Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Ólafía Guðrún Hagalínsdóttir

Útför frá Grafarvogskirkju,

miðvikudaginn 24. september 2025

Minningarorð eftir Örn Bárð Jónsson

Viltu lesa og/eða hlusta?

Ólafía Guðrún Hagalínsdóttir

1931-2025

Kistulagning og útför

miðvikudaginn 24. september 2025

Friður Guðs sé með okkur.

Sem Vestfirðingi, er talar yfir vestfirzkri konu, verður mér hugsað til vestfirzku fjallanna, sem ætíð fylgja mér og búa í sál minni og því tek ég undir orð skáldsins í Davíðssálmum:

Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Þannig spyr sálmaskáldið og svarar sjálfu sér í næstu hendingu:

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar. (Sl. 90)

Þessi stíll andstæðna er gegnumgangandi í gyðinglegri hugsun, spurn og svar, vandi og lausn, uggur og trú.

Í þessari hugsun Gamla testamentisins, sem bergmálar áfram í hinu Nýja, er gegnumgangandi von um að allt sé í samhengi, allt sé í öruggum höndum Guðs, jafnvel í mótlæti, missi og sorg.

Lífið er allt tengt í einu stóru samhengi. Stundum er sagt að við séum sem fiskar í hafi – og hafið er Guð. Sumir skynja ekki að þeir eru í Guði, þekkja ekki hafið sem umlykur lífið, þekkja ekki Guð. Þannig er hugsunin líka um himininn sem altumlykjandi veruleika Guðs sem aldrei hverfur – aldrei!

Gott er að styrkja trú sína á þessa ævafornu von kynslóðanna, um samhengi alls sem er.

Þið þekkið þessi sannindi sem hafið misst. Slysin í áranna rás, á sjónum fyrir Vestan – og snjóflóðin – og þau sem fórust líða okkur aldrei úr minni. Þau lifa áfram í himni Guðs og í minningum ástvina sinna sem sakna, syrgja og bíða endurfunda.

Fjöllin. Já, hún Ólafía þekkti fjöllin, vegina og veðrabrigðin. Hún var Vestfirðingur í húð og hár.

Hún fæddist á Lækjarósi í Dýrafirði 20. ágúst 1931.

Lóa var hún kölluð. Hún flutti á 13. ári, þann 17. júní 1943, að Hrauni á Ingjaldssandi, en sá dagur var þá bara venjulegur dagur, en ári síðar, varð hann að stofndegi lýðveldis okkar.

Foreldrar hennar voru Hagalín Guðmundsson, bóndi (f. 4. ágúst 1904, d. 15. júlí 1989) og Magnea Jónsdóttir, húsmóðir, (f. 24. september 1902, d. 3. september 1976.)

Systkini Ólafíu eru:

Guðmundur Björn (f. 1934, d. 2025),

Margrét Jóna f. 1937,

Valdís f. 1938,

María Ingibjörg f. 1940,

Viggó Hagalín f. 1947 og fóstursystir

Guðrún Valgeirsdóttir f. 1934, d. 2016.

Leyfi mér að skjóta því hér inn að ég man Gunnu Valgeirs, vel, konu Matta Villa. Ég kom oft með vörur til hennar í mat og bakstur og það voru engar smá birgðir sem bornar voru inn á það heimili!

Lóa var alla tíð skörungur, elst sinna systkina og naut sín í því hlutverki.

Ólafía giftist hinn 15. júní 1952, Guðmundi Bernharð Þorlákssyni, f. 15. maí 1931, d. 24. september 1974.

Hann var fæddur á Hrauni á Ingjaldssandi og ólst þar upp fyrstu ár æfinnar og síðan á Flateyri eftir að foreldra hans fluttu þangað.

Sem drengur var hann í sveit á næsta bæ við Lóu, á Brekku hjá afa sínum og ömmu og því voru hæg heimatökin fyrir þau að finna hvort annað á unglingsárum og fara lífsveginn saman.

Og í dag, 24. september, eru liðin 51 ár frá andláti Guðmundar, sem kvaddi þetta líf langt um aldur fram. Blessuð sé minning hans og annarra ástvina sem horfnir eru.

Börn Ólafíu og Guðmundar eru:

Hilmar f. 20. ágúst 1952 – á tuttugu-og-eins-árs afmæli móður sinnar – maki hans er Sigríður Brynja Sigurðardóttir f. 7. febrúar 1954 frá Ísafirði.

Börn þeirra eru Árný Hlín, maki Þorvarður Jóhann Jónsson og börn þeirra eru Hlín og Hilmar.

Arndís Anna, maki Már Wardum og börn þeirra eru Viktor, Arnar Már og Brynja Margrét.

Eyrún Þóra f. 1. september 1956, maki Matthías Berg Stefánsson f. 19. janúar 1953.

Börn þeirra eru Guðmunda Björk, maki Garðar Rafn Eyjólfsson og börn þeirra eru Þóra Dís og Eyjólfur Rafn.

Sigríður Guðný, maki Tryggvi Ölver Gunnarsson og börn þeirra eru Matthías Már og Sara Björt.

Ólafía og Guðmundur hófu búskap sinn á Kirkjubóli í Valþjófsdal og eftir tveggja ára búsetu þar, fluttu þau til Flateyrar.

Ólafía vann við ýmis störf á Flateyri. Hún var lengi matráður í

vegavinnuflokki hjá Vegagerð ríkisins, en eiginmaður hennar var verkstjóri þar á þessum árum.

Ég man eftir honum, hávöxnum og myndarlegum manni, þegar hann kom til Ísafjarðar að sinna erindum sínum. Og vegavinna er mér ekki alveg ókunn því sumarið 1965 vann ég hjá Vegagerðinni á svæðinu fyrir norðan það sem Guðmundur þjónaði. Það var góð reynsla og varð til þess að styrkja enn betur tengslin við fjöllin og firðina.

Guðmundur var auk starfa hjá Vegagerðinni, oddviti um árabil og heimilið var stundum eins og opinber stofnun, miðstöð, skrifstofa með bókhaldi og öllu tilheyrandi og alltaf heitt á könnunni og nóg að borða ef svo bar undir. Þau héldu veislur og móttökur og nutu þess að vera í þjónustu við lífið.

Lóa var mörg sumur ráðskona í vegavinnu og sinnti heima sínum húsmóðurstörfum auk handavinnu, prónaskapar og þrifa.

Hún var mjög virk í ýmsum félagsstörfum á Flateyri, m.a. í leikfélaginu, kvenfélaginu, slysavarnarfélaginu, skógræktarfélaginu og fleiru.

Ólafía þótti höfðingi heim að sækja og oft á tíðum var mikill gestagangur á heimilinu. Í leikfélaginu gegndi hún oft hlutveki hvíslarans sem kom leikurum aftur inn á réttan veg ef textinn stóð í þeim. Stundum fóru leikarar og starfsmenn félagsins með varðskipi milli fjarða til að setja upp sýningar.

Svona var lífið í þá daga. Ekkert malbik og engin göng, og snjómokstur erfiðari enda ekki til þær öflugu vélar sem nú tíðkazt.

Þau Lóa og Guðmundur fluttu til Ísafjarðar árið 1973 en dagarnir þeirra saman þar urðu ekki margir því Guðmundur lést á Landspítalanum ári síðar.

Sambýlismaður Ólafíu frá árinu 1982 var Þorsteinn Gíslason f. 19. nóvember 1932, d. 6. febrúar 2022. Þau bjuggu á Flateyri og eftir snjóflóðið árið 1995 fluttu þau til Reykjavíkur. Þau áttu saman góða daga.

Hún var alla tíð forkur til vinnu, hún lék sér að því að elda ofan í fjölda manns og baka ótal sortir. Sextán ára vann hún um tíma í Kexverksmiðjunni Frón en var fyrir Vestan á sumrin til þess að missa ekki af besta tímanum í sveitinni.

Þau hófu sinn búskap á Kirkjubóli í Valþjófsdal, þar fæddist Hilmar og þau voru þar í tvö ár en fluttu þá til Flateyrar og þar fæddist Eyrún Þóra.

Lóa var ekki allra, segja börnin, en hún var hreinskilin, hrein og bein. Þannig fólk skapar stundum skil í mannlífinu. Það er góður eiginleiki að fljóta ekki sofandi að feigðarósi í öllum málefnum og þora að segja skoðun sína.

Tengdadóttir hennar, Sigríður Brynja, segir hana hafa reynst sér vel. Hún var elsk að sínum börnum, barnabörnum og tengdabörnum sem öll endurguldu henni kærleikann í ríkum mæli.

Ég hitt ömmustelpurnar fjórar og hlustaði á þær rifja upp góðar minningar um ömmu. Hún kallaði þær í aldursröð: Prinsessa númer 1, 2, 3 og 4, allar voru þær prinsessurnar hennar.

Þær muna réttirnar á Ingjaldssandi. Þar var nú líf í tuskunum og amma ætíð með sínar ákveðnu skoðanir. Oft hafði hún kjark til að segja það hreint út sem aðrir voru að hugsa. Þær rifjuðu upp „óformlegt“ boð sem hún bauð þeim í og það var ekkert svona boð með pantaðri pizzu! Fjarri því! Það voru svið með öllu, saltkjöt, sviðalappir, slátur, lifrarpylsa, flatkökur og bæði heit og köld svið! Allt töfrað fram eins og ekkert væri!

Já, það var ekkert hálfkák á heimilinu hennar Lóu. Hún var alla tíð listakokkur, góður gestgjafi, rausnarleg og gjafmild.

Allar fengu ömmustelpurnar saumavél í 25 ára afmælisgjöf, hrærivél í brúðkaupsgjöf og bókina Matarást og svo kleinujárn þegar það átti við.

„Við fórum aldrei svangar frá ömmu!“ segja þær. Hún var „hagsýn húsmóðir“ segja þær og bæta við: „Við bökum aldrei pönnukökur án þess að hugsa til hennar.“

En samverustundirnar snerust um meira en mat því hún spilað með þeim á spil, hún teiknaði og föndraði með þeim. Lóa safnaði efni, garni og tölum og átti lager af allskonar saumadóti. Hún var ein af þessum mörgu hagsýnu húsmæðrum.

Lóa var rösk og hrein og bein. Hún las bókmenntir og hafði m.a. áhuga á ættfræði.

Ólafía dvaldi síðustu níu árin á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem hún lést 11. september s.l.

Í Sóltúni var oft eins og hún væri enn í vinnunni. Hún gat gefið djáknanum ráð um lengd á hugvekjum og hvað væri hæfilegt að hafa slíkar helgistundir langar! Hún átti það til að opna dyrnar á herberginu og líta fram á gang snemma morguns. Oft sá hún engan þar á ferli og kallaði stundar hátt: „Er enginn mættur í vinnuna!“

Sérstakar þakkir eru hér fluttar til starfsfólks Sóltúns fyrir einstaka umönnun og hlýju.

Ég notaði áðan samlíkinguna um okkur sem fiska í hafinu og get um það hér að Lóa hafði yndi af að fá að koma að umönnum fiskabúrsins í Sóltúni.

Margt má læra af fiskum í búri og dýrum yfirleitt.

Hún var stjórnsöm og ömmustelpurnar sögðu að hún hefði átt erfitt með að bíða eftir barneignum hjá þeim og fannst þær allt of seinar í gang!

Hún hafði klassísk viðhorft til lífsins. Konan átti að sinna sínu köllunarhlutverki af gleði og áhuga, eignast börn og koma þeim til manns, kenna þeim um lífið og tilveruna og allt það.

Nú eru breyttir tímar. Jafnréttisbaráttan hefur tekist vel í þjóðfélaginu – og því ber að fagna. En fórnarkostnaðurinn er farinn að segja til sín og kemur fram í margvíslegum félagslegum vandamálum, sem talin eru vera bein afleiðing af því að foreldrar útvista umönnum barna sinna um of. Það kemur nefnilega enginn í stað móður- eða föðurfaðms, hlýrrar nærveru, ekkert í stað gæðastunda með kennslu og miðlun helgra gilda genginna kynslóða, handa sem þerra tár og radda hinna eldri sem boða von og trú í veðrum lífsins.

En hvað er þá til ráða? Ég veit það sem prestur, að ekkert hjálpar jafn vel í vanda daglegs lífs og einnig andspænis missi, dauða og sorg, en heilög trú á Jesú Krist, upprisu hans og eilíft líf. Davíð konungur orti um fjöllin þúsund árum fyrir Krist.

Vestfirzku fjöllin eru máttug og tignarleg og enn þarf að bæta vegi og grafa fleiri göng. Vegasamgöngur hafa ætíð skipt Vestfirðinga miku máli og stundum var það fagnaðerindi dagsins þegar fregnin barst eftir lokaðar heiðar: Það er búð að opna!

Já, í hinu stóra samhengi er einnig búið að opna!

Við heyrðum guðpjallið þar sem Tómas virðist ekki skilja alveg hvert Jesús er að fara með boðskap sínum og spyr: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“

Og svar Jesú er magnað:

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“

Fjöllin eru mögnuð og vegirnir yfir og í gegnum þau eru máttugar framkvæmdir þótt ætíð megi betrumbæta. Fjöllin ógna og lífið er oft eins og þar sé á brattann að sækja.

En það er búið að opna, vegurinn er greiður, alla leið til himinsins heim. Kristur er með okkur hér og hann verður líka handan fjalla og þessa heims, í himni eilífðarinnar:

Því að þótt fjöllin bifist

og hæðirnar haggist

mun kærleikur minn til þín ekki bifast

og friðarsáttmáli minn ekki haggast,

segir Drottinn sem miskunnar þér.

Jesaja 54.10

Guð blessi minningu,

Ólafíu Guðrúnar Hagalínsdóttur

– og Guð blessi þig

sem enn ert á lífsveginum,

í heiminum,

sem Guð elskar

og þráir að leiða og blessa.

Amen

Þessar kveðjur voru fluttar síðar í athöfninni en þær eru ekki á hljóðupptökunni:

Frá Þorvarði Jónssyni, manni Árnýjar Hlínar, sem er í útlöndum, með þökk fyrir allt gott.

Þökkum allar góðu og gömlu stundirnar með ykkur Steina. Við söknum ykkar.

Hafdís og Jón Fr. Jónsson á Hlíf, Ísafirði.

Kveðja frá Erlingi Sigurðssyni, frænda Lóu í Helsinki í Finnlandi:

Lóa fór með mig í fyrsta sinn til sumardvalar vestur að Hrauni á Ingjaldssandi sumarið 1949 og var ég þá tveggja ára. Alls dvaldi ég þar í tólf sumur og oft gisti ég þá og síðar hjá Lóu á Flateyri, Ísafirði og í Reykjavík. Lóa gengdi þannig ákveðnu hlutverki í bernsku minni og æsku og einnig síðar og er ég mjög þakklátur fyrir það.

“Elsku hjartans frænka mín bestu þakkir fyrir góðvild og kærleika í minn garð og fjölskyldu minnar hinsta kveðja, Guja”

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons