talað of mikið um það sem ekki má segja frá.

Jakob postuli orðar hlutin tæpitungulast í dag: „. . . tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju . . . “

Og Jesús varar við ónytjuorðum og guðlasti. Í því sambandi koma mér í hug gjörðir rússnesku pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot en konurnar í þeirri sveit voru handteknar og sumar fangelsaðar fyrir guðlast skv. skilgreiningu Pútins og hans fylgifiska en í þeim sjó syndir líka Rétttrúnaðarkirkjan þar í landi.

Okkur er vandi á höndum. Hvað megum við segja og hvað ekki? Kirkjan með sinn boðskap hefur verk að vinna í samfélaginu en á hverjum tíma er hún jafnframt í vanda stödd. Hún er nefnilega ekki bara í því hlutverki að hjálpa okkur að lifa fallega og virða Guð, hinn hæsta, heldur getur hún líka orðið handbendi valdsins til að halda okkur í skefjum og þar með verður hún tyftari til þöggunar. Með því að vara okkur um of við því að tala og lýsa tunguna skaðræðisvopn getu hún hrætt okkur til þöggunar.

Eitt hið mikilvægasta í mannlífinu er opin umræða um sameiginleg málefni okkar allra. Upplýst umræða og opin er mikilvæg í lýðræðisþjóðfélagi. Í tillögum Sjórnlagaráðs um ný stjórnskipunarlög segir m.a.:

15. gr. Upplýsingaréttur

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

Hér er fjallað um mannréttindi. Við höfum lifað lengi við skert mannréttindi í okkar góða landi. Stjórnvöld hafa löngum viljað vera í skjóli leyndar og una sér best á sundi í gruggugu vatni. Slíkt er hættulegt. Tilraunir einstakra sjórnmálamanna í nágrannalöndunum til þess að vekja athygli á sér með vafasömu hætti, eins og dæmin sanna undanfarna daga, er angi að þessu sama. Menn sækja í skuggana í stað þess að lifa í ljósinu.

Í sumum lýðræðisríkjum hafa verið sett sérstök lög um svonefnda „whistle blowers“ eða uppljóstrara, um þau sem þora að blása í flautuna og segja sannleikann. Barnið í sögunni um Nýju fötin keisarans var í vissum skilningi „whistle blower“ því það eitt þorði að segja sannleikann. Stundum þarf bara einn mann, konu eða karl, til að segja það opinberlega sem almannarómu ræðir á kaffistofum. En til þess þarf kjark og heiðarleika. Valdsmenn þola yfirleitt ekki uppljóstrara því þeir afhjúpa spillingu og ögra þöggun valdsins. Af þeim sökum er mjög mikilvægt að vernda slíkt fólk og efla það til hugrekkis.

Í fyrrnefndu frumvarpi Stjórnlagaráðs segir um frelsi fjölmiðla (16. gr.):

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Var Jesús á móti tjáningarfrelsi? Hefði hann viljað lög um tjáningarfrelsi? Hefði hann stutt við bakið á uppljóstrurum? Hefði hann viljað grugg eða gegnsæi?

Við vitum svarið við þessum spurningum. Hann sem sagðist vera „vegurinn, sannleikurinn og lífið“,  sagði ekki: ég er „ófæran, lygin og dauðinn“. Hann sagðst ekki vera: „myrkur heimsins“ heldur „ljós heimsins“.

Hvað sem öllu þessu líður þá standa niðurlagsorð guðspjalls dagsins óhögguð:

„En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“

Lífið er línudans. Við verðum að feta okkur áfram eins og loftfimleikamaður sem gengur á vír yfir beljandi foss. Lífið er og verður aldrei kæruleysislegt reik eða ráf á sléttu torgi. Lífið er glíma og þess vegna er það spennandi og ögrandi verkefni. Jesús dæmir okkur ekki fyrir það sem við vitum ekki að gerum í ógáti. En við dæmum okkur sjálf þegar við vísvitandi snúum upp á sannleikann og líka þegar við vísvitandi þorum ekki að segja sannleikann og verðum samdauna lyginni. Þá höfum við haft endaskipti á orðum Jesú og fetum „ófæru, lygi og dauða“.

Er ekki réttara að standa með sannleikanum og styðja þau sem þora að tala hann fremur  en að taka þátt í þöggun og verða óttanum að bráð?

Í stuttri frétt á vefnum í liðinni viku var greint frá því að nú lætur fólk græða sérstakan plástur á tungu sína til þess að draga úr ofáti. Kannski verður til plástur eða örflaga sem valdhafar vilja setja í tungu almennings til að hamla frjálsa tjáningu og koma í veg fyrir að fólk geti uppljóstrað leyndarmálum? Hin merka bók 1984 eftir Orwell sem kom út 1949 er enn mikilvæg viðvörun um að hafa varann á sér gagnvart valdhöfum. Og bók Aldous Huxleys, Brave New World, sem er svonefnd dystópía og kom út 1931, dregur upp dökka mynd af þróun heimsins. Þessar bækur eru taldar meðal merkari skáldsagna liðinnar aldar.

Kirkjan á að vera í þjónustu einstaklingsins og þar með almennings en má aldrei verða handbendi spilltra stjórnvalda. Þannig er hún líklega í Rússlandi og víðar í heiminum og hún hefur án efa verið það bæði meðvitað og ómeðvitað í gegnum aldirnar hér á landi, í það minnsta stundum í orðum og athöfnum sumra þjóna hennar.

Jóhannes skírari sagði sannleikann um yfirvöld, um Heródes, og galt fyrir það með lífi sínu. Jesús talaði sannleikann og var negldur á kross. Það getur verið kostnaðarsamt að fylgja sannleikanum.

Vandinn er á hverjum tíma að varast gífuryrði og sleggjudóma en um leið að varast daufyrði og þöggun sem leiðir til þess að við verðum samdauna lyginni.

Jesús kallar okkur í dag til að lifa hugrökku lífi og treysta hinum himnesku gildum. Í þeim anda biðjum við: „ . . . til komi þitt ríki, verði þinn vilji . . . “

Lifum í ljósinu. Þá mætir lífið okkur í tærleika himinsins. Óttumst aldrei sannleikann og ljósið, lifum í hvoru tveggja því þannig lifum við í samfélagi við Guð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

– – –

The graphic picture was found on the web and used here with thanks to its creator.

Teikningin var fengin að láni á vefnum. Þökk til þess er skóp.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.