Brekkusöngur

jesurogmannfjoldinnÖrn Bárður Jónsson

Brekkusöngur 

Prédikun í Neskirkju

Verslunarmannahelgina

sd. 4. ágúst 2013 kl. 11

Texti og hljóð birtist hér fyrir neðan.

Hvaða mynd gerir þú þér af Jesú Kristi?  Er hann alvarlegur eða glaðlegur? Er hann mildur eða reiður? Er hann fjarrænn eða nálægur? Er hann maður meinlæta eða lífsgleði?

Hvaða mynd höfum við gert okkur af Jesú?

Jesús ber sig saman við Jóhannes skírara og tæpitungulausan boðskap hans í guðspjalli dagsins. Þeir voru ólíkir frændurnir. Jóhannes var undanfari Jesú, hann ruddi brautina. Hann var síðasti spámaðurinn og Jesús líkir honum við Elía sem var mikils metinn maður í sögu Gyðinga. Jóhannes var líflátinn eins og flestir spámenn aldanna á undan honum. Spámenn voru þjóðfélagsrýnar. Þeir sögðu stjórnvöldum til syndanna. Þeir voru ekki kerfiskallar, ekki starfsmenn ráðuneyta eða opinberra stofnana. Þeir voru freelance menn, störfuðu á eigin vegum og ábyrgð og fylgdu sannfæringu sinni þ.e. þeir sem ekki voru falsspámenn. Þeir uppskáru óvinsældir vegna þess að þeir sáu á undan fjöldanum hvert stefndi. Þeir höfðu innsæi Guðs. Þannig var Jesús. hann var óháður maður. Hann hafði ekki opinbert embætti. Hann var ekki starfsmaður musterisins, hins opinbera átrúnaðar. Hann var ekki á launaskrá ríkisins eða nokkurs annars. Hann var farandprédikari sem sagði að verkamaðurinn væri verður launa sinna og þar með átti hann við að hann sjálfur og fylgjendur hans sem boðuðu hans orð mættu lifa af þeirri iðju, mættu þiggja laun, húsaskjól, fæði og klæði fyrir sín störf. Hann kallaði sig mannssoninn og sagði að hann hefði hvergi höfði sínu að að halla. Hann var algjörlega upp á aðra kominn. Hann varð að treysta Guði og samferðafólkinu hvern dag.

Jóhannes benti á Jesú og Jesús benti á Guð föður. Þeir voru líkir en samt gjörólíkir eins og fram kemur í orðum Jesú sem bendir samtíð sinni á að hún hlustar ekki á neitt sem máli skiptir.

Hvernig er samtíðin? Hlustar hún á eitthvað sem máli skiptir?

Nú er því haldið fram að trúuðu fólki fækki ört á Íslandi og í nágrannalöndunum. Er það góð þróun? Þarf fólk ekki lengur á Guði að halda? Var hans bara þörf áður en læknar komu til sögunnar? Áður en tækni kom til sögunnar? Áður en vísindin komu til sögunnar? Já, vísindin. Eru þau ekki svarið við öllu? Þurfum við nokkuð annað?

Aldrei hefur verið meira sagt og tjáð en í samtímanum. Við erum að drukkna í orðum. Einn segir þetta í dag og annað á morgun. Einn daginn er kaffi sagt bráðholt en annan dag heilsuspillandi. Lýsi er talið óhollt í einni rannsókn en lífsnauðsynlegt í annarri. Hverju eigum við að trúa?

Jóhannes kom og lifði eins og heilsugúru samtímans, át hvorki né drakk. Hann lifði reyndar á engisprettum og villihunangi og var því árþúsundum á undan þeim vísindamönnum sem nú hvetja jarðarbúa til að neyta skordýra því þau séu svo rík af eggjahvítu sem er manneskjunni nauðsynleg til að hún geti dafnað og þroskast. Jóhannes var eiginlega algjör Solla sinnar samtíðar. En svo kom Jesús og hann var allt öðru vísi. Hann var ekki klæddur í furðuföt úr úlfaldahári heldur í kyrtil að hætti flestra. Hann var án efa ekki sundurgerðarmaður í klæðaburði hvað þá ekksentrískur. Hann skreytti sig ekki með neinu svo vitað sé, notaði ekki skart og líklega hafði hann ekki hring í nefi eða eyrum og ekki notað hann módelgleraugu enda ekki til þá. Hann var enginn Gucci-manneskja, gekk ekki með gullkeðju um hálsinn eða í Nike-skóm. Hann vakti ekki furðu fyrir klæðaburð eða háttsemi nema þá fyrir það að lækna fólk og lífga það við. Hann hafði yndi af að vera með fólki. Hann sótti fólk heim, sat veislur, át og drakk og spjallaði um lífið og tilveruna, um hinstu rök, um hið stóra samhengi alls sem er. Hann át og drakk. Hann var meira að segja vændum um að vera átvagl og vínsvelgu. Í dag hefði hann verði vændur um ofát og drykkjuskap.

En hvort sem meinlætamaðurinn Jóhannes talaði eða lífsnautnamaðurinn Jesús þá hlustaði fólk ekki. Sama hvað sagt var og hvernig þá töluðu þeir fyrir daufum eyrum eða þannig má í það minnsta skilja orð Jesú í guðspjalli dagsins. Og Jesús talar líkingamál og segir að leikin hafi verið danslög og sungin sorgarljóð en ekkert virkaði á þetta fólk sem virtist ekki heyra neitt sem máli skiptir. Ég held að meira að segja brekkusöngur hefði ekki dugað.

Hvað heyrum við í dag?

Áður var tjáning fjölmiðla eins og hjal í litlum læk en nú er sem beljandi jökulflót hlaupi með öllum sínum aur og brennisteinsfnyk. Bloggsíðurnar eru brennandi af reiði þar sem fólk tjáir sig með ljótum orðum og meiðandi og skeytir lítt um náungann og líðan hans. Fjölmiðlar þ.e. blöð, útvarp og sjónvarp eru ögn fágaðri, en þar sem samt stunduð ritskoðun og val á efni og valið er alltaf stundað í ákveðnum tilgangi, pólitískum eða öðrum. Öll tjáning er til þess að hafa áhrif. Danslög og sorgarlög, meinlæti og lystisemdir. Hvað hefur áhrif á samtímann?

Hvað hefur áhrif á okkur? Við erum væntanlega hér í dag v.þ.a. við teljum okkur hafa gott af því að sækja kirkju og eiga samfélagi við Guð. En hvernig er kirkjan? Hefur hún eitthvað fram að færa? Er hún spámannleg rödd í samtímanum eða er hún þæg stofnu í pilsfaldi ríkisins? Kirkjan er auðvitað margadda kór þar sem við erum öll meðlimir og innan hennir eru bæði Jóhannesar-týpur og Jesú-týpur og allt þar á milli. Og allt þetta fólk boðar trú sína með einum eða öðrum hætti. En hlustar fólk?

Skiptir þetta allt einhverju máli? Er ekki sama hvað er sagt og tjáð? Skiptir máli hvort fjölmiðlarnir ljúga og bloggin logi í illdeilum? Skiptir einhverju máli hvað sagt er? Skiptir kirkjan einhverju máli?

Til hvers voru þeir að þessu Jóhannes og Jesús? Töpuðu þeir ekki báðir? Hver kaus þá til valda? Enginn. Annar var hálshöggvinn og hinn negldur á kross.

En svo má spyrja í dag árið 2013: Hvers vegna er þriðjungur mannkyns enn að hugsa um þessa menn og það sem þeir sögðu? Hvers vegna ónáða orð þeir enn samvisku fólks? Getur verið að orð þeirra hafi eftir allt saman verið svo mikilvæg og merkileg að þau varði okkar hinstu örlög?

Jesús talar til þorpanna, borganna í sinni samtíð og varar íbúana við og svo mikil er alvaran að örlög þeirra verða verri en sjálfrar Sódómu  á dómsdegi v.þ.a. fólkið hlustaði ekki á boðskap þeirra Jóhannesar og Jesú. Jesús hafði farið um borgir og þorp og unnið kraftaverk en þau gleymdust og fólk kærði sig kollótt um sannleikann.

Jesús talaði um dómsdag.

Já, ætlar presturinn nú að fara að tala um dómsdag? Þurfum við nú að hlusta á slíkt afturhaldsþrugl og forneskjubull?

Er þetta allt orðið úrelt? Til hvers þá að standa hér og tala yfir fáum kirkjugestum á verslunarmannahelginni á Íslandi þar sem flestir eru á faraldsfæti og halda að lífið og hamingjan finnist í tjaldi og kannski helst með hugbeyglandi efnum sem sett eru í nös eða munn.

Skiptir einhverju máli hvernig lifað er?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er spurningin hvort til sé yfirhöfuð eitthvað sem er hið hinsta rétta og ranga.

Hvaðan kemur okkur vitundin um rétt og rangt? Við vitum að allir hafa slíka vitund. En hvaðan kemur hún?

Og fyrst til er rétt og rangt, hver hefur þá sett slík lög? Og fyrst þau lög eru til eru þau þá ekki gagnslaus og tilgangslaus ef enginn úrskurður er til, enginn dómur?

Mun okkur reiða betur af en íbúum Sódómu þegar við þurfum að mæta okkar hinsta úrskurði um lífið?

Á hvað hlustum við í amstri daganna?

Heyrum við danslögin, sorgarlögin, varnaðarorðin.

Heyrum við orð Jesú um elskuna, náðina og miskunnina, orðin um fyrirgefningu Guðs, orðin um að til sé lausn sem ekki er á færi manna, björgun sem ekki er hægt að panta hjá neinni jarðneskri stofnun, ekki einu sinni Landsbjörg með öllum sínum tólum og tækjum og milljónatugi í rekstrarfé, þyrlum Lanhelgisgæslunnar og allt það. Heyrum við orð Jesú um lausn undan oki sektarkenndar og dóms? Heyrum við orð hans sem elskaði heiminn og dó fyrir hann?

Hvað heyrum við? Hver er mikilvægasti söngur lífsins? Setjumst niður í grænni brekkunni og hlustum eftir boðskap himinsins eins og fólkið forðum sem sat úti í haga svo þúsundum skipti og hlustaði á Jesú. Hlustum á orð hans um elsku og von.

Hlustum á brekkusöng lífsins.

Hlustum á orðin sem leysa og lækna.

Textar dagsins:

http://kirkjan.is/tru/kirkjuarid/b/10-sunnudagur-eftir-threnningarhatid/

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.