Heim
Prédikun við guðsþjónustu
í Neskirkju
sunnudaginn 12. maí kl. 14
í samvinnu við Ísfirðingafélagið
Kór heimamanna leiðir söng
Organisti Guðný Einarsdóttir
Þú getur lesið ræðuna og hlustað á hana hér fyrir neðan.
Hlusta? Smelltu á þríhyrninginn (play)
Friður Guðs sé með okkur öllum.
Sagan af séra Bjarna Jónssyni, dómkirkjupresti, er löngu fleyg orðin, þar sem sagt er frá því er hann gekk um að morgni dags á morgunsloppnum þar sem Lækjargata og Skólabrú mætast. Lögreglumaður sem nýlega hafði hafið störf í Reykjavík þekkti ekki klerk, vék sér að honum og spurði:
-Hvert ert þú að fara, góði minn?
Séra Bjarni benti á rakarastofuna og sagði:
-Þangað.
-Hvar áttu heima? spurði löggan þá.
Prestur benti á dyrnar heima hjá sér í Lækjargötunni:
-Þarna.
-Jæja, vinur. Og hvar vinnur þú?
-Þarna, sagði hann og benti á Dómkirkjuna.
Og hjá hverjum vinnurðu?
-Honum, svaraði séra Bjarni og benti til himins.
Hvar áttu heima?
Þannig mundi fullorðin manneskja væntanlega spyrja barn sem væri týnt og grátandi úti á götu.
Hvar áttu heima?
Hvar eru heimkynni þín?
Í guðspjalli dagsins er Jesús að kveðja lærisveina sína. Hann er að fara heim. Hann biður fyrir þeim og á sér þá von og þrá í brjósti sér að þeir varðveitist allt til enda.
Við munum flest orðin sem presturinn sagði við ferminguna með hönd á höfði okkar:
Vertu trú/r allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.
Fyrir hálfum mánuði voru liðin 50 ár frá því ég fermdist með skólasystkinum mínum í gömlu Ísafjarðarkirkju. Það var góður dagur með góð áform, heitin heil og vonir bjartar.
Ég held að ferming barns á 14. ári sé í senn leyndardómur og mikið þakkarefni. Barnið játast Kristi í einlægni og sakleysi. Svo taka við mótunarár og glíman við það að verða fullorðin manneskja með öllum sínu fálmi og mistökum. Forðum var fólk talið til fullorðinna við fermingu og margan gamlan sjómanninn hef ég jarðsungið í gegnum tíðina sem byrjaði á sjó daginn eftir fermingu og réri meðan kraftar entust. Og svo eru það einnig konurnar sem alvara lífsins mætti upp úr fermingu.
Fermingarbarnið fer í vissum skilningi að heiman eftir fermingu og leitar fyrir sér í lífinu.
Lífið er ferðalag og enn erum við að fást við það verkefni að verða fullorðnar manneskjur.
Fullorðinn. Það er merkilegt orð. Hvefullnær verður maður fullorðinn? Full-orðinn, full-numa, full-kominn. Er það hægt? Nei, það er ekki í mannsins valdi að verða full-orðinn.
En við getum orðið það með Guði.
Í Fjallræðunni segir Jesús:
„Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“
Á grísku teleioi, þroskuð, fullkomin (enska: mature, perfect).
All lífið eru við að keppa að hinum ómögulega möguleika sem við ráðum ekki við ein, en með Guði er allt hægt.
Jesús var á leiðinni heim. Hann talar um að vinir hans séu enn í heiminum en hann á sér þá ósk og bæn að þeir verði ekki af heiminum. Hér talar hann um þá sem gesti í þessum heimi. Þeirra bíður einnig að fara heim. Á meðan eiga þeir að gæta þess að verða ekki af heiminum, verða ekki fyrir áhrifum af hinu heimslega, veraldlega. Hér er viss tvíhyggja í gangi, hugmyndafræði þessa heims versus hinnar komandi veraldar.
Og enn á sér stað barátta í hjarta hverrar manneskju um að verða heil en ekki heltekin af því sem er veraldelgt og hégómlegt.
Mörg okkar sem hér komum saman í dag eigum rætur á Ísafirði og svæðinu þar um kring. Önnur ykkar eigið rætur á öðrum stað. Það er gott að finna til rótanna og eiga í hjarta sér ást til átthaganna. Á sama hátt er gott að elska sitt land og vera stoltur af landi og þjóð. Hætturnar eru þær að slík elska breytist og verði að þjóðrembu eða átthagarembu, yfirdrifinni tilfinningu fyrir yfirburðum og því að maður sé yfir aðra hafinn og eigi einhvern rétt sem aðrir hafa ekki. Dæmin í sögunni er mörg og þau eru ljót. Í sama anda er sú afstaða að telja aðflutt fólk aldrei sem heimafólk, að horfa á fólk af öðru bergi brotið sem útlendinga sama hversu marga áratugi það býr hér og glímir við það að leggja landi okkar og þjóð til gott eitt úr sínum sjóði og streðar við það að lifa við fordóma og niðurlægingu. Í gær var hátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fólk af margvíslegu þjóðerni kom saman og gladdist yfir rótum sínum, menningu, tungu og sögu.
Frumvarp að nýrri stjórnarskrá hefst á aðfaraorðum sem ég held mikið uppá. Upphafsorðin eru svohljóðandi:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.“
Hér er slegið á strengi virðingar gagnvart öllu fólki, hvaðan sem það kemur.
Hvaðan ertu? Hvar áttu heima?
Hvert liggur leið þín?
Ertu bara í heiminum eða ertu líka af heiminum, gagntekinn af því sem er þessa heims en ekki himinsins?
Það er býsna erfitt að vera manneskja og oft er það á reiki hvernig réttlátt þjóðfélag skuli vera.
Hvernig eigum við að vinna úr okkar erfiðu málum? Hvert eigum við að stefna? Hvert eigum við að fara? Stunum finnst mér Íslandi ekki vera viðbjargandi. Við erum svo reikul sem þjóð. Meirihluti þjóðarinnar hefur oft í tímans rás látið blekkjast af loforðum sem eru lítið annað en innihaldslausar ávísanir sem hugsanlega verð að einhverjum krónum og aurum – en bara hugsanlega. Íslenskan á orð um slík loforð: vonarpeningur.
Hvar eru prinsippin hjá þjóð okkar? Hvar er festan við hið sanna og rétta?
Hvar áttu heima? Hvaðan ertu? Hverju skiptir það ef örfáir einstaklingar eignast þetta land, allt sem á að vera okkar allra?
Skiptir þessi heimur einhverju máli ef heimkynni okkar eru í himni Guðs? Eigum við ekki bara að njóta þess að vera í brottfararsalnum og bíða þess að langrþráð ferðalag hefjist og við fáum losnað frá þessu öllu? Nei, lífið hér og nú skiptir öllu máli! Og lífið er dásamlegt þrátt fyrir andstreymi og ama. Lífið er köllun okkar allra hvað sem við störfum eða höfum starfað. Öll höfum við verk að vinna, fólk að heimsækja, hringja til, brosa til, tala til, hugga og uppörva, biðja fyrir, gefa von.
Hvar áttu heima?
Við erum gestir og útlendingar á þessari jörð og munum deyja sem slík. En við eigum okkur annað heimkynni. Í Hebreabréfinu er rakin saga þekkts fólks í sögu Ísraels og sagt:
„Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“
Eigum við þá bara að horfa til himins og láta allt fjas um jarðneska hluti eiga sig? Nei, við verðum að berjast áfram fyrir réttlæti og sannleika.
Skáldið Marcel Proust sagði eitthvað á þessa leið um ferðalög:
„Hin raunverulega uppgötvun felst ekki í því að leita stöðugt eftir nýju landslagi heldur að sjá með nýjum augu.“
Hvernig sérðu veruleikann? Hvernig lítur þetta þjóðfélag út í raun og veru? Hvernig eru átthagarnir í þínum huga? Hvernig er Ísland? Hvernig sérðu lífshlaup þitt? Hvernig hefurðu lifað? Hvað hefurður lagt að mörkum? Hvað er framundan? Hvað tekur við?
Verðum við einhverntímann fullkomin? Munum við sjá réttlætið og sannleikann sigra? Ekki sáu Móse, Abraham, Ísak eða Jakob drauma sína rætast. Og ekki heldur Jón Sigurðsson og Fjölnismenn, forgöngumenn þeirra eða eftirfylgjendur. En við erum samt öll á leiðinni til hins fyrirheitna lands og megum aldrei láta deigan síga í baráttunni fyrir betri og fegurri heimi.
„Ég á mér draum“,
sagði bandaríski mannréttindafrömuðurinn og blökkumaðurinn, Martin Luther-King í einni frægustu ræðu sögunnar.
Átt þú þér draum? Eigum við okkur draum um betra Ísland, betri heim? Það ætla ég rétt að vona!
Hættum aldrei að berjast fyrir réttlæti og sannleika í landi voru, í þessari veröld sem þarfnast þess umfram allt að gildi himinsins taki gildi á jörðu.
Til komi þitt ríki!
Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni!
Þetta er verkefni okkar allra í þessum heimi meðan við erum á leiðinni heim.
Og postulinn sagði:
„En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.“ Fil 3.20-21
Hvar áttu heima, spurði löggan prest. Hvert ertu að fara? Við erum á ferðalagi í þessu lífi.
Góða ferð, söng hún Ingibjörg frænka mín með BG og gerði lagið frægt. Góða ferð.
Og nú segi ég: Góða ferð – um veg réttlætis og sannleika.
Góða ferð og gleðilega heimkomu í fyllingu tímans.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen.
– – –
Sálmar
507 Ó, faðir gjör mig lítið ljós
224 Hallelúja, dýrð sé Drottni
330 Ó, Guð, mér anda gefðu þinn.
– – –
480 Dýrlegt kemur sumar eftir prédikun
56 Son Guðs ertu með sanni.
Textar Sak 14.5c-9
Post 1.12-14
Jóh 17.9-17 Ég bið fyrir þeim. Í heiminum vs. af heiminum
Textar dagsins:
http://kirkjan.is/tru/kirkjuarid/b/6-sunnudagur-eftir-paska/