Heim

Týndi sonurinnÖrn Bárður Jónsson

Heim

Prédikun í Neskirkju

sunnudaginn 16. júní 2013 kl. 11

trin 2 e 2013

Bæn, ávarp og inngangur.

(Einhver innskot eða orðalagsbreytingar eru á hljóðupptökunni)

Hvenær fórstu að heiman? Hvenær fer fólk að heiman? Foresendan þess að fara að heiman er að eiga heimili. Sá sem á ekkert heimili, engan samastað, getur ekki farið að heiman. Þau eru mörg í heiminum sem eiga ekkert heimili.

Hvar áttu heima? Núna. Hvar áttir þú heima? Og hvenær fórstu að heiman?

Dæmisaga dagsins er um tvo syni. Til sögunnar hefur oft verið vísað sem sögunnar af glataða syninum eða týnda syninum. Í hefði kirkjunnar hefur jafnan verið lögð á það áhersla að hún snúist um iðrun sonarins sem fór að heiman, viðsnúning hans, iðrun hans. Sagan hefur því orðið að siðferðilegri brýningu, móralíseringu. Hún er notuð til að prédika yfir fólki og þá nota ég orðið prédikun í neikvæðri merkingu eins og oft er gert í daglegu tali fólks. Hver er merking þessarar merku sögu?

Dæmisögur Jesú og táknsögur Biblíunnar eru merkilegar bókmenntir, sumar þeirra hreinar perlur heimsbókmenntanna, sögur í farangri fólks, í farteskinu, eins og lyklakippa í vasa með mörgum lyklum sem ljúka upp dyrum að innsæi og skilningi á lífinu.

Hvað segir þessi saga okkur?

Hún er myndræn og vel samin. Hún er þess eðlis að hún lifir. Hún talaði til fólks á dögum Jesú í allt öðru þjóðfélagi en við lifum í og hún talar til okkar sem búum í Reykjavík samtímans.

Ungur maður fer að heiman og fær arf sinn fyrirfram. Í honum býr ævintýraþrá og eftirsókn eftir einhverju ókunnu. Hann leggur af stað en eftir heima eru faðir og bróðir og annað heimilisfólk. Móðirin er hvergi nefnd. Hverjar voru áhyggjur hennar? Við getum gefið okkur að faðirinn hafi verð hugsi yfir þessu flani sonarins með fulla vasa fjár.

Hann er farinn. Það er erfitt að fara að heiman og það er erfitt fyrir foreldra að kveðja börnin sín.

Í vetur las ég bókina um Nonna eftir Gunnar Guðmundsson, frábært verk og vandað enda fékk höfundur virt verðlaun fyrir skrifin. Nonni fer út í hinn stóra heim og mamma er eftir hér á landi og flytur svo til vesturheims og þau sjást aldrei aftur. En þau skrifast á og bréfin eru merkileg heimild um líf drengsins og móður hans sem aldrei sá drenginn sinn vaxa eða verða fullorðinn. Höfundur bókarinn sagði mér að Nonni hefði aldrei átt neitt föðurland eftir að hann fór frá Íslandi og því eiginlega veirð landlaus maður, sendur til og frá af klausturreglunni sem hann tilheyrði. Við þráum öll heim um leið og við ung vildum fara að heiman.

Hin klassíska túlkun sögunnar um synina tvo eins og hún er kölluð í dag í fyrirsögn í hinni helgu bók er fólgin í því að leggja áherslu á iðrun sonarins, á það að hann kom til sjálfs sín, gekk í sig eftir að hafa áttað sig á að hann var orðinn allslaus og komin í svaðið í bókstaflegri merkingu. Hann iðraðist. Sögnin að iðrast á grísku, sem NT var ritað á, merkir að snúa við, að taka sinnaskiptum, fara til baka. Vissulega er það stór þáttur í sögunni og ætla má við fyrstu sýn að þar liggi ásinn, snúningspunkturinn og áherslan. Hjá því verður ekki komist að líta svo á að viðsnúningurinn skipti sköpum í framvindu sögunnar. En ef hann er ekki þungamiðjan hver er hún þá?

Lúkas vann sitt verk sem hæfur rithöfundur sem raðar efninu eftir áherslum og byggir upp heildarverk, guðspjall sitt, með upphafi, framvindu, miðlægum atburði og niðurlagi Allt í einni í heild. Hver kafli er líka úthugsaður. Í 15. kafla verksins eru þrjár dæmisögur. Hin fyrsta er um týndan sauð, önnur um týnda drökmu og hin þriðja um týndan son. Fyrsta sagan er andsvar við ólund og gagnrýni farísea og fræðimanna sem töldu sig vita betur og vera betri en aðrir og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ Okkur kann að þykja þetta framandi afstaða en hún er ekki fjarri samtímanum því enn er til fólk sem hneykslast á samneyti einstaklinga við annað fólk, t.d. við útlendinga, við fólk með aðrar pólitískar skoðanir og svo mætti lengi telja.

Fyrsta saga Jesú í 15. kafla Lúkasarguðpjalls er um týndan sauð. Í sögunni er hirðir og hjörð og svo einn villuráfandi sauður sem fer frá. Hirðirinn skilur hina 99 eftir og fer og finnur hinn týnda.

Í næstu sögu er kona sem á 10 drökmur en 1 drakma var jafngildi launa 1 dags. Hún týndi einni. Og hvað gerir konan þá. Jú, hún kveikir ljós, sópar húsið og leitar vandlega og finnur drökmuna. Og svo er gleðin mikil að hún heldur boð fyrir vinkonur sínar.

Þriðja sagan er eru týndan son. Sagan er listilega samin og í henni eru allir þættir góðra sögu með hápunkti og allt það. En hver er niðurstaðan, hvaða lærdóm eiga áheyrendur að draga af sögunni?

Við þekkjum söguna um soninn, um eyðslu hans og ólifnað, viðsnúning og heimkomu. Hvað gerðist þá? Þar ríkti fögnuður á sama hátt og þegar týndi sauðurinn fanns og drakman eina og konan hélt boð fyrir vinkonur sínar. Faðirinn sér drenginn sinn í fjarska og hann þekkir fas hans og veit að hann hefur snúið aftur heim. Hann hleypur á móti honum, kennir í brjósti um hann, segir Jesús, fellur um háls honum og kyssir hann. Sonurinn orðar iðrun sína við föðurinn sem er mikilvægur þáttur  í sögunni og í öllum uppgjörum manna í millum. Og hvað gerist svo? Það er haldin mikil veisla.

Um fund týnda sauðsins sagði Jesús:

„Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.“

Niðurstaða drökmusögunnar er svohljóðandi:

„Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“

Niðurstaða sögunnar um týnda soninn er svona:

„Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.“

Ef samhengið er skoðað þá er iðrunin vissulega mikilvægur þáttur í kennslu Jesú en ekki síður er fögnuðurinn og elskan það sem mestu skiptir.

Þetta eru sögur um Guð, sem er eins og móðir og faðir, sem elskar frá dýpstu hjartans rótum, elskar skilyrðislaust.

Við lifum í heimi sem mótaður er af elsku og ber í sér áhrif elsku Guðs. Það er kjarninn: Guð er kærleikur. Guð elskar og Guð fagnar.

Og svo er það hin tilvistarlega spurning: Er yfirhöfuð hægt að fara að heiman í þessu lífi, að fara út úr altumlykjandi verund Guðs? Er Guð ekki allsstaðar? Er þá hægt að fara frá honum?

Reynslan segir að fólk geti fjarlægst Guð í eigin hug og hjarta. Við getum fjarlægst okkur sjálf, týnt okkur sjálfum.

Hvar erum við á vegi stödd? Hvar er íslenska þjóðin? Er hún týnd? Eru stjórnmálin týnd? Veit forystufólk okkar hvar það er á vegi statt? Veit það hvert það er að fara, fólkið sem er með allar eigur okkar samborgara sinna á sínu borði? Erum við í öruggum höndum? Hvar endar þetta allt? Er hrunið kannski ekki búið? Er það bara rétt byrjað? Er drafið framundan og stían? Hvenær verður hinn raunverulegi viðsnúningur? Hvenær ætlar þessi þjóð að ganga í sig og kannst við það að hún er á flótta frá Guði, skapara sínum og lausnara? Hún er búin að sólunda öllum arfinum. En hvenær snýr hún við frá villu síns vegar, frá eftirsókn sinni eftir vindi og fölskum veraldar gæðum? Hvenær? Hversu lengi? sögðu spámenn Ísraels forðum daga: Hversu lengi? Hversu lengi ætlarðu að villast?

Hvar erum við á vegi stödd? Hvar ert þú? Ertu heima eða ertu týnd/ur? Áttu í glímu við lífið, tilvist þína, samferðafólk þitt? Hvar er þá skjól að finna?

Snúum við og höldum heim til Drottins því þar er alltaf elsku að finna. Hjá honum eru okkar hinstu heimkynni.

Hér er Guð og hér áttu heima. Velkomin/n heim.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögm anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

 

– – –

Textar dagsins.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.