Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Þuríður Hjörleifsdóttir
1931-2025
Útför frá Garðakirkju
þriðjudaginn 10. júní 2025 kl. 13


Ef texti ræðunnar birtist ekki allur, smelltu þá á nafnið efst í færslunni.
Garðakirkja er fögur í sínum einfaldleika, formin klassísk og einhver himneskur þokki yfir kirkju og stað sem á sér ríka og merka sögu. Héðan er stutt yfir í Skerjafjörðinn, sjóleiðina, þar sem Þuríður sleit barnsskónum. Hún varð að flytja þaðan 10 ára og ekki bara fjölskyldan heldur einnig að flytja húsið um leið. Flugvöllinn þurfti að stækka og þá þurfti að fjarlægja mörg hús úr Skerjafirði. Sum voru flutt í heilu lagi en húsið hennar tekið niður og endurbyggt við Hrísateig.
Skerjafjörðurinn sjálfur, þ.e. sjórinn lætur ekki mikið yfir sér, en vindur getur ýft þar öldur og hvolft bátum, sem hefur gerst oft í sögunni. Ég las fyrir nokkrum árum sögu Sigurðar í Görðunum, sem segir frá uppvexti sínum og lífi við Ægisíðuna. Hann ferjaði oft fólk yfir fjörðinn frá Bessastöðum sem átti erindi í Kvosina, t.d. Grím Thomsen, sem sagði fátt sem farþegi og sat alvarlegur á þóftunni og vart unnt að draga upp úr honum orð.
Já, styzta leiðin héðan úr Görðum og yfir að Görðum í Skerjó er sjóleiðin.
Og nú er hún Þuríður farin í sína hinstu ferð.
Við kveðjum hana hér í Garðakirkju, í sjálfu „kirkjuskipinu“ eins og meginsalur hverrar kirkju er jafnan kallaður á okkar tungu. Á ensku er talað um „the nave of the church“ og af sama stofni er komið orðið Navy sem er sjóher.
Kirkjan er skip og líking sú er tekin af örkinni hans Nóa sem bjargaði mannkyni forðum daga. Nýlega horfði ég á þátt um Gilgamesljóðið sem er frá Mesapótamíu og var hamrað í stein um 2100 árum f.Kr.
Minni um flóð eru til víðar og staðfestir að einhvern tímann í fyrndinni hafi orðið miklar náttúruhamfarir og að fólk hafi bjargast um borð í báti eða skipi. Biblían er ekki eina heimildin þar um.
Við vorum skráð á þetta mikla skip, kirkjuna, þegar við vorum ausin vatni og vígð eilífðinni og himni Guðs. Þá vorum við „munstruð“ um borð eins og það heitir á máli sjómennsku og útgerðar. Við erum munstruð um borð í kirkjuskipið, sem flytur okkur heil heim, yfir brim og boða, allra Skerjafjarða þessa heims og hins komandi.
Þuríður Hjörleifsdóttir fæddist í Reykjavík 29. desember 1931. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 22. maí 2025.
Þuríður var dóttir hjónanna Halldóru Narfadóttur húsmóður frá Borgarfirði, (f. 26.6.1897, d. 19.7.1982) og Hjörleifs Ólafssonar stýrimanns frá Hænuvík, (f. 24.5.1892, d. 2.7.1975)
Systkini Þuríðar eru Guðrún Ólöf, (f. 10.4.1927), Jón Ástráður, (f. 2.3.1930, d. 10.6.2021), Leifur (f. 10.1.1935, d. 27.11.2017), Narfi f. 19.12.1936.
Þuríður giftist 10. júní 1961, Jóni Þórarni Sveinssyni, sem fæddur var 11. apríl 1925 að Butru í Fljótshlíð, d. 18. maí 2018. Foreldrar hans voru Guðbjörg Jónsdóttir, (f. 20.4.1901, d. 8.3.1990) og Sveinn Böðvarsson (f. 20.11.1895, d. 10.8.1985) og nú er hún jarðsungin sama dag.
Dætur Þuríðar og Jóns eru:
1) Þórunn Jónsdóttir f. 9.8.1965, eiginmaður hennar er Jóhannes Halldórsson, (f. 12.10.1950). Fyrrv. sambýlismaður hennar er Steinn Hrútur Eiríksson, frá Brimnesi í Fáskrúðsfirði, (f. 5.6.1965). Börn þeirra eru:
Hulda Steinunn, (f. 18.3.1995), gift Jóni Freysteini Jónssyni, (f. 1995), þeirra dóttir er Védís, (f. 15.2.2024).
Jón Björgvin (f. 9.3.2001), unnusta Ronja Snædís Frostadóttir, (f. 2002).
Börn Jóhannesar eru: Hanna Dóra, Páll, Kristín Þóra og Signý og eru barnabörn og barnabarnabörn tólf.
2) Sveinbjörg Jónsdóttir f. 25.8.1969, eiginmaður hennar er Gunnar Jóhann Birgisson, (f. 19.10.1960). Sonur Sveinbjargar og Úlfs Grönvold, (f. 3.1.1966), er Jón Þórarinn, (f. 18.12.1993), unnusta hans er Helena Guðmundsdóttir, (f. 1997). Börn Gunnars eru Birgir Ísleifur, Unnur Elísabet, Katrín Björk og Gunnar Freyr og barnabörnin eru sex.
Þuríður ólst upp í Skerjafirði til 10 ára aldurs, þá flutti fjölskyldan í Laugarnesið. Eftir grunnskóla stundaði Þuríður nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Um tvítugt fór hún svo í húsmæðraskóla í Vejle, í Danmörku og var þar í eitt ár. Sá tími var henni ætíð ofarlega í minni og margt lærði hún þar. Stelpurnar hennar segjast hafa alist upp í „dönsku eldhúsi.“
Hún hafði góða hæfileika í íþróttum og sýndi m.a. leikfimi á vegum Ármanns.
Eftir að hún kom heim vann hún við ýmis skrifstofustörf, m.a. hjá Slysavarnafélagi Íslands, Flugmálastjórn og í Flataskóla í Garðabæ.
Þau hjónin voru meðal þeirra fyrstu sem reistu sér hús í Garðabæ, en 1963 byggðu þau Smáraflöt 8 og bjuggu þar nánast alla tíð.
Þau voru því af þeirri kynslóð sem gerðu Garðabæ að þeim bæ sem við þekkjum. Flatirnar vöktu athygli m.a. fyrir það hvernig staðið var að byggingu þeirra af hálfu sveitarfélagsins. Byrjað var á því að leggja götur með steyptum rennusteinum og malbiki áður en húsbyggjendur hófust handa við að grafa grunn og byggja sín einbýlishús. Lóðaskortur í Reykjavík gaf nágrannasveitafélögum tækifæri til vaxtar en geta má þess að Reykjavík til forna var ekkert nema Kvosin, því Seltjanarneshreppur átti allt land frá Gróttu og upp að Vífilsfelli, að mig minnir. Höfuðborgin hefur því þurft að kaupa allt það land sem nú tilheyrir henni.
Þuríður fæddist á milli stríða. Heimsstyrjöldin fyrri var þá að baki 13 árum fyrr, en það styttist í Heimsstyrjöldina síðari 1939-45. Hennar kynslóð ólst því upp með minni um þá fyrr en upplifði svo áhrif hinnar síðari m.a. í því að þurfa flytja heimilið í bókstaflegum skilningi.
Eitt af því sem mestu skiptir á lífsveginum er að rækta hin félagslegu tengsl og eignast góða vini. Þuríður Hjörleifsdóttir, Ingibjörg Stephensen og Greta Håkansson urðu vinkonur í bernsku. Morgunblaðið sagði frá vináttu þeirra m.a. með þessum orðum:
Þær „eru önnum kafnar ekkjur um nírætt, hittast í kaffi oft í viku og hafa verið vinkonur frá barnsaldri. Þuríður og Ingibjörg hafa alltaf flutt á svipuðum tíma og átt heima við sömu götur frá því þær voru sex ára og Greta hefur búið nálægt þeim lengst af. Þær voru bekkjarsystur í Kvennaskólanum í Reykjavík og eiga heima í göngufæri hver við aðra í Garðabæ. „Við komum reglulega við í bakaríinu,“ segir Greta. „Það er alltaf heitt á könnunni hjá okkur,“ botnar Þuríður eða Didda, eins og hún er kölluð. [. . . ]
„Bíbí og Didda kynntust og smullu saman þegar þær voru fimm og sex ára gamlar í Skerjafirði. Vegna lagningar flugbrautarinnar í stríðinu [eins og fyrr var getið] voru hús fjölskyldnanna tekin niður, efnið flutt og húsin sett aftur upp við Hrísateig. Þær gengu í Laugarnesskóla eins og Greta, sem átti þá heima í Kleppsholtinu, og fóru svo allar í Kvennaskólann. Þar styrktust böndin þannig að ekki hefur slitnað á milli síðan. „Þetta er svo góður félagsskapur,“ segir Greta. „Við erum svo skemmtilegar,“ bætir Bíbí við, en Didda og Greta fóru saman í húsmæðraskóla í Danmörku áður en alvaran tók við. „Samheldnin hefur alltaf verið svo mikil,“ segir Didda.
Sumarið 1948 þegar Didda var 17 ára var hún kaupakona í Kaldaðarnesi í Flóa. Það var eftirminnilegt sumar en það er annar staður sem henni var afar kær en það er Akurholt á Snæfellsnesi þar sem móðursystir hennar Verónika bjó ásamt manni sínum, Kristjáni, en þau áttu 10 börn. Didda átti marga sæludaga í Akurholti í gegnum tíðina. Í uppeldinu var það venja að flest var heimagert, allur matur og fatnaður, ólíkt því sem nú tíðkazt þegar tilbúinn matur og sjoppufæði er orðið hið viðtekna.
Og svo kom hann „Jón Þ. Sveinsson, tæknifræðingur“ til sögunnar „og einn af stofnendum Tæknifræðingafélags Íslands,“ segir i viðtalinu. Hann „var eiginmaður Diddu og framkvæmdastjóri og aðaleigandi Stálvíkur hf.“
Þuríður og Jón gengu í það heilaga 10. júní 1961 fyrir 64 árum í Árbæjarkirkju.
Þegar Jón stofnaði Stálvík lagði Didda sína lóð á vogarskálarnar og lét um sig muna og skrifaði t.d. upp alla samningana í því samhengi. Þau voru ólík en samhent. Ætli það sé ekki ein besta uppskriftin að góðu hjónabandi? Jing og Jang.
Didda var ekki allra en hún var klettur og lét víða um sig muna. Hún starfaði í 7 ár hjá Slysavarnafélaginu.
Hún var á vissan hátt hlédræg og setti aðra í forgang fremur en sjálfa sig. Henni er lýst sem barngóðri manneskju og réttsýnni. Henni þótti afar vænt um systkinabörn sín og frændgarð. Hún var hlý og gaf börnum sem komu í heimsókn gott að borða og gaf þeim oft „það sem þau vissu ekki að þau langaði í“ – eins og það varð orðað í mín eyru.
Hún fylgdist með enska boltanum á laugardögum þegar hún var búin að baða stelpurnar.
Fjölskyldan var henni allt og mikið gladdi það hana að verða langamma í fyrra. Það var stór viðburður í lífi hennar. „Hún átti mikið í mörgum“ sögðu börnin við mig og „ræktaði fjölskyldutengsl.“
Hún var dýravinur og fjölskyldan átti Tinna lengi sem aldrei mátti skamma en hann féll frá í byrjun árs. Hún hafði auga fyrir fögrum hlutum, látlausum en vönduðum. Pabbi hennar sagði eitt sinn við hana: „Alltaf þarftu að ramba í dýrustu búðina.“
Hún var hrein og bein í samskiptum og ósnobbuð, hæglát en föst fyrir, stóð með sínu fólki, var sterk og studdi ætíð manninn sinn. Jón lést á Hrafnistu í Hafnarfirði í maí 2018 og hún lést á sama stað og í sama mánuði og á sama aldri, 93ja ára.
Og nú er hinsta ferðin hafin, í hinu helga skipi, sem hún var munstruð á í heilagri skírn og það skip ber hana yfir brotin í skerjafjörðum öllum og skilar henni heilli í höfn.
Þau hjónin ráku skipasmíðastöð og voru virk í starfi kirkjunnar og sungu oft hér í þessu helga skipi. Líkingin um skipið á því vel við hana og þau hjónin bæði.
Gott er að vita sig eiga rúm í því himnafari, sem enn siglir og bjargar fólki.
Þess vegna getum við hvatt í von og trú og haldið hér útför sem er auðvitað með ívafi sorgar, en gleðin og þökkin ríkir þó í hjörtum okkar. Þess vegna er athöfnin hér í kirkjuskipinu sjálfu, öðrum þræði þakkarhátíð fyrir gott og gjöfult líf.
Blessuð sé minning Þuríðar Hjörleifsdóttur og Guð blessi þig og okkur öll sem enn erum á lífsveginum og bíðum heimfarar með skipi Guðs og inn í himin hans.
Amen
Kveðjur hafa borist frá:
– Hjálmari Jónssyni á Akureyri
– Hjörleifi Jónssyni í Phoenis í Arizona.
– Steinn Hrútur Eiríksson, búsettur á Grænlandi, biður fyrir kæra kveðju og þakkar öll árin.
-„Kveðja frá Hrafnistu Hafnarfirði. Við sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur og þökkum allar góðar stundir og vináttu þann tíma sem elsku Didda dvaldi hjá okkur. Blessuð sé minning góðrar vinkonu sem okkur þótti öllum svo vænt um.“
You must be logged in to post a comment.