Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Björgvin Agnar Hreinsson
f. 1. febrúar 1964 – d. 23. janúar 2025
Fyrir neðan myndina er tengill á ræðuna til að lesa og/eða hlusta.



Guðspjallið:
Salt og ljós
13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og
troða undir fótum. 14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. Matt 5.13-16
Björgvin Agnar Hreinsson er fallinn frá, langt um aldur fram.
Ég hef nú fengið að kynnast hans mörgu góðu kostum í gegnum ástvini hans sem sakna góðs drengs, sonar, bróður, föður, afa, frænda, sambýlismanns.
Hann var drengur góður, þekktur fyrir hjálpsemi og elskulegt viðmót. Hann lagði þessu samfélagi margt gott til með kröftum sínum, hæfileikum og gáfum.
Hann átti góða bernsku hér á Vopnafirði.
Hann var ykkur fyrirmynd á svo margan hátt og verður það áfram í minningunni.
Ég fékk að heyra margt fagurt um hann er ég hitti ástvini hans.
Anda, sambýliskona hans, ræddi um hans fögru sál, hjartað barmafullt af elsku, gjafmildi hans, bæði hvað varðar veraldlega hluti og hjálpsemi. Hann gaf af sér með bros á vör og fór ekki í manngreinarálit í þeim efnum. Öndu fannst gott og auðvelt að vera í návist hans á fögru heimili, í friðsemd og gleði. Lífið er yndislegt, sagði hann við hana daginn áður en hann dó.
Þegar verkirnir voru miklir og mótlætið mest, sagði hann oft: „Á morgun kemur betri tíð.“
Linda, móðir hans, talaði um „dásamlegan son sinn“ og Hreinn faðir hans tók undir orð hennar og dásamaði soninn, öll börnin og barnabörnin, tengdabörnin – og hann Thorberg líka!
Svo bætti pabbi við: Gleðin var mikil með honum en hann gat líka skotið fast og verið mjög stríðinn! Og þá hlógu allir í stofunni!
Já, hann var stríðinn og uppátækjasamur. Hann fór oft á milli húsa, kom óvænt til skyldmenna og vina, fann matarlykt margar mílur og rann á ilminn. Ef hann heyrði af tvíreyktu hangikjöti á aðventunni, heyrðist í vélinni í bílnum hans og hann var mættur í lærið, reykspólandi eftir mínútu. Hann var mikill matmaður og sælkeri. Þau sögðu að hans yndi hefði verið að „kroppa“ – fá sér smá í gogginn, smakka og narta.
Hann var heljarmenni af kröftum, hafði stundað köfun um árabil. Eitt sinn tók hann 300 lítra kar og henti fyrir borð þegar ólag kom á bátinn hjá pabba.
Anda, sambýliskona hans, segir um hann:
Björgvin var hugrakkur en auðmjúkur í senn. Hann sagði við hana að Guð hefði gefið sér sérstakt hlutverk eða mission. Hann hlustaði gjarnan á aðra en setti sig síður í forgang. Auðmýkt hans var undraverð. Björgvini fannst lífið vera sem blessun og hann og Anda voru hvort öðru blessun. Hann skildi eftir sig dýrmætan arf með hjálpsemi sinni og kærleika.
Svo er það slysið sem átti sér stað árið 2020 en hann var þá um borð í skipi sem lóðs og er hann fór niður kaðalstigann að hlutverki loknu á síðu skipsins, veltist lóðsbáturinn við skipið stóra og allt í einu varð vinstri fótur hans á milli lunningar báts og síðu skips. Líf hans hékk á bláþræði en hann hélt meðvitund allan tímann. Spurður um hvort verkir væru miklir, svaraði hann: „Segðu bara töluverðir.“ Björgvin var hraustmenni sem var jafnan yfirvegaður í öllum aðstæðum.
Mitt í þessari hræðilegu reynslu, sagðist hann hafa séð Ljósið!
Margir einstaklingar, konur og karlar, hafa séð ljósið í erfiðum aðstæðum, konur við barnsburð, sem lifðu af að fæða barn, sjómenn í lífsháska, fólk í ótal aðstæðum. Og allir sjá það sama, sjá Ljósið!
Jesús sagði:
„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (Jh 8.12)
Hvað felst í því að fylgja Kristi og ljósi hans? Í því felst m.a. að reynast öðrum vel, að elska náungann og dæma hann ekki þrátt fyrir að sumum kunni að þykja að þessi eða hinn eigi það nú skilið.
Þegar þú brosir til samferðafólksins, býður góðan dag, mætir fólki með virðingu og í kærleika, þá ertu að heila heiminn. Við erum í vissum skilningi, öll að stuðla að heilbrigði með kærleika og hlýju viðmóti.
Heilbrigðisstarfsmenn, kennarar, lögreglumenn, tollverðir, opinberir starfsmenn, verkafólk og heimavinnandi, ungmenni og börn, fatlaðir, aldraðir, eftirlaunafólk, björgunarsveitarfólk, djáknar, prestar – við erum öll kölluð til þjónustu við ljósið, við Krist og hið góða sem hann stóð og stendur enn fyrir – því hann lifir!
Allskonar félög sem sinna eflingu mannlífs, eru í raun heilbrigðisþættir í samfélagi okkar;
samtök vinnandi stétta stuðla að réttlæti og sanngirni, fyrirtæki efla þjóðfélag með verðmætasköpun, kvenfélög og kirkjukórar, góðgerðarfélög og klúbbar, menningarviðburðir og messur,
allt sem við gerum á sviði menningar, er til eflingar mennskunni eins og orðið menning gefur til kynna.
Og Kristur var kallaður Mannssonurinn, sannastur allra manna, allra manneskja, kvenna og karla.
Og svo eru það félögin sem vinna að sálarheill og þá nefni ég t.d. AA-samtökin sem vinna kraftaverk alla daga og spara þjóðfélaginu milljarða ár hvert í betri heilsu fólks, betri líðan og bjartari.
Samtök og félög eru mörg sem vinna að því að efla birtuna meðal okkar.
Björgvin Agnar trúði á ljósið í lífinu. Hann var lausnamiðaður í daglegu lífi og sagði gjarnan ef eitthvað bjátaði á: „Við lögum þetta.“ Hann var handlaginn og allt lék í höndum hans. Hann fékkst við silfursmíði, saumaskap, byggði hús, gerði við bíla. Hann gat allt og hafði „dillur“ fyrir mörgu, sagði fólkið og hló. Já, það var hlegið og brosað í gegnum tárin á fundinum með ástvinum hans.
Björvin var bóngóður. Ef einhver kom í bæinn og spurði hvort hægt væri að veiða, var hann farinn með fólkið út á fjörð á sjóstöng.
Hann var barngóður og börnin sem hann tók að sér fundu það og áttu ætíð góð tengsl við hann. Drengir sem áttu bágt, fundu skjól hjá honum. „Ég held ég gæti ekki oflofað hann Björgvin“, sagði Hreinn faðir hans og það er góð einkunn.
Eitt sinn kom hann að manni sem var að reyna að stela bílnum hans og sagði: „Næst þegar þú ætlar að stela bílnum, viltu þá ekki bara biðja fyrst um lyklana hjá mér?“
Anda talaði um trúna sem hann átti í hjarta sér og sú trú var sterk.
Björgvin fæddist í Reykjavík 1. febrúar árið 1964, hann lést á heimili sínu þann 23. janúar s.l.
Hann er sonur hjónana Hreins Björgvinssonar f. 27.2.1943 frá Vopnafirði og Lindu Elísabetar Eymundsdóttur f. 06.10.1946 frá Sandi í Færeyjum. Systkini Björgvins eru Valdís Edda f. 05.01.1966 og Björn Gunnar Hreinsson f. 27.05.1972.
Björgvin ólst upp á Vopnafirði og bjó þar alla tíð fyrir utan vertíðar á Höfn í Hornafirði og skólagöngu í Reykjavík, en hann stundaði nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla og Lögregluskóla ríkisins. Hann fór snemma að stunda sjómennsku með föður sínum og 1981 keypti hann svo hlut í bát með honum.
Björgvin var félagi í Björgunarsveitinni Vopna í mörg ár og vann ötullega að stofnun Björgunarbátasjóðs Vopnafjarðar og sótti m.a. fyrsta björgunarskipið, Sveinbjörn Sveinsson, til Hollands. Og þarna er enn einn vettvangurinn nefndur sem er til ljóseflingar í lífinu.
Björgvin var í sambúð með Sveinbjörgu Karlsdóttur til skamms tíma og gekk syni hennar Þorsteini Bárðarsyni í föðurstað og hefur alla tíð verið hlýtt á milli þeirra.
Hann hóf svo sambúð með Súsönnu Rafnsdóttur árið 2000 og giftu þau sig á fertugsafmæli hans, 2004 en skildu árið 2020. Súsanna á fjögur börn en Björgvin ættleiddi svo yngstu drengina. Þau eru:
1) Eiríkur Páll Aðalsteinsson f. 30.08.86, sambýliskona hans er Kristín Valsdóttir og börn þeirra eru Styrmir Steinn og Starri.
2) Elísabet Lára Aðalsteinsdóttur f. 26.10.87, sambýlismaður hennar er Helgi Már Valdimarsson og börn þeirra eru Valdimar Tómas og Sara Dís.
3) Sigurbjörn Reynir Björgvinsson f. 22.10.89, sambýliskona hans er Margrét Birna Henningsdóttir, börn þeirra eru Heimir Knaran (frá fyrra sambandi), Steindór Bjarki f. 20.9.2023 d. 20.9.2023 og stúlka Sigurbjörnsdóttir.
4) Símon Grétar Björvinsson f. 14.1.1992, sambýliskona hans er Saara Annikki Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Amelía Rakel og Gabríel Nökkvi. Björgvin gekk þeim öllum í föðurstað.Björgvin var starfandi við lögregluna á Austurlandi með hléum í um það bil 20 ár. Ýmist fastráðinn eða í afleysingum. Meðfram þeim störfum vann hann ýmis önnur störf eins og á bílaverkstæðum, hjá verktökum og á sjó. Sjálfur gerði hann út bát, Votaberg NS, í nokkur ár á þessu tímabili. Síðan starfaði hann sem hafnarvörður á Vopnafirði þar til 2017 en þá um áramótin tók hann við útgerð föður síns og gerði út Eddu NS 113 til æviloka.
Björgvin stundaði köfun og hafði til þess réttindi. Hann þvældist út um allt land, bæði í atvinnuskyni og sportköfun og kafaði oft með Sportkafarafélaginu þegar þeir félagar gerðu sér ferð út á land.
Í mars 2020 lenti hann í fyrrnefndu slysi. Hann átti í þessu það sem eftir var og á 60 ára afmælinu sínu var vinstri fóturinn tekinn af honum fyrir neðan hné.
Þá eru það þankar frá Birni bróður:
Jæja, þá er Bjöggi bróðir búinn að kveðja. Ekki get ég sagt að ég hafi átt von á því núna loksins þegar það var farið að birta til hjá honum eftir erfið ár.
Þegar svona skeður fer maður ósjálfrátt að hugsa aftur í tímann og gera upp fortíðina. Er eitthvað sem ég hefði viljað gera betur eða öðruvísi. Ég held að heilt yfir hafi okkur bræðrum komið mjög vel saman alla tíð fyrir utan eina uppákomu, sem ég man eftir, en það voru önnur öfl sem komu þar nærri. Þegar ég hugsa um það hvernig maður Bjöggi var þá eru það orðin góður og jákvæður sem koma fyrst upp í hugann. Vinur vina sinna. Það er sagt að það séu allir góðir þegar þeir eru búnir að kveðja, en hvernig börn löðuðust að honum og hvernig samskipti hans og fósturbarna hans hafa verið í gegnum tíðina, þá held ég að það sé engin spurning að þarna var góður maður á ferðinni. Annars hefðu þessi samskipti verið með öðrum hætti. Og alltaf setti hann sjálfan sig í annað sæti. Hann var að hjálpa ættingjum, vinum og kunningjum út um allar trissur þó hann ætti ólokið ýmsu heima hjá sjálfum sér. Ófáa sólpalla hefur hann tekið þátt í að smíða þó hans eiginn lægi undir skemmdum og þyrfti sárlega á endurbótum að halda. Þegar ég hugsa til barnæsku minnar þá gaf Bjöggi sér tíma með mér. Hann átti bát með utanborðsmótor sem ég hafði ótakmarkaðan aðgang að sem krakki og þó eitthvað kæmi fyrir var það aldrei neitt vandamál. Það var bara lagað og svo var farið aftur á sjó. Hann smíðaði með okkur bryggju í fjörunni fyrir neðan æskuheimilið svo við gætum geymt bátana nær okkur. Fysta ævintýraminningin er þegar hann og Geiri Péturs tóku mig með í rafting. Þetta var ekki“rafting“ eins og við þekkjum í dag heldur tveggja manna gúmmíbátur sem við notuðum til að sigla niður laxveiðiárnar í Vopnafirði. Ég var nú reyndar ekki með þegar þeir fóru niður Selána á miðju veiðitímabili, laxveiðimönnum ekki til mikillar gleði þar sem þeir voru búnir að vera að geyma bestu hylina til kvöldsins. Sennilega ekki verið mikil veiði í þeim þann daginn. Ég mynnist þess ekki að við höfum nokkurn tíman verið saman á sjó með pabba. En oft var brallað í kringum útgerðina. Hann hefur verið farinn að sinna öðrum störfum þegar ég varð nógu gamall til að fara á sjó. Leiðir okkar lágu þó saman í gegnum Lögregluna. Bjöggi var starfandi með hléum sem lögreglumaður í 20 ár, ýmist fastráðinn eða í hlutastarfi. 1998 byrjaði ég sem héraðslögreglumaður á einni af fyrstu vöktunum mínum varð maður bráðkvaddur undir stýri inni í sveit og við fórum og sinntum því. Hjálpuðum til við að koma manninum á börur og í líkhúsið. Áfallahjálp var ekki til á þeim tíma, en hvernig hann tæklaði mig þegar hann sá hvernig mér leið eftir þessa fyrstu reynslu mína af látnum einstaklingi var alveg til fyrirmyndar. Þetta var bara rætt alveg í þaula og ekkert skilið útundan. Ég held að starf hans í lögreglunni hafi mótað hann því hann þurfti að sinna mjög mörgum ljótum málum á sínum strarfsferli. Ýmislegt upplifði ég, en þó ekkert í samanburði við hann. En það voru skemmtilegir tímar í þessu líka. Á fimmtudögum var farið á Seyðisfjörð til að tolla ferjuna og það var oft gaman í þeim ferðum. Hvort sem við vorum tveir á ferðinni eða með fleirum. Einhverntíman upp úr árinu 2000 fór Bjöggi að kafa. Þetta var eitthvað sem heillaði mig svo það var keyptur búnaður svo það væri hægt að fara með honum. Ýmislegt var brallað, hvort sem það var vinnutengt eða til gamans. Ófáar klukkstundir fóru í að ná í allskonar dót sem við fundum á hafsbotni, vélar, ankeri og ýmislegt fleira. Við keyptum okkur líka bát til að geta betur stundað þetta nýja áhugamál.
Ég tek hér inn minningar ástvina:
Frá Símoni.
Föðurást er eitthvað sem kom inní líf mitt með þér elsku Bjöggi, þú fylltir tóman stað í mínu hjarta. Hjálpaðir mér með allt sem ég tók mér fyrir hendur, öll ferðalögin og góðu stundirnar með þér, orð fá því ekki lýst hvað þú gerðir gott úr mínu lífi, verð þér ævinlega þakklátur og mun sakna þess að fá ekki stóru góðu faðmlögin þín, elska þig, þinn sonur Símon.
Frá Bjössa:
Að koma heim eins og það hefur og mun alltaf vera kallað, Vallhollt 23. Þú kenndir okkur að það er allt í lagi að mistakast. Í öllu því bralli sem við tókum okkur fyrir hendur, löglegt og minna löglegt. Þá vissi maður að ef allt klikkaði þá gat maður bara farið heim og lagað allt þar. Afabörnin elskuðu að skella sér í sveitasæluna til afa þar sem allir dagar voru nammidagar og afi var alltaf til í brall. Leyfið börnunum bara að vera börn og hafa gaman sagðir þú alltaf. Það er margt sem ég get sagt en það sem mig langar að segja er takk. Takk fyrir allt sem þú kenndir okkur og takk fyrir öll spjöllin. Takk fyrir alla aðstoðina. Takk fyrir að sýna mér hvað það þýðir að eiga besta pabba í heimi. Takk fyrir að kenna mér að enginn verður fátækur á því að gefa. Því ef einhvern vantaði eitthvað þá varst þú fyrstur á staðinn og vildir aldrei neitt fyrir það. Þú sagðir við mig að þegar þú lentir í slysinu þá hafir þú séð ljósið og staðinn sem við förum á og útskýrðir það svona ,,elsku drengurinn minn, þegar minn tími er kominn þá óttast ég ekki. Ég leit aðeins inn hinum megin og þar var allt svo fallegt og mér leið vel. Við þurfum ekki að óttast neitt þar“. Með þessum orðum kveð ég þig pabbi minn og besti vinur. Guð geymi þig.
Í Morgunblaðinu í dag er heilsíða með minningum um Björgvin sem þið getið lesið ykkur til fróðleiks um það hver Björgvin var og hvernig hann reyndist samferðafólki sínu með sinni ljóseflandi nærveru.
Ég tek hér smá sneiðar úr þessum skrifum:
Elísabet ritar:
Bjöggi var mikill afi og þótti svo gaman að fá barnabörnin sín til sín í Vallholtið. Gerði margt með þeim gaf þeim mikla hlýju, væntumþykju og knúsum … Takk fyrir allt og alla hlýjuna elsku afi. Þú varst ómetanlegur afi. Allar góðu minningarnar okkar geymast í hjörtum okkar.
Frá Eiríki:
Hvernig á maður að byrja á einhverju svona? Það fyrsta sem kemur í hugann þegar ég hugsa til þín Bjöggi minn er þakklæti. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir það að þú hafir komið inn í lífið okkar. Þetta var kannski ekki alltaf dans á rósum í byrjun, eftir að þú og mamma hófuð sambúð en fljótlega gekkst þú okkur í föðurstað og með okkur tveim tókst ævarandi vinátta sem ekkert fékk slitið. Við áttum ótal margar stundir saman þar sem við vorum eitthvað að bauka og brasa. Þú varst alltaf tilbúinn til þess að brasast og gera eitthvað með mér, hvort sem hugmyndin var mín eða þín … Allar kajakferðirnar, hvalveiðin fræga, sjóstangveiðin, skytteríin, heimsóknirnar til Þýskalands og mætti lengi telja! Best var samt alltaf þegar ég var búinn að vera svolítinn tíma í burtu og kom HEIM í Vallholtið og knúsaði þig. Það voru ávallt löng og góð faðmlög, því við vorum svo glaðir að sjá hvorn annan aftur. Síðustu ár voru ekki auðveld fyrir þig en þú tókst því sem á þig dundi með ótrúlegu æðruleysi, annað eins hef ég bara ekki upplifið. Alltaf jákvæður, boðinn og búinn að hjálpa öðrum án þess að biðja um eitthvað í staðinn. Það lýsir þeirri góðu sál sem þú hafðir að geyma hvað best! Ég veit að þér líður vel þar sem þú ert núna og þér sendi ég þéttasta knúsið til þessa. Ég elska þig Bjöggi minn og geymi þig hjá mér um ókomna tíð.
Og svo meira frá Birni bróður:
Uppáhalds minningin mín með Bjögga er samt frá árinu 2014. Foreldrar okkar höfðu keypt sér lítið bjálkahús sem átti að setja saman í Tungunni, skika sem þau hafa til afnota í svokallaðri Hofsborgartungu í Vopnafirði. Við hjónin vorum búin að ákveða að flytja frá Vopnafirði um haustið svo þetta varð að klára áður en ég færi. 28. júní var svo tekið til hendinni. Það voru fengin tæki að láni hjá verktökum og kunningjum til að halda kostnaði í lágmarki. Og veðrið sem við fengum þetta sumar var engu líkt og við unnum saman sem einn. Nákvæmlega fjórum vikum frá fyrstu skóflustungu var húsið klárt, búið að parketleggja og búið að ganga frá bæði vatnstanki og rotþró. Það má fylgja með að sá sem seldi okkur húsið sagði mig ljúga því að við hefðum sett það saman á 8 klukkutímum, það væri ekki hægt, en það var nú samt staðreyndin.
Leikinn endurtókum við svo nokkrum árum seinna, árið 2022. En þá vantaði dóttur mína að láta smíða fyrir sig skjólvegg suður í Hveragerði. Þarna var Bjöggi búinn að lenda í slysinu og var alls ekki góður til gangs en tók ekki annað í mál en að koma með mér í verkið. Hann mætti á Akureyri með fullann bíl af verkfærum og við brunuðum suður og smíðuðum vegg og hellulögðum. Eðlilega var hann ekki jaft afkastamikill og áður en stóð sig vel miðað við aðstæður.
Svo mörg voru þau orð.
Já, hér hefur margt gott borið á góma. Við kveðjum góðan dreng og þökkum fyrir líf hans og þá fyrirmynd sem hann var mörgum á margvíslegan máta.
Gott er að geta kvatt í þökk og sátt. Sú er nú ykkar náðargjöf, kæru ástvinir, Björgvins Agnars Hreinssonar. En hvað má lesa úr nafni hans?
Björgvin vísar til björgunar og Agnar er norrænt nafn dregið af agi: „ógn, og -arr sem er stytting á fornnorrænu orði harjaR: hermaður.“ Í norrænum málum merkir nafnið sterkur eða þungur og var því oft gefið sonum járnsmiða.
Sterkur maður sem bjargar og svo vísar föðurnafnið til þess sem er skírt og hreint, bjart og fagurt.
Er nokkur furða að honum hafi fundist hann hafa köllun í lífinu, köllun til að elska náungann, hjálpa honum og styðja og gera það með hreinum hug og hjarta – vera ljóseflandi afl?
Við kveðjum Björgvin með virðingu og þökk og biðjum honum blessunar um eilífð alla og ástvinum hans góðra daga með góðar minningar sem munu ylja um ókomna tíð.
„Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ (Matt 5.16)
Blessuð sé minning Björgvins Agnars Hreinssonar og Guð blessi þig sem enn ert á lífsveginum og gefi þér náð til þess að lýsa og bæta veröldina.
Amen
—
Kveðjur síðar í atöfninni frá fjarstöddum:
Innilegar samúðarkveðjur til Hreins og Lindu og allra aðstandenda. Guð gefi ykkur styrk í sorginni. Lilla og Siggi. Við sendum hlýja kveðju til Hreins, Lindu og fjölskyldu frá Kela og Ingu.
Samúðarkveðjur til fjölskyldu Björgvins. Kveðja Grétar í Lindabrekku.
Kveðju sendir Árni Jóhannesson – Nancy, Árni, Hlynur, Hafdís og Hulda og votta fjölskyldu Björgvins innilegustu samúðarkveðjur.
Ingibjörg Ósk Óladóttir og Örn Karlsson eða Inga og Össi biðja fyrir innilegar samúðarkveðjur með þakklæti fyrir góða vináttu.
Hilma og Áki á Bakkafirði senda innilegar samúðarkveðjur og minnast greiðvikni Björgvins og góðrar nærveru.
Hinstu kveðju senda Ásta Birna Björnsdóttir, Ísabella og Björn Gunnar og innilega samúðarkveðju til aðstandenda. Edda og Lísbet dætur Björns Hreinssonar, sem búa í Svíþjóð, senda samúðarkveðjur sínar til fjölskyldunnar. Kveðja er hér frá Smára Lárussyni og Söru Dögg Davíðsdóttur í Mofellsbæ.
Og svo fleiri:
Elsku Bjöggi.
Þín verður sárt saknað elsku vinur.
Ættingjum og vinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Kveðja Kristinn og Freyja.
Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar frá Láru, Bessa og fjölskyldu í Mývatnssveit.
Innilegar samúðarkveðjur frá Vigdísi, Agnesi og Laufeyju. Hilmir Víglundsson sendir aðstandendum samúðarkveðjur. Pálmi Gunnarsson, sendir kveðju og hlýjan hug til ástvina.
Bjartmar Guðlaugsson og fjölskylda senda samúðarkveðjur við andlát kærs frænda en þeir Bjöggi og Bjartmar áttu saman langt símtal þremur dögum fyrir andlát hans.
Og loks er kveðja frá fv. sóknarpresti og Vopnfirðingi:
Þuríður Björg og fjölskylda, senda hinstu kveðju sína með þökk fyrir vináttuna og hlýjuna.
Kveðjurnar hafa borist mér með símtölum, skilaboðum á vefnum, í tölvupósti og allavega og ég vona að þæer hafi skilað sér hér en bið þau afsökunar sem kunna að sakna sinnar kveðju. Sendið hana þá, kæra samferðarfólk, beint til Björns bróður Björgvins – og fyrirgefi mér mistök ef orðið hafa!
Biðjum:
Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði, en ekki eins og ég vil hafa hann
og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.
Faðir vor . . .Amen
You must be logged in to post a comment.