Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Steinar Antonsson 1936-2025

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Útför frá Neskirkju

föstudaginn

9. janúar 2026 kl. 13

Hljóðupptaka er hér og með ögn af innskotum sem ekki eru í rituðum texta.

Smelltu á nafnið efst til að sjá alla ræðuna.

Friður Guðs sé með oss.

Við áramót lítum við gjarnan um öxl og rifjum upp atvik liðins tíma. Og nú þegar ég stend hér og tala yfir Steinari Antonssyni, sem tók þátt í flestum messum sem ég söng hér í Neskirkju á 15 ára tímabili, og messum allra presta hér frá upphafi, þá fyllist maður auðmýkt og vissum trega yfir hinu liðna og öllu því góða fólki sem maður hefur kynnst í starfinu. Að gera upp líf fólks með minningarorðum við útfarir um árabil er í senn menntandi og minnir mann á að öll erum við dauðleg og verðum í fyllingu tímans að kveðja þetta líf. Tilfinning mín eftir öll þessi minningarorð sem skipta hundruðum er sú að sérhver ævi er dýrmæt og afar merkileg. Við réðum því ekki sjálf að við urðum til. Foreldrar okkar komu okkur á legg og við tók ábyrgðin á lífinu, að lifa því á merkingarbæran hátt. Ekkert okkar hefur lifað lífinu á fullkominn hátt v.þ.a. við erum öll breyskar manneskjur, en við fáum að heyra það á vettvangi kirkjunnar að við séum ætíð elskuð. Enginn greinarmunur er gerður á mannfólkinu hvað það varðar.

Dauðinn er fyrirbrigði sem enginn kemst hjá að mæta og því er lífið að hluta til fólgið í því að íhuga tilveruna, lífið og dauðann.

Benedikt XVI páfi ritaði djúpa hugleiðingu um dauðann í febrúar 2022 en hann lést á gamlársdag sama ár 95 ára að aldri.

Hann sagði:

Brátt mun ég standa frammi fyrir hinsta dómara lífs míns. Þótt ég geti haft mikla ástæðu til að óttast og skjálfa þegar ég lít til baka á langa ævi mína, þá er ég samt sem áður með hýrri há, því ég treysti því staðfastlega að Drottinn sé ekki aðeins réttlátur dómarinn, heldur einnig vinur og bróðir sem sjálfur hefur þegar þjáðst fyrir galla mína og er því einnig talsmaður minn, „hjálpari“ minn [Paraclete/hjálpari notað um heilagan anda í NT). Í ljósi dómsstundarinnar verður náðin sem felst í því að vera kristinn mér enn ljósari. Hún veitir mér þekkingu, og jafnvel vináttu, við dómara lífs míns og gerir mér þannig kleift að ganga af öryggi gegnum myrkar dyr dauðans. Í þessu sambandi er ég stöðugt minntur á það sem Jóhannes segir okkur í upphafi Opinberunarbókar Jóhannesar: hann sér Mannssoninn í allri sinni dýrð og fellur fram að fótum hans sem dauður væri. Samt leggur hann hægri hönd sína yfir Jóhannes og segir við hann: „Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti …“ (Opinberunarbók Jóhannesar 1:12-17).

Í þessum texta vitnaði æðsti maður Kaþólsku kirkjunnar, sjálfur páfinn í Róm, um breyskleika sinn andspænis náð Guðs og kærleika. Hrífandi texti sem knýr okkur til að hugsa um vegferð okkar og þau endalok sem bíða okkar – eða öllu heldur nýja vídd sem opnast mun við dauðans dyr. Hann var viss um að mæta Kristi.

Steinar Antonsson fæddist 10. júní 1936 í Reykjavík. Hann lést á Landakotsspítala, 15. desember. Foreldrar Steinars voru hjónin Hulda Gyða Þórðardóttir, húsfreyja og hjúkrunarkona f. 28. september 1906, d. 11. 8. 1990 og Anton Sigurðsson, byggingameistari, f. 17. 11. 1900, d. 21. júlí 1991. Bræður Steinars eru Haraldur, f. 02. 7. 1934, d. 3. 10. 2025, Sigurður, f. 13. 4. 1939 og Ingólfur, 24.10.1942. Steinar var ókvæntur og barnlaus.

Steinar ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Bræður hans og ástvinir rifjuðu upp bernskuna í texta sem ég fékk í hendur.

Hulda móðir þeirra bræðra greindist með berkla 1944 og var lögð inn á Vífilstaðaspítala í kjölfarið. Þá stóð Anton einn með fjóra stráka á aldrium 2ja, 5, 8, 10 ára.  Hann gerði allt til að halda heimili, fékk ráðskonu til að sjá um húshald og seinna kom systir Huldu til aðstoðar.

Steinar dvaldi einn vetur á heimavist í Laugarnesskóla og sumarið eftir dvöldu Halli og Steini að Laugum í Sælingsdal. Halli og Steinar voru byrjaðir í skóla og höfðu notið þess að föðuramma þeirra bjó í nágrenninu og hafði kennt þeim að lesa og skrifa. Eftir að barnaskóla lauk fór Steinar í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar við Hringbraut, landsprófsbekk, Menntaskólann í Reykjavík. Lærði húsasmíði hjá föður sínum.

Árið 1960 fór hann í verkfræðinám til Þýskalands en fór eftir eins árs dvöl þar í tæknifræðinám við Köbenhavns Teknikum og útskrifaðist þaðan 1965.

Eftir heimkomuna starfaði hann hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, m.a. sinnti hann ýmsum störfum (vatnsveitu, holræsi, teiknaði upp gömul hús o.fl.) fyrir Seyðisfjarðarbæ. Eftir veru sína fyrir austan réði hann sig hjá Vatnsveitu Reykjavíkur og fylgdist m.a. með rennsli kalda vatnsins til höfuðborgarbúa í mörg ár af mikilli samviskusemi eða þar til starfsferlinum lauk.

Steinar átti nær alla sína tíð Willisjeppa sem var annar vinnustaður hans, fullur af mælitækjum sem tilheyrði starfi hans.

Eftir dvölina í Sælingsdal varð að finna dvalarstað fyrir strákana næsta sumar, Anton var svo heppinn að komast í samband við ábúendur á Rauðabergi og Seljalandi í Vestur Skaftafellssýslu.

Steinar vann við sveitastörf átta sumur hjá þessu fólki og var í góðu sambandi við það alla tíð.  

Yngri bræðurnir minntust frásagnar hans af veru hans og Halla og af ferðalagi í sveitina og dvalar sem var með miklum ævintýrablæ. Þeir fóru með rútu að óbrúuðu jökulfljótunum sem ekki voru fær bílum. Þar tóku bændurnir á móti þeim komandi á hestum og undirbjuggu ferð yfir beljandi jökulárnar, Djúpá og Hverfisfljót. Svo voru það ferðirnar með Helga inn að jökulsporðunum og yfir í Núpstaðarskóg.  

Steinar var ættrækinn og heimsótti oft ættmenni sín á Snæfellsnesi, dvaldi oft langdvölum og hlustaði á frásagnir af fólkinu sínu, sem fjölskyldan hans naut svo góðs af.

Steinar átti góða félaga frá menntaskólaárunum og nefni ég sérstaklega Bjarna heitinn Felixson og Sveinbjörn Björnsson fv. rektor HÍ.

Steinar hafði mikinn áhuga á allskyns félags- og fræðastarfsemi, hann var mikill náttúruunnandi og ferðaðist mikið um landið sitt Ísland. Steinar var mjög ættrækinn og einstaklega barngóður.

Hann gaf það til kynna síðar á ævinni að hann hefði í raun viljað verða læknir.

Steinar var góðum gáfum gæddur. Hann var minnugur og gat flutt sínu fólki fréttir daganna. Það kom m.a. fram er ég hitti bræður hans og ættfólk til að undirbúa þessa athöfn að hann sagði oft frá kirkjuferðum sínum, tiltólk guðspjallið sem lá til grundvallar ræðu prestsins og rakti prédikunina í stórum dráttum og gerði grein fyrir upplifun sinni af helgihaldi kirkjunnar.

Ég hitti hann oft fyrir og eftir messur og við spjölluðum um eitt og annað, en hann var þó aldrei orðmargur í þeim samtölum, en ætíð fylgdist hann grannt með öllu og hafði mikinn áhuga á mönnum og málefnum. Hann mætti á flesta fyrirlestra sem í boði voru í Neskirkju, námskeið og aðra viðburði, sumarferðir og fleira. Steinar sótti messu hjá öllum prestum Neskirkju frá upphafi til okkar dags.

Prestar safnaðarins og starfsfólk þakka Steinari fyrir trúfesti hans við kirkjuna og góð samskipti í gegnum árin og biðja fyrir samúðaróskir til ástvina hans.

Steinar var um margt sérstakur maður. Hann átti góðan feril sem námsmaður en eitthvað átti sér stað í efsta bekk MR sem breytti forsendum að nokkru hvað varðaði framtíðina. Inn í það kann að hafa spilað að sama vetur missti hann náinn skólafélaga sinn er varðskipið Hermóður fórst með allri áhöfn.

Ég sagði fyrr í ræðunni að við hefum ekki ráðið því að við urðum til og fengum lífið að gjöf og verkefni. En hins vegar þegar bernsku og unglingsárum sleppir þá höfum við auðvitað öll ákveðinn vilja og mátt til að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf og aðra.

Hann bjó alla sína ævi í sama húsinu að Fornhaga 26.

Og nú bíður hans hús á himnum eða eins og Páll postuli segir í Síðara bréfi sínu til Korintumanna 5.1-2:

1 Við vitum að þótt jarðnesk tjaldbúð okkar verði rifin niður þá höfum við hús frá Guði, eilíft hús á himnum sem eigi er með höndum gert. 2 Á meðan andvörpum við og þráum að íklæðast húsi okkar frá himnum.

Von okkar í Kristi er fögur og hún veitir æðruleysi og gefur styrk á lífsgöngunni, hvort sem um er að ræða tæknifræðing, páfa eða prest. Vonin er ein og söm, vonin um eilíft líf, náð og miskunn. Kærleikurinn sem við höfum kynnst á lífsleiðinni er aðeins forsmekkur þess sem koma skal.

Gott er að lifa í trú, von og kærleika og í vissu um að lífið sé ekki tilgangslaust og kalt, heldur merkingarbært og mun stærra en við getum í raun ímyndað okkur.

Við kveðjum Steinar Antonsson með virðingu og þökk fyrir umhyggjusemi hans og vináttu, trúmennsku og tryggð við helg gildi.

Megi hann hvíla í friði og fólkið hans njóta blessunar og gleði til æviloka.

Blessuð sé minning Steinars Antonssonar.

Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons