Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

+Hákon Siguðsson 1942-2025

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

+Hákon Sigurðsson

fv. framkvæmdastjóri

Þorrasölum 9, Kópavogi

Bálför frá Vídalínskirkju

föstudaginn 9. maí 2025 kl. 13

„Svo lengi lærir sem lifir“, segir í málshætti og öll höfum við sungið: „Það er leikur að læra.“ Hvers vegna lærir maður? Jú, það er til að þjóna lífinu, hafa hlutverk og láta gott af sér leiða. Lífið er nefnilega guðsþjónusta, sem allir inna af hendi, ekki bara prestar, munkar og nunnur. Lúther kallinn lagði áherslu á þetta og taldi upp hinar og þessar starfsstéttir og sagði þær allar sinna guðsþjónustu lífsins. Húsfreyjan og bóndinn þjóna Guði, saumakonan og klæðskerinn, þeir sem smíða úr tré og járni, slátrarinn og sútarinn, sýslumaðurinn og furstinn – allir! Og svo bætti hann við og sagði: Barnið þjónar Guði með því að leika sér! Falleg túlkun á lífinu og hlutverki okkar allra. Við erum öll í einum og sama heimi, í samhengi alls sem er og fengum lífið að gjöf til að nýta það í þágu fólks og heims.

Ég kynntist honum Konna þegar ég fékkst við það að elta kúlur í Vetrarmýri við Vífilsstaði á tíunda áratugi liðinnar aldar. Seinna var ég kosinn í stjórn Golfklúbbs Garðabæjar. Konni var ráðinn framkvæmdastjóri og var í því eins og fiskur í vatni. Hann hafði mikla og góða hæfileika til verkstjórnar, var útsjónarsamur og hafði góða yfirsýn. Konni var greindur og náttúrtalent á mörgum sviðum og áhugamálin óteljandi.

Hákon Sigurðsson fæddist í Reykjavík 20. september 1942. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 24. apríl 2025.

Hann bjó fyrstu árin í Blönduhlíð í Reykjavík en flutti 12 ára í Melgerði í Kópavogi með foreldrum sínum en faðir hans byggði mörg hús um ævina og þau hjónin ráku saman bensínstöð og litla verzlun yst á Kársnesinu.

Konni hringdi í mig í lok mars og sagðist bara vera að tryggja það, að ég mundi jarða sig. Hann var á Landspítalanum og ég sagðist eiga leið í bæinn eftir viku eða svo og þegar ég var lentur á Reykjavíkurflugvelli og hafði komið töskunni heim, rölti ég upp á Lansa. Þar var fagnaðarfundur og við ræddum heima og geima. Konni ítrekaði að ég ætti að sjá um útför hans og ég svaraði á sama hátt og í hvert sinn sem ég fæ slíkar beiðnir: Já, ef ég verð ekki farinn á undan þér! Við kvöddumst og ég taldi að Konni ætti eftir nokkrar vikur ef ekki mánuði, en svo hringdi tengdasonurinn og tilkynnti mér andlát hans. Og hér erum við saman komin til að kveðja góðan og eftirminnilegan dreng.

Foreldrar Hákonar voru Sigurður Kristján Sigurbjörnsson, f. 12. nóvember 1903, d. 27. september 1989, og María Finnbogadóttir, f. 24. apríl 1914, d. 14. desember 2013.

Hákon var elstur þriggja systkina, en þau eru:

Björg, f. 12. desember 1943 og

Sigríður, f. 30. mars 1950, d. 26. janúar 2012.

Hákon kvæntist í júní 1968 eftirlifandi eiginkonu sinni, Katrínu Hlíf Guðjónsdóttur, f. 1945. Hún er Reykjavíkurmær sem ólst upp að Laugavegi 82. Þau kynntust í vinahópi. Katrín starfar sem lífeindafræðingur.

Saman eiga þau eina dóttur, Margrét Sif, f. 1968, eiginmaður Ólafur Þór Jóelsson, f. 1972.

Barnabörn Hákons voru tvö,

Thelma Hlíf, f. 1995 og

Jón Hákon, f. 2001.

Dóttirin sagði á mínum fundi með fjölskyldunni: hann var góður pabbi og var ekki umvöndunarsamur, hann gerði kröfur til mín, var mér góður vinur og bóngóður.

Thelma Hlíf segir afa ekki hafa verið mjög þolinmóðan. Hann var nammikall sem fór með þau í bíltúr og fannst gaman að gera allt, líka það sem var eiginlega á bannlista, eins og ís á virkum dögum. Hann var sælkeri og í kaffiboðum byrjaði hann á vínarbrauðunum.

Að fara í búðir var honum ástríða og Costco var fyrir honum ævintýraheimur. Sjálfsalarnir á Landakoti, þar sem hann var í tvær vikur, voru óspart notaðir.

Svo hafði hann sterkar skoðanir á hinu og þessu og fannst allt í lagi þótt aðrir væru honum ósammála.

Ef hann þurfti að kaupa eitthvað sem var mikilvægt þá keypti hann helst tvö eintök. Konni þurfti tvær hækjur undir lokin og þá keypti hann auðvitað þriðju hækjuna. Hann var líka gjafmildur og greiðvikinn.

Hákon var athafnasamur alla tíð og tókst á við fjölmörg verkefni í bæði leik og starfi. Í honum var kennarablóð, sagði fjölskyldan, hann var góður að segja okkur til. Hann vildi stjórna öllu, Kötu líka. Þegar honum voru færð lyf á sjúkrahúsinu, þá spurði hann gjarnan: Hvað heitir þetta? Hann vildi skilja hltutina.

Hann var virkur í félagsstarfi og var meðal annars í Flugbjörgunarsveitinni. Þá var hann einn af stofnfélögum Frímúrarastúkunnar Njarðar, en þar sinnti Hákon mörgum embættum og var ötull í starfi hennar.

Ég skýt því hér inn að ég hafði gengið í Regluna og tekið langt hlé og það var Konni sem kom mér aftur í gang og þá hófst eitt af mínum mörgu stóru ævintýrum. Reglan er góður félagsskapur og Konni sagði mér á spítalnum að hún hefði haft gríðarleg áhrif á sig og dýpkað allan skilning á lífinu og tilverunni.

Hákon átti farsælan feril í starfi og eftir að hann hafði byrjað að læra rafvirkjun sneri hann sér að kaupmennsku og átti verslanirnar Réttarholt, Heimakjör í Sólheimum, Kostakaup í Hafnarfirði og Kjötbæ á Laugavegi auk þess að reka heildverslunina Indía.

Hákon varð framkvæmdastjóri golfklúbbsins GKG árið 1993. Hákon var mikill áhugamaður um golf og sinnti hann því að miklu kappi með Katrínu eiginkonu sinni, en auk golfsins var Hákon áhugamaður um flug og hafði einkaflugmannspróf. Hann var mikill græjukall og hringdi oft í tengdasoninn í þeim efnum og kynnti honum nýjustu græjurnar. Hann heillaðist af tölvum og það nýjasta nýtt var gervigreindin. Hann eignaðist margar tölvur og var með þrjú netföng. Hann var hraður. Að ferðast með honum var ætíð hraðferð. Þau Kata fóru hringinn árið 1974 sem var nýopnaður og tóku hann allan á fimm dögum á mölinni. Hann var í skot- og laxveiði, átti jeppa, Dodge og Bronco og loftnetsstöngin náði til himins.

Hann vann mjög skipulega, var með verkefnalista í excel-skjali.

Já, Konni flaug víða og var áhugasamur um margt og hafði þessa fjölgreind eins og ég sagði áðan, kunni á margt og var brennandi í andanum um hitt og þetta. Lífið er guðsþjónusta og lífið er leikur þegar best lætur. Svo hefur lífið form og reglur. Það eru lögmál í lífinu, rétt og rangt og það skynja börnin fljótlega á lífsveginum. Í okkur er vitund um hið æðra samhengi, vitund um rétt og rangt, vitund um kærleika og miskunn, fegurð og frið.

Golfið hefur líka strúktúr og reglukerfi eins og allar íþróttir hafa. En golf hefur eina hlið sem ekki er t.d. í knattspyrnu eða skíðaíþróttum, lyftingum eða fimleikum. Golf er nefnilega „kristilegri“ íþrótt en aðrar.

Og nú sé ég undrunina í andlitum ykkar.

Ég skal útskýra þetta nánar með tilvísun í Biblíuna og nánar tiltekið í Nýja testamentið, sem ritað var upphaflega á grísku. Þar er mikilvægt orð sem heitir hamartia og merkir geigun og er þýtt á íslensku með orðinu synd. Já, það er nefnilega synd að geiga, að brenna af, að slæsa og húkka í golfi. Í okkur öllum er geigun, brotalöm, sem gerir það að verkum að okkur tekst ekki að lifa fullkomnu lífi. Í golfíþróttinni er sérstakt kerfi sem kallast forgjöf og gerir það að verkum að betri leikmenn og lakari geta leikið og keppt á sanngjörnum grunni. En orðið forgjöf finnst mér reyndar vera ögn misvísandi því forgjöf er ekkert annað en fyrirgefning á klaufaskap, fyrirgefning á geigun, fyrirgefning á synd! Og eigum við ekki sem kristnar manneskjur að fyrirgefa?

Þessi „golfguðfræði“ er algjörlega á minni ábyrgð, ég hef borið hana undir prófessora í greininni og þeim hefur ekki tekist að fella mig á neinum prófum, hvað hana vaðar.

Það er leikur að læra og lífið er guðsþjónusta. Golf krefst þjálfunar og þar á heiðarleikinn ætíð að vera í fyrirrúmi, leikreglur, nákvæmni, hvert högg talið og svo er dómurinn í lokin þegar búið er að fyrirgefa og þá finnst skor með forgjöf.

Ég trúi því að þannig verði það einnig þegar við mætum dómara okkar í leik lífsins á efsta degi. Hann reiknar og fyrigefur, því Guð er uppspretta elsku og umhyggju, fyrirgefningar og náðar – já, hann náðar okkur þó við séum öll sek – hann er Guð lífs og leiks og þess vegna er svo magnað að fá að þjóna honum í hvaða starfi sem er og jafnvel án fastrar vinnu og líka á eftirlaunum, með því að efla líf og leik, gleði og fögnuð yfir því undri að hafa þegið lífið að gjöf.

Mikilvægustu verkefni lífsins eru í rauninni bara þrjú:

– Í fyrst lagi, að lifa í kærleika og sátt við samferðafólkið, að gera eins og Jesús sagði: elska nánungann eins og sjálfan sig,

– Í öðru lagi, að lifa í kærleika og sátt við náttúruna, umhverfið og njóta þess, ekki bara í sjónvarpinu, heldur með því að fara út og anda náttúrunni að sér og skynja sig hluta af náttúrunni, sköpun Guðs.

– Í þriðja lagi, að skynja sig í hinu stóra semhengi alls sem er, að við skynjum okkur sem börn Guðs í heimi hans og láta um okkur muna þar, gefa fólki forgjöf – fyrirgefningu – gefa af okkur sjálfum með hjálpsemi, heimsækja sjúka, styðja þau sem standa höllum fæti, reynast öllum vel og gleyma ekki að þakka Guði fyrir lífið, gjöfina stærstu og það gerum við með því að sækja guðshús og efla okkur þannig í guðsþjónustu hins daglega lífs í heimi Guðs.

Guð blessi minningu góðs vinar, Hákons Sigurðssonar og Guð blessi þig, Katrín kær og fjölskyldu þína, Margréti Sif og Ólaf Þór, barnabörnin Thelmu Hlíf og Jón Hákon, ættingja og vini – og okkur öll sem enn erum á lífsveginum og þráum að verða betri manneskjur og lækka forgjöfina – bæði í golfinu og lífsleiknum!

Amen

Kveðjur voru fluttar frá:

-Ástu Baldvinsdóttur og Lars Magne Kalvines í Stavanger í Noregi

-Rakel Sveinsdóttur á Ítalíu

-Sigrúnu og Gunnari í útlöndum.

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons