Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Hjörtur Torfason

Útför frá Dómkirkjunni 27. maí 20205

Ræðan er hér neðar, bæði texti og hljóðupptaka. Kveðjur sem bárust eru fyrir neðan ræðuna en ekki á upptökunni.

Ritningartextar eru allra neðst en í þeim eru trúarleg stef og einnig lögfræðileg.

Ef texti ræðunnar birtist ekki strax, smellið þá á nafnið efst!

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Hjörtur Torfason
fv. Hæstaréttardómari
1935-2025

Útför frá Dómkirkjunni í Reykjavík

þriðjudaginn 27. maí 2025 kl. 15

„Kirkjan ómar öll“, segir í gömlum jólasálmi og víst er að hér er flutt fögur tónlist úr ýmsum áttum, enda var Hjörtur Torfason mikill áhugamaður um tónlist og menningu.

Tónlist er magnað fyrirbrigði. Jörðin er eini staðurinn í alheiminum þar sem hljóð berst innan gufuhvolfs, eini staðurinn sem hefur rétt skilyrði fyrir tónlist og menn og málleysingja með eyru og heyrn.

Lífið er undur og þessi heimur okkar er dásamlegur og vonandi tortímir mannkyn ekki þessari jarðnesku paradís.

Hjörtur fæddist á Ísafirði 19. september 1935. Foreldrar hans voru Torfi Hjartarson, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði og síðar tollstjóri í Reykjavík og sáttasemjari ríkisins, og Anna Jónsdóttir, húsfreyja á Ísafirði og í Reykjavík. Systkini Hjartar eru þau Ragnheiður, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, nýlátin (fædd 1937 og dáin 2025), Sigrún, skrifstofumaður í Toronto, látin (fædd 1938 og dáin 1992) og Helga Sóley, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, (fædd 1951).

Hjörtur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1960. Hann var við framhaldsnám við Toronto-háskóla í Kanada frá 1961 til 1963.

Eftirlifandi eiginkona Hjartar er Nanna Þorláksdóttir, fyrrverandi hjúkrunarritari, fædd 1935. Þau kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík og áttu samleið í 70 ár. Þau gengu í hjónaband árið 1958. Börn Hjartar og Nönnu eru þau Torfi, fæddur 1961, Logi, fæddur 1962 og Margrét Helga, fædd 1968. Geta má þess að þau Nanna misstu fyrsta barn sem fæddist andvana 1959 og reyndi það mikið á þau en þjappaði ungu hjónum saman um leið. Eiginkona Torfa er Svandís og börn þeirra Oddur og Auður Ástráðsbörn og Tumi og Una, eiginkona Loga var Ragnheiður Drífa og börn hennar Dagbjört og Björgvin, eiginmaður Margrétar er Ingólfur og synir þeirra, Hjörtur, Njörður og Börkur.

Geta má þess að Hjörtur og sonur hans Logi eiga sama fæðingardag og útför Hjartar er gerð á afmælisdegi Torfa. Til hamingju Torfi! – og til hamingju með lífið, fjölskyldan öll!

Á bernskuárum Hjartar bjó á heimilinu, Helga Jónasdóttir úr Skagafirði (f. 1881, d. 1965). Hún kom á heimili móður Hjartar eftir að amma hans, Sóley lést ung úr berklum. Hún var jafnan kölluð Fóstra og var á heimili Torfa og Önnu alla tíð þar til hún fór á elliheimili. Hún var ógift og barnlaus, hristi stundum höfuðið yfir fjörlegu heimilinu og sagði þá gjarnan: Þetta er vitlaust fólk! Hjörtur og systur hans voru börnin hennar, líf og yndi. Hjörtur naut mikils ástríkis, ekki bara einnar heldur tveggja kvenna á heimilinu að ógleymdum systrunum þremur. Sigrún systir hans kom til Hjartar og Nönnu á námsárum hans í Kanada og festi þar rætur en samband þeirra systkina allra var ætíð náið.

Í uppvexti og á námsárum hér reyndi Hjörtur margt, var til dæmis í sveit við Ísafjarðardjúp, vann sumarlangt á eynni Mön, fékkst við steypuvinnu og múrbrot með loftpressu á Keflavíkurflugvelli, var háseti á togaranum Jóni forseta og veiddi hval. Nanna sagði stundum að hann hefði átt að verða sjóari eða jafnvel vísnasöngvari og flytja írsku lögin í stíl Clancy Brothers og Tommy Makem sem voru í miklu uppáhaldi hjá honum. Yngra fólk í fjölskyldunni talar líka um hvernig hann færði heim plötur með alls konar vísnatónlist og áhugaverðu tónlistarfólki úr ótal vinnuferðum til Evrópulanda og Ameríku.

Hjörtur starfaði við lögmennsku nær óslitið í þrjá áratugi og vann þá mikið fyrir ríkisstjórn og Landsvirkjun að ábyrgðarmiklum verkefnum tengdum virkjanaframkvæmdum og stóriðju auk almennra lögfræðistarfa fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem stundum tóku mikið af hans tíma. Árið 1990 var hann skipaður dómari við Hæstarétt Íslands en hafði áður verið settur dómari um nokkurra mánaða skeið árið 1988. Eftir að hann lét af störfum sem dómari við 65 ára aldur starfaði hann áfram við lögfræðiráðgjöf, einkum varðandi samninga gerð fyrir Landsvirkjun. Hjörtur varð löggiltur skjalaþýðandi í ensku 1968. Þá sinnti Hjörtur ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, til að mynda í yfir kjörstjórn Reykjavíkur um áratugaskeið, í stjórn Lögmannafélags Íslands og sem fastafulltrúi Íslands í Feneyjanefnd Evrópuráðsins.

Tónlist var hans yndi og ljósmyndun við alls konar tilefni. Hann varði mörgum stundum í að flokka myndir og láta framkalla aukaeintök til að gefa ættingjum og vinum.

Þau skipti sem ég hitti Hjört, töluðum við alltaf eitthvað um Ísafjörð, en hann flutti þaðan 7 eða 8 ára en mundi alla tíð hverjir bjuggu í öllum húsum Hrannargötunnar þar sem hann fæddist. Þegar Ísfirðingar af hans kynslóð hér syðra, voru jarðsungnir og ég sá um athöfn, þá mætti hann oft til að kveðja, flottur í tauinu að vanda og með sitt einstaka bros og augun hlý. Ísafjörður fylgdi honum alla tíð og það kætti hann að sjá barnabörnin mynda þangað tengsl.

(Nánari upplýsingar um æviferil Hjartar eru neðanmáls)

Rætur. Hvaðan erum við þegar dýpst er skoðað og hvert förum við? Um þetta hefur fólk spurt um aldir og árþúsund. Svörin er helst að finna í listum og menningu, skáldin sjá lengra en öll vísindi, þau geta flogið og séð hið ósýnilega, hið óskiljanlega, hið handanverandi. Víddir lífsins eru mun fleiri en raunvísindin greina. Trúin er afl sem fylgt hefur mannkyni frá fyrstu tíð, hæfileikinn til að hugsa út fyrir boxið, sjá aðrar víddir og tilvist sem aldrei verður sönnuð, en lifir innra með okkur flestum í einhverri mynd. Um trúna gildir sama sönnunarbyrði og um ástina, fegurðina og handanveruna alla. Við skoðum allt þetta stóra og óræða með augun trúar og vonar – og með skáldskap og listsköpun.

Við eigum uppruna okkar í ljósinu og skáldið sem ritaði sköpunarsöguna í Biblíunni, sem í raun er lofgjörðartexti eða ljóð, en ekki vísindatexti, sá fyrir sér að ljósið væri upphaf alls lífs. Og það staðfesta vísindi síðari alda. Og Jesús þekkti þau sannindi og sagði um okkur mannfólkið: „Þér eruð ljós heimsins“.

Ljósið sést í augum okkar, þar til það slokknar og hverfur. Ljósið er orka og skv. eðlisfræði þá hverfur orka aldrei, hún breytist bara. Hvað verður þá um ljós augna okkar? Fer það aftur til uppsprettu sinnar? Hverfur lífið aftur til upphafsins? Og hvað var á undan öllu? Fer líf okkar þangað? Er það trúin ein sem veit þetta án þess þó að geta sannað það? Ef við gætum sannað allar stóru spurningarnar þá yrði trúin óþörf. Í allri Biblíunni, þeirri miklu trúarbók, er ein setning, eitt vers, sem skilgreinir trúna svohljóðandi:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb. 11.1)

Snorri Hjartarson, föðurbróðir Hjartar, tjáði sig í ljóðinu Mér dvaldist of lengi.

Mér dvaldist of lengi það dimmir af nótt
haustkaldri nótt á heiði.

Ég finn lynggróna kvos við lækjardrag
og les saman sprek í eldinn

barnsmá og hvít og brotgjörn sprek.
Sjá logarnir leika við strauminn

rísa úr strengnum með rödd hans og glit.
Ó mannsbarn á myrkri heiði

sem villist í dimmunni vitjaðu mín
vermdu þig snöggvast við eldinn

fylgdu svo læknum leiðina heim.

Um hvað fjallar þetta ljóð? Við getum haft á því ólíkar skoðanir. Í því ferðast skáldið í dimmunni, en þar er eldur sem logar og lýsir og lækurinn sem leiðir heim. Við erum öll á leiðinni heim því heiðin er bara gististaður, Hótel jörð, eins og annað skáld í miklu uppáhaldi hjá Nönnu orti á sínum tíma.

Hvað vitum við? Hvað skiljum við?

Eitt er víst að hann Hjörtur vissi margt og skildi ýmislegt en þó ekki allt fremur en aðrir. En hann var vel af Guði gerður; gáfaður, minnugur, vel lesinn, fróðleiksfús, leitandi og spyrjandi alla tíð. Hann var sístarfandi og gegndi mikilvægum hlutverkum á lífsleiðinni.

Oft var hann frumlegur í þeim störfum og gjarn á að skila sératkvæði í dómum, því hann vildi víkka framsetningu réttarins og láta muna um sitt álit og skilning á hinu rétta. Hann skilaði til að mynda sératkvæði í kunnu máli sem varðaði kvótann og benti á hefðarrétt sjávarbyggða hringinn í kringum landið.

Í blaðaviðtali sagði hann m.a. um sératkvæði:

Um sératkvæðin átti það oftast við að ég hafði hreinlega aðra skoðun á lögunum en félagar mínir … […]

Einu sinni hafði hann á orði að lögmenn og dómarar mættu stundum leggja minni áherslu á lögfræðina og meiri á réttlætið. Hann liðsinnti stundum félagasamtökum og tók þátt í að móta löggjöf fyrir trúfélög. En hið rétta er nú líklega aldrei eins og eitt stykki smjör, skilgreind stærð, vegin og verðlögð, sem hægt að sækja út í búð og bráðnar í stofuhita. Lífið er flóknara en svo.

Hann var fram úr hófi vandvirkur, átti það til að koma sér seint að verki og var stundum seinn á staði þar sem hans var vænst. Og þessi glíma við tímann tók stundum mikið á Nönnu sem þurfti oft að byrsta sig til að fá hann til að mæta á réttum tíma. Segja má að þegar þau, bæði MR-ingar, urðu ástfangin, hafi tvö stórveldi gert með sér bandalag og þegar tvær blokkir mætast þá getur hrikt í. Svo áttu þau bæði rætur til Ísafjarðar og þar er nú yfirleitt talað hreint út – en hvorugt tamdi sér þó vestfirzka framburðinn!

Um samband þeirra hafði tengdadóttir þeirra þessi orð:

„Hjörtur og Nanna áttu nær sjötíu ára samleið. Samband þeirra var marglaga og mótað af tryggð, samveru og þeirri dýpt sem fylgir löngu lífi saman – með ljósi og skuggum, hlýju og lífskrafti sem alltaf tengdi þau í gegnum ár og áratugi. Heimili þeirra var miðja í lífi margra um áratuga skeið.“

Tíminn sem eiginlega er ekki unnt að skilja eða skilgreina og landnámsmenn skiptu honum í þrennt, Urði, Verðandi og Skuld. Hið liðna er þegar orðið og því farið. Og andráin, Verðandin, er mjórri en fínasta hár og vart mælanleg og svo kemur Skuldin. Við skuldum framtíðina eða höfum skyldur gagnvart henni. Nóg um tímann að sinni, en segja má að það hljóti að vera viss léttir fyrir Hjört, að komast inn í eilífðina, þar sem tíminn er ekki lengur, engar klukkur tifa!

Tónlist og tími eru háð hvort öðru, því tónlistin er meira og minna leikur að tónum í tíma og takti og þar voru eyru Hjartar næm og nutu fegurðarinnar og oft náði tónlistin svo til hjartans að honum vöknaði um augu.

Hjörtur las alla tíð mikið og kunni margt. Hann var vel gerður maður en langt í frá gallalaus, enda mundi slíkt fólk hvort sem er ekki þrífast í mannheimum, því þá mundi samhengið riðlast algjörlega.

Hann var velkomið barn, kotroskinn og fljótur til máls og greip á lofti ýmislegt sem hann heyrði og gat látið það fljúga á fullorðna án tilefnis eins og þegar hann lyfti mjólkurglasi barnungur og sagði stundarhátt við gestkomandi konu: „Skál, gamli refur!“

Föðurbræður hans tveir, skáldið Snorri og sagnfræðingurinn Ásgeir, voru um tíma á Ísafirði og Ásgeir hafði með sér myndskreytta bók um sögu og sögufrægar persónur. Ein þeirra var landkönnuðurinn Mikkelsen. Snorri átti kærustu og var með henni í góðu veðri utan við bæinn þegar hann sá Hjört litla, líklega á fjórða ári, trítla með bókina undir hendinni á leið út í Hnífsdal. „Hvert ertu að fara?“ spurði skáldið – og svarið lét ekki á sér standa: „Ég ætla að sýna honum Mikkelsen út í hafsauga.“

Goðafræðin stóð líka Hirti nærri og þar var Akkilles í hávegum. Sú persóna er þekkt um veröld víða fyrir sinn veika hæl og er okkur öllum áminning um eigin skafanka og varnarleysi. Hver er Akkilesarhæll þinn og minn?

Hjörtur var stemningsmaður, hrifnæmur og táraðist oft yfir góðri tónlist og kvikmyndum. Hann reyndist mörgum vel sem lögmaður og gleymdi gjarnan að rukka fólk og sérstaklega sem hann hafði samúð með og það er mikilvægt að fólk í góðum stöðum og háum embættum tapi aldrei tilfinningunni fyrir fólki í neyð og þeim sem höllum fæti standa. Hann var rausnarlegur um flest, en gat verið fastheldinn á það sem honum var kært. Hann kom gjarnan færandi hendi frá útlöndum og gladdi konu sína og börn.

Hann var heimsmaður og ólst upp við að njóta ljúfra veiga sem foreldrar veittu gestum og gangandi, gleðimaður og hrókur alls fagnaðar sem elskaði söng og bókmenntir og gat slegið á létta strengi í góðra vina hópi en víndrykkjan gat líka haft sínar skuggahliðar eins og við þekkjum öll.

MR-hóparnir þeirra hjóna, stúdentar 1954 og 55 voru þeim afar kærir. Hjörtur var ári á undan Nönnu, hafði hlaupið yfir bekki í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og fannst það erfitt. Þau Nanna voru í sömu stofu í MR og Nanna segist hafa séð hann fyrst þegar hann kom feimnislegur inn í stelpubekkinn að sækja leikfimifötin sín sem hann geymdi í kennaraborðinu! Þau hjónin hafa átt samleið í 70 ár og gott betur.

Árið 1961 flutti fjölskyldan til Toronto í Kanada þar sem Hjörtur stundaði framhaldsnám og vann jafnframt á lögmannsstofu í borginni. Nanna segir þessi ár hafi verið góð. Hann skrifaði prófritgerð sína á ensku og var alla tíð vel mæltur á þeirri tungu, hafði bætt við sig frönsku og latínan úr MR og Háskólanum var honum ætíð kær. Enskukunnáttan og þekking á félagarétti færði honum mörg verkefni í hendur. Málkennd hans á móðurmálinu og ensku var rík, enda var hann vel lesinn og Sturlunga var ofarlega á vinsældalistanum. Hann var mikill textamaður og kunni þá list að beita málinu, sem er mikilvæg gáfa í viðleitni manna til að tjá hugsun sína í tali eða rituðum texta. Hann var sér þess meðvitandi að mikilvægt væri að styðja skoðanir sínar með góðum rökum og skýru málfari.

Málfar og tjáning skipta máli. „Cogito ergo sum“ – ég hugsa þess vegna er ég, sagði Descartes.

Við erum öll að þjóna sama Herra með störfum okkar og börnin inna sína guðsþjónustu af hendi, sagði Lúther, með því að leika sér! Hjörtur átti það til að fresta hlutum og var oft seinn með skattframtalið og fyrr var minnt á gleymsku hans að rukka, sjálfur sýslumannssonurinn!

Hjörtur var oftar en ekki upptekinn við síns störf og Nanna sá um börnin en þau eiga góðar minningar um dýrmætar stundir með pabba sem synti t.d. með þau öll á bakinu í sundlaugum. Hann svæfði þau oft og þá greip hann gjarnan í gítarinn og söng. Oft var beðið um óskalag: „Manninn með svanina“. Og þá raulaði hann Svanasöng á heiði. Hann söng líka fyrir þau írsk þjóðlög sem hann sneri í gamni á íslensku og lét snúast um veru strákanna í leikskólanum Tjarnarborg. Um systur þeirra litlu söng hann hann bítlalag, „Obla di obla da, Margrét Helga“. Lögin hans pabba sem hann söng á útlensku og hún skildi ekki kallaði hún „lögfræðingalögin“. Löngu áður en myndasögurnar um Asterix voru þýddar á íslensku las hann þær fyrir börnin úr frönsku og þýddi jafnóðum.

En þegar hann sagði eigin sögur átti hann það til að fara í skógarferðir, full langar stundum en fann oftast leiðina til baka að þræðinum og náði að klára með stæl.

Einn viðmælenda minna sagði að helsti gallinn hans Hjartar hafi verið sá hvað hann var góður maður! Það er ekki ónýt einkunn.

Hjörtur átti mörg áhugamál og fylgdist vel með enska boltanum og líka þeim ameríska eftir búsetuna í Kanada.

Barnabörnin spila sum fótbolta og Hjörtur kom oft til að fylgjast með. Hann mætti stundum seint sem áhorfandi, en þá gerðist það oft, að liðinu hans og þar með þeirra, fór að ganga betur!

Hjörtur var líka duglegur að sækja tónleika barnabarnanna og ein hans síðasta ferð var með Nönnu á söngleikinn Storm. Mörg eiga þau líka minningar um tónleikaferðir með Hirti þar sem hann var allra áhorfenda ákafastur.

Nanna og Hjörtur fóru oft í leikhús með ungviðið eða á óperur og börnin og barnabörnin komust vel uppá bragðið. Hann kynnti Nönnu fyrir óperunnni Cavalleria Rusticana en Intermezzóið, sem hér var leikið í upphafi athafnar, var honum afar kært. Hægt var að fletta upp í honum um allt sem tengdist óperum og Verdi og Wagner voru hans menn.

Hann var án efa vinsæll tónleikagestur, sérstaklega hjá söngvurum sem oft fengu hátt og snjallt „bravó“ frá stemningsmanninum. Hann fylgdist með íslenskum söngvurum af áhuga, hringdi í þá og þakkaði fyrir tónleika. Flest sumarfrí þeirra hjóna voru prjónuð í kringum óperusýningar með íslenskum söngvurum í Evrópu.

„Hjörtur hafði ætið nóg að gera. Hér talar hann í viðtali í fyrra:

Ég keyrði mig í hálfgert þrot fyrir tveimur árum en vann fram að því á skrifstofu heima, aðallega í þýðingum en var þó smávegis í lögfræðistörfum. Ég reyndi líka að fylgjast med störfum Feneyjanefndar Evrópuráðsins (The Venice Commission) en þar var ég fastafulltrúi Íslands í mörg ár meðfram dómarastörfunum og er enn varafulltrúi. Ég sótti fjölmarga fundi í Feneyjum og víða í löndum Austur-Evrópu sem þurftu aðstoð við að breyta lögum í lýðræðisátt eftir fall Berlínarmúrsins. Ég fylgdist með fjarfundum á Covidtímanum og er nú á leið til Feneyja á júnífund nefndarinnar eftir langa fjarveru. Það verður gaman og gefandi að hitta aftur gamla félaga og kynnast nýjum. Ætli ég verði ekki aldursforseti þessa fundar!“

Feneyjanefndin var Hirti kær og hann hafði lagt á það ríka áherslu síðustu árin að komast á a.m.k. einn fund í viðbót eftir að hann hætti sem aðalfulltrúi Íslands. Vegna heilsubrests var orðið tvísýnt að það tækist, en það varð sem betur fer úr, að Margrét Helga og Ingólfur, fóru sem aðstoðarmenn með Hirti til Feneyja á júnífund nefndarinnar 2024 þar sem hann hitti ýmsa gamla félaga og naut samfunda og heiðurs. Þeim var vel tekið og var hið mesta ævintýri sem reyndist hinsta utanlandsferð Hjartar.

Hér mætti segja svo ótal margt annað. Genginn er maður sem fæddist milli stríða en eftir Síðari heimsstyrjöldina rofaði til í heiminum og margt gott stækkaði til muna og tækifæri ungs fólks urðu jafnvel eins og í ævintýrum samanborið við kynslóð foreldra þeirra.

Þið eigið öll minningar um Hjört og þegar grannt er skoðað þá var hann margir menn eins og við öll erum margar manneskjur og fer það eftir því hver horfir, hvaðan og hvenær.

Á skyrtubol sem mér var gefinn er þessi áletrun eftir Þórarin Eldjárn:

Áhorf

Horfa ekki aðeins héðan
heldur þaðan.
Mikilvægt á meðan
að muna hvaðan.

Lífið er ekki kyrrstætt, það er á fleygiferð og í því er oftast framvinda en svo geta líka komið bakslög eins og mig grunar að nú eigi sér stað á ýmsum sviðum heimsmála.

Ég hef oft vitnað í borgarskáldið, Tómas Guðmundsson, sem var staddur á Ítalíu forðum daga og sá þar föngulega konu rísa upp úr öldunum eins og Venus. Hann orti um hana og endar ljóðið svo:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér eins grein fyrir því og vert ert, að kynslóð vor hin eina kynslóð er, sem nýtur þeirra hamingju að hafa ekki dáið. Svo hjartanlega náið er lífið okkur enn, sem betur fer.

Já, og nú tilheyrum við einu kynslóð allrar veraldarsögunnar sem ekki er dáin. Er það ekki stórt gleðiefni?

Og er það ekki gleðiefni að geta kvatt mann sem lokið hefur lífsstarfi sínu sem var mikið að vöxtum og inntaki – og gert það í fögrum helgidómi sem vígður er trú, von og kærleika og boðskap Krists um réttlæti og sannleika, náð og miskunn?

Enginn hefur haft eins góð áhrif á heiminn og Kristur, með sínu góða starfi, sem stóð þó í styttri tíma en það hefur lengst af tekið að verða stúdent frá MR. Þvílík viska, sem honum hlotnaðist við bæn og íhugun í óbyggðum Landsins helga. Þar eiga sér nú stað hræðilegir atburðir sem rífa í, hjá öllum sem hafa gott hjartalag.

Guð blessi minningu Hjartar Torfasonar, og Guð blessi Nönnu, börn þeirra, tengdabörn og afkomendur, frændgarð og vini. Hann er hér kvaddur af fjölda ástvina og samferðafólki, með undurfagurri tónlist og skáldlegum söngtextum og sálmum.

Megi andi Krists um kærleika, náð og miskunn, fyrirgefningu og réttlátan dóm á efsta degi, fylgja okkur á lífsveginum með orðum frænda hins látna:

Ó mannsbarn á myrkri heiði

sem villist í dimmunni vitjaðu mín
vermdu þig snöggvast við eldinn

fylgdu svo læknum leiðina heim.

Amen

—-

KVEÐJUR:

Kveðjur þessar, sem getið verður síðar í athöfninni. Þær verða birtar neðanmáls á heimasíðu höfundar: ornbardur.com

Drífa Jónsdóttir, frænka Nönnu sem býr i Ontario í Kanada sendir hlýjar kveðjur en Hjörtur var að hennar áliti yndislegur maður og greiðvikinn.

Arna Kristín Einarsdóttir og Anna Karlsdóttir, æskuvinkonur Margrétar Helgu eru báðar staddar erlendis en senda fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur vegna andláts Hjartar Torfasonar með þakklæti fyrir að hafa fengið að vera viðhengi og heimalningar í Búlandinu í gegnum æsku- og unglingsárin. Hjörtur kenndi okkur meðal annars að hlusta á óperur í botni. Honum til heiðurs munum við blasta Pavarotti í Stokkhólmi og Seoul og hugsa heim til ykkar allra.

Kæra fjölskylda okkur langar að votta ykkur okkar innilegustu og dýpstu samúðarkveðjur. Hjörtur var oft í huga okkar og verður það ætíð. Hugheilar kveðjur, Ingólfur og Stína frá Hellulandi Stella Delli-Zuani, frænka Hjartar sem er erlendis, biður fyrir þökk og kveðju til ástvina.

Þá biðja Ingi Sörensen bróðir Nönnu og kona hans Ellen í Virginia fyrir þökk og hlýjar kveðjur.

Ritningarlestrar við útför Hjartar Torgasonar 27. maí 2025:

1. lestur úr Speki Salómons 3.1 nn

Von hinna réttlátu

1 En sálir réttlátra eru í hendi Guðs

og engin kvöl mun ná til þeirra.

[…]

6 Eins og gull í deiglu reyndi hann þá

og tók við þeim sem brennifórnargjöf.

[…]

8 Þeir munu dæma þjóðirnar og drottna yfir lýðunum

og Drottinn mun verða konungur þeirra að eilífu.

9 Þeir sem treysta á hann munu þekkja sannleikann

og hinir trúu munu vera hjá honum í kærleika.

Hann mun veita sínum heilögu náð og miskunn

og vitja sinna útvöldu.

2. lestur: Rómverjabréf Páls postula 8.31-36

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú

31 Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35 Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists?[ Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36 Það er eins og ritað er:

Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn

og við metin sem sláturfé.


37 Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38 Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39 hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

3. Guðspjall – Úr Fjallræðunni Matt 5.38-48

Verið fullkomin

38 Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. 39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. 40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn gef honum eftir yfirhöfnina líka. 41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær. 42 Gef þeim sem biður þig og snú ekki baki við þeim sem vill fá lán hjá þér.
43 Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. 44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. 45 Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. 46 Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? 47 Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum[ einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. 48 Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons