1939-2025
Bálför frá Neskirkju miðvikudaginn 1. október 2025


Hér er hljóðupptakan:
Ef texti ræðunnar birtist ekki skaltu smella á fyrirsögnina efst, á nafnið hennar Hólmfríðar og þá birtist allt!
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Hólmfríður R. Árnadóttir
1939-2025
Útför frá Neskirkju
1. október 2025 kl. 13
Ræða í þremur hlutum:
Minning I – Hvaðan?
Minning II – Hver? Hvað?
Minning III – Hvert?
Minning I – Hvaðan?
Í Sálmi 139.13 ávarpar skáldið Guð og játar:
Þú hefur myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
Hvaðan? var spurt. Hvaðan komum við þegar dýpst er skoðað?
Fruma syndir og finnur egg.
Ugla sat á kvisti,
átti börn og missti,
eitt, tvö, þrjú
og það varst þú!
Já, fruman hefði getað fundið annað egg og þá hefði Hólmfríður aldrei orðið til – ALDREI!!! Og það sama á við um þig og mig. ALDREI!
Við erum öll einstök og fengum bara þennan eina sjens! Það kemur aldrei önnur Día eða önnur þú, annar þú!
Og þegar lífið kviknaði, kviknaði ljósið, sem enn lýsir í augum þér og brosi. Þá var allt ákvarðað, litaraft, útlit og lagður grunnur að atgervi, gáfum og geðslagi.
Og hvaðan kemur þetta allt?
Þetta ljós?
Þetta líf?
Þessi heimur?
Þessi jörð?
Og við – ég og þú?
Hólmfríður Rósinkranz hét hún.
Hólmfríður er sterkt nafn. Það er eitt af þessum samsettu nöfnum. Fríður vísar til fríðleika og gjörvuleika, það getur einnig merkt vinkona eins og Arnfríður, vina arnarins eða sú er örninn ann. Google getur verið varasöm heimild því þar er nafnið sagt merkja sú er ann hólmanum en það tel ég nú vera kléna málkennd, því hólmi í þessu tilfelli vísar til bardaga, hólmgöngu. Hólmfríður gæti því vísað til konu er ann orrustum. Hólmfríður getur líka merkt fegurð bardagans ef við reynum að láta deilur manna gilda um siðleg gildi og reglur.
Hvað sem því líður þá var hún Hólmfríður báráttuglöð kona og studdi mörg mál sem henni þótti þarft að styðja.
Hún fæddist heima í Karlsskála við Kaplaskjólsveg en ólst upp í Skjólunum, nánar tiltekið í Faxaskjóli 10.
Gott er öllum að eiga öruggt skjól í lífsins veðrum.
Öldurnar ganga stundum dálítið freklega inn Skerjafjörðinn sem annars er saklaus að sjá a.m.k. í logni. Hann þykir nú kannski ekki mikill fjörður í samanburði við marga aðra, en hann á sína sögu um veður, vonir og volk. Í Brekkukotsannáli Nóbelskáldsins fór Álfgrímur með Birni afa út á Skerjafjörð að vitja hrognkelsa.
Hann Sigurður í Görðunum, ritaði ævisögu sína, á fyrri hluta liðinnar aldar, og sagði frá lífinu við fjörðinn. Tugir einstaklinga drukknuðu í Skerjafirði í gamla daga, fólk sem réri til fiskjar eða var ferjað yfir fjörðinn úr Bessastaðavör og að Görðum en þaðan lá svo gönguleiðin niður í Kvosina þar sem embættismennirnir réðu öllu og skólarnir, Lagaskólinn, Prestaskólinn og Læknaskólinn, menntuðu drengi, já, bara drengi. Þessir þrír skólar, runnu inn í Háskóla Íslands og súlurnar þrjár yfir höfuðinngangi skólans, vísa í þessar þrjár fornu greinar mennta á Íslandi, þrjá skóla sem runnu saman í einn.
Spurt var: Hvaðan?
Já, hún Hólmfríður kom úr handanverunni sjálfri eins og við öll, frá uppsprettu ljóssins og var send í Skjólin í Skerjó.
Þar lágu rætur hennar í hérverunni. Hér og þar, hérvera og handanvera. Við heyrðum um þessar tvær víddir í elsta sálmi sem til er á íslenzku og þar með Norrænu tungumáli, ortur árið 1208 af Kolbeini Tumasyni. Norðurlöndin eiga engan sálm frá þessum tíma nema á latínu:
Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður.
Víddirnar kallast hér á og tala í raun saman, himinn og jörð, eilífð og tími, handanvera og hérvera.
Næst heyrum við sungið um sólarlagið.
Verður næsta sólarlag, okkar hinsta?
Lífið geymir margar spurningar!
—
Tónlist: Líttu sérhvert sólarlag
Minning II – Hver, hvað?
Hver var hún Hólmfríður? Hvað var hún?
Ég hitti börn hennar og tengdabörn. Þau höfðu frá mörgu að segja. Ég greip á lofti orð og hugök:
-Hún var stjórnlynd, skörungur, sveiflukennd í skapi.
-Ofurhetja.
-Ýtin, frek, fjölmiðlaglöð.
-Hún studdi: Frjálsa vegfarendur, Kjarnorkuvopnalaust Ísland, Kvennaframboðið, listir- og menningu í margvíslegum myndum.
-Þær voru oft þrjár saman, vinkonurnar, sem beittu sköpunargáfunni óspart til að safna fé fyrir málstaðinn, seldu harðfisk og fleira.
Þetta sagði fjölskyldan.
En hver var hún?
Fyrr var sagt frá fæðingu hennar, í Karlsskála og bernsku í Skjólunum.
Móðir hennar var Katrín Ólafsdóttir, fædd 21. nóvember 1904 í Viðey, d. 18. apríl 1988, tónlistarkennari og húsfreyja í Reykjavík, ættleidd af frænkunum Þórunni Finnsdóttur og Hólmfríði Rósinkranz og ólst upp á Uppsölum í Aðalstræti 18, Reykjavík.
Faðir Hólmfríðar var Árni Magnús Pétursson, f. 2. júní 1899 í Ólafsvík, d. 31. júlí 1953, læknir í Reykjavík.
Hólmfríður gekk í Melaskóla, Hringbrautarskóla og Verzlunarskóla Íslands. Hún stundaði nám í St. Godric’s College í London og lauk prófi sem loftskeytamaður frá Loftskeytaskóla Íslands. Seinna tók hún stúdentspróf frá öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og stundaði nám í jarðfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands.
Hólmfríður, eða Día eins og hún er alltaf kölluð, vann við rannsóknarstörf í Svíþjóð, hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og hjá efnagerðinni Frigg. Hún var síðar framkvæmdastjóri hjá meðal annars Kvenskátaskálanum á Úlfljótsvatni, Þroskahjálp, Póstmannafélagi Íslands, Félagi háskólakennara og Norræna skólasetrinu.
Día sinnti skátastarfi af miklum móð í æsku og á unglingsárum sínum. Hún var stórtæk í félagsmálum alla tíð og tók meðal annars virkan þátt í ýmsum friðarsamtökum, náttúruverndarsamtökum og jafnréttissamtökum. Hún var einn af stofnendum Kvennalistans og síðar Kvennaframboðs og sinnti fjáröflunar- og trúnaðarstörfum fyrir hvor tveggja samtökin. Hún var jafnframt dreifingarstjóri Veru, tímarits um kvennabaráttu. Hún lagði allt í þá baráttu, gaf ótal vökustundir í þá baráttu þrátt fyrir þungt heimili.
Áhugamál Díu voru lestur, félagsstörf og útivist. Hún var fyrst og fremst hugsjónamanneskja og hafði alla tíð minni áhuga á hefðbundnum heimilisstörfum, en lagði fyrir sig baráttu fyrir bættum heimi og að vernd þeirra sem minna mega sín.
Fyrri eiginmaður Díu: Páll Þórir Ásgeirsson, f. 22. apríl 1931, læknir, búsettur í Kópavogi.
Seinni eiginmaður Díu var Oddur Benediktsson, f. 5. júní 1937, d. 17. ágúst 2010, prófessor í tölvunarfræði.
Börnin fjögur eru:
1) Árni Geir Pálsson, f. 3. mars 1963, viðskiptafræðingur, búsettur í Reykjavík, maki: Soffía Waag Árnadóttir, stjórnsýslufræðingur;
2) Kári Pálsson, f. 25. desember 1964, forstjóri, búsettur í Kópavogi, maki: Guðrún María Ólafsdóttir, kennari;
3) Guðrún Oddsdóttir, f. 12. júlí 1971, barnasálfræðingur, búsett í Reykjavík, maki: Árni Maríasson, stjórnmálafræðingur;
4) Katrín Oddsdóttir, f. 22. ágúst 1977, lögfræðingur, búsett í Reykjavík.
Maki: Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir, f. 7. júní 1990, tónlistar- og útvarskona. Fyrri maki: Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri.
Stjúpbörn Hólmfríðar: Kolbrún Þóra Oddsdóttir, f. 8. júní 1956, landslagsarkitekt og Hákon Már Oddsson, f. 1. desember 1959, kvikmyndagerðarmaður.
Barnabörnin eru fimmtán og barnabarnabörnin fjögur.
Systkini:
Jón R. Árnason, f. 19. apríl 1926, d. 9. janúar 2006, heilsugæslulæknir í Hafnarfirði,
og
Þórunn Árnadóttir, f. 19. júní 1929, myndlistar- og smíðakennari, bús. í Tjörn á Álftanesi.
Uppeldissystir: Svala Eyjólfsdóttir, f. 21. júní 1918, d. 2. júní 2006, hárgreiðslukona og húsfreyja í Reykjavík.
(https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1714214/)
Þetta var um það hver hún Día var.
En!
Hvað var hún Día?
Hún var baráttukona. Hún átti sínar vonir um betri heim. Von og trú eru náskyld hugtök. Hún var Vesturbæingur og er nú kvödd í Neskirkju.
Krossinn hér í Neskirkju er eina tákn helgidómsins fyrir utan arkitektúrinn sjálfan en kirkjan er beinlínis teiknuð í kringum ljósið. Gengið er inn frá norðri og vinkilbeygja tekin inn til austurs. Gluggi að baki þeim er inn gengur vísar veginn til meira ljóss. Og það mikla ljós er innst. Glugginn stóri er hulinn flestum sem sitja í kirkjuskipinu, en hann er hinn stóri ljósgjafi. Á kórvegg er kross, ekki róðukross með Kristi á, heldur bara kross. Hræðilegt tákn sem breyttist vegna eins atburðar fyrir tvö þúsund árum. Því má halda fram með rökum að baráttan fyrir mannréttindum í gegnum aldirnar eigi að mestu rætur í því sem krossinn stendur fyrir.
Rætur þeirra vona um rættlæti eru m.a. í orðum Jesú: „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ (Mt 20.16). Orðin um að hinir síðustu verði fyrstir, vísa til þess að þau sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni rísi upp og fái að lokum viðurkenningu, allt frá fátækum og kúguðum í Róm fyrir 2000 árum, almúgafólki í frönsku byltingunni á 18. öld , þrælum í Ameríku á 18. og 19. öld og samkynhneigðum á okkar tímum.
Án þess að ég ætli að gera hana Díu að sérstakri baráttumanneskju fyrir trúarlegum gildum, þá má færa fyrir því rök, að hún hafi barist fyrir sömu hugmyndum og gildum og boðuð eru í þessu húsi og öðrum sem bera merki krossins, gildum kærleika, réttlætis og friðar.
Og Día keypti eitt sinn til sinna verka á akri réttætisins, gamlan Trabant af dánarbúi og eitt af meginhlutverkum hinnar Austur-Þýsku sjálfrennireiðar, var að aka sligaður um götur borgarinnar og nágrannabæi með tímaritið Veru í bunkum. Día vildi ekki vera á einhverri borgaralegri Toyotu. Trabantinn náði til Hafnarfjarðar og til baka – en varla meir!
Hún rak um tíma fyrirtækið Félagaþjónustan sem tók að sér alls konar praktík fyrir hin og þessi félög og klúbba.
Oddur var með henni í öllum hennar baráttumálum. Þau voru hugsjónapar og börðust jafnfram fyrir náttúruvernd og mættu á alla baráttufundi í því samhengi. Á milli þeirra var einstakt vinasamband. Þau fóru nær undantekningarlaust í göngutúra saman, bara tvö á kvöldin. Leiddust og spjölluðu og flúðu krakkaskarann nægilega lengi til að halda parasambandinu sínu sterku og traustu. Ólík en ótrúlega samheldin og miklir samherjar.
Miðborgin og Vesturbærinn voru hennar svæði. Faxaskjól 10 – Faxó – var sannkallað virki, en mamma hennar og pabbi höfðu fengið lóðina þar við hafið þar sem brimið leikur enn sínar sinfóníur í mörgum þáttum árið um kring.
Kata mamma hennar kom úr Uppsölum í miðborginni, sem var þekkt kennileiti í gamla daga og tók með sér tvo forláta, háa stóla, sem voru eins og hólmar í stofunni í Faxaskjólinu.
Á Uppsölum var rekið fyrsta kaffihús landsins, en Kata mamma hennar ólst upp hjá þessum merkilegu frænkum sem ættleiddu hana, eftir að hafa farið utan að læra hótel- og veitingarekstur sem var nýlunda að konur gerðu á þeim tíma.
Á Uppsölum voru forðum daga rekstrarsjónir, dansiböll á sunnudagseftirmiðdögum, þar sem fólk sat við borð, keypti veitingar og fékk sér snúning.
Löngu seinna söng Brimkló nostalgískt um slíkar samkomur við texta Þorsteins Eggertssonar um stráka með sérstaka greiðslu sem óþarfi er að nefna hér, en í söngtextanum segir:
Allir strákarnir voru í támjóum skóm
og stelpur með túperað hár.
Já á sunnudögum var restrarsjón
en síðan eru liðin mörg ár.
Þetta var nú innskot fyrir ykkur sem tilheyrið ungu kynslóðinni, en sú kynslóð hefur ætíð þurft og mun ætíð fá að heyra sögur hinna eldri um hina gömlu góðu daga sem beita þannig valdi sínu! Já, söguþekking er vald!
Ung ferðaðist Día með móður sinni, sem var stór karakter, er hafði mjög mótandi áhrif á dóttur sína. Þær voru miklar vinkonur og báðar eins og karakterar í Íslendingasögunum, ógleymalegir skörungar, þeim er þær þekktu og muna.
Fyrr var sagt frá skólagöngu Díu og skátastafi og fleiru. Hún fór ekki troðnar slóðir, áhugamálin voru allskonar. Hún var t.d. önnur konan sem tók loftskeytapróf á Íslandi. Rúmlega tvítug fór hún í skóla í Svíþjóð og varð „laborant tekniker“ sem mun vera í ætt við meinatækni.
Seinna fór hún í öldungadeildina í Hamrahlíð og reyndi svo við læknisfræði í eitt ár, en það gekk ekki enda járnin löngum of mörg í eldinum.
Hún var skáti, sem unglingur, var ein af Uglunum. Þá tók hún þátt í Grafaragenginu sem studdi við fornleifauppgröft. Félagsstörf tóku allan aukatíma, kvöldin og helgarnar fóru í hugsjónir. Hún var sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, stóð vaktir á Vinalínunni og einnig stóð hún vaktir í Kristínarhúsi sem var skjól fyrir konur sem voru að koma sér úr vændi.
Hún og Oddur bjuggu t.d. um tíma í Þrándheimi í Noregi, Dublin á Írlandi og Berkley í sjálfri Kaliforníu, þar sem hipparnir spruttu upp sem gorkúlur og átu jafnvel slíkar kúlur – og alla vega kúlur. Svo urðu gleðistundirnar margar í Andakíl en þar er húsið Árdalur stendur og tilheyrir ætt Odds.
Hugsjónakonan Hólmfríður
lagði hönd á plóginn
ef í voða var heimsfriður
mætt var hún í skóginn.
Hún var sannur málsvari í mörgum málefnum, hún var vinur vina sinna, lífleg og með óbilandi trú á fólki, hún var „pepper“ og vildi skapa fólki skjól og grið í lífsins veðrum.
Hún varði börnin sín og miðlaði þeim ríkri réttlætiskennd. Hún hefði getað látið um sig muna á margskonar vettvangi, t.d. haldið eldræður á Alþingi, en í henni voru tvær hliðar, og því varð ekkert úr slíkum ævintýrum, því enda þótt hún hafi verið sem ljónynja, var hjartað hennar lítið og mjúkt. En hana skorti ekki sterkar skoðanir og skapið var stórt.
Día reykti eins og strompur árum saman, eins og það væri eiginlega áhugamál og ástríða. Henni fannst það töff og sagt var að hún hefði reykt tvo pakka af Camel á dag og púað innan um eldfim efni á rannsóknarstofunni – en þó blessunarlega án sprenginga!
Í henni var eitthvað sem á fínu og menntuðu máli samtímans kallast víst „mótþróa- og þrjóskuröskun“. Já, við lifum nú á öld hinna stóru skilgreininga!
Hún naut þess alla tíð að spila á spil, var dýravinur. Eftir að hún fékk heilablóðfall fyrir 13 árum átti hún sérstakt samband við hundinn Gallí. Hún varð að nota hjólastól og gat ekki búið lengur heima heldur á hjúkrunarheimilum, sem var erfitt fyrir svona stóran og frelsiselskandi karakter. Þrátt fyrir þetta var hún samt alltaf „hún“. Prakkaraglottið og ákveðnin voru enn til staðar. Grunnstef sálarinnar hurfu ekki.
Día fóðraði bæði menn og dýr. Enginn mátti klára af diskinum í boðum hjá henni, því þá lá það í loftinu að viðkomandi væri enn svangur og hefði ekki fengið nóg. Hún var alltaf að troða mat ofan í fólk, sögðu börnin. Hún bakaði pönnukökur og hafði þá gjarnan þrjár pönnur á lofti. Í Faxó var endalaus gestagangur. Fyrst sat mamma Kata við gluggann við hafið og fólkið hópaðist í heimsókn til að njóta nærveru hennar. Día tók svo við þessu hlutverki.
Eftir að hún flutti í Lambhagann á Álftanesi var hún aftur komin niður í fjöruboð og sandlóan verpti í garðinum hennar og aldan lék sína tónlist alla daga og í öllum veðrum.
Stúlkan úr Skjólunum, konan á ströndinni. Mér verður hugsað til magnaðrar bókar skáldsins Gunnars Gunnarssonar, Strönd lífsins, frá 1915/17. Ég las hana þegar ég las guðfræði við HÍ. Skáldið lýsir trúarglímu prests, sem bjargar skipbrotsmönnum úr sjávarháska, en missir trúna eftir þrekraun sína og kemst að þessari niðurstöðu:
Öll erum við ekkert
nema sjórekin lík!
Við erum allir sjórekin lík …. sjórekin lík — á — strönd lífsins ….
Hún er nöturleg þessi afstaða og sem betur fer missa fáir prestar trúna og boða því bjartari tíðindi, fagnaðarerindi huggunar og vonar. En lífið er aldrei án glímu við öfl, bæði handanverandi og hérverandi, bæði andleg og náttúruleg, góð og ill.
Hver var hún Día og hvað? Þessi örútgáfa af ævisögu hennar verður að duga hér í dag.
Nú heyrum við sungið lagið um Borgina sem henni var kær: Ó, borg, mín borg.
Minning III – Hvert?
Hvert liggur leið? Á hvaða vegferð erum við? Hvert stefnum við?
Sungið var um Borgina. Margar eru þær borgir heimsins en svo er til borg himinsins sem svo er líst í Opinberun Jóhannesar:
Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli, sem skært gler væri. . . Og hliðin tólf voru tólf perlur og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli, sem gagnsætt gler. (Op Jóh 21.18,21)
Stræti hinna jarðnesku borga eru af öðru tagi. Í þeim er margt sem stingur í augun, einkum hvað varðar skort á réttlæti og fegurð mannlífs. Þar er verk að vinna fyrir Díur og dísir daganna, Dengsa og dáðadrengi líka.
Til hvers er öll þessi barátta og fyrirhöfn í lífinu?
Af hverju gengur hinu góða oft svo illa, en hinu illa vel?
Krossinn minnir á baráttu góðs og ills – en umfram allt minnir hann á sigur hins góða yfir hinu illa. Þetta hræðilega merki hefur snúist upp í sigurtákn.
Hvert förum við?
Við höfum rifjað upp sögu um stúlku úr Skjólunum, stúlkuna við hafið, sterku konurnar úr Faxó. Í þeim bjó von og í afkomendum þeirra býr enn von og trú um betri heim.
Jóhannes guðspjallamaður var unglingur þegar hann kynntist Jesú. Hann var sá eini úr hópi nánustu lærisveina Jesú og postula hans sem ekki dó píslarvættisdauða. Hann lifði fram á níræðisaldur. Hann bjó síðustu árin sín í Efesus sem nú tilheyrir Tyrklandi og á eyjunni Patmos ritaði hann Opinberunarbók sína sem er margslunginn áróðurstexti um valdið í Róm og spillingu þess, um hinstu rök og slit sjálfs heimsins. Hann segir í upphafi 21. kafla um vonina björtu:
1 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið var ekki framar til. 2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. 3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
5 Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ 6 Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega,[ upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. 7 Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn.
Það þarf margar Díur til að breyta þessum heimi, baráttukonur og karla, sem trúa á hið ómögulega.
Stúlkan úr Skjólunum, sem horfði á hafið, sá hilla undir marga sigra úti á haffletinum og sumir náðu alla leið í höfn til hennar.
Lífið er aldrei kyrrstætt.
Aldrei lýkur baráttunni fyrir mannréttindum, fyrir vernd barna og þeirra er minna mega sín, fyrir friði og réttlæti.
En vandinn í samtímanum – og reyndar á hverri tíð – felst í því að greina hismið frá kjarnanum. Það hefur líklega aldrei verið flóknara en nú þegar upplýsingaflóðið er jafn mikið og raun ber vitni. Brimið í Skjólunum í verstu vetrarveðrum er magnað og yfirþyrmandi. Upplýsingaöldurnar nú, eru þrútnar af sannleika, en líklega er lygin þar ekki bara í helmings blöndu heldur í yfirgnæfandi meirihluta. Öldur Alnetsins eru bólgnar af lygi og lævísum villum.
Og þá spyr maður:
Hvar er sannleikurinn í deilum heimsins?
Hver er hann, hvar er hann?
Krossinn er einfaldur. Lóðréttur og láréttur og í honum miðjum er skurðpunktur sannleikans.
Spurt var: Hvert?
Hvert förum við? Á hvaða leið erum við? Hvað bíður okkar?
Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
Stundum er sagt til að einfalda málið að kristindómurinn snúist um réttan veg.
Blessuð sé minning Hólmfríðar Rósinkranz Árnadóttur og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginun og spyrð kannski Quo vadis! Hvert?
Hólmfríður var vígð hinum rétta vegi í heilagri skírn – eins og við mörg – og henni mörkuð leið fyrir alla framtíð. Hún er nú kvödd hér undir krossinum helga, tákninu sem hún var signd með á enni og brjóst í bernsku, sigurtákni og magnaðasta merki, sem veröldin hefur eignast – merki túar, vonar og kærleika – merki mannréttinda, réttlætis og friðar.
Og boðskapur krossinn felur enn í sér þessa von – í baráttunni gegn órétti – og hann gefur enn von í þessum orðum Krists um uppreisn þeirra sem haf orðið undir í lífinu, hér í þessu lífi eða í hinu komandi:
„Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ (Matt 20.16)
Amen
—
Viðtal Morgunblaðsins við Díu áttræða árið 2019. Sjá hér:
You must be logged in to post a comment.