1938-2025
fv. hæstaréttardómari
Viltu lesa og/eða hlusta? Smelltu á nafnið efst og þá opnast allt.


Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Hrafn Bragason
fv. hæstaréttardómari
Bálför frá Neskirkju
föstudaginn 16. maí kl. 15
Upptaka á ræðunni er hér fyrir neðan og enn neðar upptaka á lestri ljóðaþýðingar föður Hrafns.
Ritningarlestur
Fyrra Korintubréf 13. 1-13 – Óðurinn um kærleikann
Guðspjall
Matteus 5.1-16 – Upphaf Fjallræðu Jesú
Friður Guðs sé með okkur.
„Sannleiksást og réttlætistilfinning
eru eitt og hið sama.
Tvær greinar á einum stofni.“
Svo mælti, Sigurjón Friðjónsson, afi Hrafns, í riti sínu, Skriftamál einsetumannsins.
Leit mannkyns að merkingu lífsins hefur staðið yfir lengi og hugtökin sem Sigurjón birti í sínum texta eru grundvallarhugtökin réttlæti og sannleikur. Þessi hugtök eru ekki eins og sýni í hillu á rannsóknarstofu heldur eru þau einskonar frummyndir í anda Platóns, eilíf og handanverandi. Hlutverk mannkyns er að kallast á við þessi hugtök og reyna að skilja þau og raungera í þeirri veröld sem mannfólkið býr í. Og hugtökin er náskyld eins segir í Skriftamálum einsetumannsins, þau eru greinar á sama stofni.
Við erum menn og eitt af því sem einkennir mannkyn og greinir frá öðrum spendýrum, er að maðurinn getur komið hugsun sinni frá sér, út úr höfðinu og sett í áþreifanlegt form, meitlað í stein eða ritað á blað, dreift og varðveitt ef svo ber undir.
Fyrir þremur árum fundu ísraelskir fornleifafræðingar kamb úr beini í Tel Lachish í SV-Ísrael sem er um 3.700 ára gamall og ber líklega elstu þekktu heilu setninguna á kanversku ritmáli. Áletrunin inniheldur 17 stafi og setningin hljóðar svo: „Megi þessi kambur uppræta lúsina úr hári mínu og skeggi.“
Sérfræðingar segja að uppgötvunin varpi nýju ljósi á eina af fyrstu notkun mannkynsins á stafrófi með lausum stöfum, sem fundið var upp um 1800 f.Kr. og er grundvöllur allra síðari stafrófskerfa, svo sem hebresku, arabísku, grísku, latnesku og kýrillísku. Og þar með er búið að finna rætur okkar íslenska stafrófs.
Stafrófið er merkileg uppfinning, sem gerir fólki kleift að koma hugsuninni frá sér á hlutlægan hátt. Og af því eru sprottin önnur merkileg verk mannsandans, svo sem prentlistin, útvarp, sjónvarp, tölvur og nú gervigreindin, sem Færeyingar kalla vitlíki.
Allar þessar byltingar hafa gefið fólki aukna möguleika á að tjá sig og varðveita og jafnframt að dreifa hugsun sinni. Í raun er enginn eðlismunur á þessum byltingum, þær nota aðeins ólíka tækni.
Minnst var á gervigreind. En hvað er greind eiginlega? Í orðabók segir: „hæfileiki til að afla sér vitneskju, skilja samhengi ólíkra fyrirbæra, greina málefnin og hugsa óhlutbundið“.
Gervigreind er ekkert merkilegri en stafrófið eða prentlistin, útvarp eða sjónvarp, tölva eða farsími. Hún er bara nýrri tækni sem opnar aðrar víddir eins og allar hinar eldri greindir gerðu og gera enn. En öll tækni til tjáningar, allt frá stafrófi til gervigreindar, er unnt að nota til góðs eða ills og um það fjallar t.d. sagan um Adam og Evu í Edensgarði í samskiptum sínum við lífið og freistingar þess þar sem freistingarnar eru settar fram af höggormi með klofna tungu. Sú saga er sýndarveruleiki, listaverk rithöfundar, spegill, sem vísar til raunveruleikans og sannleikans um okkur sjálf og birtir okkur djúpa sýn á vanda allra manna.
Textinn úr Skriftamálum einsetumannsins er tjáning og þar er myndlíking um greinar á tré. Menningin málar myndir, með orðum eða litum og bregður þannig upp speglum sem við horfum í og úr verður ný hugsun og túlkun og svo framvegis. Trúarbókin á altari kirkjunnar er safn texta og líkinga um lífið og er því bókmenntaverk sem slík, rituð af mönnum, ritöfundum. Mannlífið gengur út á það að skiptast á orðum, hugtökum og myndum, lifa í samfélagi með öðru fólki, styðja og vera studd, hlægja og gráta saman.
Og í þessu samhengi þá sprettur fram lögfræðileg spurning í huga mér og ég tel mig vita svarið. Heyrst hafa raddir um að banna eigi gervigreind. Hefðu fyrri tíðar kynslóðir átt að banna stafrófið og alla aðra tækni sem kom í kjöfarið, vegna þess að unnt væri að misnota tæknina? Auðvitað ekki, en við verðum að læra að umgangast hana og láta hana ekki brengla okkur og brjála.
Orð afa Hrafns, sem fyrr er vitnað til, eru í raun gervigreind sem til er á blaði, hugsun forföður, sem kom henni frá sér með hlutlægum hætti
„Sannleiksást og réttlætistilfinning eru eitt og hið sama. Tvær greinar á einum stofni.“
Og þessi orð afa hans mætti vel meitla í stein og hafa yfir dyrum dómsalar.
Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari fæddist á Akureyri 17. júni 1938 og lést í hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík þann 27. apríl 2025, á 87. aldursári.
Foreldrar Hrafns voru hjónin Bragi Sigurjónsson, f.1910, d. 1995, og Helga Jónsdóttir, f.1909, d. 1996.
Systkini hans eru Sigurjón, d. 1976,
Þórunn,
Gunnhildur,
Ragnhildur, d. 2010,
og Úlfar.
Hálfbræður samfeðra eru Helgi Ómar og Kormákur Þráinn.
Eiginkona Hrafns var Ingibjörg Árnadóttir, f. 1941, d. 2007, bókasafnsfræðingur hjá Háskólabókasafni. Foreldrar hennar voru Steinunn Davíðsdóttir og Árni Marinó Rögnvaldsson.
Hrafn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958. Árið 1965 lauk hann embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands. Stundaði hann síðar framhaldsnám við Óslóarháskóla 1967-1968 og við háskólann í Bristol í Englandi árið 1973.
Hann var skipaður borgardómari í Reykjavík á árunum 1972 til 1987 áður en hann var skipaður hæstaréttardómari.
Meðfram störfum sínum sem borgardómari kenndi Hrafn í lagadeildinni og sat í hinum ýmsu stjórnum, þar á meðal Lögfræðingafélagi Íslands, í stjórn Bandalags háskólamanna, í stjórn Dómarafélags Íslands og í yfirkjörstjórn Reykjavíkur. Var hann einnig um tíma formaður réttarfarsnefndar og formaður Íslandsdeildar Amnesty International.
Hrafn var dómari við Hæstarétt í tuttugu ár eða frá árinu 1987 til 2007. Hann var forseti réttarins á árunum 1994 og 1995 og varaforseti 1993.
Hrafn sat einnig í og leiddi nefndir, þar á meðal nefnd á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem var falið að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum.
Þá var Hrafn formaður þriggja manna úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008.
Hrafn var kvæntur Ingibjörgu Árnadóttur, sem lést árið 2007.
Börn Hrafns og Ingibjargar eru:
Steinunn og
Börkur.
Steinunn, f. 1964, prófessor í félagsráðgjöf. Maki: Haraldur Arnar Haraldsson. Börn þeirra eru Andri Þór, d. 2024, og Felix.
Börkur, f. 1969, lögmaður og fasteignasali. Maki Elín Norðmann. Börn þeirra eru: Snædís, Tinna, Jón Hrafn og Óskar Árni.
Margt fleira mætti segja um ævi Hrafns og í því sambandi vísa ég í formála að minningargreinum um hann í Morgunblaðinu í dag og greinar sem bera lífi hans fagurt vitni.
Bernskuslóðirnar voru honum kærar. Í afmælisfrétt um hann í Morgunblaðinu 17. júní 2023 er hann fagnaði 85 ára afmæli sínu, var tekið viðtal við hann undir yfirskriftinni, „Mannréttindi ávallt ofarlega i huga“. Ég birti hér nokkur brot úr því viðtali:
„Hann bjó fyrst á Glerárgötu 3 en síðar í Bjarkarstíg 7, beint á móti Davíðshúsi.“ Hann mundi vel er „menntaskólanemar fóru með viðhöfn til Davíðs á sextugsafmæli hans. Það var mjög hátíðlegt“ rifjaði hann upp.
Eftir stúdentspróf 1958 fór hann til Spánar til að nema spænsku í Madrid. Hann sagði svo frá:
„Þetta var á Francotímanum og maður var alltaf undir eftirliti þar, þurfti að mæta reglulega í viðtal á lögreglustöð. Á Spáni lærði ég að meta lýðræði og mannréttindi.“
Mannréttindi voru honum ofarlega í huga alla tíð, heilög og grundvallandi fyrir mann og heim.
Og ég spyr á þessu tímapunkti: Hvert stefnir veröldin nú?
Dómarastarfið kenndi honum margt. Hann sagði t.d. um það:
„Ég var ekki mikið fyrir að dæma fólk í fangelsi því ég tel að stór hluti manna sem er verið að dæma í fangelsi séu veikir einstaklingar.“
Hér talar lífsreyndur maður og vitur og skynja má kærleika og djúpan mannskilning í orðum hans.
„Hrafn og Ingibjörg, fóru mikið í leikhús og á tónleika. Þau ferðuðust mjög mikið bæði innanlands og utan og þá sérstaklega með Jóni Böðvarssyni í tenglsum við námskeið í Endurmenntun HÍ um Íslendingasögurnar.“
Og fyrst bókmenntaarfinn okkar Íslendinga ber á góma þá er hann sýndarveruleiki, frásagnir og túlkanir á mannlegum samskiptum, raunveruleika í skáldlegri framsetningu sem er sýndarveruleiki sem kallast á við hinn handanverandi, fullkomna veruleika.
Og áfram úr afmælisfréttinni:
„Helsta áhugamál Hrafns hefur verið lögfræðin en einnig ferðalög innanlands og utan. Sömuleiðis lestur góðra bóka, sérstaklega skáldsagna, Íslendingasagna, sagnfræði, heimspeki og ljóða. „Ég les mikið“, sagði hann í viðtalinu … „Svo fylgist ég náttúrlega með þjóðmálum og heimsmálum. Þetta er aðallega það sem ég geri, kemst lítið í ferðalög núna.“
Til hans var leitað í gegnum árin úr mörgum áttum í samfélaginu um lögfræðileg mál og hann kom víða við sem fræðimaður og traustur álitsgjafi. Hann sinnti ótal verkefnum og sat í mörgum nefndum um ævina og skrifað t.a.m. „Lög um félög til almannaheilla.“
„Þau hjónin áttu auk þess sumarhús í Laugarási í Biskupstungum þar sem þau vörðu miklum tíma með fjölskyldu sinni.“
Svo mörg voru þau orð úr fyrrnefndu viðtali.
Gróður og náttúra gefa okkur mikið. Við erum mold, segir viska aldanna.
Söknuður hans var mikill eftir fráfall Ingibjargar og börnin sögðu hann hafa „bognað en ekki brotnað.“ Vinnan og hjónabandið voru honum allt.
Hann naut þess að ferðast og fór margar ferðir utan með börnum sínum. Þá fór hann víða með Steinunni þá er hún vann í rannsóknum í útlöndum og þá gætti Hrafn yngsta barnabarnsins m.a. í Dublin og Kantaraborg.
Þá fór hann nokkrar ferðir með fjölskyldunni til Tenerife og naut sólar og varma.
Hrafn fór ekki með hávaða um götur eða torg, hann var hógvær en fastur fyrir, íhugull og greinandi en slíkir kostir hljóta að gagnast vel í dómarasæti.
Ég tel það vera dauðans alvöru að vera dómari og það í Hæstarétti, að vera kallaður til að skera úr málum fólks og finna hina réttu línu, sem skilur á milli þess, sem er rétt og sanngjarnt og hins sem ekki stenst mál um rétt og satt.
Um aldir og árþúsund hafa dómarar þjónað samfélögum manna. En hvaðan koma þau hugtök sem afi Hrafns tekur fyrir í áðurnefndri tilvísun: sannleikur og réttlæti? Þau eiga rætur í hebresk/kristnum arfi og grísk/fílósófískum og vitundin um rétt og rangt er rituð í hjörtu okkar skv. kristinni trú.
Páll postuli segir í bréfi sínu til Efesusmanna um vald Krists sem situr á veldisstóli á himnum (Ef. 1.21-23):
„… ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi.“
Nóbelsskáldið virðist róa á sömu mið í Kristnihaldi undir Jökli og orðar sína sýn á handanveruna svohljóðandi:
„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“
Við stefnum þangað sem fegurðin ríkir.
Hérvera og handanvera kallast á og hafa gert frá því manneskjan varð til og fékk vitund sína í arf.
Eitt af ritum Biblíunnar í GT ber heitið Dómarabókin og er kennd við tímabil í sögu Ísraels er þeim var stjórnað af dómurum. Þeir skáru ekki bara úr málum fólks heldur voru þeir leiðtogar. Aðeins ein kona, Debóra, var í hópi þeirra. Bókin hefst við landnámið og nær yfir tímabilið 1200 f. Kr. og líkur um 1000 f. Kr. þegar konungsdæmi komst á í landinu. Sú guðfræði sem birtist í ritinu er, að hlýðni við Drottin, leiðir til blessunar og friðar en óhlýðni leiðir til örðugleika og ósigra. (Úr skýringartexta Biblíu 21. aldar (2007))
Niðurstaðan er þá sú, út frá hugmyndum okkar um sannleika og réttlæti, að farsælast sé að fylgja lögum og grunngildum, hvort sem menn hafa Guð í myndinni eður ei.
Dómarar koma víða við sögu á ferli mannkyns um lönd og álfur. Mannlegt samfélag þrífst ekki án góðra dómara.
Að vera manneskja er býsna flókið verkefni. Sagt hefur verið að hamingja manna hvíli á því að þeir sinni vel þremur sviðum á lífsleiðinni:
mannlífi,
náttúru og
hinu stóra samhengi tilverunnar.
Við þurfum að komast vel af í samskiptum við samferðafólkið, finna til tengsla við lífskraftinn í náttúrunni og velta fyrir okkur æðri rökum með hjálp vísinda, heimspeki og trúar.
Í Biblíunni, þeirri miklu bók, er aðeins eitt vers sem skilgreinir trúna. Í Bréfinu til Hebrea í Nýja testamentinu segir:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)
Margt er það í lífinu sem við getum ekki sannað, en verðum að nálgast og umgangast í trú. Ástin í brjósti okkar verður ekki vísindalega sönnuð og trúin á Guð ekki heldur.
Hrafn minntist á í fyrrgreindu viðtali að hann læsi mikið. Um skáldskapinn vil ég segja að hann er eins og menningin öll, viðleitni manna til að skilja veruleika sinn. Skáldin túlka veruleikann. Rithöfundar, blaðamenn, kennarar, vísindamenn, lögmenn, prestar, dómarar – túlka veruleikann í starfi sínu og tjáningu. Allir sem tjá sig á einn eða annan hátt, eru að spegla sig í tjáningu annarra, í samtölum, menningu og listum.
Lífið er ævintýri og það er undur að fá að vera til, þessa stuttu stund, sem ævin er.
Síðar í athöfninni verður lesið ljóð eftir Bo Carpeland, sem Bragi, faðir Hrafns, þýddi. Þar bregður fyrir náttúrufegurð, fuglasöng, söknuði, dauða og fingraförum sem hinn dauði skilur eftir sig.
Allir sem við kveðjum skilja eftir sig för af einhverju tagi. Svo er vatnið hin stóra myndlíkingin í ljóðinu, sem skilja má sem myndhvörf þess er verða mun þ.e. handanveruna sjálfa, eilífðina.
Ég lýk hér þessum þönkum yfir mætum manni, sem var hógvær, íhugull og vandvirkur heiðursmaður.
Guð blessi minningu Hrafns Bragasonar og megi blessun fylgja okkur sem enn erum á lífsveginum og höfum enn tækifæri til að láta gott af okkur leiða.
Amen
—
Skógurinn flýgur
Skógurinn flýgur, trén svífa í tíbrá.
Fjærst þaðan ber skæran fuglasöng
inn í þetta afskekkta, hljóða hús,
þar sem gluggatjöld blakta við gólf
eins og brúðarslóði.
Sólargeislar fara hverft um blinda glugga,
allar þrár eru þegar á burt.
Innan dyra dauðs manns er þögnin djúp,
þótt á munum megi enn sjá fingraför:
Komið, sjáið mig sem fugl stakan
teygðan á flugi út yfir vatnið, vatnið.
(Bo Carpelan; þýð. Bragi Sigurjónsson)
Kveðjur:
Elsku fjölskylda og aðstandendur, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra, hugsum til ykkar.
Bergþóra Steinunn og Magnús Þór sem eru stödd í útlöndum.
You must be logged in to post a comment.