Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
Valgerður Sigurðardóttir
16. september 1933 – 11. apríl 2025
Útför frá Hofskirkju
23. apríl 2025 – síðasta vetrardag


Friður Guðs sé með ykkur.
Sveitin tekur á móti dóttur, sem snýr heim í hinsta sinn, með mikilli birtu sólar og hvítum snævarmöttli.
Veturinn er að gefa eftir í baráttu sinni við birtu og yl og brátt kemur betri tíð. Í dag er síðasti vetrardagur og á morgun sumardagurinn fyrsti.
Forðum skiptu landsmenn árinu í tvær árstíðir, sumar og vetur og aldur fólks var mældur í vetrum eins og enn á t.d. við um hross.
Sumardagurinn fyrsti var hátíðisdagur forðum sem nú en þá gaf fólk hvert öðru gjafir. Ég man það sem drengur að félagið Sumargjöf gaf öllum börnum landsins á vissum aldri bók með fögrum sögum.
Þegar ég þjónaði sem prestur í Noregi um tíma og reyndi að útskýra fyrir fólki þar, þetta með sumardaginn fyrsta og lýsti því hvernig við héldum uppá hann, hvort sem úti væri éljagangur og rok eða sól og blíða, því hann væri dagur vonar. Og í þeim skilningi er sumardagurinn fyrsti líka dagur trúar.
Í Hinni helgu bók, þeirri miklu trúarbók, sem hér liggur á altarinu, er aðeins á einum stað skilgreining á hugtakinu trú, sem hljóðar svo:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona,
sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“
(Heb 11.1)
Sumardagurinn fyrsti raungerir nákvæmlega þessa trúarlegu formúlu.
Að þessu sögðu lifum við á mærum vetrar og sumars.
Og lífið er í raun, alla ævina, líf á mærum og hangir ætíð á bláþræði, í senn veikt og ólseigt.
Á 2. í páskum messaði ég í kirkjunum í Þórshöfn og Skeggjastöðum og þar staðhæfði ég þetta um lífið:
„Enginn kemst lifandi úr þessu lífi.“
Séra Hallgrímur orti:
Afl dauðans eins nam krenkja
alla í veröld hér.
Skal ég þá þurfa´ að þenkja
hann þyrmi einum mér?
Adams er eðli runnið
í mitt náttúrlegt hold,
ég hef þar og til unnið
aftur að verða mold.
Við kveðjum hér konu sem lifði lífinu af elsku og ábyrgð og tókst á við það í trú, von og kærleika.
Valgerður Sigurðardóttir fæddist 16. september 1933 á Ljótsstöðum, Vesturárdal í Vopnafirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju, Egilsstöðum þann 11. apríl síðastliðinn.
Á föstudaginn var sem ber heitið hinn langi, eftir lestur Passíusálma hér í Hofskirkju, sátum við nokkur saman og drukkum kaffi í Safnaðarstofunni og ég stökk heim á Hof og sótti vatnslitamynd sem mig langaði að sýna hópnum. Myndina málaði ég eftir gamalli ljósmynd af prestssetrinu og kirkjustaðnum hér á Hofi í byrjun liðinnar aldar. Þá var á það minnst, að sóknarpresturinn hefði verið á heimleið frá því að skíra hana Valgerði á gamlársdag 1933, og er hann kom heim að Hofi, stóð prestssetrið í björtu báli.
Svona minnir fortíðin á sig gagnvart okkur sem enn erum á lífsveginum. Fólk rifjar upp horfna tíð, atburði og atvik tengd fólki sem er hér enn, horfið fyrir löngu eða nýlega.
Og nú er hún Valgerður kvödd hér í kirkjunni að Hofi.
Valgerður, eða Gerða, eins og hún var jafnan kölluð, var dóttir hjónanna:
Sigurðar Gunnarssonar, bónda og oddvita á Ljótsstöðum (f. 5. nóvember 1895 d. 24. maí 1974)
og
Jóhönnu Sigurborgar Sigurjónsdóttur, húsfreyju frá Ytri-Hlíð, (f. 9. nóvember 1900 d. 5. júní 1992).
Systkini Valgerðar eru:
Gunnar (1924-2015),
Sigurjón (1925-2008),
Ágúst (1926- 2023 ),
Sigurður (1928-2010),
Jörgen (1930-2000)
Jón, (1932-2019),
Anna , fædd 1935 ,
Katrín, fædd 1936
og Árni (1943-2020).
Valgerður eignaðist tvær dætur með Hreiðari Ásmundssyni, þau slitu samvistir. Þær eru:
Margrét , f. 17. febrúar 1964,
eiginmaður hennar er Jökull Hlöðversson
og
Unnur, f. 1. nóvember 1967,
sambýlismaður hennar er Sigurður Jóhannesson.
Dóttir Unnar og fyrrverandi eiginmanns hennar,
Egils Steingrímssonar (f. 18. september 1963 d. 26. apríl 2015) er
Hanna Sóley, f. 7. janúar 1999.
Valgerður ólst upp á Ljótsstöðum og við nám í farskóla og hefðbundin sveitastörf þess tíma.
Hún lauk námi í klæðskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík og dvaldi hluta vetrar í Danmörku þar sem hún lærði sniðteikningu. Í Reykjavík starfaði hún á saumastofunni Últíma og Fatagerð Ara og Co sem gekk undir styttingunni FACO, þar til hún flutti aftur á æskuslóðirnar í Vopnafirði.
Á yngri árum vann hún einnig meðal annars við fiskvinnslu og síldarsöltun.
Ég spurði dæturnar hvenær hún hefði unnið hjá Últíma og Faco og það var á 7. áratugi liðinnar aldar sögðu þær og það fullvissaði mig um að hún Valgerður hafi án efa sett sín saumaspor í jakkaföt með útvíðum buxum að hætti Bítlatímans, sem ég keypi í Faco. Já, víða liggja þræðir!
Á Vopnafirði starfaði hún lengst af við kjötborðið í verslun Kaupfélags Vopnfirðinga, en síðustu ár starfsævinnar í eldhúsi hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.
Einnig tók hún að sér fatasaum og viðgerðir á heimili sínu.
Valgerður átti sér ýmis áhugamál.
Náttúran var henni hugleikin, hún fékk sér gjarnan bíltúr um nágrenni Vopnafjarðar með myndavél í farteskinu. Afraksturinn varð oftlega fyrirmynd málverka sem hún skapaði.
Hún hafði mikla ánægju af að mála, sótti nokkur námskeið og var í félagsskap kvenna sem hittust og unnu saman að list sinni. Þær samverustundir voru henni mikls virði.
Já, það er skemmtileg iðja að mála, mála himin og jörð, hús og hæðir, en það sem skiptir mestu í málaralist, er að mála ljósið – og það verður aðeins gert með því að mála sterka skugga, sem magna upp ljósið og fá það til að sindra.
Á árum áður var hún félagi í Ferðafélagi Vopnafjarðar og slysavarnardeildinni Sjöfn.
Hún naut þess að ferðast með Ferðafélaginu og einnig vinnuferðanna sem farnar voru á þess vegum. Hún brá sér líka nokkrum sinnum út fyrir landsteinana, ferðaðist bæði með dætrum sínum og kunningjum.
Þrenn tengsl skipta okkur mestu í lífinu, tengslin við samferðafólkið, við náttúruna og almættið.
Franz páfi sem lést í fyrrradag, á 2. í páskum, sagði þessi orð sem gott er að íhuga.
Ár drekka ekki eigið vatn.
Tré eta ekki eigin ávexti.
Sólin skín ekki á sjálfa sig.
Blómin ilma ekki í eigin þágu.
Að lifa fyrir aðra er náttúrulögmál.
Við fæðumst öðrum til stuðnings.
Og þá breytir engu um hversu erfitt lífið getur orðið.
Lífið er gott þegar hamingjan er annars vegar.
Lífið er enn betra þegar annað fólk upplifir hamingju vegna þín.
(Franz páfi)
Í áratugi bjó Gerða í Baldursheimi, húsi sem foreldrar hennar festu kaup á árið 1968. Móðir hennar bjó á neðri hæðinni nánast til síðasta dags og Gerða og dæturnar á þeirri efri. Katrín systir Gerðu og dætur hennar tvær bjuggu einnig í Baldursheimi um tíma.
Haustið 2019 flutti Gerða á dvalarheimilið Sundabúð á Vopnafirði, þar bjó hún þar til í haust sem leið að hún fluttist á Dyngju.
Ég flyt ykkur kveðjur sem mér hafa borist í tölvupósti:
Margrét Jóhannsdóttir sendir kveðjur sína og systra sinna með þakklæti fyrir samfylgdina. „Við verðum því miður fjarverandi“ sagði hún.
Þá er hér kveðja sem María Svanþrúður Jónsdóttir, sendir fyrir hönd afkomenda Jóns bróður hennar, sem lést fyrir 6 árum. Kveðjan er svohljóðandi: „Börn Jóns og fjölskyldur þeirra biðja fyrir kærar kveðjur og með þakklæti fyrir allt.“ Jón flutti til Seyðisfjarðar 1957 en ætíð voru miklir kærleikar á milli hans og Valgerðar og reyndar allra þessara systkina. Við erum 6 systkinin Jónsbörn, segir hún, og að öllu forfallalausu er María hér í dag og verður ein líkmanna.
Rúnar Valsson, sem staddur er á Spáni, bað fyrir kveðju og þakkæti fyrir samskiptin öll við góða vinkonu.
Eins og áður var komið fram átti hún Valgerður tíu systkini og voru þau öll dugleg að halda góðu sambandi og því má gjarnan halda til haga að hún fékk ómetanlegan stuðning frá systkinum sínum og foreldrum um ævina.
Eftir að hún flutti á dvalarheimilið Sundabúð var gott að vita af systkinum hennar þar og þegar minni hennar fór að hraka aðstoðaði Anna systir hennar hana af mikilli umhyggju.
Á páskadag talaði ég m.a. um það „að setjast í helgan stein“ við guðsþjónustu í Sundabúð. Hvað merkir þetta orðtak á íslensku, „að setjast í stein“, en ekki „á“ stein eins ætla mætti að réttara væri. Skýringin er sú að það var kristin kirkja, sem hóf hjúkrun utan sveitaheimila og starfrækti m.a klaustur hér á landi og þangað leitaði gjarnan aldrað fólk og sjúkt og óskaði eftir umönnun og hjúkrun til æviloka og greiddi fyrir þjónustuna t.d. með jarðarparti. Heilbrigðisþjónustan kostaði þá eins og nú. Öldruð hjón gátu þá til að mynda flutt í „hinn helga stein“, í klaustrið og fengu þar umhyggju og hjúkrun til hinsta dags. Heilbrigðisþjónustan í landinu á því rætur í kærleiksþjónustu kirkjunnar og sama má segja um skólana en það voru prestar sem hófu að kenna öllum börnum að lesa á 17. öld.
Ef við erum eða verðum svo heppin að ná góðum aldri, þá getum við sezt í helgan stein, bæði á þann hátt að flytja í þjónustustofnun eins og t.d. Sundabúð eða búið heima í okkar eigin helga steini, því hvert heimili er helgur staður, friðhelgur í lagalegum skilningi og vonandi líka í andlegum efnum. En vonandi lendum við þó aldrei á lífsleiðinni í „steininum“ svo ég leiki mér nú ögn með orð og merkingu þeirra!
En að öllu gamni slepptu þá getur lífið verið okkur fjötur um fót og okkur liðið á stundum eins og við séum föst í erfiðum aðstæðum. Þá er lausnin að hugsa jákvætt og brjótast út úr þeim fjötrum sem lífið stundum færir okkur öllum í einhverri mynd.
Mér er það ljóst af þeim minningum sem dætur Valgerðar sögðu mér frá, að hún var sterk kona og sjálfstæð og lét ekki erfiðar aðstæður ráða öllu, heldur tók hún til sinna ráða á hverri tíð og braust út úr því, sem hún taldi að unnt væri að bæta.
Að lifa í von og trú er í raun það eina sem í boði er fyrir okkur meðan við eigum þetta eina tækifæri í allri sögu alheimsins að fá að lifa og starfa. Og ekki spillir það nú að eiga rætur í landi, sem í senn er fagurt og frítt, en hefur svo einnig þær hliðar að hret geta tafið sumarkomu. En þá fögnum við bara í nepju og hríðum og syngjum sumarið inn í hjörtu okkar, í þeirri vissu og von, að brátt komi betri tíð. Mótlætið herðir okkur, styrkir og þroskar þegar bezt lætur.
Enginn sleppur lifandi úr þessu lífi, en trúin boðar nýja tilvist, eilíft líf í himni Guðs. Sú von er skyld þeirri, sem um vetur bíður sumarkomunnar.
Gleðilega sumarkomu! Og með páska í hjörtum er gott að minnast hinnar fornu páskakveðju og játningar:
Kristur er upprisinn!
Kristur er sannarlega upprisinn!
Guð blessi minningu Valgerðar Sigurðardóttur. Hér kveðja hana þakklátir afkomendur, systur, skyldfólk, vinir og samferðafólk og heiðra minningu hennar.
Og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum. Amen.
You must be logged in to post a comment.