Bálför frá Neskirkju fimmtudaginn 23. október 2025 kl. 13


Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Ursula Szalewski Sigurgeirsson
Granaskjóli 5
f. 12. janúar 1937 d. 14. október 2025
Bálför frá Neskirkju
fimmtudaginn 23. október 2025 kl. 13
Smelltu á nafnið hennar efst og þá birtist texti ræðunnar
og hér er unnt að hlusta á upptöku ræðunnar:
„… föðurland okkar er á himni“.
Í bréfi sínu til lítils hóps kristinna manna, karla og kvenna í Filippí, ritaði Páll postuli þeim bréf sem kallað hefur verið „bréf gleðinnar“. Hann ritaði það í fangelsi þar sem hann sat í varðhaldi fyrir trú sína og sendi fólki sem bjó í ótryggu umhverfi innan Rómaveldis þess tíma. Bréfið var líklega ritað á árunum 60-62 e.Kr. Borgin Filippí tilheyrði Forn-Makedóníu, sem nú er Grikkland. Hún var rómversk nýlenda við Via Egnatia, aðal rómverska þjóðveginn sem tengdi austur og vestur, sem gerði hana að stefnumótandi og blómlegri borg.
Móttakendur bréfs postulans áttu heima í Fillippí, þau áttu sín heimkynni, sitt föðurland, en Páll segir samt:
„… föðurland okkar er á himni“.
Hvaðan erum við? Hvert er föðurland okkar? Þessar spurningar vöknuðu innra með mér þegar ég fór yfir æviágrip Ursulu Szalewski Sigurgeirsson sem við kveðjum hér í dag. Foreldrar hennar voru fæddir í Póllandi en einhvern tímann á ævi þeirra var landamærunum breytt og þau urðu þýskir þegnar án þess að flytja. Svona getur gerst þegar tekist er á um lönd og fólk.
Ursula varð þýskur ríkisborgari og bjó lengi vel í Hamborg. Hún flutti síðar til Íslands og þar með varð landið okkar hennar land og hún varð ein af okkur. Ísland varð hennar nýja föðurland. Í Nýrri stjórnarskrá sem rituð var 2011 segir í aðfaraorðum um Íslendinga: „Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina …“
Við erum lánsöm að eiga föðurland. Sú hugsun hvarflar að okkur mörgum þegar við fylgjumst með átökum víða um heim sem birtast okkur í fjölmiðlum. Hvar á ég heima?
Ursula fæddist í Hamborg þann 12. janúar 1937. Hún lést á Landakotsspítala þann 14. október 2025.
Foreldrar hennar voru Hedwig Szalewski (f. 1901, d. 1984) og Marian Szalewski (f. 1901, d. 1979). Eftirlifandi systir Ursulu er Marianne Krichhoff (f. 1941). Eiginmaður hennar var Klaus Krichhoff (f. 1941, d. 2018). Marianne er búsett í Hamborg.
Ursula giftist Jóni Sigurgeirssyni (f. 1927, d. 1979) árið 1967 í Hamborg.
Þau eignuðust þrjú börn:
1) Lilju Jónsdóttur (f. 1969).
2) Lars Daníel Jónsson (f. 1972, d. 1974) og
3) Írisi Maríu Jónsdóttur (f. 1976).
Eiginmaður Lilju er Bragi Haraldsson (f. 1967).
Ursula hafði alla tíð mikla ánægju af því að ferðast, hvort sem það var með fjölskyldu sinni eða ein síns liðs til að heimsækja vini og vandamenn í Þýskalandi eða á framandi slóðir. Ferðalögin voru henni dýrmætari en veraldlegir hlutir og hún nýtti hvert tækifæri til að komast út fyrir landsteinana. Hún lagði einnig áherslu á að systurnar héldu tengslum við ættingja og vini í Hamburg, meðal annars til að viðhalda tungumálinu. Í skólafríum voru þær oft sendar á undan móður sinni, í gegnum ýmsar krókaleiðir frá Íslandi, til Hamburgar.
Börn þeirra eru Daníel Leví (f. 2001) og Lars Erik (f. 2006).
Eiginmaður Írisar Maríu er Sæþór Jónsson (f. 1976).
Þeirra börn eru Telma Rut (f. 2003), Mikael (f. 2007) og Ísak (f. 2012).
Barnabarn Ursulu, Telma Rut tók viðtal við ömmu eða Omu (úmu) og skrifaði ritgerð um hana í menntaskóla. Þar segir m.a.:
Mikill hávaði, mikill skortur af mat og minningar
„Mér líður eins og að þetta hafi gerst í gær,“ segir Ursula. Margt er henni minnisstætt. Allar konur og öll börn voru send til Berlínar. Þar leið þeim ekki vel. „Við vorum meðhöndluð eins og flóttamenn,“ segir Ursula ákveðin. Á meðan að Ursula, Anne og mamma hennar voru í Berlín var pabbi þeirra að vinna í Hamborg. Hann vann við að grafa upp lík úr rústum en seinna meir vann hann við iðnað og var á fullu að reyna að byggja upp það sem skemmdist í stríðinu þó að stríðið hafi enn verið í gangi.
Þær mæðgurnar voru í Berlín í tæplega ár eða til 1945. Pabbi þeirra sótti þær síðan því að Sovétríkin voru að nálgast Berlín. Þau fóru aftur til Hamborgar. Ursula man eftir hversu hissa og leið hún var þegar að hún sá Hamburg aftur. „Allt var í rústi,“ sagði hún. Þar sem að þau áttu hvorki pening né þak yfir höfuð fengu þau að gista í pínulítilli íbúð hjá ömmu hennar. Það voru um 8-10 manns sem gistu hjá henni. „Þetta var rosalega þröngt en miklu betra en að þurfa að gista úti í kuldanum,“ sagði Ursula. […]
Á þessum tíma var aðeins byrjað að leyfa krökkum að fara aftur í skóla. Ursula þurfti að fara langa leið til að komast í skólann sinn. Hún fór alltaf með lest og var 30 mínútur á leiðinni. Síðan þurfti hún að ganga að skólanum.
Beint eftir skólann fór hún alltaf í loftvarnarbyrgið og tók sæti frá fyrir ömmu sína og beið þar alein ef ske kynni að sprengjuárásir myndu hefjast. Hún gerði þetta á hverjum degi. „Við fórum líka alltaf í háttinn klædd skóm og kápum til að vera tilbúin til að hlaupa í loftvarnarbyrgið,“ sagði hún.
Þannig ræddi Ursula við barnabarn sitt.
Við eigum ekki auðvelt með að setja okkur í sporin hennar Ursulu en við álíka aðstæður lifir fólk á sumum stöðum í heiminum og nú um þessar mundir er fólk á vergangi í mörgum löndum. Við finnum til með þjáðu fólki hvar sem það býr, hvert sem þjóðernið er, litarháttur eða skoðanir og ennfremur burt séð frá því hvort aðstæður fólks eru sjálfskaparvíti eða þvingaðar af öðrum.
Lífið er margslungið en hún Ursula var gæfumanneskja. Hún hafði sínar ákveðnu skoðanir og gat svarað fyrir sig, en brosið náði ætíð til augnanna á þessari myndarlegu, duglegu og lífsreyndu konu. Hún kom reglulega til helgihalds hér í Neskirkju enda þótt hún væri kaþólsk í grunninn. Vinkona hennar, Karin H. Antonsson lét mig vita af henni á Landakoti og ég náði að heimsækja hana. Ég hafði ekki séð hana frá því ég hætti hér í Neskirkju 2014, en sem ég stóð í dyrunum hjá henni á líknardeildinni á Landakoti, reis hún upp við dogg og heilsaði mér glöð í bragði. Brosið var enn til staðar – og skoðanirnar voru sem fyrr, hreinar og beinar!
Hún hafði þurft að hafa fyrir lífinu, vann mikið alla tíð m.a. við skúringar. Stelpurnar hjálpuðu til og bættu því á sínar annir.
Í hvert sinn sem ég rita minningarorð leitar hugur minn til hinstu raka um lífið og tilveruna. Þvílíkt undur að hafa fæðst. Það hefur aldrei verið og mun aldrei verða annar ég eða þú. Við erum einstök og höfum þegið þessa einstöku gjöf sem lífið er. Gott er að búa á Íslandi þrátt fyrir að hér geti hrykt í öllu vegna veðurofsa og vetrarvindar blásið kröftuglega. Þeim mun betur kunnum við að meta sól og sumar, bjartar sumarnætur, fagra haustdaga, vetur með norðurljósum og stjörnum prýddum himni yfir okkur eins og hvelfingu í risastórri dómkirkju. En mestu skiptir að við búum við frið og skulum vona að sú verði líka gæfa komandi kynslóða.
Heyrum umfjöllun dætra hennar:
Bernska Ursulu var mjög óvenjuleg. Hún hóf skólagöngu í miðri seinni heimsstyrjöld og glímdi fjölskylda hennar, sem aðrir, við mikinn skort á flestum nauðsynjum, svo sem mat og húsnæði. Systurnar tvær og móðir þeirra voru sendar til Berlínar þar sem aðstæður voru erfiðar. Ursula og Marianne sóttu þar skóla en þær voru litnar hornauga af innfæddum; þær voru álitnar flóttamenn og jafnvel beittar ofbeldi fyrir að vera frá Hamburg.
Eftir ársdvöl í Berlín fengu mæðgurnar leyfi til að snúa til baka en ekkert var sem áður. Heimili þeirra var horfið – blokkinni og raunar götunni allri hafði verið gjöreytt í sprengjuárás. Þær dvöldu því hjá ömmu og afa þar sem átta manns deildu einu herbergi. Um nætur sváfu allir í skóm og yfirhöfnum, tilbúnir að flýja ef loftárás yrði.
Ursula hóf skólagöngu á ný, en þurfti að ferðast langa leið með lest til að komast í skólann. Þetta var kaþólskur skóli þar sem nunnur kenndu og leið henni nú mun betur en í þeim skólum sem hún hafði sótt fram að þessu. Í skólanum lærði hún um trúna, skrift og reikning. Við heimkomu var það til siðs að hún færi beint í loftvarnarbyrgið til að tryggja sæti fyrir móður sína og ömmu ef flautur færu í gang.
Að stríði loknu hófst uppbygging í borginni og tók faðir hennar þátt í henni. Matur og aðrar nauðsynjar voru enn af skornum skammti og lífið erfitt. Fé var af skornum skammti. Ursula fór oft á matarmarkað þar sem hún fékk alla ljótu ávextina gefins og mest var borðað af grænmetispottréttum. Kjöt og fiskur voru munaðarvara og ef slíkt var á boðstólum gekk faðir hennar fyrir þar sem hann var í erfiðisvinnu og þurfti á allri sinni orku að halda. Þetta kenndi Ursulu mikla nægjusemi og var mat helst aldrei hent á hennar heimili.
Tólf ára gömul hætti Ursula í grunnskóla en sótti síðar nám í iðnskóla þar sem hún lærði allt um skó, skóbúnað og skósmíði. Hún vann í skóbúðinni Guntlach í Hamburg til ársins 1968.
Árið 1965 var skipið Reykjafoss í viðgerð í Hamburg. Jón Sigurgeirsson starfaði þar um borð og dvaldist því um hríð í borginni. Þá kynntust þau Ursula en það var á knæpu, eins og hún sagði alltaf, þar sem hún var að fagna afmæli vinar síns. Þau náðu strax vel saman og ekki leið á löngu uns þau gengu í hjónaband eða árið 1967.
Árið 1973 fluttu þau hjónin, ásamt börnunum sínum tveimur, þeim Lilju og Lars Daníel, til Íslands. Á meðan Jón starfaði sem kokkur á hinum ýmsu skipum sinnti Ursula heimili og börnum og reyndi eftir bestu getu að aðlagast íslensku samfélagi. Lars Daníel sonur þeirra lést svo eftir erfið veikindi þann 5. mars 1974. Þau eignuðust Írisi Maríu árið 1976.
Eftir andlát Jóns árið 1979 urðu enn á ný kaflaskil í lífi Ursulu. Hún stóð nú uppi ein ábyrg fyrir heimilinu og uppeldi systranna tveggja, án þess að hafa náð fullum tökum á tungumálinu og án bílprófs. Flestir gerðu ráð fyrir að hún myndi snúa aftur til Hamburgar, þar sem hún átti sitt helsta bakland. En Ursula setti systurnar í forgang og taldi farsælast að búa með þær áfram á Íslandi.
Árið 1980 hóf störf Ursula sem matráðskona á Barnaheimilinu Ósi, foreldrareknum leikskóla. Þá var hún nýkomin með bílpróf og enn að læra íslensku. Til að byrja með þótti henni mjög erfitt að læra íslensku en börnin á Ósi og starfsfólkið auðvelduðu henni að ná tökum á málinu. Á leikskólanum sá hún um alla matseld og eldaði af mikilli alúð, bæði þýskan og íslenskan mat. Ursula starfaði þar alla sína starfsævi og fór á eftirlaun þegar hún hætti. Þá helgaði hún sig fjölskyldunni, barnabörnunum og ferðalögum.
Kaflaskil urðu í lífi Ursulu árið 2010 þegar hún veiktist alvarlega. Í kjölfarið urðu utanlandsferðir henni ekki mögulegar nema með aðstoð dætra sinna. Systurnar fóru þá með móður sinni og fjölskyldum sínum til ýmissa borga og bæja í Þýskalandi og Austurríki á næstum árum. Ferðirnar urðu árlegur viðburður sem öll fjölskyldan hlakkaði til, þó sérstaklega Ursula. Segja má að ferðirnar hafi verið líflína hennar síðustu árin og minningarnar, sem hreiðrað hafa um sig í hugum og hjörtum ættingja hennar, lifa áfram.
Hér lýkur þessari mjög svo góðu greinargerð um líf Ursulu. Fróðlegt er að heyra slíka lífsreynslu og það er um leið vekjandi og ögrandi.
Lífið er ótryggt á margan hátt, líka þar sem friður ríkir, því lífið er og verður ætíð óvissuferð. Hvað verður um mig? Mun ég fá þennan sjúkdóminn eða hinn? Hvernig kemst ég af? Hvernig næ ég endum sama í fjármálum? Hvað á ég að læra? Hvað langar mig að starfa við. Sumar af þessum spurningum eru e.t.v. meira tengdar ungu fólki en þeim eldri sem þegar hafa fengið svör við þeim flestum.
Lokaorð Ursulu í viðtalinu og svar við spurningunni hvort það væri eitthvað sem hún lærði af þessari upplifun.
„Já, ég lærði að njóta lífsins og að maður á alltaf að gera það sem manni langar til og láta drauma sína rætast,“ svaraði Ursula og þakkaði fyrir sig.
Oft fór Ursula niður að Tjörn og sat þar og lét sig dreyma og ímyndaði sér að hún væri við Alster-ána í Þýskalandi. Hún saknaði heimahaganna en vildi ekki flytja til baka út af stelpunum.
Hún fór oft ein til Þýskalands, en eftir að hún fékk blóðtappa árið 2010 varð hún meira háð dætrunum hvað ferðalög varðar og fór til Austurríkis s.l. sumar!
Hún lærði að aka bíl á fullorðinsárum og þegar hún hafði tekið bílpróf eftir góðan slatta af ökutímum var komið að því að halda út í umferðina. Hún vildi ekki þvælast fyrir neinum og hafði sína leið til að tjá það og þá setti hún skilti í afturgluggann sem hún fékk Lilju til skrifa á þessi orð: ATHUGIÐ BYRJANDI!
Ursula átti rætur í Póllandi og ólst upp í Þýskalandi. Þrítug fylgdi hún ástinni sinni hingað til lands og bjó hér til æviloka. Hér lifði hún meirihluta ævi sinnar. Jóns naut ekki lengi við því hann lést árið 1979 aðeins 52ja ára. Hann var frá Grindavík en þar var ég prestur á árunum 1985-1990 og kynntist góðu fólki og man eftir bræðrum hans, Gunnari og Guðjóni og skyldmennum, enda þótt fennt hafi yfir margt frá liðinni tíð. Það væri svo efni í aðra ræðu að fjalla um örlög Grindvíkinga og hins þróttmikla bæjarfélags sem á eftir að rísa upp aftur, trúi ég, fyrir trú á lífið og trú á Guð.
Guð blessi minningu Ursulu Szalewski Sigurgeirsson og Guð blessi ykkur ástvini hennar og gefi ykkur vonarríka framtíð og megi hann blessa okkur öll sem enn erum á lífsveginum.
Amen.
You must be logged in to post a comment.