Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Guðríður Ólöf Kjartansdóttir
1926-2025
Útför frá Digraneskirkju
miðvikudaginn
26. nóvember 2025 kl. 15


Ritningarlestrar sunnudagsins 23. nóv. og þar með þessarar viku:
SÍÐASTI SUNNUDAGUR KIRKJUÁRSINS – EILÍFÐARSUNNUDAGUR – BORGIN EILÍFA
Lexía: Jes 65.17-19
Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð
Pistill: Róm 8.18-25
Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast.
… En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.
Guðspjall: Matt 25.31-46
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.
Ræðan:
Hver er tilgangur lífsins?
Hvað vitum við?
Hvað skiljum við?
Hvar býr í okkur vitundin um hið æðsta?
Ég hlustaði á lækni flytja fyrirlestur á Netinu. Hann er heilasérfræðingur og hefur rannsakað heilann í fólki árum saman. Það sem vakti athygli mína sérstaklega í máli hans var að hann taldi að sálin eða vitundin væri ekki í heilanum. Hann gaf mörg dæmi af ýmsu tagi máli sínu til sönnunar. Eitt var um manneskju sem gekkst undir mikla heilaaðgerð og til að framkvæma hana varð nánast að frysta heilann meðan á aðgerðinni stóð. Heilinn var þar með tekinn úr sambandi ef svo má að orði komast. En eftir að sjúklingurinn vaknaði aftur gat hann sagt hvað gerst hefði, hverjir hefðu framkvæmt athöfnina og gat lýst öllu á skurðstofunni sem hann kom þó sofandi inn í fyrir aðgerðina. Vitund hans var vakandi. Og svo nefndi læknirinn, að fólk sem reynt hefur það sem kallað er nær-dauða-reynslu, að það sjái aðeins látið fólk við enda ganganna sem flestir lýsa er reynt hafa. Einn maður sem lent hafði í bílslysi þar sem hann og fleiri vina hans voru saman, hann var sjálfur við dauðans dyr og sá bara þá sem höfðu látist í sama slysi og hann, en ekki hina sem lifðu af. Allir sem reynt hafa að vera við dauðans dyr og snúið við segjast bara hafa séð látna en enga lifandi manneskju. Merkilegt!
Hvar býr vitundin? Hvar er sálin? Er hún kannski í brjóstholinu? Í hinni Íslensku Hómilíubók sem er safn af fornum stólræðum presta og er elsta bók íslensk sem varðveist hefur, talin rituð um aldamótin 1200 og hefur í sér auk ræðna að geyma fræðslugreinar og bænir.
Í einni ræðunni þar segir prestur: „Látum oss nú hreinsa til í brjóstkirkjum vorum.“ Hann vísar til helgidóms sem er í brjósti okkar. Orðið brjóstvit er líka til og ég sendi eitt sinn inn orðið kviðvit í orðabók HÍ sem vísar til þess sem við finnum til neðst í kviðnum og mætti líka kalla iðravit. Í Markúsarguðspjalli segir: „Þegar Jesús steig á land sá hann þar margt manna og hann kenndi í brjósti um þá því að þeir voru sem sauðir er engan hirði hafa.“ (Mk 6.32). Hann kenndi í brjósti um þá segir þar í íslensku þýðingunni, en í frumtextanum á grísku er átt við kviðvit esplangknisþe sem vísar til kviðarhols. Á ensku er til orðið „gut feeling“.
Vitstöðvar okkar eru því þrjár: Rökvitið sem býr í heilanum, brjóstvitið og svo kviðvitið. Þrjár vitstöðvar! Og ekki veitir nú af!
Jesús kom til að safna fólki saman í öryggi og vissu um tilgang lífsins.
Já, hver er tilgangur lífsins?
Svar þeirra sem eiga vissu þar um er einfalt:
Að finna Jesú í hjarta sér, í brjóstkirkjunni, helgidómi hjartans?
Er brjóstkirkjan tóm eða er Hann þar sem tengir okkur við tilgang lífsins, við himininn, við eilífðina? Eða er einhver annar þar sem ekki á þar heima og ekki á neitt erindi þangað? Er brjóstkirkjan þín og mín rétt mönnuð?
Það besta sem komið hefur fyrir mig á lífsleiðinni var að finna Jesú og vera ekki lengur í sömu sporum og fólkið í texta Markúsar, týnt, með skerta vitund um æðri tilgang.
Fólkið streymdi til Jesú til að heyra hann tala, fá fyrirbæn, læknast, eignast von og nýja sýn á lífið. Fólk fylgdi honum í þúsundatali – en svo var hann tekinn af lífi á þann mest auðmýkjandi hátt og sársaukafyllsta sem menn þekktu þá. Hann var krossfestur. Allar vonir brustu. Trúin á þennan mann varð að engu. Trúin gekkst undir erfitt próf. En svo gerðist undrið. Guð reisti hann upp frá dauðum! Þúsundir sáu hann lifandi eftir krossfestingu og tvær nætur í gröf. Hann lifði – og hann lifir enn!
Hún sem við kveðjum hér í dag, slóst í hóp þeirra allra, sem vissu forðum og vita nú, hver sá er sem vill búa í brjóstkirkju okkar allra.
Hún var heilsteypt kona og eignaðist traustan mann sem líka eignaðist vissuna um tilgang lífsins. Og börnin þeirra þekkja þessa vissu.
Guðríður Ólöf Kjartansdóttir hét hún fullu nafni, gjarnan kölluð Olla, var fædd að Vestra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi 14. ágúst 1926. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 9. nóvember sl. 99 ára að aldri.
Foreldrar hennar voru Kjartan Ólafsson bóndi (f. 12. október 1883, d. 19. desember 1961) og Guðrún Elísabet Jónsdóttir, húsmóðir (f. 19. júní 1888, d. 22. september 1992).
Hún átti tvær systur, Pálínu Ragnheiði Kjartansdóttur húmæðraskólakennara (f. 14. febrúar 1922, d. 21. júlí 2016) og tvíburasysturina Margréti Kjartansdóttur húsmóður. Þær voru eineggja tvíburar. Dóttir hennar er Elísabet Haraldsdóttir (f. 14. janúar 1958).
Guðríður Ólöf giftist Jóni Andréssyni f. 26. mars 1931, d. 15. janúar 2018.
Þau eignuðust fimm börn, en eftir að það fyrsta hafði fæðst andvana og eftir huggun með Ingunni Gísladóttur verðandi kristniboða. Bænin var sú að Drottinn mundi gefa annað barn og að það yrði helgað þjónustu við Drottin. Upp á dag, ári síðar kom:
1) Kjartan Jónsson prestur, kristniboði og mannfræðingur f. 1954 kvæntur Valdísi Magnúsdóttur. Börn þeirra:
a) Heiðrún (f. 1978),
b) Ólöf Inger (f. 1980), gift Kristni Óðinssyni og
c) Jón Magnús (f. 1984), kvæntur Marisu Marie.
Barnabörnin eru fimm.
Ég flyt ykkur kveðju Jóns Magnúsar, sem býr í Kaliforníu. Honum þótti mjög vænt um ömmu sína. Hann og eiginkonan Marisa biðja fyrir kærar kveðjur með þakklæti fyrir kærleikann og umhyggjuna.
2) Guðný Jónsdóttir myndlistarkennari f.1957. Börn hennar:
a) Trausti Óskarsson (f. 1976), maki Katarina Brunfors,
b) Ísak Ívarsson (f. 1987), maki Steinunn Eldflaug Harðardóttir og
c) Eysteinn Ívarsson (f. 1989), maki Gígja Jónsdóttir.
Barnabörnin eru fimm.
3) Lárus Þór Jónsson heimilislæknir f.1960 kvæntur Lilju Björk Jónsdóttur. Börn þeirra:
a) Jón Kristinn (f. 1986), kvæntur Steinu Dröfn Snorradóttur,
b) Ólafur Már (f. 1989), unnusta hans er Lilý Erla Adamsdóttir og
c) Sigríður María (f. 1992). Barnabörnin eru fimm.
4) G. Elísabet Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur f.1962, gift Bjarna Gíslasyni. Börn þeirra:
a) Ingunn (f.1984), gift Gunnari Solberg,
b) Elías (f. 1988), kvæntur Hildi Björgu Gunnarsdóttur,
c) Aron (f.1990), kvæntur Dagbjörtu Eilífu Baldvinsdóttur,
d) Markús (f.1994), kvæntur Heiðbjörtu Arneyju Höskuldsdóttur,
e) Birkir (f. 1996), kvæntur Grímu Katrínu Ólafsdóttur.
Barnabörnin eru ellefu.
5) Andrés Jónsson húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur f.1964, kvæntur Iðu Brá Vilhjálmsdóttur. Börn Andrésar og Ragnhildar Ásgeirsdóttur eru:
a) Pétur (f. 1993),
b) Íris (f. 1996),
c) Marta (f 1998).
Börn Iðu eru
a) Bergný (f. 1984)
b) og Börkur (f. 2003).
Andrés og Iða Brá eiga samtals þrjú barnabörn.
Þetta er nú ekki lítið ríkidæmi sem þau Jón og Ólöf eignuðust.
Ég kynntist þeim hjónum í Grensáskirkju fyrir rúmum 40 árum og man samtöl yfir kaffibolla við þau að loknum samkomum sem voru fjölsóttar og vöktu fjölmargt fólk til nýrrar vitundar um trúna. Þau komu mér ætíð fyrir sjónir sem heilsteyptar og traustar manneskjur.
Börnin lýsa móður sinni í minningargreinum dagsins og ég fékk þær í hendur ásamt fleiri greinum. Olla fær að vonum góð ummæli kærleiksríkra barna og ástvina. Uppskera hennar er ríkuleg. Ég kem þeim minningum ekki öllum fyrir í þessari ræðu en stikla á því helsta.
Olla ólst upp við almenn sveitastörf, gekk í Héraðsskólann að Laugarvatni og Húsmæðraskólann á Laugalandi. Hún og Jón byggðu sér heimili að Hjallabrekku 39 í Kópavogi þar sem þau bjuggu frá árinu 1969. Uppalin í sveit ólu þau hjónin börnin upp á rammíslenskum mat og mikil vinna fór í að afla fanga og gera að og geyma í salti eða frosti. Komin á tíræðisaldur fór hún margar ferðir með bakpoka í kjörbúðina á Kópavogshálsi og bar björg í bú. Dugnaður hennar og elja var rík og án efa hefur hún bætt líf sitt og fjölgað dögum sínum og árum með heilbrigðu líferni, góðu geði, æðruleysi og mikilli hreyfingu.
Ólöf útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1977 og vann við fagið þar til hún fór á eftirlaun. Hún var mikil fjölskyldukona, passaði barnabörnin sín mikið og var ávallt reiðubúin að rétta fólkinu sínu hjálparhönd. Hún vakti yfir velferð þeirra og fylgdist ávallt vel með öllum. Síðari árin hafði hún betra tóm til að sinna áhugamálum sínum en áður, bóklestri, kórsöng, sundleikfimi og félagsvist, auk þess sem hún sótti starf eldri borgara í kirkjum Kópavogs.
Guðríður Ólöf sagði eitt sinn að það þyrfti ekkert að tala mikið um hana við útförina, en það mætti hafa fallega tónlist og svo brosti hún sínu fagra og einlæga brosi sem minnir mig á málverk endurreisnarmálara af helgum konum.
Já, lífið á hennar dögum og sérstaklega bernskan, var með allt öðrum hætti en við þekkjum. Ef við gætum feraðast til baka í tíma og værum allt í einu komin að Vestra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi fyrir miðja seinustu öld þá værum við væntanlega eins og geimfarar á ókunnri stjörnu. Enginn ísskápur, engin hitaveita, ekkert útvarp eða sjónvarp, engar tölvur og mjólkin bara beint úr kúnni og kjötið saltað í tunnur og geymt, saltur fiskur og hertur, engar búðir, engin bíó.
En það var kirkja á svæðinu og þannig hefur Ísland verið í þúsund ár. Kirkjan hans Jesú með trú, von og kærleika, sem getur líka tekið sér bólstað í hjörtum manna í andlegum skilningi. Kirkjan hóf hjúkrunarstarf forðum daga í klaustrunum og margt fólk settist í helgan stein, flutti í klaustrið og naut hjúkrunar til dauðadags. Munkar og nunnur gengdu hjúkrunarstörfum, voru sjúkraliðar þess tíma. Kirkjan hóf lestrarkennslu eftir siðbreytingu og því má segja að bæði heilbrigðis- og skólakerfið séu ávöxtur kirkjulegs starfs. Öll okkar helgu gildi, eru komin úr gyðingdómi og kristinni trú. Öll gildi Vesturlanda, öll mannréttindi, allt sem við teljum helgast og best, á rætur í kenningum Jesú Krists.
Lífið er ekki bara vissa og öryggi. Óvissa fylgir lífinu, heilsubrestur, breytingar í þjóðfélaginu, hafa áhrif og svo er það fólkið sem glímir við stríðsátök í útlöndum, fólk sem allt í einu er svipt flestu því sem við teljum til lífsgæða í daglegu lífi. Við gætum lent í slíku. Hver veit hvað verður í ótryggum heimi. Þá er gott að eiga vissu um frelsarann, um Guð sem engum bregst og ræður meira að segja yfir dauða og örlögum allra sem látist hafa og ennfremur allra sem eiga eftir að kveðja þetta líf.
Olla var sjúkraliði en þeir komast kannski næst sjúklingum með sinni persónulegu þjónustu og umönnun. Það er göfugt starf að sinna sjúkum og bágstöddum. Köllun okkar allra er að elska náungann og reynast fólki vel á lífsleiðinni. Lífið færir okkur í fang verkefni af ýmsu tagi. Að vinna verkin okkar í þessum heimi er í raun guðsþjónusta, því skv. trúnni, er heimurinn Guðs og við þar með líka.
Kær kveðja hefur borist frá starfsfólki og heimilisfólki á Báruhrauni, Hrafnistu í Hafnarfirði: „Með þökk fyrir góða vináttu síðastliðin ár.“
Jón og Olla fóru eitt sitt til Kenýju ásamt Lárusi og Lilju að heimsækja Kjartan, Valdísi og börn, sem þar störfuðu við kristniboð. Þau dvöldu ytra í 6 vikur og hittu margt fólk. Heimamaður vildi gleðja Ollu og þakka fyrir heimsóknina og gaf henni góða og veglega gjöf. Konur færðu henni 10 lifandi hænur! Þær fengu þó ekki far með flugvélinni heim!
Þau Jón og Olla eignuðust bæði trúarvissu. Skil urðu í persónusögu beggja og því mætti tala um líf þeirra fyrir Krist og eftir Krist. Um leið er mikilvægt að minna á skírnina sem um aldir hefur verið almennur siður á Íslandi, að skíra börnin. Skírnin er vígsla til ríkis Guðs. Allir skírðir eru breyskar manneskjur, fallnar eins og það heitir á máli trúarinnar, en endurreistar fyrir mátt Guðs og elsku. Skírnin er sáttmáli Guðs og manns. Guð gengur aldrei á bak orða sinna hvað skírnarsáttmálann varðar, en um leið minni ég á að það að eignast vitund um gjöf skírnarinnar og lifa þá gjöf í lofgjörð til skaparans, er lífsköllun og ekkert hlutverk er æðra því en að elska Guð og náungann í lífi og starfi.
Heyrum frásögn úr NT um hið mikilvægasta:
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
26 Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
27 Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
28 Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“
Gott er að fá að kveðja látinn ástvin í þessu samhengi trúar, vonar og kærleika, manneskju sem umvafði fjölskyldu sína og afkomendur kærleika og umhyggju og starfaði við það árum saman að létta sjúkum lífið og þjóna þeim, sem náðu ekki aftur heilsu, alveg fram í andlátið.
Við sjáum hve nærri slík þjónusta er þeirri sem Jesús sýndi er hann gekk um og kenndi í brjósti um mannfjöldann. Hann fann til með fólki og elska hans var sterk í rökviti hans, brjóstviti og í kviðarholinu þar sem við finnum sumar kenndir. Börnin segja stundum: Mamma, mér er svo illt í maganum! Stundum er sú tilfinning ekki endilega tengd meltingu heldur kann kenndin að vera önnur og andlegri.
Í Davíðssálmum segir m.a.:
13Þú hefur myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
[…]
16Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar mínir voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína
áður en nokkur þeirra var til orðinn.
(Úr Davíðssálmi 139)
Við lifum, hrærumst og erum í þessu samhengi, börn Guðs í heimi Guðs. Brjóstkirkjan okkar er eins og örlítil kapella, út frá hinum stóra helgidómi himinsins og það er þar sem hin stóra brjóstkirkja er, brjóstkirkjan við hjarta Guðs almáttugs.
Guðríður Ólöf Kjartansdóttir er nú sem fyrr í almáttugri hendi Guðs.
Góður Guð blessi minningu hennar
– og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum.
Mættum við öll finna leiðina heim. Amen.
You must be logged in to post a comment.