

Viltu lesa ræðuna og/eða hlusta? Hluti ræðunnar var fluttur af munni fram og hluti skv. meðf. texta.
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Sæþór Mildinberg Þórðarson
1942-2025
Útför frá Keflavíkurkirkju
fimmtudaginn 27. nóvember 2025 kl. 13
Jarðsett í Ytri-Njarðvíkurkirkjugarði eftir bálför.
Ræðan:
Sunginn var sálmurinn – Ég leit eina lilju í holti – og ég sagði sögu um sálminn og einnig af sálminum – Heyr himna smiður. Þetta var mælt af munni fram.
Elsti sálmur sem fundist hefur á norrænni tungu er sálmur Kolbeins Tumasonar frá 1208. Hann féll í bardaga í Skagafirði sama ár. Fyrsta versið hljóðar svo:
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti’ eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.
Skáldið kallar Guð himnasmið, Guð hefur skapað veröldina, þetta undur sem við skiljum ekki til hlítar. Við munum aldrei skilja allt það gímald sem geimurinn er sem þenst út með ógnarhraða á hverju sekúndubroti.
Við mannfólkið erum einnig skaparar enda þótt við smíðum ekki himna en við getum þó skapað.
Sæþór frændi minn var smiður, fyrst lærlingur og síðar meistari. Smíðar hafa ætíð heillað mig vegna þess að fagið er svo listrænt og svo tengjast svo margar greinar lista og hugsunar í því. Smiður þarf að kunna á verkfæri, ólík smíðaefni, viðartegundir, svo kallar fagið á útsjónarsemi, verkalag, lagni, formgreind og tilfinningu fyrir fegurð.
Hvaðan kemur fegurðin? Hvað veldur því að okkur finnst sumt fegurra en annað? Er það ekki vegna þess að í okkur býr vitund um fegurð og form? Svo býr einnig í okkur vitund um rétt og rangt? Og hvaðan kemur þessi vitund.
Sæþór Mildinberg Þórðarson fæddist á Öldunni á Ísafirði 16. nóvember 1942. Foreldrar hans voru Salóme Halldórsdóttir f. 04.07.1915 d. 10.11.1991 og Þórður Sigurðsson f. 25.08.1906 d. 05.12.2001. Systkini Sæþórs voru átta:
Hjördís Olga,
Sigurður Borgar,
Gerðar Óli,
Gunnar Trausti,
Sesselja Guðrún,
Jón Hafþór,
Sigurborg Elva og
Kristín Silla.
Eftirlifandi af þeim hópi eru þau tvö elstu Hjördís Olga, Sigurður Borgar og yngsta systirin, Kristín Silla.
Sæþór var sendur í fóstur til Flateyrar nokkra mánaða gamall vegna veikinda móður hans. Átti hann að vera í fóstri til skamms tíma en endaði þar öll sín uppvaxtarár.
Fósturforeldrar hans voru Bjarni Sveinn Þórðarson frændi Sæþórs f. 07.11.1903 d. 24.01.1990 og
Guðríður Guðmundsdóttir f. 12.08.1912 d. 08.02.2007.
Þar eignaðist hann 5 systkini til viðbótar:
Ásgeir,
Þórunni Kristínu,
Guðrúnu,
Guðmund Skúla og
Þórð Sæberg sem einn lifir af þeim hópi.
Á Flateyri kynnist Sæþór eftirlifandi eiginkonu sinni Mörtu Margréti Haraldsdóttur f. 16.07.1947 frá Neskaupsstað.
Hún er dóttir hjónanna Kristínar Sæmundsdóttur f. 26.02.1919 d. 30.03.2002 frá Kaganesi í Helgustaðahreppi við Reyðarfjörð og Haraldar Harðar Hjálmarssonar f. 18.02.1919 d. 1.04.1989 frá Haga í Mjóafirði.
Marta og Sæþór giftu sig 13. maí 1967. Byrjuðu þau sinn búskap á Flateyri og bjuggu þar til 1971. Fluttu þau þá til Súðavíkur í einn vetur en þaðan lá leiðin til Grundarfjarðar og bjuggu þau þar til 1981. Þá lá leiðin til Innri Njarðvíkur þar sem þau bjuggu til ársins 2000 uns þau fluttu til höfuðborgarsvæðisins. Á öllum þessum stöðum byggði Sæþór sér hús fyrir sig og sína.
Afkomendur Sæþórs og Mörtu eru:
1) Gunnar Þór f. 24.12.1965, eiginkona hans er Tína Gná Róbertsdóttir f. 27.08.1966, börn þeirra eru 1a) Sæþór Björn, hans börn eru Gunnar Þór, Sunna Kristín og Daníel Þór, 1b) Margrét Jóna, hennar börn eru Alice Fjóla og Ezra Frost og 1c) Guðríður Lára Gunnarsdóttir, hennar börn eru Tína Sól og Sveinn Orri.
2) Harpa Jakobína f. 07.03.1968, eiginmaður hennar sem er látinn Magnús Þór Vilbergsson f. 19.01.1964 d. 17.06.2023, börn þeirra 2a) Haraldur Bjarni, hans börn eru Róbert Berg og Elvar Berg, 2b)Eyrún Ósk, hennar börn eru Kristín Harpa og Sölvi Snær og 2c) Marta Hrönn, hennar börn eru Magnús Vilberg og Arnór Jökull. Núverandi sambýlismaður Hörpu er Magnús Kristján Þórsson f. 23.09.1976.
3) Grétar Þór f. 09.03.1976, eiginkona hans er Sólveig Þrastardóttir f. 23.07.1980, þeirra börn eru 3a) Guðrún Mjöll, 3b) Bjarki Snær og 3c) Gísli Snær.
4) Lilja Guðrún f. 05.12.1979, eiginmaður hennar er Jóhann Ágúst Jóhannsson f. 05.08.1971, þeirra börn eru 4a) Brynjar Sæberg, 4b) Bjarni Hafþór og 4c) Ásgeir Mildinberg.
Sæþór lauk sveinspróf í húsasmíðaiðn þann 30. nóvember 1963. Lauk hann síðan meistaraprófi til húsasmíða þann 24.10.1967. Vann hann við húsasmíði alla sína tíð og til síðasta dags, boðinn og búinn til að hjálpa öðrum. Launin voru því stundum létt í vasa en vináttunnar virði. Sæþór fór einstaka sinnum til sjós á yngri árum, því á veturna fyrir vestan voru ekki byggð upp ný hús vegna veðurs, þá fór Sæþór á sjóinn.
Sala frænka mín, móðir Sæþórs og faðir minn voru systrabörn og við Sæþór þar með þremenningar.
Ég man óljóst eftir þeim á Öldunni við Fjarðarstræti á Ísafirði sem var steinsnar frá bernskuheimili mínu á horni Sólgötu. Sæþóri kynntist ég síðar en hann ólst upp á Flateyri. Á fullorðinsárum vann ég prestsverk innan fjölskyldu hans og Mörtu. Þá þekkti ég fasið og góðlegan svipinn, brosmildi hans og augun hlý sem minna mig á bæði móður hans og föður. Foreldrar Mörtu og systkini hennar bjuggu í Grindavík þegar ég þjónaði þar á árunum 1985-1990. Duglegt og gott fólk.
Sæþór ólst upp á Flateyri en kom oft til mömmu og pabba á Ísafirði og í Súðavík, sérstaklega eftir að hann fékk bílpróf. Um uppvöxt hans segir í viðtali í Morgunblaðinu á 2. í jólum 2018:
Sæþór ólst raunar ekki upp með þeim. Hann fæddist í nóvember 1942 og vorið eftir fór hann í fóstur hjá hjónunum Bjarna Þórðarsyni og Guðríði Guðmundsdóttur á Flateyri. „Það átti að sækja mig um haustið enda ófært þarna á milli allan veturinn en ég hef ekki verið sóttur enn,“ segir Sæþór hlæjandi. Hann á raunar stóran þátt í því sjálfur, grét án afláts og gnísti tönnum um haustið, þannig að Bjarni og Guðríður ákváðu að leyfa honum að vera „aðeins lengur“. Upp frá því ólst hann upp með börnum þeirra sex en hélt góðu sambandi við foreldra sína og systkini á Ísafirði.
Sæþór var atgervismaður, keppti í allskonar íþróttum fyrir vestan og spilað fótbolta á Flateyri. Hann var sprækur og kröftugur en hann var lofthræddur, sagði hann í viðtali og hræddur við bratta fjallvegi. Hann hefði því líklega ekki látið sér til hugar koma að læra flug eða stunda fallhlífarstökk! Konan mín fékk fallhlífarstökk í fertugsafmælisgjöf og ég og sonur okkar, horfðum á hana eins og agnarlitla fiskiflugu hátt í loftinu. Svo stækkaði hún smátt og smátt og hvarf okkur svo sjónum bak við hæð Við fundum hana heila á húfi.
Ég er þar með líklega einn fárra presta sem getur sagst hafa fengið konu – beinlínis af himnum ofan!
Sæþór var við nám í Reykjanesskóla og lauk síðan námi í trésmíðum. Hann var laghentur og bjó yfir ríkri sköpunargáfu. Móðir hans var mikil hannyrðakona og fjölhæf í listsköpun af ýmsu tagi og faðir hans og bræður annálaðir sjómenn og þeir ásamt systrunum dugnaðarfólk. Húsið þeirra Sölu og Þórðar í Súðavík var málað í skærum litum og tröppurnar marglitar eins og regnboginn sjálfur, friðartákn Guðs. Foreldrar hans og systkin eru þekkt fyrir elskusemi og glaða lund.
Sæþór og Marta ferðuðust víða um land, gistu fyrst í tjaldi svo í húsbíl og loks hjólhýsi.
Sæþór var þekktur fyrir hjálpsemi og ætíð reiðubúinn til að leysa úr verkefnum með fólki. Hann var t.d. að hjálpa Grétari við ýmis verkefni undir lokin. Heilsan var farin að gefa sig og líkaminn orðinn lúinn.
Lífið er ekki bara dans á rósum. Því fylgja margvísleg verkefni sem reyna bæði á sál og líkama. Við eigum öll okkar góðu stundir og svo er lífið stundum bara eins og brekka upp á við og þá kanna að strekkjast á skaphöfn okkar. Og vegna þess að við erum ekki fullkomin þá er fyrirgefningin svo mikilvæg í lífinu. Okkur verður öllum á og öðrum verður á gagnvart okkur sjálfum. Þetta þekki ég á eigin skinni og úr starfi mínu. Þess vegna er svo mikilvægt að eiga trú á miskunnsaman Guð sem fyrirgefur okkur og elskar okkur öll, án skilyrða. Hvað er skilyrðislaus elska? Hún krefst einskis í staðinn. Guð segir ekki: Ég skal elska þig ef þú ert alltaf góður, alltaf að vinna, aldrei reiður, aldrei mistækur. Nei, þannig er ást Guðs ekki. Hún er algjör og án skilyrða.
Barnabörnin voru hænd að afa og leituðu oft til hans.
Tala um Ljós heimsins og ljósið í okkur … af munni fram …
Hér lýkur ræðunni og svo voru fluttar kveðjur:
Kveðja hefur borist frá systur Sæþórs, Hjördísi Olgu Þórðardóttur og manni hennar Geir Baldurssyni sem gátu ekki verið með okkur hér í dag. Ennfremur frá dóttur þeirra, Jórunni Sillu Geirsdóttur og Stefáni Þór Sigurðssyni framkvæmdastjóra.
Elsku Marta og fjölskylda
Ég get því miður ekki verið með ykkur í dag en langar að votta ykkur mína dýpstu samúð. Ég minnist Sæþórs frænda með miklum hlýhug og minningarnar munu lifa í mínu hjarta.
–
Samúðarkveðjur
Birkir Þór Guðmundsson frá Hrauni
–
Hér kemur kveðja mín vegna Sæþórs.
Elsku Marta og fjölskylda – innilegar samúðarkveðjur sendum við ykkur.
–
Megi allt hið góða vera með ykkur,
með kveðju frá Varmalæk, Magga.
–
Kæri frændi hjartans þakkir á kveðjustund fyrir þig og góðu stundirnar sem ég átti með þér og Mörtu.
–
Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar kveðja frá Guju og fjölskyldu í Bolungavík.
You must be logged in to post a comment.