Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Haraldur Antonsson 1934-2025

Útför frá Neskirkju fimmtudaginn 30. október 2025

Jarðsett í Görðum

Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Haraldur Antonsson
1934-2025
búfræðingur
Útför frá Neskirkju,
fimmtudaginn 30. október 2025 kl. 13
Ritningarlestur:
Davíðssálmur 8
Guðspjall:
Jóh 14.1-6


Erlendur fræðimaður sem vekur athygli um
þessar mundir fyrir rannsóknir sínar á heila
manna segir m.a. að það sem skipti sköpum
hvað varðar heill og hamingju sé að gefa því
gaum að lifa í þremur víddum ef svo má að
orði komast:
-Í fyrsta lagi, til að okkur líði vel þurfum við að
lifa í góðum tengslum við fólk, við mannlífið.
-Í öðru lagi þurfum við að virða náttúruna og
njóta hennar sem lifandi og viðkvæms
veruleika.
-Í þriðja lagi þurfum við rækta tengsl okkar við
Guð, hina æðstu veru og skynja hið stóra
samhengi lífsins.
Mér koma þessir þankar í hug þegar ég
minnist Haraldar Antonssonar. Hann var maður
jafnvægis og yfirvegunar, elskaði Guð og
náungann og naut náttúru og dýralífs í ríkum
mæli.
Við heyrðum 8. Davíðssálm sem er í raun fyrsti
hymni eða lofsöngur þess mikla safns sem
telur 150 sálma. Vinur minn í prestastétt sem
er látinn fyrir mörgum árum var mikill aðdáandi
Davíðssálma og sagði að þeir tækju á öllum
sviðum mannlífsins, spönnuðu gleði og sorg,
hamingju og óhamingju, meðbyr og mótbyr, líf
og dauða. Hann sagði eitt sinn að hann þyrfti
aldrei að fara í bíó til að sjá túlkanir á
mannlífinu og breyskleika mannfólksins, slíkt
væri allt í Biblíunni.
Hinn 8. Davíðssálmur, sem lesinn var hér áðan,
spannar miklar víddir, allt frá smáum og
þurfandi brjóstmylkingi til hins hæsta,
handanverandi höfundar og skapara alls sem
er.

Lofgjörðin er stór og fögnuðurinn mikill yfir
því að vera til í þessari veröld Guðs þar sem
verkefni lífsins mæta okkur í ótal myndum.
Lífið er dásamlegt en því fylgir ekki aðeins
gleði og hamingja heldur einnig þjáningar og
jafnvel hörmungar, sársauki, harmur og dauði.
Þær staðreyndir reyna mikið á sálarþrek fólks
og vekja spurningar um tilgang lífsins.

Og margir hafna Guði á forsendum

þjáningar í heiminum.
Hvers vegna deyja börn úr sjúkdómum og af
völdum slysa, átaka og styrjalda? Hvers vegna
er harmur í heiminum og sársauki? Hvar er
Guð þegar öll sund virðast lokuð? spyr fólk í
þrengingum sínum. Hvers vegna fjarlægir Guð
ekki hið erfiða og sára, hið illa og
tilgangslausa? Heimurinn er þannig
samansettur að það sem við viljum öll losna
við er í raun óhjákvæmilegt.
Hvar er Guð í öllu þessu?
Krossinn tjáir afstöðu Guðs. Hann kom sjálfur
og boðaði kærleika og sátt, en var hæddur,
píndur og deyddur á krossi. Guð hefur sjálfur
verið hér og tekið þátt í mannlífinu sem maður.
Og hann grét og fann til, þjáðist – og dó á
krossi.
Krossinn boðar margar víddir. Grunnform
hans er einfalt, tveir ásar, annar lóðréttur, hinn
láréttur.
Hinn lóðrétti minnir á að við eigum að tengjast
bæði himni og jörð. Hinn lárétti, að við eigum
að vera í góðum tengslum við okkur sjálf, við
menn og heim.
Haraldur lifði samkvæmt þessari túlkun á
krossinum. Hann var hógvær í framkomu,
íhugull og fróður, hann var í góðu sambandi við
hið mannlega sem ég kem betur að síðar og
hann var trúaður og sótti Neskirkju reglulega.
Haraldur Antonsson fæddist 2. júlí 1934 í
Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu
Hrafnistu við Sléttuveg, 3. október 2025.
Foreldrar Haraldar voru hjónin Anton
Sigurðsson, húsasmíðameistari, f.
17.11.1900, d. 21.7.1991, og Hulda Gyða
Þórðardóttir, húsfreyja og hjúkrunarkona, f.
28.9.1906, d. 11.8.1990.
Bræður Haraldar eru Steinar, f. 1936,
Sigurður, f. 1939, og Ingólfur, f.1942.
Haraldur kynntist eiginkonu sinni Karinu
Hartjenstein Antonsson f. 29.1.1941 á
ferðalagi um Skotland og giftust þau
18.9.1965. Foreldrar hennar voru hjónin
Hans Hartjenstein, f. 14.7.1907, d.
14.8.1991 og Almi Hartjenstein, f. 7.6.1911,
d. 6.12.1949.
Börn Haraldar og Karinar eru:
1) Steinvör Almí f. 23.8.1969, gift Gunnari
Gunnarssyni, f. 8.7.1957. Þau eiga þrjú
börn;
Bjarka, f. 18.6.1999,
Alex, f. 6.11.2000, og
Egil 17.2.2004.
Fyrir á Gunnar tvö börn;
Kára, f. 23.4.1979, og
Dagbjörtu Maríu, f. 5.12.1985,
2) Skúli f. 31.3.1971, giftur Hörpu
Magnúsdóttur, f. 3.7.1974. Þau eiga tvö
börn; Harald Steinar, f. 14.10.2000, og
Donnu Maríu, f. 4.3.2003.
Haraldur ólst upp í foreldrahúsum í
Vesturbæ Reykjavíkur, lauk stúdentsprófi
frá Menntaskólanum í Reykjavík,
útskrifaðist sem búfræðikandídat frá
Framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri
og lauk námi í beitarrannsóknum og
erfðafræði dýra og jurta við
Landbúnaðarháskólann að Ási í Noregi. Í
framhaldi af náminu í Noregi vann hann við
beitarrannsóknir í Norður-Noregi. Noregur
átti ávallt sérstakan stað í hjarta Haraldar.
Eftir heimkomuna starfaði Haraldur m.a. hjá
Sandgræðslu ríkisins í Gunnarsholti, á
rannsóknarstofu hjá Sápugerðinni Frigg og
þegar hann og Karin tóku við kirkjujörðinni
Skarði í Gnúpverjahreppi (1969-1975) réði
Haraldur sig sem kennara við grunnskólann
í Brautarholti ásamt því sem þau hjónin
tóku að sér börn í fóstur og kennslu, sinntu
bústörfum og voru með fyrstu
ferðaþjónustubændum á Íslandi með
samning við Loftleiðir.
Þegar Haraldur og Karin fluttu aftur til
Reykjavíkur hóf Haraldur störf hjá
Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins og
starfaði þar uns hann fór á eftirlaun. Eftir að
starfsferlinum lauk lét Haraldur draum sinn
rætast og keypti jörðina Lambleiksstaði á
Mýrum í Hornafirði. Lambleiksstaðir áttu
hug hans allan og hann naut þess að vera
þar. Hann var vel lesinn og fróðleiksfús, var
mikið náttúrubarn, hafði mikinn áhuga á
landgræðslu og skógrækt og var ávallt
umhugað um velferð manna og dýra.
Karin hringdi í mig þegar hann var kominn á
sjúkradeildina Gullfoss á Sléttuveginum. Þar
var stór, svart/hvít ljósmynd af skipinu fræga,
Gullfossi. Þau Karin höfðu hist í Edinborg í
Skotlandi fyrir tilviljun eða forsjón Guðs öllu
heldur. Karin var þar með vinkonu sinni og
Haraldur sem sannur sjéntilmaður, bauð þeim í
kaffi. Eftir heimkomuna skrifuðust þau á og svo
fór að hann bauð henni að koma til Íslands,

og auðvitað með Gullfossi.

Þau felldu hugi saman og hafa
ræktað hamingjuna upp frá því.
Haraldur vildi ætíð læra eitthvað nýtt. Hann bjó
yfir mikilli manngæsku og var umhugað um
velferð dýra og í raun alls sem lifir.
Barnabörnin fengu öll að upplifa sveitina hjá
afa og ömmu þar sem kálfarnir máttu ganga
undir mæðrum sínum. Á Lambleiksstöðum
fótbrotnaði ein af hænum hans. Á flestum
bæjum hefði henni líklega verið fargað, en ekki
hjá Haraldi, sem setti á hana spelkur og batt
um meinið. Og viti menn! Hænan komst á
fætur og lék við „hvurn sinn fingur“!
Ég átti leið um sveitina hans fyrir nokkrum
árum og kom við á Lambleiksstöðum og sá
þar myndarbraginn á öllu á þeim fagra stað
með sýn til fjalla og jökla, himins og hafs. Þar
var hann sem kóngur í ríki sínu.
Staðurinn var fjölskyldunni eins og selin voru
fólki forðum, undraveröld yfir sumarið þegar
fjölskyldan var þar öll saman, menn og dýr í
Paradís.
Hann var nýtinn og verðmætamat hans var
næmt og útsjónarsemin virk. Allt var nýtilegt.
Sjálfsagt var að varðveita snærisbút og skrúfur
og margt fleira.
Hann bar mikla virðingu fyrir fólki og hafði
næmt eyra til að hlusta eftir því sem fólk hafði
að segja. Svo var hann hógvær, brosið hans
var blítt.
Vinir barna hans skynjuðu að þau voru tekin
alvarlega. Hann tók þeim sem jafningjum.
Hann hlustaði á þau, spurði þau um margt og
sýndi þeim áhuga. Fjölskyldan hefur einmitt
fengið þetta staðfest með skilaboðum frá
börnum sem kynntust Haraldi og þakka
elskusemi hans og hlýja nærveru.
Barnabörnin nutu þess að afi sótti þau í
leikskóla og sinnti þeim.
Haraldur hafði áhuga á fólki almennt talað.
Hann var nægjusamur maður. Hæfileiki hans til
að umgangast dýr var eftirtektarverður.
Hann var íhugull og umhverfið var honum
hjarta nærri. Hann naut náttúrunnar og að
ganga úti, íhuga og skoða undur lífsins, grös
og blóm, vötn og mýrar, tign fjalla og mátt
sjávar.
Á Noregsárunum varð hann fyrir reynslu sem
gleymdist aldrei. Hann hafði átt í samræðum
við einhvern um trúmál, gekk að því loknu út í
skóg og íhugaði lífið og tilveruna. Þá kom
þessi undursamlega birta yfir sálu hans. Það
var eins og Hann væri hjá honum sem sagði
„ég er ljós heimsins“. Og hann heyrði
kunnugleg orð: „Friður sé með þér.“ Þessi
reynsla hvarf honum aldrei úr sálu eða sinni.
Haraldur, Karin og Steinar bróðir hans hafa
sótt helgihald og fræðslustarf hér í Neskirkju
um árabil og tekið virkan þátt í
safnaðarstarfinu. Steinar sem dvelur á sjúkrahúsi er
hér og fylgir bróður sínum.
Trúin skilur að í okkur býr vitund og vísindin
velta einnig fyrir sér tilvist vitundarinnar í manninum
og utan hans. Hvaðan er lífið? Hvaðan er
vitund okkar? Og hvert hverfur hún þegar
jarðvist okkar lýkur? Við erum ekki vélar, ekki
tölvur. Við erum lifandi verur með líkama, sál
og anda.
Kristur sagði:
„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun
ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“
Við höfum ljós lífsins í okkur. Þetta ljós var
tendrað við getnað okkar og ljósið lifir í okkur.
Ég sé það í augum þér og í brosinu þínu. Ég
hef einnig horft í augu deyjandi fólks og
skynjað að ljósið dvínar og mun brátt slokkna.
Hvert fer ljósið? Hvert fer vitund okkar? Fer
það ekki allt til Jesú, til hans sem er ljós
heimsins? Hverfur ljósið ekki aftur til
upphafsins?
Við eigum að bera ljósið til samferðafólksins,
horfa í andlit fólks, í augun, brosa og miðla
þannig lífsins ljósi. Þannig tökum við þátt í því
að heila heiminn.
Haraldur er hér kvaddur af fjölskyldu og
samferðafólki með þökk fyrir allt. Dirk, bróðir
Karinar og kona hans Renate, sem búa í
Þýskalandi, senda kveðju. Jón og Leon
bræður Gunnars tengdasonar senda samúð.
Gott er að finna samhug og samúð þegar
ástvinur deyr. Útfararathöfn er mikilvægur liður
í því ferli. Þið sem fylgið Haraldi til grafar gefið
mikið með hlýrri nærveru og virðingu við
minningu góðs manns. Sú nærvera skiptir
fólkið hans Haraldar miklu máli.
Lífið er mikil gjöf og það eru forréttindi að hafa
fæðst og miklu skiptir að eignast þá vissu sem
trúin ein gefur með sínu innsæi í hinstu rök og
þeirri hjálp og styrk sem hún veitir fólki á
lífsveginum. Trúin stuðlar að andlegu heilbrigði,
gefur frið og ró í hug og sál – og svo bendir
hún fram á veginn og upp til himinsins heim.
Og aftur minni ég á krossinn, hinn lóðrétta og
lárétta ás. Krossinn er umbreytt tákn sem orðið
hefur að tákni kærleika og umhyggju Guðs.
Krossinn minnir á að Guð hefur þjáðst og
finnur til með okkur þegar lífið reynir á þolrifin.
Og Hann leiðir okkur heim.
Við erum á leiðinni þangað, eftir þeim vegi og
yfir mærin miklu sem krossinn opnaði.
Guð blessi minningu Haraldar Antonssonar,
Guð blessi Karin, Steinvöru, Skúla, tengdabörn,
barnabörnin, bræður Haraldar og ástvini alla.
Megi Guð leiða okkur öll og blessa á
lífsveginum.
Amen.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons