1946-2025


Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Gunnlaugur Claessen
fv. hæstaréttardómari
1946-2025
Útför frá Langholtskirkju
fimmtudaginn 15. maí 2025 kl. 13
Ritningarlestur – 1. Davíðssálmur
Guðspjall – Jóhannes 1.1-18
Kveðjur frá fjarstöddum eru birtar neðanmáls.
Til að fá texta ræðunnar upp með hlustun, sláðu þá á nafn hins látna efst.
Friður Guðs sé með okkur.
Ég kynntist Gunnlaugi Claessen sem reyndum og þroskuðum manni í góðum félagsskap. Brosið hans, sem náði ætíð til augnanna, er mér ofarlega í huga á þessari kveðjustund, þessari minningarhátíð, sem haldin er hér í Langholtskirkju, í hverfinu þar sem hann ólst upp. Langholtshverfið var mikil deigla og hér ólust upp hjarðir barna og ungmenna. Prestarnir voru tveir, ólíkir en öflugir, og fóru að sumu leyti á svig við klassíska guðfræði kirkjunnar. Þeir höfðu þó jákvæð áhrif á yngri sem eldri og voru eins og kirkjan í heild, brimbrjótar vestrænnar menningar og gilda, sem öll eru sprottin úr gyðing/kristnum jarðvegi með grísk/fílósófísku ívafi.
Samtíminn okkar „rokkar“ í þeim skilningi að hann hristist og skekur ekki bara sjálfan sig heldur grunn sinn um leið. Hvert stefnum við?
Hugtökin sannleikur og réttlæti eru ævaforn. Á hebresku er sannleikurinn tjáður með orðinu EMET og réttlætið með TZEDEK.
Skoðum réttlætið í því samhengi að Gunnlaugur var lögmaður og seinna hæstaréttardómari.
Hugtakið tzedek nær langt út fyrir sanngjarna meðferð og jöfn tækifæri. Tzedek er grundvallargildi sem nær yfir siðferði og réttlæti. Það snýst um að gera það sem er rétt og sanngjarnt, ekki aðeins fyrir okkur sjálf, heldur einnig fyrir aðra í samfélagi manna og að sjá fyrir þeim sem þurfa á því að halda, leita réttlætis fyrir kúgaða og tala gegn ranglæti.
Um aldir og árþúsund hafa dómarar starfað til að skera úr málum á meðal fólks. Til að dæma þurfa menn að geta sett sig inn í ólík mál og frá mörgum hliðum og dæma síðan út frá lögum sem ætla má að hvíli á grunni sannleika og réttlætis. Í lögfræðinni læra menn aðferðafræði til að komast að niðurstöðu. Dómaranum er ætlað að vera vel að sér í réttlætinu sjálfu sem eilífu, heimspekilegu hugtaki. Hann þarf eiginlega að vera með hugann á himnum en hjartað á jörðu og láta það slá í takti við fólk og sameina báðar víddir. Þetta er í grunninn guðsþjónusta, en það hugtak er notað um tengslin milli himins og jarðar. Við erum öll kölluð til guðsþjónustu í heiminum, hver sem störfin kunnað vera og börnin inna sína guðsþjónustu af hendi, eins og Lúther kallinn sagði, með því að leika sér,
Orðið dómur hefur á sér alvarlegan blæ enda þótt dómar geti auðvitað verið gleðiefni. Mér hefur oft verið hugsað til þess, að kominn sé tími á að breyta orðinu dómsmálaráðherra og kalla embættið „réttlætisráðherra“, sem er stuðlað og rímar við starfsheitið í flestum öðrum löndum sem kenna sig við justis eða justice þ.e. réttlæti.
Fyrr minntist ég á orðið emet/sannleikur er ritað með þremur stöfum á hebresku, fyrsta staf stafrófsins, miðstaf og lokastaf. Segja má að þannig nái sannleikurinn utan um allt og ríki frá upphafi til enda. Vinur minn og prófessor emeritus í Gamla testamentisfræðum og þar með hebresku, fræddi mig um þessi tengsl orðins við stafrófið, en þess má geta að hann er faðir sitjandi „réttlætisráðherra“.
Ég minntist á brosið hans Gunnlaugs sem var í senn birtingarmynd kærleika hans og kímni sem hann bjó yfir í ríkum mæli.
Segja má að Gunnlaugur hafi alist upp við díalektík tveggja póla því faðir hans hallaðist til hægri en móðurfjölskyldan var rauð.
Gunnlaugur mátti búa við það, að af og til birtist fræg mynd af svonefndum Eimreiðarhópi í fjölmiðlum og þar eru sumir skælbrosandi, en aðrir með temprað bros eins og Gunnlaugur. Aðspurður um tengsl sín við hópinn mun hann hafa sagt að hann liti á þau sem „bernskubrek“. Og kannski má segja að hann hafi staðfest það og skrúfað fyrir gufustrók og útblástur eimreiðarinnar, með því að deyja á sjálfan verkalýðsdaginn, 1. maí!
Gunnlaugur fæddist í Reykjavík sunnudaginn 18. ágúst 1946. Þann dag hélt Svifflugfélag Íslands upp á 10 ára afmæli með flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli, segir í dagblaði, sem kom út þann dag. Reykjavík átti 160 ára afmæli, Esjan sigldi til Danmerkur á hádegi daginn áður og á miðvikudaginn þar á undan, hafði Örn Johnsson, flogið útsýnisflug yfir Vatnajökul til að kanna hvort eldgos væri hafið. Samtíminn sannfærir okkur um að það getur gosið hvenær sem er í landi okkar.
Foreldrar Gunnlaugs voru Guðrún Arnbjarnardóttir, símvörður og Haukur Arentsson Claessen, varaflugmálastjóri.
Gunnlaugur varð stúdent frá MR 1966 og tók lögfræðipróf frá HÍ 1972. Hann stundaði framhaldsnám í kröfurétti við Óslóarháskóla, varð héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður 1980.
Gunnlaugur starfaði sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu, síðan fulltrúi í fjármálaráðuneytinu og loks deildarstjóri. Hann var skipaður ríkislögmaður 1984 fyrstur manna og gegndi því embætti í 10 ár, uns hann var skipaður dómari við Hæstarétt Íslands árið 1994. Hann gegndi dómarastarfinu við Hæstarétt til hausts 2013 er hann hætti sökum aldurs. Gunnlaugur var varaforseti Hæstaréttar 2004-2005 og forseti 2006-2007.
Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs er Guðrún Sveinbjörnsdóttir sjúkraliði, f. 1955. Sonur þeirra er Sveinbjörn, f. 1986, lögfræðingur, og dóttir Guðrúnar er Erna Margrét Þórðardóttir, f. 1980, einnig lögfræðingur. Börn Gunnlaugs með fyrri maka, Helgu Hjálmtýsdóttur, f. 1949, kennara, eru Þórdís, f. 1974, grafískur hönnuður, og Haukur, f. 1977, stjórnmálafræðingur og kennari. Barnabörnin eru átta talsins.
Gunnlaugur kom víða við í félagsmálum sem lesa má um nánar í ítarelgri æviágripum neðanmáls á vefsíðu minni þegar ræðan verður komin þar inn bæði texti og hljóðupptaka.
Ég heyrði í þremur vina Gunnlaugs, þeim Markúsi Sigurbjörnssyni, fv. hæstaréttardómara, Bergþóri Konráðssyni, viðskiptafræðingi og Jóhannesi Karli Sveinssyni, lögmanni og svo hitti ég reglulega vini hans úr Frímúrarastarfinu, þá Allan Vagn Magnússon, Þorstein Eggertsson og Kristján Jóhannsson. Allir eiga þeir einhverja þræði eða spor í þessari ræðu.
Að vera dómari er ábyrgðarstarf og það tók auðvitað á Gunnlaug sem var vandur að virðingu sinni og samviskusamur. Ég fylgdist með honum þegar hann gekk í gegnum veikindi sín, en það ferli hófst 2011. Hann var staddur í vettvangsskoðun á Reykjanesi ásamt kollega sínum, Markúsi Sigurbjörnssyni og fleirum, til að finna rétta línu milli sjávar á Vatnsleysuströnd og Keilis í landamerkjamáli. Gunnlaugur dróst aftur úr hópnum og svo fann Markús hann sitjandi í laut með símann í hönd og tár á hvörmum. Aðspurður sagðist hann hafa fengið símtal frá lækni, sem tilkynnti honum að hann væri með krabbamein. Þeir féllust í faðma og brynntu hagamúsum í hrauninu, sem var auðvitað algjört stílbrot manna sem höfðu tamið sér hálfkæring og glens til að komast af í starfi sínu. Þeir eins og við öll þurfum húmor til að komast af í lífinu og sannir menn þora að vera meyrir. Þeir áttu saman stórkostlegt tímabil, fengust við mörg stór mál og aldrei féllu styggðaryrði á milli þeirra – nema í gríni, segir Markús – og lýsir honum sem góðum og klárum vinnufélaga og minntist tveggja „afreka“ Gunnlaugs í dómsal. Hið fyrra var að Gunnlaugur hnerraði hressilega og málflytjanda varð á að segja: „Guð hjálpi þér“, sem þykir óviðeigandi ávarp í réttinum, því dómarar eru þar ekki í eigin nafni, heldur réttarins, og því hefði maðurinn átt að segja: „Guð hjálpi Hæstarétti!“ Hitt atvikið var að Gunnlaugur gleymdi að skilja farsímann eftir og mætti í réttarsal með símann undir skikkju sinni og auðvitað hringdi Dísa dóttir hans og hringitónninn glumdi í salnum, piparkökulagið úr Dýrunum í Hálsaskógi!
Gunnlaugur tókst á við veikindi sín af kjarki og reisn og náði heilsu á ný. En eigi er ein báran stök og nú hefur þessi minnugi maður, fróði og víðsýni, orðið að lúta í lægra haldi og þurfti um skeið að glíma við þann sem rætt er um í fornum ritum:
Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir;
hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður vark
í garði Gunnlaðar.
Eitt er að verða fyrir þeim fugli sökum öldrunar, en annað að fylgja honum sjálfviljugur og ringlaður í vímu, en flestir textar sem ég fann um óminnishegrann, eru um ölvaða menn!
Bergþór Konráðsson, æskuvinur, var með honum í tólfára bekk í Langholtsskóla, þeir tóku síðan landspróf og fóru saman í MR. Bergþór var ytra við nám þegar faðir Gunnlaugs fórst í hörmulegu slysi árið 1973, og minnst þess hörmulega atburðar, en þá var Gunnlaugur 27 ára. Ógerningur er að setja sig í spor syrgjenda í slíkum harmi.
Bergþór lýsir vini sínum sem heiðarlegum manni, varkárum og lausum við allt brask og bætti við: „Gunnlaugur átti engin hlutabréf í Hruninu.“
Gunnlaugur var líklega alveg laus við bíladellu því eitt sinn spurði hann Bergþór, sem hafði skipt um bíl: „Er þessi nýr?“ „Nei, hann er fimm ára,“ svaraði vinurinn.
Gunnlaugur var jarðbundinn en trúaður maður. Hans helstu áhugamál fyrir utan starfið voru Frímúrarareglan og skógræktin. Þau áhugamál fara vel saman því um er að ræða annars vegar rækt mennskunnar og hins vegar náttúrunnar. Fróðir spekingar segja að til þess að nálgast hamingjuna sé nauðsynlegt að rækta þessi tvö svið, mannlíf og náttúru og ennfremur tengslin við Hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar. Þessi svið mynda helga þrennu og grunn farsældar í lífinu.
Oft fór Gunnlaugur með skondnar vísur sem hann hafði heyrt, en hann hafði yndi af góðum kveðskap, einkum skoplegum og minnið var óbrigðult. Honum nægði oft að heyra vísu einu sinni og þá sat hún föst.
Nefnt var í mín eyru að Gunnlaugur hefði barist fyrir sjálfstæði Hæstaréttar og þar með var vísað til þess að hann vildi að val á dómurum væri byggt á faglegum nótum en ekki pólitískum. Gunnlaugur hélt ætíð sínu striki á vegi réttlætisins og fékk aldrei „kusk á hvítflibbann“.
Vinur hans úr lögmannastétt, Jóhannes Karl Sveinsson, sagðist ætíð hafa haft góða tilfinningu í hjarta sér, þegar Gunnlaugur sat í sæti dómara, því hann treysti honum svo vel sökum vandvirkni og fagmennsku og bætti við „réttsýnin hreinlega draup af honum.“ Hann vildi ætíð gjöra rétt og gaf engan afslátt í þeim efnum. Hann var yfirburðamaður, segir Jóhannes Karl.
Þegar Gunnlaugur kom í réttinn var þar mikill málastabbi og réðst hann í það nánast af trúarlegri ástríðu að lækka fjöllin eins og segir í bók Jesaja spámanns:
„sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
hamrar að dalagrundum.“
Saman voru þeir í þessu með Gunnlaugi og allir með uppbrettar ermar, þeir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeins og Pétur Kr. Hafstein.
Gunnlaugur tók ábyrgð sína alvarlega og sinnti störfum af elju, en ástríða hans og hliðsjálf, var skógrækt, á-stríða en ekki ást-ríða eins og unga fólkið tönnlast á í dag.
Í kínversku spakmæli segir, að vilji maður verða hamingjusamur í einn dag, þá skuli maður drekka sig fullan. Vilji maður vera það í eina viku, þá sé rétt að kvænast. En vilji maður vera sæll alla ævi, sé best að koma sér upp garði.
Hið síðastnefnda tókst Gunnlaugur á við af fítonskrafti og fjölskyldan sagði mér sögur af bjástri hans á jörðinni fyrir austan. Hann annaðist bakkaplöntur eins og læknir myndi fara með fósturvísa, bar vatn í flöskum til að vökva og setti hrossaskít undir hverja plöntu og helst frosinn og kallaði slíkan gæðaáburð: „kúk-rojal“.
Fósturvísarnir urðu að fögrum skógi og glöddu hann ósegjanlega. Dóttir hans gerði innslag í Landann undir heitinu: „Maðurinn á bak við skóginn“ sem græddi mosavaxið hraun og holt og laðaði að sér fugla. Svo natinn var hann að „ræflarnir“ sem ekki stóðust mál í skógræktinni, voru settir til hliðar og þeim gefið tækifæri í svonefndum kirkjugarði. Minnt var á að mamma hans hefði verið góð við smælingja og það erfði Gulli.
Já, kínverska spakmælið segir án efa sannleikann, um hann Gunnlaug, í þeim lið er lítur að skógrækt. Þá voru fuglar hans yndi og af því leiddi að kettir voru ekki í sama uppáhaldi.
Leyfi mér að setja hér inn ljóðið Tré eftir Joyce Kilmer, liðþjálfa, (f. 1886) sem féll kornungur í Fyrri heimstyrjöldinni 1918.
Ég efast um ég fái séð
einn ljóðastofn, sem indælt tréð.
Tréð er hefur soltið sóst
að sjúga jarðar þrútin brjóst,
Er ávallt sýnir lauf sín græn
og syngur Guði þakkarbæn,
Tréð er skrýðist í sumarblíðu
söngfuglum í hári síðu,
Að vetri haddur hvítur er,
um hörputíð með sætust ber,
Nú glöggt sem glópaskáld ég sé
– að Guð einn getur skapað tré.
Ég þýddi þetta ljóð fyrir tveimur árum og bætti við einu erindi:
Með ljóð mín kræklótt, bogin kné,
ég krýp og faðma lífsins tré.
(Lokið við lagfæringar á textanum á skírdag, 6. apríl 2023.)
Náttúrugengsl efla. Gunnlaugur var í sveit á Stóru-Borg hjá Sigurjóni bónda og fjölskyldu hans. Í sveitinni var talað hreint út og vitnaði hann oft í orð bónda við sig: „Þú verður máttlaus ef þú étur ekki.“ Gunnlaugur fór án efa að ráðum bónda og var ætíð vel á sig kominn, grannur og spengilegur.
Í störfum sínum las hann mikið og varð stundum að mæta lasinn í réttinn, já, lasinn, en ekki ólesinn.
Hann kenndi börnum sínum vinnusemi og heiðarleika. Sonur hans minnist þess er pabbi fór með hann út í sveit og benti honum á fjöllin allt um kring.
Tengdasonur hans, sem bjó á heimilinu í Hálsaselinu um tíma, segir að þegar hann vaknaði á morgnana, sá hann að Gunnlaugur hafði þegar setið lengi við störf, áður en aðrir fóru á stjá. Kominn heim eftir annríki dagsins var hann sestur aftur að störfum að loknum kvöldverði og fréttum og vann fram undir háttatíma. Ætíð fór hann fram með þöglum aga, án láta eða yfirgangs. Hann sagði gjarnan: „Sá sem æsir sig, tapar.“
Gunnlaugur var trúaður maður og umhyggjusamur. Oft er hann hringdi í dóttur sína átti hann það til að byrja samtalið á þessum orðum: „Ég hringdi bara til að heyra röddina þína.“
Gunnlaugur var prinsippmaður. Yngri sonurinn sagði frá er hann beið eftir að koma upp í munnlegu prófi hjá Lögmannafélaginu, þar sem faðir hans var prófdómari og mætti honum á ganginum fyrir utan prófherbergið. Gunnlaugur kinkaði kolli til sonarins og sagði: „Komdu sæll.“ Hann gaf ekkert færi á sér, en var ætíð kurteis og hélt hæfilegri fjarlægð, þegar það átti við.
Andspænis dauðanum var hann æðrulaus og enda þótt minnið væri orðið skert gat hann gantast við Guðrúnu eins og þegar hann rétt fyrir andlátið reif út úr sér sogrörið og sveiflaði því eins og skylmingarmaður, sem vildi segja: „Sjáðu, ég er enn á lífi!“
Svona var hann Gunnlaugur Claessen til hinstu stundar.
Eftirminnilegur maður er genginn á vit þess sem bíður okkar allra. Og nú bíður dómarinn dóms Hins hæsta. Hann þarf engu að kvíða, fremur en við, breyskar manneskjur, því Kristur verður sjálfur í dóminum – og hann mun hvorki hnerra né svara í síma – en án efa brosa og geisla af kærleika, miskunn og náð – já, náð sem sýknar!
Er það ekki annars merkilegt að fólk skuli fæðast með vitund um rétt og rangt, sem birtist snemma á lífsferlinum, m.a. í blygðunarkennd barnsins? Fyrst við höfum þessa vitund um rétt og rangt, má þá ekki gera ráð fyrir því, að veröldin sé einmitt innréttuð með þeim hætti, sem fólk reynir að vinna eftir í þjóðfélögum, sem iðka lýðræði og eru að mestu laus við alvarlega spillingu?
Getur jarðneskt réttlæti þá nokkru sinni verið annað en endurskin hins fullkomna, hins handanverandi, hins himneska réttlætis? Sé svo, þá er réttlæti okkar sýndarveruleiki, endurskin hins fullkomna veruleika þ.e. raunveruleikans sjálfs. Líf okkar er tjáning í sýndarveruleika alla daga. Biblían og hennar textar eru sýndarveruleiki, sem vísa til veruleikans sjálfs, hins æðsta. Öll menning er tilraun manneskjunnar til að skilja veruleikann og tjá hann, en það verður þó aldrei meir en sýndarveruleiki, sem er endurskin veruleikans sjálfs. Við speglum okkur alla daga í tjáningu annarra og köllumst á við þá tjáningu með lífi okkar og verkum.
Þess vegna segir Páll postuli í sínum ódauðlega texta um kærleikann:
Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur. (1. Kor. 13.12-13)
Já, við sjáum einungis í skuggsjá, í ráðgátu, í sýndarveruleika. En svo rennur upp sá tími eða tímaleysi þegar við sjáum augliti til auglitis.
Og þessi sýndarveruleiki okkar er draumurinn, vitundin um himininn, vonin um hið fullkomna, draumurinn um lífið sem tekur þessu lífi sýndarveruleikans fram á svo róttækan hátt að reiknigeta mannsheilans ræður ekki við þá dýrð.
Í 2. Kronikubók GT, segir:
Býr þá Guð hjá mönnunum á jörðinni? Nei, jafnvel himinninn og himnanna himnar rúma þig ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef reist. (2. Kron 6.18).
Svo mælti Salómon konungur þegar hann hafði reist Musterið fagra í Jerúsalem, sem var þó aðeins endurskin hins fullkomna í handanverunni, sýndarveruleiki himnaríkis á jörðu. Öll alvöru list er sýndarveruleiki hins góða, fagra og fullkomna.
Þess vegna skulum við lifa í von og bíða þess sem koma skal og taka mun öllum hugmyndum okkar fram, öllu sem við teljum okkur vita um sannleikann og réttlætið.
Þá verður réttur settur þar sem réttlætið eitt ríkir, sannleikurinn með ákveðnum greini og eilífðin líka og hin takmarkalausa elska sem setur engin skilyrði. Trúin gefur okkur von um að við fáum hvorki varðhalds né skilorðsdóm, heldur að við verðum sýknuð sökum elsku Guðs, sem öllu ræður og er engum skuldbundinn, nema eigin kærleikslögum. Þess vegna talar kirkjan um fagnaðarerindi trúarinnar, gleðitíðindi, The Good News á ensku, evangelium, góðspjall, en sú er einmitt merking orðsins, guðspjall.
Algóður Guð, blessi og varðveiti Gunnlaug, að eilífu. Megi minningin um vináttu hans og elsku, glens og gaman, samviskusemi og trúmennsku, lifa áfram í hjörtum okkar.
Guð blessi Guðrúnu, börn þeirra öll og afkomendur, ættingja, vini og samferðafólk.
Blessuð sé minning Gunnlaugs Claessen
– og Guð blessi okkur öll, sem enn erum á lífsveginum og væntum gleði himinsins.
Amen
—
Hljóðupptakan nær ekki lengra en hér eru ítarlegri æviágrip en birtust í Morgunblaðinu:
Æviágrip
Gunnlaugur Claessen fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1946. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörkinni 1. maí 2025. Foreldrar hans voru Haukur Claessen, f. 26. mars 1918, d. 26. mars 1973, varaflugmálastjóri í Reykjavík, og Guðrún Claessen (fædd Arnbjarnardóttir), f. 18. apríl 1921, d. 17. júlí 2006, húsfreyja og símavörður. Þau eignuðust þrjú börn: Sigríði Ingibjörgu, f. 1. apríl 1943, d. 23. maí 2005, Gunnlaug og Helgu Kristínu, f. 5. sept. 1955.
Gunnlaugur kvæntist Helgu Hjálmtýsdóttur, f 1949, kennara, í júní 1972. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Þórdís, f. 1974, grafískur hönnuður og dagskrárgerðarkona, og Haukur, f. 1977, stjórnmálafræðingur og kennari. Eiginkona Hauks er Jórunn Harpa Ragnarsdóttir, f. 1978, læknir. Synir þeirra eru Jökull Fannar, f. 2008, og Óðinn Breki, f. 2012.
Þann 31. ágúst 1985 gekk Gunnlaugur í hjónaband með Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur, f. 22. október 1955, sjúkraliða og húsfreyju. Foreldrar Guðrúnar voru Sveinbjörn Hjálmarsson, f. 11. september 1931, d. 27. október 2016, forstjóri í Vestmannaeyjum, og Erna Margrét Jóhannesdóttir, f. 2. janúar 1937, d. 22. maí 2017, skrifstofumaður og húsfreyja. Sonur Guðrúnar og Gunnlaugs er Sveinbjörn Claessen, f. 1986, lögfræðingur. Eiginkona hans er Sigríður Hulda Árnadóttir, f. 1987, hjúkrunarfræðingur. Dætur þeirra eru Sara Rakel, f. 2020, og Sóley Erla, f. 2024.
Stjúpdóttir Gunnlaugs er Erna Margrét Þórðardóttir, f. 1980, lögfræðingur. Sambúðarmaður hennar er Leifur Steinn Árnason, f. 1980, viðskiptafræðingur. Börn þeirra eru Arnór Steinn, f. 2005, Berglind Björt, f. 2005, Jakob Kári, f. 2008, og Embla Katrín, f. 2017.
Gunnlaugur ólst upp í Langholtshverfinu í Reykjavík og gekk í Langholtsskóla og síðar í Vogaskóla. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Mennaskólanum í Reykjavík árið 1966 og tók lögfræðipróf frá lagadeild Háskóla Íslands 1972. Hann stundaði framhaldsnám í kröfurétti við Oslóarháskóla veturinn 1972 – 1973, varð héraðsdómslögmaður 1974 og hæstaréttarlögmaður 1980.
Gunnlaugur starfaði sem fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1972, síðan sem fulltrúi í fjármálaráðuneytinu frá 1973 til 1975 og loks sem deildarstjóri þar frá 1975 til 1984. Hann var skipaður ríkislögmaður árið 1984, fyrstur manna, og gegndi því embætti í 10 ár uns hann var skipaður dómari við Hæstarétt Íslands árið 1994. Hann gegndi dómarastarfinu við Hæstarétti til hausts 2013 er hann hætti sökum aldurs. Gunnlaugur var varaforseti Hæstaréttar 2004-2005 og forseti réttarins 2006-2007.
Gunnlaugur var formaður Orators, félags laganema við HÍ, veturinn 1970-1971 og átti sæti í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta á árum sínum í HÍ. Hann sat í ýmsum öðrum stjórnum, m.a. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Samtaka um vestræna samvinnu, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Slippstöðvarinnar á Akureyri. Hann var formaður Lögfræðingafélags Íslands um skeið, átti sæti í réttarfarsnefnd og var formaður nefndar um dómarastörf, samkvæmt lögum um dómstóla Gunnlaugur var stundakennari í verslunarrétti við Verzlunarskóla Íslands frá 1977 – 1984, og prófdómari við lagadeild Háskóla Íslands frá 1975.Hann satt í nefndum á vegum hinna ýmsu ráðuneyta til að semja lagafrumvörp.
Einnig átti hann sæti í réttarfarsnefnd og í tveimur nefndum til að endurskoða skaðabótalög. Hann var formaður yfirmatsnefndar skv. Lögum um lax og silungsveiði frá árinu 1995 og einnig formaður nefndar um dómarastörf. Þá var Gunnlaugur formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Minja frá 2000 til 2022. Hann sat í stjórn Íslandsdeildar norrænu embættismannasambandsins og í stjórn Íslandsdeildar norrænu lögfræðingaþinganna. Gunnlaugur var virkur félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi.
Gunnlaugur var skógræktarmaður þar sem hann, ásamt fjölskyldu sinni, ræktaði skóg á jörð fjölskyldunnar í Grímsnesi. Skógræktin átti hug hans allan og undi hann hag sínum vel í sveitinni.
Útför Gunnlaugs fer fram frá Langholtskirkju í dag, fimmtudaginn 15. maí 2025, klukkan 13:00.
—
Kveðjur frá fólki sem ekki hefur tök á að fylgja hinum látna eru aðeins birta neðanmáls á vefsíðu minni, en ekki lesnar upp við athöfnina sjálfa.
Nútímatækni gerir öllum kleift að koma kveðjum beint til syrgjenda.
Kveðjur til ástvina Gunnlaugs:
Jóna Margrét Ragnarsdóttir,
Júlíus Ólafsson,
Þorsteinn Bergsson og Ingibjörg Ásta Pétursdóttir,
Þorsteinn Ólafsson
og Starfsfólk Hlíðarbæjar.
Öll þakka þau samfylgd með Gunnlaugi.
Ritningarlestrar:
1. Davíðssálmur:
1Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
2heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
4Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
5Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
6Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
Gupspjallið:
Jóhannes 1.1-18
Orðið varð hold
1 Í upphafi var Orðið[ og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. 2 Hann var í upphafi hjá Guði. 3 Allt varð til fyrir hann,[ án hans varð ekki neitt sem til er. 4 Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. 5 Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. 7 Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. 8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. 10 Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. 11 Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. 12 En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. 13 Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
14 Og Orðið varð hold,[ hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. 15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: „Þetta er sá sem ég átti við þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig var á undan mér enda fyrri en ég.“
16 Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan. 17 Lögmálið var gefið með Móse en náðin og sannleikurinn eru komin með Jesú Kristi. 18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
You must be logged in to post a comment.