fv. hótelstjóri
Bálför frá Fossvogskapellu
mánudaginn 28. apríl 2025 kl. 13


Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Emil Guðmundsson
1933-2025
Í hinni fögru Fossvogskapellu kveðjum við Emil Guðmundsson og þökkum fyrir líf hans og störf. Þetta er síðasta byggingin sem hann dvelur í á lífsvegi sínum. Líkja má kapellunni með sínum fögru gluggum og sögu þeirra um þjáningu Krists og dýrð, að hún sé eins og hótelmóttaka. Hingað er hann kominn og héðan fer hann á sinn hinsta hvílustað, þegar við höfum kvatt hann, bókaður til hvílu í helgum reit til að bíða hinsta útkalls og birðingar til mikilvægustu ferðar tilverunnar með himininn sjálfan að marki og borg Guðs. Og lykilinn hefur hann með sér í trúnni á miskunn Guðs og elsku.
Páskar eru að baki og nú eru teknir við svonefndir gleðidagar fram að uppstigningardegi. Þeir vísa til þess tíma þegar Jesús birtist fylgjendum sínum upprisinn áður en hann hvarf þeim sjónum. Emmausfrásagan sem lesin var er um stutta ferð og áfangastað þar sem ferðalangar settust niður og snæddu.
Kristin trú er ekki heimspekikenning eða kerfi heldur byggir hún á frásögnum úr mannlífinu. Hún er um fólk sem hittist, nýtur veitinga, spjallar og speglar sig í atvikun dagsins og veltir fyrir sér morgundeginum sem aldrei er fastur í hendi.
Biblían byrjar á að staðsetja manninn í hinni sköpuðu veröld Guðs. Þar með hefst saga hans og vegferð í heiminum. Við erum hluti af þessari sögu og við erum líka ferðalangar í leit að samastað á lífsveginum og síðan lokahvílu og vist í himni Guðs. Kristin trú er því jarðbundin og lifir einkum í frásögnum af fólki eins og okkur. Og meira að segja gerðist Guð sjálfur maður í Kristi. Nær komumst við ekki hina æðsta og helgasta.
Við erum ferðamenn og í lífinu mætir okkur margur maðurinn, karlar, konur, sem veita okkur þjónustu. Öll erum við þjónar og Kristur sagði þjóninn mestan allra.
Jólaguðspjallið flytur okkur m.a. þá staðreynd að Jósef og María fengu hvergi inni í gistihúsi og urðu því að dvelja í fjárhúsi. Sá staður var ekki uppá margar stjörnur, en yfir honum skein þó stjarna, sem tekur öllum öðrum störnumerkingum gististaða fram, ekki vegna staðarins, heldur Hans sem þar fæddist til blessunar fyrir mannkyn allt.
Lífið er vegferð, áfangar, gististaðir á leiðinni til hinnar helgu borgar í himni Guðs, á leiðinni heim!
Guðbjörn Emil Guðmundsson, hét hann fullu nafni, fv. hótelstjóri. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 11. apríl síðastliðinn, 91 árs að aldri.
Emil fæddist á Akranesi 31. júlí 1933 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðmundur Veturliði Bjarnason og Guðríður Gunnlaugsdóttir. Emil átti einn eldri bróður, Harald Ársæl, sem lést 2005.
Emil starfaði lengst af sem hótelstjóri Hótels Loftleiða, eftir að hafa verið stöðvarstjóri hjá Loftleiðum. Eftir árin á hótelinu var hann svæðisstjóri Flugleiða hér á landi og erlendis um árabil. Hann er einn af þeim mörgu fulltrúum þeirrar kynslóðar sem lagði grunninn að alþjóðlegri flugstarfsemi hér á landi. Á efri árum skipulagði Emil ferðir til Færeyja, Grænlands og Danmerkur og tók að sér fararstjórn í mörgum þeirra.
Emil var jafnframt virkur í félagsstörfum. Hann sat í stjórn Sögufélags Loftleiða og var iðinn við að rækta tengsl fyrrverandi starfsmanna Loftleiða með reglulegum samfundum. Hann var einn af stofnendum Hins íslenska skötufélags, stofnað 1971, ásamt Sigurði Magnússyni, sem einnig var þekkt sem Skötuklúbbur Emils. Félagið stendur fyrir skötuveislu á hverju ári, á Akranesi eða í Hafnarfirði.
Eiginkona Emils var Sigurbjört Bíbí Gústafsdóttir, f. 1935, d. 2019. Synir þeirra eru:
Kjartan Þór, fyrrverandi fluggagnafræðingur Isavia, f. 1955, kvæntur Maríu Priscillu Zanoriu, og
Ragnar, deildarstjóri eftirlitsdeildar Orkubús Vestfjarða, f. 1962, kvæntur Sóleyju Chyrish Villaespin. Barnabörnin eru fimm talsins og barnabarnabörnin sjö.
Ungur gerðist hann skáti og drakk í sig heilnæma hætti skátastarfsins, sem opnar augu ungra sem eldri á umhverfi og náttúru, eflir gleði og samfélag með samvinnu og söng, víkkar hugsunina út fyrir land og álfur. Sem drengur var ég skáti og þar lærði ég margt gott og er þeim þakklátur sem leiddu starfið á Ísafirði forðum daga.
Ungan dreymdi Emil um að ferðast og fór í ógleymanlega för með skátum á Jamboree-mót í Sviss. Hópurinn fór utan með Gullfossi og ferðaðist svo með lestum til mótsins í Ölpunum. Þar með má segja að stórt ævíntýri hafi virkilega farið í farveg sem hann fylgdi upp frá því. Hann varð einn af þeim sem efldu Ísland sem eftirsóttan áfangastað og lagði sig ætíð fram um að mæta þörfum ferðamanna með gæðaþjónustu og sínu hlýlega og bjarta viðmóti.
Ég má til með að segja frá því að er ég kom hingað til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf í Verzlunarskólann hafði ég rúman tíma til undirbúnings en hann fór þó m.a. í að vinna í byggingarvinnu við hið nýja hótel Loftleiða. Þar reif ég m.a. steypumótin utan af gosbrunninum á neðstu hæð þar sem hringstiginn endar – eða byrjar!
Emil var vinsæll yfirmaður hvar sem hann var valinn til forystu, framsýnn og hugmyndaríkur og kveikti áhuga samstarfsfólks á þróun þjónustu og nýbreytni.
Ég kynntist Emil lítillega vegna starfa minna og svo hitti ég hann á fundum í þeim góða félagsskap, Frímúrarareglunni. Í því samhengi valdi hann sér þessi einkunnarorð, sem kallast á við vers í Orðskviðum Salómons: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður.“
Ætíð var bjart yfir Emil. Hann var maður ljóss og birtu. Viðmótið hlýtt og handtakið þétt. Slík eru aðalsmerki manna sem eru heilir og hafa yndi af lífinu og að mæta fólkinu, sem verður á vegi þeirra.
Breskur fræðimaður, (Iain McGilchrist) hvers bækur ég hef lesið og hlustað á fyrirlestra með, bendir á að til þess að lifa merkingarbæru lífi þá þurfum við að lifa í góðu sambandi á þremur sviðum:
– Að vera í góðum tengslum við mannlífið, hið félagslega í veröldinni og að elska náungann.
– Að vera í nánum tengslum við náttúruna og skynja í hjarta okkar skyldleikann við umhverfið, landið, jörðina.
– Að vera í tengslum við almættið, skynja okkur í hinu stóra samhengi og trúa á Guð.
Fræðimaðurinn er læknir á geðsviði, hann er jafnframt menntaður í líffræði, bókmenntum og heimspeki.
Annar maður, nýgenginn, Franz páfi, sem lést á 2. í páskum, setti sterkan svip á kirkju sína og hafði mikla útgeislun og áhrif. Þessi orð eru höfð eftir honum:
Ár drekka ekki eigið vatn.
Tré eta ekki eigin ávexti.
Sólin skín ekki á sjálfa sig.
Blómin ilma ekki í eigin þágu.
Að lifa fyrir aðra er náttúrulögmál.
Við fæðumst öðrum til stuðnings.
Og þá breytir engu um hversu erfitt lífið getur orðið.
Lífið er gott þegar hamingjan er annars vegar.
Lífið er enn betra þegar annað fólk upplifir hamingju vegna þín.
(Franz páfi)
Lífið er verkefni, lífið er þjónusta, lífið er fólgið í því að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig.
Skátahreyfingin starfar, einmitt á þessum sviðum, mannlífi, náttúru og trú á hið stóra samhengi alls sem er.
Í blaðinu Skátinn í nóvember 1931 var m.a. ritað:
„Vertu viðbúinn, það eru einkunnarorð skáta; það felur í sér lífsstefnu þess, sem vill verða góður og nýtur maður. Að vera viðbúinn hverju, sem að höndum ber og geta fleytt sér ósködduðum yfir ólgusjó lífsins, það er list, sem aldrei verður að fullu lærð, því þótt ein báran sé sigruð, þá rís óðar önnur ný, sem líka þarf að sigrast á.“ (Tímarit: Skátinn 8. tbl. 01.11.1931)
Emil var vinsæll maður sem kom víða við. Hann var farsæll gæfumaður, átti góðan lífsförunaut í sinni elskulegu eiginkonu, Bíbí, sem hann saknaði mjög. Synir hans og barnabörn voru honum til gleði og uppörvunar, svo og vinir og fyrrum samstarfsmenn.
Einkunnarorð skáta eru: Vertu viðbúinn. Við þurfum á hverri tíð að vera viðbúin að mæta því sem að höndum ber og takast á við áskoranir lífsins. Í þeim efnum skiptir öllu að eiga traustan grunn og vera tengdur himninum og gildum hans.
Fyrirheit Guð er að við eigum vísa vist hjá honum í himninum, þar sem verður rúm handa öllum. Kirkjan okkar er almenn, eins og segir í Postullegu trúarjátningunni, öllum opin en geta má þess að orðið almenn er þýðing á orðinu kaþólsk. Þjóðkirkjan okkar er opin eins og aðrar kirkjudeildir sem ekki fara í manngreinarálit.
Um þessa vídd kirkjunnar orti séra Friðrik Friðriksson:
Í hennar háu sölum
býr heilög, frelsuð drótt,
í trú og einum anda
hún á sinn mikla þrótt.
Þar rúmast allir inni
með einum hug og sál
og sérhver kynslóð sést þar
og sérhvert heyrist mál.
Gistihús himinsins er ekki fullbókað. Þar „rúmast allir inni“ og engum verður vísað í kalt fjárhús.
Við kveðjum Guðbjörn Emil Guðmundsson, með virðingu og þökk. Honum sem tók á móti þúsundum verður án efa vel tekið í móttöku himinsins.
Blessuð sé minning Emils og Guð blessi okkur öll sem enn erum á lífsveginum í leit að gistingu eða erum þegar búin að bóka okkur í því besta og mesta skjóli sem veröldin þekkir.
Amen.
You must be logged in to post a comment.