Örn Bárður Jónsson – and "BARD-art"

The beauty of Life – Social Issues – Justice – Truth // Fegurði lífsins – Þjóðfélagið – Réttlæti – Sannleikur

Greinar og hugvekjur / Articles

Minningarorð / Funeral Speeches

Myndlistin mín / My Art

Elín S.H. Jónsdóttir 1934-2025

Bálför frá Garðakirkju, mánudaginn 13. janúar kl. 15

Viltu lesa og/eða hlusta?

Örn Bárður Jónsson

Minningarorð

Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir

1934-2025

Lesnir voru textar úr Nýja testamentinu við athöfnina, fyrst texti Páls postula um kærleikann úr 1. Korintubréfi 13 á norsku og svo guðspjallið Jóhannes 1.35-51. Textarnir er neðanmáls.

Ræðan

Þegar ég fékk símtal og var beðinn um að taka að mér útför Elínar, kom strax fram í huga mér nafn Natanaels sem engin svik voru í og við heyrðum um í guðspjallinu.

Ég kemst aldrei af stað með minningarorð fyrr en ég hef fengið „þráðinn að ofan“ og hann kemur alltaf, en sjaldan svona fljótt!

Elín er mér minnistæð frá því hún var með sunnudagaskólann í safnaðarheimili Vídalínskirkju, áður en kirkjan sjálf var byggð. Ég var vígður prestur árið 1984 til þjónustu, sem aðstoðarprestur séra Braga Friðrikssonar í hálfu starfi í eitt ár.

Elín var hvern sunnudag með barnastarf í Garðabæ og sagði sögur af Jesú sem er mikilvægasta persóna mannkynssögunnar og sá sem haft hefur meiri og varanlegri áhrif á heiminn en nokkur önnur persóna.

Vesturlönd eru byggð að meginstofni á orðum Krists um þennan heim.

Hvaða lönd sækja flóttamenn heim? Þeir sækja til hinna kristnu landa.

Við megum ekki týna þessum arfi um helgi fólks og heims, helgi lífríkis og umhverfis, himintungla og gímalda alheimsins.

Elín var myndarleg kona, bein í baki, hnarreist og virðuleg. Og þannig var hún yst sem innst. Hún var í mínum huga eins og Natanael, en nafnið hans merkir gjöf Guðs. Síðasti liðurinn í nafni hans –el, er upphafsliðurinn í nafni hennar El, komið úr hebresku og er forliður margra nafna eins og Guð í íslensku, Guðrún, Guðmundur o.s.frv. Elín merkir „Guð er ljós mitt“. Elohim er eitt af mörgum nöfnum í hebresku um guðdóminn.

Allt verður þetta svo augljóst þegar við hugsum um hana Elínu Svanhildi Hólmfríði Jónsdóttur. Svanhildur merkir orrusta svansins og Hólmfríður gæti þýtt sú sem er baráttuglöð og gengur á hólm við erfiðleikana, er baráttuglöð. Mannanöfn skipta máli.

Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir fæddist 17. maí 1934 í Reykjavík og lést á Landspítalanum 5. janúar 2025. Hún kunni því ætíð vel að sjá norska fánann við hún á afmælisdegi sínum!

Foreldrar Elínar voru Jón Kristinn Falck Þórðarson, (fæddur 4. ágúst 1901) og Bjargey Hólmfríður Eyjólfsdóttir, (fædd 11. júní 1891, dáin 5. maí 1990).

Systkini Elínar sammæðra voru:

Dagný Hansen, (f. 1917, d. 2003),

Guðrún Soffía Hansen, (f. 1920, d. 2004),

Sigríður Tómasdóttir, (f. 1922, d. 2015),

Óskar Svan Gíslason, (f. 1927, d. 2015),

Ásdís Ásgeirsdóttir, (f. 1930, d. 2001) og

Ásgeir Ásgeirsson, (f. 1932, d. 2003).

Þau eru öll látin.

Elín ólst upp hjá skyldfólki í Haugasundi í Noregi frá barnæsku fram á unglingsár en flutti þá til Íslands og bjó um árabil á Vífilsstöðum og síðar í Garðabæ. Hún sagist hafa tekið sig upp og farið til Íslands af köllun einni saman til þess að læra hjúkrun sem hún fékk ekki í Noregi.

Hún giftist Garðari Pétri Jónssyni lækni, f. 19. febrúar 1920, d. 10. mars 2002. Þau áttu saman góð ár.

Börn þeirra eru:

Garðar Agnar f. 1956,

Herdís f. 1957 og

Elín Hrefna f. 1958.

Börn Garðars og Báru Sigurjónsdóttur, konu hans, eru:

Elín Hrund (f. 1974), gift Ásgeiri Páli Ágústssyni (f. 1971).

Börn Elínar með fyrri eiginmanni eru:

Emanuel Birkir Gomez Garðars (f. 1996) og

Elizabeth Björk Ásgeirsdóttir (f. 2000).

Sigurjón Friðrik, (f. 1976). Börn hans með Margréti Leví Ásgeirsdóttur, (f. 1976) (skilin) eru:

Brynjar Ásgeir, (f. 2004),

Matti Leví, (f. 2008) og

Hanna Bára, (f. 2012).

Garðar Björn, (f. 1981). Kona hans er Irina Davletova, (f. 1980) og dóttir hennar er Iuliia, (f. 2005).

Sverrir Ingi Hilaríus, (f. 1983) og Ísak Einir (f. 1988). Kona hans er Jessica Teixeira da Costa og sonur þeirra er Agnar Máni (f. 2024). Sonur Jessicu er Caue da Costa Oliveira, (f. 2008).

Börn Elínar Hrefnu og Kristjáns Þ. Davíðssonar, manns hennar, eru:

Davíð Halldór, (f 1984). Kona hans er Margrét Rún Jakobsdóttir, (f. 1984), og börn þeirra eru:

Kristján Þórarinn, (f. 2008),

Jakob Freyr, (f. 2013), og

Trausti Pétur, (f 2021).

Gunnar Ingi, (f. 1988). Kona hans er Alexandra Elísabet Kristjánsdóttir, (f. 1989), og börn þeirra eru:

Aurora Nótt Alexöndrudóttir, (f. 2009),

Marína Sól Alexöndrudóttir, (f. 2013), og

Björgvin Nói, (f. 2023).

Auður Hrefnudóttir, (f. 1993).

Elín lærði ung til sjúkraliða í Noregi og síðar hjúkrunarfræði hér heima. Hún útskrifaðist síðar í fyrsta hópi geðhjúkrunarfræðinga á Íslandi.

Þá starfaði hún um árabil sem hjúkrunarfræðingur á berklahælinu á Vífilsstöðum, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Garðari og áttu þau saman góð ár.

Þá starfaði Elín um margra ára skeið einnig á Vistheimilinu, sem var hluti af fíknigeðdeild Landspítalans, á Vífilsstöðum og á göngudeild fíknigeðdeildar Landspítalans við Hringbraut.

Hún var um árabil sjálfboðaliði í kirkjustarfi Garðasóknar og sá m.a. um sunnudagaskóla kirkjunnar í á þriðja áratug.

Fjölskyldan nefndi nokkur hugtök sem ég minni á.

Elín var:

-Hjálpsöm

-Hjartahlý

-Góð

-Yndisleg

-Góð í gegn

-Heil

-Fordómalaus

Og svo kemur góð lýsing á henni Elínu:

„Þjónandi kærleikur var henni jafn eðlislægur og andardrátturinn.“

Elín náði því að verða níræð og hafði lagt gjörva hönd á margt gott, sinnt sjúkum og frætt börn og búið þau undir lífsgönguna með Jesú.

Jesús sagði:

Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Matt 23.11-12)

Elín var málamanneskja og eftir þriggja mánaða dvöl við Göthe Institut í Þýskalandi var hún búin að efla sína þýsku til muna og svo talaði hún reiprennandi norsku sem hún lærði á yngri árum og spænsku tók hún á efri árum.

Hún átti Biblíur á mörgum tungumálum.

Hún hafði yndi af ferðalögum og fór í margar ferðir m.a. með Bændaferðum ásamt Herdísi, dóttur sinni. Og hún sigldi um Miðjarðarhafið og naut merkra slóða sögu og menningar. Einnig sigldi hún fyrir Noregsströndum, alla leið frá Kirkenes til Bergen, með dætrum sínum og fleirum. Þær mæðgur fóru í fljótasiglingu um Rússland og til Kína, en uppáhaldið var ætíð Noregur og málverk af Haugasundi að vetri, var á áberandi stað í stofunni og fólkið hennar ytra átti ætíð sinn stað í hjarta hennar.

Um Elínu segir ömmubarn og nafna:

„Amma mín var alltaf til staðar.  Ég gat alltaf leitað til hennar og alltaf var amma tilbúin að hlusta.  Það gilti einu hvort eitthvað bjátaði á eða þegar mig langaði að deila með henni atburðum úr hversdagslífinu.“

Elín var tæknilega sinnuð og fylgdist með framförum á þeim sviðum. Og aftur vitna ég í ömmustelpu:

„Þegar hún hélt upp á áttræðisafmælið sitt fyrir rúmum tíu árum stofnaði hún til viðburðar á Facebook og bauð öllum sem hún vildi hafa hjá sér í veisluna.“

Hún unni tónlist og naut þess að fara á tónleika.

Tengdasonur hennar sendi mér punkta. Þar segir hann:

Elín var elskuð og dáð af sínu fólki, ætíð með hlýjan faðminn opinn, tilbúin að hlusta, styðja og styrkja, ástvini og annað samferðafólk, jafnt í leik sem starfi, líkust engli í mannsmynd.

Henni var ekki fisjað saman . . . enda ættuð af Ströndum og úr Grindavík. Hún reyndi ýmislegt á langri ævi, ekki síst í æsku, var sett í fóstur barnung í útlandinu og ólst þar upp við misjafnt atlæti. Hún vissi ung hvað hún vildi, kvaddi Noreg, fór heim á Frón og lét drauma sína rætast af eigin rammleik. Eignaðist þar fjölskyldu og kynntist mörgum ættingjum, þar með talið móður sinni og systkinum. Lærði hjúkrun og starfaði við hana við góðan orðstír um árabil, uns ástin réði því að hún hætti að vinna til að hjúkra eiginmanninum á ævikvöldi hans.

Hún var lánsöm í hjónabandinu, átti ástríkt líf með sínum elskulega Garðari  og eignaðist með honum afkomendur sem nú telja hálfan þriðja tug. Öll elskaði hún heitt, og kærleikurinn var gagnkvæmur. Samgangur eins mikill og aðstæður leyfðu hverjum og einum og alltaf gott að leita í hlýtt skjólið til hennar – fyrir miklu fleira og meira en pönnukökurnar hennar góðu.

Hún heimsótti ættingja og vini á Norðurlöndunum og víðar, fór utan til málanáms og í lystiferðir víða um láð og lög, jafnvel langferðir til Rússlands og Kína, iðulega með Herdísi dóttur sinni eftir að hún varð ekkja.

Tengdasyninum tók hún eins og öðrum með ást og hlýju, svo mikilli að það kom meira að segja fyrir að hann sagði við hana eitt sinn þegar konan var erfið “að ég skyldi ekki bara hafa eignast þig fyrir konu!”.

Elísabet Björk hafði orð á að hún hefði haft hjarta úr gulli. Mér finnst það vel að orði komist, segir Davíð Halldór.

Ömmudrengur skrifar:

Þegar við buðum henni í mat, veislur, leiksýningar eða tónleika barnanna þá geislaði hún af þakklæti og nefndi alltaf eitthvað sem að henni fannst vel gert. Þegar hún kvaddi þá faðmaði hún mann og eftir faðmlagið hélt hún í mann og horfði á mann með brosi í augunum sem hlýjaði manni að innan.

Elín amma talaði norsku við ungabörn – og sjálfa sig. Og okkur hin inn á milli. Sumir norskir frasar og orðblendingar fylgdu henni alltaf. Það var ekkert sem var „pínulítið“ eða smá af, heldur „pínulitt“.

Falleg orð og góða manneskju.

Segja má að það sé nú þrautin þyngri að vera manneskja og finna hinn rétta veg. Hún Elín var ratvís um lífsins veg og ekki var hún hrasgjörn.

Margir halda því fram að nútíminn sé að týna sér í fáfengileika samfélagsmiðla, því þeir skemma svo mikið ef þeim er sinnt í of miklum mæli.

Fyrirsögn fréttar í RÚV í gær hljóðar svo:

„Félagsleg tengsl geta bætt heilsu og dregið úr sjúkdómsáhættu“.

Fyrir löngu var kominn tími á að fólk uppgötvaði mörg þúsund ára gamlan boðskap Biblíunnar.

Helsti vandi margra unglinga í dag er sá að þeir eru sumir horfnir inn í sjálfan sig.

Og verkefnið er þar með ljóst. Unglingarnir þurfa margir að komast út úr sjálfum sér og tengjast öðrum í mannheimum en ekki bara netheimum. Og ég ítreka að þetta á einungis við um sum ungmenni!

Bandarískur geðlæknir sagði í samtali við The Times of London að netið væri að leggja líf ungmenna í rúst með því að „víra“ heila þeirra uppá nýtt.

Þarna eru hættur sem varða allan heiminn.

Aukum mannleg tengsl og félagsstarf!

Elín þekkti þessi sannindi og leitaðist við að breiða út hinn góða boðskap meðan hún lifði. Hún átti langa ævi og gott líf enda þótt það hafi verið flókið í byrjun og fjölskyldutengsl margslungin. En hún rataði á hinn rétta veg því hún hafði fengið hollt veganesti í bernsku.

Og nú erum við enn á lífsveginum. Ekkert okkar veit hversu lengi við verðum hér en við erum í hendi hans sem fann okkur við getnað, við fæðingu og í heilagri skírn þegar sigurtákn krossins var markað á enni okkar og brjóst og við þar með vígð himninum og eilífðinni.

Það er gæfa okkar að vita það að við erum Guðs börn. Guð elskar öll börn, hverrar trúar sem þau eru, alla menn, karla og konur, alla!

Þessa elsku þarf að boða og það leitaðist hún Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir við að gera. Hún er hér kvödd með virðingu og þökk.

Blessuð sé minning hennar og Guð blessi þig, sem enn ert á lífsveginum og með það hlutverk að lifa í anda eilífrar elsku Guðs.

Og megi þjónandi kærleikur á lífsveginum, vera okkur öllum jafn eðlislægur og andardrátturinn. Verði svo!

– eða eins og það er sagt á hebresku:

AMEN!

Ritningarlestrar sem lesnir voru fyrr í athöfninni:

Paulus’ første brev til korinterne 13

1 Om jeg taler med menneskers og englers tunger,

men ikke har kjærlighet,

da er jeg bare drønnende malm eller en klingende bjelle.

2 Om jeg har profetisk gave,

kjenner alle hemmeligheter og eier all kunnskap,

om jeg har all tro så jeg kan flytte fjell,

men ikke har kjærlighet,

da er jeg intet.

3 Om jeg gir alt jeg eier til brød for de fattige,

ja, om jeg gir meg selv til å brennes,

men ikke har kjærlighet,

da har jeg ingen ting vunnet.

4 Kjærligheten er tålmodig, kjærligheten er velvillig,

den misunner ikke, [kjærligheten] skryter ikke, er ikke hovmodig.

5 Kjærligheten krenker ikke, søker ikke sitt eget,

er ikke oppfarende og gjemmer ikke på det onde.

6 Den gleder seg ikke over urett,

men har sin glede i sannheten.

7 Kjærligheten utholder alt, tror alt, håper alt, tåler alt.

8 Kjærligheten tar aldri slutt.

Guðspjallið

Jóhannes 1.35-51

Fyrstu lærisveinar

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. 36 Hann sér Jesú á gangi og segir: „Sjá, Guðs lamb.“ 37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: „Hvers leitið þið?“
Þeir svara: „Rabbí, hvar dvelst þú?“ en Rabbí þýðir meistari.
39 Hann segir: „Komið og sjáið.“ Þeir komu og sáu hvar hann dvaldist og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs. 41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: „Við höfum fundið Messías!“ en Messías þýðir Kristur, Hinn smurði. 42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: „Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas,“ en Kefas, Pétur, þýðir klettur.
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ 44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. 45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“
46 Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“
Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“
48 Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“
Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“
49 Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“
50 Jesús spyr hann: „Trúir þú af því að ég sagði við þig: Ég sá þig undir fíkjutrénu? Þú munt sjá það sem þessu er meira.“ 51 Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“

Posted on

Greinar og hugvekjur / Articles
Minningarorð / Funeral Sermons
Myndlist / Art
Prédikanir / Sermons