

Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Sólveig Jónsdóttir
1947-2025
Útför frá Seljakirkju
þrettánda dag jóla,
6. janúar 2026 kl. 15:00.
Hljóðupptakan er í tveimur þáttum. Kveikja þarf á hverjum fyrir sig.
Smelltu á nafnið efst á þessari síðu og þá opnast allur textinn!
Friður Guðs sé með okkur öllum.
Merkilegasta og magnaðasta afl veraldar er án efa kærleikurinn.
Og þetta vita Íslendingar skv. nýlegri skoðanakönnun
Þjóðkirkjunnar, þar sem flestir svarenda settu kærleikann í fyrsta sæti þegar gildin voru vegin og metin.
Við heyrðum séra Steinunni Önnu lesa óðinn um kærleikann úr
bréfi Páls postula til Korintumanna sem er í 13. kafla ritsins. Í
þeim texta er mikil dýpt, hæð og víddir á marga vegu og okkur
dugar ekki ævin öll til að skilja textann til hlítar. Öll þekkjum við þó kærleikann á eigin skinni því við höfum öll verið elskuð og notið umhyggju allt frá frumbernsku.
Auðvitað eru aðstæður barna sem fæðast ólíkar, atlot og
aðbúnaður með ýmsu móti, en ég trúi því að við höfum öll verið elskuð og njótum enn ástar og umhyggju. Og svo kunnum við líka öll að elska!
Sólveig Jónsdóttir var einstök kona. Hún var vel af Guði gerð, eins og sagt er, og vildi öllum einungis hið besta. Þess vegna völdum við að lesinn yrði óðurinn um kærleikann við útför hennar.
Við lestur textans verður okkur ljóst að allir okkar hæfileikar eru lítils virði ef kærleikann skortir. Þá verðum við bara eins og
skerandi hljóð úr fölskum gjöllum. Lærdómsgráður og kunnátta
án kærleika, verða í raun sem sorp sem kasta má á haugana. Við getum gefið allt sem við eigum, en ef það er ekki gert í kærleika, þá telst það ekki merkilegt. Svo koma þessir eiginleikar kærleikans: langlyndi, góðvild, að vera laus við öfund, mont og stæla, reiði og langrækni. Réttsýn hugsun og sannleiksást sem umber og biður fólki vægðar er ein af perlunum á bandi kærleikans. Svo endist hann vel því hann fellur aldrei úr gildi –
Aldrei!
En hvaðan kemur kærleikurinn? Er hann uppfinning
manneskjunnar? Nei, hann er ekki sprottinn úr mannlífinu. Hann er gefinn, hann kemur úr handanverunni, frá himninum, inn í heiminn sem Guð skapaði, sem vettvang mannlífsins, leikvang til að læra að lifa á merkingarbæran hátt.
Ég fékk að fletta vinnubók Sólveigar sem hún vann svo
nostursamlega með er hún var í fermingarfræðslu á Selfossi sem ung stúlka. Ef börn samtímans fengju jafn skilmerkilega kennslu í kristnum fræðum og hún Sólveig fékk hjá séra Sigurði Pálssynisóknarpresti á Selfossi og síðar vígslubiskupi í Skálholti, þá værimannlífið á Íslandi með öðrum hætti, en við sjáum nú í fólki sem sumt er flækt í netadræsum tækninnar og eltir eintóman hégómaog einskisnýta hluti.
Fermingarbókin hennar Sólveigar er listaverk, fagurlega rituð af henni sjálfri og skreytt með trúarlegum myndum sem límdar eru inn í textann. Hún þekkti kærleika Krists og reyndi að lifa í anda orða hans.


Hvað skiptir mestu í lífinu? Eru það tólin og tækin eða er það mál hjartans sem kristallast í orðinu KÆR-LEIKUR?
Við vitum svarið.
Sólveig Jónsdóttir fæddist á Selfossi 3. júlí 1947.
Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 14. desember 2025.
Foreldrar hennar voru Kristín Benediktsdóttir fædd í
Nefsholti í Holtahreppi í Rangárvallasýslu 12. apríl 1925,
dáin 20. apríl 2003 og Jón Guðfinnsson fæddur í Akbraut í
Holtum 12. maí 1918, dáinn 15. júní 1996.
Systkini Sólveigar eru Oddbjörg Inga Jónsdóttir (f. 1955) og
Guðfinnur Jónsson (f. 1965).
Dætur Sólveigar eru
1) Kristín Jóna Grétarsdóttir (f. 1974).
Faðir hennar er Grétar Steinsson f. 1941. Kristín er gift
Baldvini Bjarnasyni (f. 1971), börn þeirra eru:
– Steinunn Anna Baldvinsdóttir (f. 1991), börn Steinunnar eru
Sverrir Valdimar Daníelsson (f. 2015) og Selma Kristín
Steinunnardóttir f. 2023,
– Lilja Björt Baldvinsdóttir (f. 1997) og
– Þórður Bjarni Baldvinsson (f. 2004).
2) Linda Björk Grétarsdóttir (f. 1980). Faðir hennar er Grétar
Gústavsson (f. 1953).
Börn Lindu eru Perla Kristín Brynjarsdóttir (f. 1998), sambýlismaður hennar er Andri Freyr Baldvinsson (f. 1997), sonur þeirra er Axel Brynjar Andrason (f. 2022), Brynja Sól Daníelsdóttir (f. 2000), Saga Lind Daníelsdóttir (f. 2005) og Tristan Lúther Gíslason (f. 2016).
Sambýlismaður Lindu er Gísli Ragnar Lúthersson og hann á
soninn Gabríel Þór Gíslason (f. 2012).
Grétar Steinsson, faðir Kristínar Jónu, er hálfbróðir minn.
Orð hans og viðbrögð, þegar ég tilkynnti honum andlátið voru,
stutt þögn og svo: „Hún var góð manneskja, einstök manneskja,
sem dæmdi ekki fólk, hvorki mig né aðra.“ Hann dvelur nú á Eir í Grafarvogi og sendir kveðjur til fjölskyldunnar í minningu
einstakrar manneskju.
Eins sendir góðar kveðjur frá Kaupmannahöfn Ágúst Einar
Ágústsson frændi.
Að hlusta á afkomendur hennar Sólveigar og ástvini, lýsa elsku
hennar, gerir mann hjóðan og vekur með manni auðmýkt og
aðdáun. Hún setti aðra ætíð í fyrsta sæti.
Sólveig sýndi snemma hversu mikil manngæska bjó með henni,
en hún var ekki nema 7-8 ára gömul þegar móðir hennar, Kristín veiktist af lömunarveiki. Sólveig sinnti móður sinni og heimilinu vel þrátt fyrir ungan aldur og sat yfir móður sinni í veikindum sínum. Allt annað fékk þá að víkja, hvort sem það voru vinir eða heimilisstörf en Sólveig sinnti móður sinni þegar hún fékk krampaköst sem fylgdu lömunarveikinni. Þessi veikindi höfðu mikil áhrif á barnæsku og allt líf Sólveigar.
Sem ung kona vann Sólveig mikið og víða. Hún vann meðal annars í Guðnabakaríi á Selfossi, í Búrfellsvirkjun, fór á síld á
Neskaupsstað og vann sem ráðskona hjá fjölskyldu þar sem
húsmóðirin var sjálf veik.
Sólveig var alla tíð hörku dugleg og vildi allt fyrir sitt fólk gera.
Ung var hún farin að senda peninga heim til fjölskyldunnar. Hún keypti til að mynda fyrsta sjónvarpið fyrir fjölskylduna fyrir launin sem hún vann sér inn á Búrfelli. Yngri systkini hennar, Oddbjörg og Guðfinnur, fundu þá einnig fyrir hjartahlýju og gjafmildi stóru systur en hún lagði mikið upp úr því að kaupa á þau falleg og vönduð föt og studdi þannig við foreldra sína.
Á tvítugsaldri fluttist Sólveig til Reykjavíkur og hóf þá störf í
eldhúsinu á hjúkrunarheimilinu Grund. Og þar leið henni vel og fannst henni virkilega gaman að vinna. Þar var mikið af ungu fólki að vinna og líf og fjör á vinnustaðnum. Hún talaði alltaf vel um tímann sinn þar og sagði alltaf að ef hún myndi nú fara á elliheimili, þá myndi hún vilja fara á Grund – og það varð úr þegar hennar tími var kominn.
Fyrst í Strandaseli og síðar í Stífluseli bjó hún sér og dætrum
sínum Kristínu og Lindu ákaflega falleg heimili. Sambýlismaður Sólveigar til nokkurra ára var Grétar Gústavsson, faðir Lindu, en eftir að þau slitu sambúð hélst vinskapur þeirra og var góður alla tíð.
Sólveig lagði alltaf mikið uppúr því að heimilið væri fallegt, snyrtilegt og umfram allt hreint, enda var alltaf þrifadagur á laugardögum. Þá var oftar en ekki kveikt á fallegum íslenskum dægurlögum og einna helst Björgvini Halldórssyni.
Sólveig reyndist dætrum sínum alla tíð vel bæði sem móðir og vinur og þá var alveg einstakt vináttusamband hennar og Lindu. Hún studdi dætur sínar ætíð í gegnum allt og gátu þær ávallt leitað til hennar hvort heldur sem var í gleði eða raun.
Sólveig starfaði lengst af við heimaþjónustu hjá Árskógum. Þar nýtti hún sína meðfæddu góðmennsku sem einkenndi hana alla tíð. Hún gaf sig alla í sitt starf og sinnti skjólstæðingum sínum af einstakri alúð og virðingu hvort heldur sem var á vinnutíma eða utan.
Og það var alltaf það sem henni var efst í huga. Að koma vel fram við alla sem hún kynntist og hjálpa öðrum. Enda sýndi það sig heldur betur þar sem hún hlaut viðurkenningu ein þrjú ár í röð sem Félagsliði ársins í Reykjavík. Og á þeim viðurkenningum var einmitt talað um þessa einstöku natni hennar, virðingu við náungann og þá alúð sem hún lagði í allt sitt starf.
En það var oft margmenni í Stífluselinu enda voru alltaf allir velkomnir. Og það var alltaf mikið atriði að enginn mætti vera
svangur.
Það var alltaf stutt í húmorinn hjá Sollu og geta flestir ef ekki allir hér í dag vottað fyrir það. Það var hlegið hátt og haft gaman við hvert tilefni enda náði Sólveig alltaf að hafa gaman af lífinu og njóta þess.
Góðmennska og ljúflyndi Sólveigar skein alla tíð svo vel í gegn, og ekki minnkaði það þegar barnabörnin bættust við. Sólveig elskaði barnabörnin alla tíð svo mikið og þreyttist ekki að heyra sögur af þeim frá foreldrunum. Þá reyndist hún þeim dætrum ómetanlegur stuðningur í barnauppeldinu og þreyttist ekki á að passa barnabörnin og aðstoða með hvað heldur sem þurfti.
Hún lifði fyrir dæturnar og tíminn sem hún gaf barnabörnunum var mikill og ekki síst stóðu þær saman Lilja Björt og hún í öllum kringumstæðum. Hún fór t.d. ótal ferðir með henni í strætó út um allt, margar ferðir á Selfoss til að heimsækja systkini sín. Hjólastóllinn var alltaf með í för og hún baslaði við það að koma honum inn og út úr rútum og vögnum. Nei, hún pantaði ekki sérstakan bíl handa þeim. Hún vildi bara nota almenningssamgöngur. Og þegar Kristín Jóna fermdist þá fékk Sólveig í fyrsta og eina sinn lán frá foreldrum sínum til að geta haldið almennilega veislu, sem tók hana góðan tíma að greiða til baka. Og það gerði hún alveg þangað til síðasti eyrir var greiddur. Svona var hún Sólveig, óeigingjörn, gjafmild og rausnarleg, fyrirgefandi og elskandi.
Hún dæmdi ekki og hafði ekki stór orð um vanefndir annarra.
Kannski kunni hún ekki þá list að setja mörk og gera kröfur? en
eitt er víst að kærleikurinn var hennar hugtak og æðsta keppikefli.
Enda segir í hinum helga texta: Kærleikurinn „gleðst ekki yfir
óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.“
Það skerti verulega lífsgæðin þegar Sólveig greindist með
Alzheimers í miðjum Covid-faraldrinum árið 2020. Henni hrakaði hratt og fékk búsetu á hjúkrunarheimilinu Grund í lok árs 2022. Þrátt fyrir veikindin leið henni vel þar eins og allsstaðar þar sem hún kom á sinni ævi. Hún eignaðist góða vini og linnti vel við alla, hvort heldur voru heimilismenn eða starfsfólk. Og starfsfólkið talaði einmitt um það hvað hún væri alltaf blíð og góð og vildi aldrei láta neitt hafa fyrir sér. Enda var það þannig alla tíð með þessa duglegu konu.
Og nú er ævin hennar Sólveigar Jónsdóttur á enda runnin. „Öllu er afmörkuð stund“, segir í bók Prédikarans í Gamla testamentinu, því mikla spekiriti. Við munum öll deyja. Sálmur séra Hallgríms Péturssonar – Um dauðans óvissan tíma – er ótrúlegt listaverk.
Fyrstu 9 versin tjá það að allir munu deyja, fyrr eða síðar. Seinustu versin 4 tjá lausnina og vonina andspænis dauðanum sem engum eirir.
Fara með sálminn allan utanbókar, öll 13 versin.
Þessi texti skáldprestsins séra Hallgríms er einstakt listaverk
byggt á djúpri þekkingu hans á kristinni trú og guðfræði og lífsreynslu manns sem þoldi margt á sinni ævi. Sálmurinn er á sinn hátt óður til kærleika Guðs í Kristi Jesú, sem „… breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“
Guð blessi minningu Sólveigar Jónsdóttur og Guð blessi þig, sem enn ert á lífsveginum þar sem Kristur býður þér sína hjálp við að leysa úr gátum lífs og þrautum daganna, og fylgir okkur að lokum í trúnni til himinsins heim.
Amen.
You must be logged in to post a comment.