Minningarorð, flutt í Neskirkju í Reykjavík 31. janúar 2025
eftir Örn Bárð Jónsson


Minningarorðin er hægt að lesa og hlusta á og einnig eru kveðjur sem fluttar voru neðanmáls en þær eru hvorki í ræðunni sjálfri né á hljóðupptökunni.
Örn Bárður Jónsson
Minningarorð
+Arnar Geir Hinriksson
lögfræðingur
1939-2025
Bálför frá Neskirkju
föstudaginn 31. janúar 2025 kl. 13
[Inngangur af munni fram]
Svalur vordagur. Ég fer í hjólatúr sem leið liggur úr Miðborginni, út í Nauthólsvík og inn Fossvoginn og svo dalinn sjálfan. Í fjarska sé ég þúst sem nálgast og hugsa: Þarna er maður í hjólastól og ég þarf að gæta mín er ég mæti honum. Skyldi þetta vera hann Addi Geir?
Jú, þetta var lögmaðurinn knái og hressi á sínum rafknúna stóli og klerkurinn á rafmagnshjóli. Við ræddum saman í næstum klukkustund um rætur okkar og lífsreynslu, sögðum sögur og rökræddum stef í lífsgátunni, en urðum að hætta þegar okkur var að verða kalt! Arnar Geir fór víða á sínum fáki og naut útiveru í allskonar veðrum.
[Innskot á hljóðupptöku …]
Fyrsta minning mín um Adda Geir, sem kemur upp í hugann, er að ég 10 ára eða svo, er við vinnu í verzlun föður míns á Ísafirði og framhjá gengur maður um tvítugt, fríður á svip, ögn álútur en virðulegur ungur maður. „Hann er í Háskólanum“ var hvíslað. „Hann er að læra lögfræði.“ Ég horfi á eftir honum með lotningu því ekki er mikið um háskólagengna menn í bænum. Þá má telja á fingrum annarrar handar: lækni, sýslumann, prest, verkfræðing og lyfsala. Hinir þrír fyrstnefndu vísa til þeirra hlutverka sem menn lærðu forðum í kóngsins Kaupinhöfn. Á þeim tíma lærðu allir sama grunn: tungumál, forspjallsvísindi, náttúrufræði, eðlisfræði og um stjörnur og himintungl svo dæmi séu nefnd. Svo komu menn að vegamótum og völdu sína sérgrein. Læknirinn sá um heilsuna, lögmaðurinn um samninga og lausn á deilum og presturinn um sálarlífið – og tók svo við, þá sem nú, þegar læknirinn megnar ei meir!
Margir komast þó af án mikilla afskipta háskólagreina eins og skáldið í Vesturheimi orti:
Löngum var ég læknir minn, / lögfræðingur, prestur, / smiður, /kóngur, kennarinn, / kerra, plógur, hestur.
Vísan er vitnisburður, um að klára sig í lífinu og takast á við verkefni þess. En þrátt fyrir tóninn í vísu skáldsins Stephans G., þurfa nú flestir á þeim fagstéttum að halda sem nefndar eru þar og svo eru það umönnunarstéttirnar sem við lifum ekki án.
Arnar lýsir því vel í ítarlegu viðtali við Vestanpóstinn hvernig slysið á skíðunum breytti lífi hans. Hann saknaði skíðaferðanna og golfsins.
Á vellinum í Tungudal er tré sem ber heitið Addi Geir. Hann hafði gaman að segja frá því sjálfur að það væri merki um að hann slægi aldrei lengra frá teigi en að þessu tré.
Það þarf sterk bein til að þola það að verða fyrir slysi og geta ekki gengið framar. Eitt andartak breyttist allt og óræð framtíð tók við með nýjum áskorunum.
„Blindaði sólin þig?“ spurði einhver Adda Geir eftir slysið. „Nei“, svaraði hann, „ætli það hafi ekki verið sætar konur við skálann sem blinduðu mig.“
Ætíð var stutt í gamanið hjá honum og víst er að hann gladdi marga á lífsveginum og var oft í gleðskap og hafði gaman af slíku alla tíð, enda þótt hann hefði skilið við Bakkus fyrir margt löngu.
Lífið var miklu skemmtilegra og betra án þess kóna.
Vestfirðingar eru þekktir af dugnaði og áræðni og hagtölur sýna að þeir leggja meira til samfélagsins, en aðrir landshlutar, en bera minna úr bítum til sameiginlegra verkefna og reksturs.
[Innskot á hljóðupptöku…]
Hann var af vestfirzkum ættum.
Arnar Geir Hinriksson fæddist á Ísafirði 12. mars 1939 og lést af slysförum 3 janúar s.l.
Foreldrar hans voru Hinrik Guðmundsson, skipstjóri á Ísafirði (f. 27.feb. 1897 d. 30. des. 1993) og Elísabet Guðrún Hálfdánardóttir (f. 22. sept. 1906 d. 25. feb. 1989).
Bræður Arnars voru:
Þórir Guðmundur Hinriksson f. 02.06.1931 – d. 19.12.2017.
Hálfdán Daði Hinriksson f.15.06.1936 – d. 16.04.2018.
Sigurjón Hinriksson f. 7.06.1949 – d. 9.11.1987.
Og nú Arnar Geir.
Auk þeirra ólst bróðurdóttir Arnars, Kristín Þórisdóttir, upp á heimilinu.
Arnar var ókvæntur og barnlaus.
Hann lauk Landsprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar, fór síðan í Menntaskólann á Akureyri og eftir það í Háskóla Íslands þar sem hann lauk embættisprófi í lögfræði 1966.
Arnar stundaði sjómennsku á sumrin meðfram námi.
Arnar var mikill útivistarmaður, hafði gaman af að ganga á fjöll, og stundaði skíði af kappsemi. Einnig hafði hann gaman af golfi. Hann var einnig liðtækur bridge-spilari og var m.a. Íslandsmeistari í einmenningi 1996.
Hann var í 5. lið af séra Hjalta Þorbergssyni Thorberg, í móðurætt sína, sem var prestur á Eyri í Skutulsfirði og þar komum við Addi Geir saman og munar einum lið.
En svo á hann einnig rætur í annarri prestaætt, en séra Hálfdán Einarsson prestur á Eyri nú Ísafirði, vígði kirkjuna sem sonur hans, Einar byggði, kirkjuna sem brann og var á undan núverandi kirkju Ísfirðinga. Helgi Hálfdánarson, prestaskólakennari, var bróðir Einars smiðs og faðir Jóns Helgasonar, biskups.
Ég valdi tvo sálma eftir Helga Hálfdánarson við þessa athöfn, en hann var mikilvirkt sálmaskáld og þýðandi og á tuttugu sálma í nýjustu Sálmabók Þjóðkirkjunnar.
Hér kemur texti úr viðtali við hann í Vestanpóstinum:
Það var heitt sumar þegar Arnar fæddist. Hann ólst upp við sjósókn og aflabrögð þar sem veður og vindar hafa ávallt síðasta orðið. Hann vann við sveitastörf öll sumur til fermingar en hvergi eiga menn meira undir sól og vindum en einmitt í sveitinni.
Brotlenti í Tungudal
Það var kaldur og sólríkur dagur á skíðasvæðinu í Tungudal á Ísafirði vorið 2006 þegar Arnar Geir Hinriksson renndi sér sína síðustu ferð á skíðum. Neðarlega í brekkunni hlaut hann slæma byltu. Þá brotnuðu hryggjarliðir ofarlega í baki Arnars. Við tók langvinn endurhæfing og síðan hefur Arnar verið bundinn hjólastól lamaður upp að brjósti. Hann hefur orðið að laga líf sitt að nýjum takmörkunum og fötlun sem hefta flestar athafnir daglegs lífs. Slíkt gæti bugað margan mann og hefur eflaust breytt Arnari Geir en ekki beygt hann að ráði. Hann berst við hindranir af þeirri hörku sem Vestfirðingum er runnin í blóð og merg. Leiðin er grýtt og erfið en hún liggur áfram til betri heilsu og sáttara lífs. (Vestanpóstur 2011 s. 5)
Kristín, bróðurdóttir hans, fór með honum suður í sjúkraflugi og sagði mér að hann hefði strax vitað afleiðingar slyssins og sagði við hana á leiðinni: „Ég mun þó alla vega getað spilað bridge!“
Addi Geir var menntaður í hugvísindum en hann var líka vel búinn til raunvísinda en bæði sviðin koma sér vel í spilamennsku því þar þarf að kunna að reikna og skynja möguleikana og mynstur en um leið er þörf fyrir að skynja svipbrigði og látbragð hinna við borðið og þar koma hugvísindin sterkt inn með sitt innsæi og skynjun á manneskjunni.
Mannsheilinn er tvískiptur og vinstra hvelið hugsar eftir brautum raunvísinda, sér hlutina ögn í svart/hvítu, meðan hið hægra sér litbrigði lífsins, hæðir og víddir, hið listræna og trúarlega. Þetta er auðvitað mun flóknara, en fræðimaður sem ég hef lesið bækur eftir og hlustað á, segir að vinstra hvelið vitið lítið en haldi sig vita allt, en hið hægra hafi í raun mikla yfirburði og stýri gjarnan för í dagsins önn, en hvelin eru þrátt fyrir þetta algjörlega uppá hvort annað komin.
Slíkar tvenndir eru víða í tilverunni og líka í hinni trúarlegu umræðu. Hugtakaparið lögmál og fagnaðarerindi er þekkt í guðfræði. Annars vegar skyldurnar sem lögmálið, reglurnar, krefjast og hins vegar frelsið og fögnuðurinn. Frelsi og ábyrgð verða ætíð að haldast í hendur eða tengjast eins og heilahvelin tvö gera, annars fer allt til fjandans. Hrunið varð einkum vegna þess að menn kunnu ekki lengur Boðorðin.
Addi Geir er eftirminnilegur maður. Hann mætti hress og kátur við útför skólabróður síns úr MA hér í Neskirkju 12. desember s.l. Seinna slysið varð ekki í Faðmi fjalla blárra – á skíðum í sól – heldur í mildu vetrarveðri við Kringluna. Hann var þar mættur á sínum bíl og stól til að sinna innkaupum. Slysin gera sjaldan boð á undan sér, þau koma „á snöggu augabragði“, svo vitnað sé í séra Hallgrím.
Alltaf var Addi Geir að, ætíð hafði hann næg verkefni. Honum var það í blóð borið. Hann var lífsglaður maður, svipurinn fagur, augun blíð, brosið og glettnin eins og sólin blíð þegar hún skín, yfir Nónhornið og á Eyrina 25. janúar ár hvert, ef himinn er heiður.
Addi Geir átti góða að. Hann kvæntist aldrei en átti vingott við fagrar konur á lífsleiðinni. Sigrún Pétursdóttir var honum kær og góður bridge-félagi. Rut og hann áttu saman margar góðar stundir.
Bræðrabörnin voru honum afar kær og hann studdi þau og gladdi oft með gjöfum. Þau eiga góðar minningar um frænda og rómantíska lagið, „Einu sinni á ágústkvöldi“, söng hann oft fyrir Kristínu og hún bakaði fyrir hann smákökur um hver jól. María dóttir Daða heimsótti Adda oft eftir að hann flutti suður og gerði honum margan greiða hvað varðar heimilið og aðdrætti.
Addi Geir reyndist bræðrum sínum vel og ekki síst Sigurjóni, skólabróður mínum, sem reikaði tíðum um „dimman dal“ blessaður, en þá var það Addi Geir sem gætti hans, þegar hann þurfti bróðurhönd og kærleiksfaðm.
Hann studdi bróðurbörn sín með ráðum og dáð, hvatti þau til íþrótta og tómstunda, var ætíð rausnarlegur við þau og stoltur af þeim. Kristín var honum sem systir, enda ólst hún upp að miklu leyti hjá afa, ömmu – og Adda. Alltaf leitaði hún til Adda t.d. eitt sinn vegalaus í London. Shiran fékk skíði og körfuboltaskó og allt sem hann þarfnaðist og Addi hvatti hann til dáða í körfunni og lánaði honum svo golfkylfurnar sínar.
Shiran segir sögu:
Golfíþróttin var sú sumaríþrótt sem átti hug Adda. Hann var þekktur á golfvellinum fyrir sinn sérstaka stíl og sveiflu. Í einu kaffihléanna milli hinnar eilífu orrustu við golfboltann, þá kvartar Addi yfir því að hafa týnt sveiflunni. Góðvinur hans Biggi Vald heitinn, sem var orðheppinn og hnyttinn, muldrar þá: „Ég vona að ég finn’ana ekki“.
[Innskot á hljóðupptöku um golfið sem „kristilegustu“ íþróttina…]
Þetta eru bara örfá dæmi, en hann reyndist öllum vel sem honum tengdust.
Arnar Geir var skapmaður en tók örlögum sínum af æðruleysi og var afar þakklátur starfsfólki Grensáss og Sléttuvegar, sem gerði honum lífið léttara.
Hann fór Vestur a.m.k. einu sinni á ári. Í fyrra komst hann á Bolafjall. Það var honum dýrmæt reynsla. Hann horfði yfir Djúpið sem hann þekkti sem sjómaður og fjöllin fyrir Vestan. Þau eiga sér engan samjöfnuð í okkar landi, þau eru allt öðruvísi en austfirsku fjöllin. Ég hef gefið Vestfjörðum nafnið – Höggmyndagarður Íslands – því mér finnst þessi fjarðaklasi með sínum háu fjöllum sem gnæfa yfir eyrar og firði vera svo tignarleg og flott. Þessa fjallgarða hef ég borið sem myndir í bjósti mér alla ævi, alla þessa kletta og hamrabjörg sem taka fram öllum dómkirkjum heims að stærð og tign.
Bæta þarf samgöngur um Vestfirði svo að þau sem æða hringinn uppgötvi þennan glæsilega Höggmyndagarð Íslands.
Lífið er dásamlegt en það er ekki eilíft – eða hvað? Nei, hið jarðneska líf er ekki eilíft en líf sem kviknað hefur í móðurlífi gleymist Guði aldrei. Kristin trú boðar upprisu holdsins. Orðið í gríska Nýja testamentinu er sarx sem merkir hold, kjöt og blóð, húð og hár, augnalit og allt, já, allt! Ég hef ekki hugmynd um hvernig Guð fer að þessu og ég veit ekki heldur hvernig hann sá til þess að við urðum til og uxum úr grasi. En ég segi eins og einn postulanna: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni!
Ég skil ekki ástina, en ég þekki hana. Ég skil ekki trúna en á hana. Ég á hana hér í brjósti mér, í „brjóstkirkjunni“, eins og prestur einn á 12. öld orðaði það í prédikun í lítilli torfkirkju. Ég get ekki sannað ástina, trúna, eða Guð. En ég get sagt frá ástinni, trúnni og Guði. Og svo er það spurningin hvort fólk trúi vitnisburði mínum?
Guðspjöllin segja frá því að Jesús reisti við lamað fólk. Og Jesús hefur kennt okkur að reisa fólk við með þeim aðferðum sem við ráðum við. Læknar, hjúkrunarfólk og umönnunarstéttir vinna kraftaverk hvern dag. Addi Geir hefði aldrei náð að lifa svo gjöfulu lífi sem raun ber vitni án aðstoðar fagstétta og ykkar sem rædduð við hann augliti til auglitis, í síma eða á vefnum, leyfðuð honum að spegla reynslu sína í ykkar augnhimnum og reynsluheimi. Samtöl vina er líknandi afl. Við erum félagsverur og þurfum að rækta þá vídd í lífinu. Sú rækt eflir andlega heilsu og einnig líkamlega, segja vísindin. Og þetta hefur trúin vitað um aldir og árþúsund. Við erum kölluð til að vera svar við bæninni, „Ó, faðir gjör mig lítið ljós.“
Og hér erum við sem enn erum á lífsveginum, göngum okkar veg, rennum okkur á skíðum, hittum mann og annan og erum í raun aldrei ein, því við erum sköpuð til samfélags og kærleiksþjónustu við hvert annað. Og jafnvel þótt við upplifum okkur stundum ein þá sér Guð okkur og elskar.
Arnar Geir var helgaður himni Guðs í heilagri skírn, merktur með krosstákni á enni og brjóst, markaður eins og lömbin hjá Ágústi móðurbróður hans á Eyri þar sem hann var mörg sumur í sveit. Í okkur er vatnsmerki sem Guð hefur sett þar. Það er signet um að við séum hans börn. Eru óskírðir þá ekki Guðsbörn? Jú, auðvitað, en forréttindi okkar skírðra, er að við vitum af því. Það huggar og styrkir á lífsgöngunni. Skírnin er nefnilega ekki vegna þess að Guð þarfnist hennar, heldur við. Hún er sálgæsluatriði.
Og í upprisunni verðum við aftur heil og Addi Geir gengur og fer kannski aftur á skíði. Ég hef ekki komið þangað en vonast til þess í fyllingu tímans. Við hittumst vonandi öll þar í eilífðinni!
Blessuð sé minning Arnars Geirs Hinrikssonar og góður Guð blessi okkur öll og leiði um lífsveginn – og heim!
Amen
KVEÐJUR fluttar síðar í athöfninni:
Frænka Arnars Geirs, Kristín Hálfdánardóttir og Gunnar maður hennar senda kveðju sína og sonum, Jóni og Gnnari Atla.
Shiran, bróðursonur Arnars komst ekki frá Ísafirði vegna ófærðar og sendir kveðju sína og Hafdísar Gunnarsdóttur og sonum þeirra, Jóni Gunnari Shiranssyni, Guðmundi Arnóri Shiranssyni og Þórði Erni Shiranssyni.
Eiríkur Böðvarsson og Halldór kona hans senda kveðju sína frá útlöndum en Arnar Geir kom til þeirra mörg ár í röð og fagnaði með þeim jólum á aðfangadag.
Jónas sýslumaður Guðmundsson bað fyrir kveðju sína og Félags lögfræðingar á Vestfjörðum.
Formaður Bridge-sambandsins bað fyrir kveðjur sinna félagsmanna sem eru á stóru móti í dag og því komast ekki þeir hörðustu sem eru með uppbrettar ermar í keppni.
Séra Önundur Björnsson, vinur til margra ára sendi kveðju sína frá Tælandi.
Reynir Pétursson, vinur að heiman, sendir einnig kveðju sína frá Tælandi en þeir spiluðu gjarnan golf saman.
You must be logged in to post a comment.